Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvert er hlutverk Alþingis?

Björn Reynir Halldórsson og Þórhildur Hagalín

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hefur Alþingi eftirfarandi hlutverk:
  • Alþingi fer með löggjafarvaldið, ásamt forseta Íslands (2. grein).
  • Alþingi fer með fjárstjórnarvald (40. og 41. grein).
  • Alþingi ræður skipun ríkisstjórnarinnar (1. grein).
  • Alþingi veitir framkvæmdarvaldinu aðhald (39., 43. og 54. grein).

Kjarninn í störfum Alþingis er að setja lög, breyta þeim og afnema. Allir þingmenn og ráðherrar geta lagt fram lagafrumvörp en til að þau verði að lögum þurfa þau að fara í gegnum þrjár umræður á Alþingi og fá meðferð í viðeigandi fastanefnd. Ferlið getur verið langt enda geta frumvörp bæði „sofnað í nefnd“ eða tafist vegna málþófs. Náist ekki að samþykkja frumvarp fyrir lok þings fellur það sjálfkrafa niður og verður þá að bera það upp á næsta þingi á eftir til að taka málið upp aftur. Dæmi um lög sem Alþingi hefur samþykkt eru lög um útlendinga, lög um náttúruvernd og svo mætti lengi telja. Hægt er að lesa meira um setningu laga í svari við spurningunni Hvernig verða lög til?


Í Alþingishúsinu fer fram löggjafarsamkoma Íslendinga.

Fjárstjórnarvald Alþingis leiðir af því að samkvæmt stjórnarskrá er stjórnvöldum óheimilt að innheimta skatta, taka lán eða selja eignir ríkisins án þess að fyrir því séu heimildir í lögum. Þá er ríkinu jafnframt óheimilt að greiða gjald af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum en Alþingi er skylt að leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir hvert nýtt fjárhagsár. Um þetta má lesa nánar í svari við spurningunni Hvað eru fjárlög?

Af svokallaðri þingræðisreglu leiðir að eitt af hlutverkum Alþingis er að ráða skipun ríkisstjórnarinnar, sem sækir umboð sitt til Alþingis. Þetta þýðir að ríkisstjórn landsins getur aðeins setið svo lengi sem meirihluti þingmanna styður, eða að minnsta kosti þolir, ráðherra í embætti en Alþingi getur jafnframt samþykkt vantraust á ríkisstjórnina í heild eða einstaka ráðherra.

Hlutverk Alþingis er enn fremur að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, bæði ríkisstjórninni og allri stjórnsýslunni. Fyrirspurnir til ráðherra þjóna þessum tilgangi en þær geta verið bæði undirbúnar, hvort sem farið er fram á skriflegt eða munnlegt svar, eða óundirbúnar. Óundirbúinn fyrirspurnatími er reglulega á dagskrá þingfunda. Ráðherrar gefa þinginu einnig skýrslur um opinber málefni, ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þingsins. Alþingismenn geta jafnframt kvatt sér hljóðs um störf þingsins og farið fram á sérstakar umræður utan dagskrár en þá eru rædd mál sem þykja svo brýn að umræðan má ekki bíða.

Á vegum Alþingis starfa tvær stofnanir sem eiga veigamikinn þátt í eftirliti þingsins með framkvæmdarvaldinu. Annars vegar er það Ríkisendurskoðun sem annast endurskoðun ríkisreiknings og reikninga stofnana, sjóða og annarra aðila sem kostaðir eru af eða reknir á ábyrgð ríkissjóðs. Stofnunin getur einnig gert stjórnsýsluúttektir og hefur eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Hins vegar er það embætti Umboðsmanns Alþingis sem hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og á að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar eftir umkvörtun eða að eigin frumkvæði. Nánar má lesa um embættið í svari við spurningunni Hvernig hljóðar starfslýsing umboðsmanns Alþingis?

Að auki getur Alþingi komið á fót rannsóknarnefndum til að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í tilteknum málum. Sem dæmi má nefna rannsóknarnefndina sem skipuð var til að kanna aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008.

Heimildir og mynd:

Höfundar

Þórhildur Hagalín

Evrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Útgáfudagur

10.10.2014

Spyrjandi

María Davíðsdóttir

Tilvísun

Björn Reynir Halldórsson og Þórhildur Hagalín. „Hvert er hlutverk Alþingis?“ Vísindavefurinn, 10. október 2014. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=66372.

Björn Reynir Halldórsson og Þórhildur Hagalín. (2014, 10. október). Hvert er hlutverk Alþingis? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=66372

Björn Reynir Halldórsson og Þórhildur Hagalín. „Hvert er hlutverk Alþingis?“ Vísindavefurinn. 10. okt. 2014. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=66372>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvert er hlutverk Alþingis?
Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hefur Alþingi eftirfarandi hlutverk:

  • Alþingi fer með löggjafarvaldið, ásamt forseta Íslands (2. grein).
  • Alþingi fer með fjárstjórnarvald (40. og 41. grein).
  • Alþingi ræður skipun ríkisstjórnarinnar (1. grein).
  • Alþingi veitir framkvæmdarvaldinu aðhald (39., 43. og 54. grein).

Kjarninn í störfum Alþingis er að setja lög, breyta þeim og afnema. Allir þingmenn og ráðherrar geta lagt fram lagafrumvörp en til að þau verði að lögum þurfa þau að fara í gegnum þrjár umræður á Alþingi og fá meðferð í viðeigandi fastanefnd. Ferlið getur verið langt enda geta frumvörp bæði „sofnað í nefnd“ eða tafist vegna málþófs. Náist ekki að samþykkja frumvarp fyrir lok þings fellur það sjálfkrafa niður og verður þá að bera það upp á næsta þingi á eftir til að taka málið upp aftur. Dæmi um lög sem Alþingi hefur samþykkt eru lög um útlendinga, lög um náttúruvernd og svo mætti lengi telja. Hægt er að lesa meira um setningu laga í svari við spurningunni Hvernig verða lög til?


Í Alþingishúsinu fer fram löggjafarsamkoma Íslendinga.

Fjárstjórnarvald Alþingis leiðir af því að samkvæmt stjórnarskrá er stjórnvöldum óheimilt að innheimta skatta, taka lán eða selja eignir ríkisins án þess að fyrir því séu heimildir í lögum. Þá er ríkinu jafnframt óheimilt að greiða gjald af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum en Alþingi er skylt að leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir hvert nýtt fjárhagsár. Um þetta má lesa nánar í svari við spurningunni Hvað eru fjárlög?

Af svokallaðri þingræðisreglu leiðir að eitt af hlutverkum Alþingis er að ráða skipun ríkisstjórnarinnar, sem sækir umboð sitt til Alþingis. Þetta þýðir að ríkisstjórn landsins getur aðeins setið svo lengi sem meirihluti þingmanna styður, eða að minnsta kosti þolir, ráðherra í embætti en Alþingi getur jafnframt samþykkt vantraust á ríkisstjórnina í heild eða einstaka ráðherra.

Hlutverk Alþingis er enn fremur að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, bæði ríkisstjórninni og allri stjórnsýslunni. Fyrirspurnir til ráðherra þjóna þessum tilgangi en þær geta verið bæði undirbúnar, hvort sem farið er fram á skriflegt eða munnlegt svar, eða óundirbúnar. Óundirbúinn fyrirspurnatími er reglulega á dagskrá þingfunda. Ráðherrar gefa þinginu einnig skýrslur um opinber málefni, ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þingsins. Alþingismenn geta jafnframt kvatt sér hljóðs um störf þingsins og farið fram á sérstakar umræður utan dagskrár en þá eru rædd mál sem þykja svo brýn að umræðan má ekki bíða.

Á vegum Alþingis starfa tvær stofnanir sem eiga veigamikinn þátt í eftirliti þingsins með framkvæmdarvaldinu. Annars vegar er það Ríkisendurskoðun sem annast endurskoðun ríkisreiknings og reikninga stofnana, sjóða og annarra aðila sem kostaðir eru af eða reknir á ábyrgð ríkissjóðs. Stofnunin getur einnig gert stjórnsýsluúttektir og hefur eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Hins vegar er það embætti Umboðsmanns Alþingis sem hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og á að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar eftir umkvörtun eða að eigin frumkvæði. Nánar má lesa um embættið í svari við spurningunni Hvernig hljóðar starfslýsing umboðsmanns Alþingis?

Að auki getur Alþingi komið á fót rannsóknarnefndum til að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í tilteknum málum. Sem dæmi má nefna rannsóknarnefndina sem skipuð var til að kanna aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008.

Heimildir og mynd:

...