Sólin Sólin Rís 09:01 • sest 18:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:51 • Sest 10:05 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:59 • Síðdegis: 24:01 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hvernig var íslenski fáninn um 1918?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Fjölmargir hafa spurt Vísindavefinn um sögu íslenska fánans og margir hafa einnig áhuga á að vita hvað blái liturinn í fánanum eigi að tákna. Hér er öllum þessum spurningum svarað. Hægt er að skoða spurningarnar í heild sinni neðst í þessu svari.

Hin svonefndu sambandslög tóku gildi 1. desember 1918 en með þeim viðurkenndu Danir fullveldi Íslands. Þann dag á hádegi var klofinn fáni dreginn að húni á fánastöng Stjórnarráðshússins. Slíkur fáni nefnist einnig tjúgufáni en tjúga er annað orð yfir gaffal eða heykvísl.[1]

Fáninn sem dreginn var að húni 1. desember 1918 var sá sami og við notum í dag, það er heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í þeim hvíta. Blái liturinn var reyndar ljósari en við erum vön og varð ekki dekkri fyrr en árið 1944.

Á þessari mynd sést íslenski þjóðfáninn og fánanefndin.

Um liti fánans var fjallað í konungsúrskurði sem gefinn var út 30. nóvember 1918. Sömu litir höfðu einnig verið tilgreindir í konungsúrskurði frá 19. júní 1915. Litatillagan var önnur af tveimur sem svokölluð fánanefnd lagði fram 1913. Í þeirri nefnd sátu Guðmundur Björnson landlæknir, Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Ólafur Björnsson ritstjóri, Jón Jónsson (Aðils) dósent og Þórarinn B. Þorláksson listmálari.

Þessa fánahugmynd hafði Matthías Þórðarson fyrst sýnt níu árum fyrr, á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur 27. september 1906. Í grein í tímaritinu Valurinn 12. október 1906 er sagt frá fundinum og þar er fána Matthíasar lýst og útskýrt hvað litirnir eigi að tákna:

Á fundinum sýndi hr. Matthías Þórðarson prýðisfallegan fána, sem hann hafði dregið upp; var það hvítur kross í blám feldi, með rauðum krossi í miðjunni, og átti að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn. Gazt mönnum hið bezta að fána þessum, og þykja oss miklar líkur til, að menn komi sér saman um, að velja hann.[2]

Litirnir þrír áttu sér hins vegar mun lengri sögu því árið 1885 flutti stjórnskipunarnefnd neðri deildar Alþingis frumvarp til laga um þjóðfána Íslands. Hann átti að vera í sömu litum en hafa mynd af fálka í þremur hornum og danska sambandsmerkið í því fjórða. Benedikt Gröndal málaði myndir af fánanum og voru þær sýndar á lestrarsal Alþingis.

Svarthvít mynd af fána sem Benedikt Gröndal málaði eftir tillögu nefndar um þjóðfánann árið 1885. Fáninn var í sömu litum og þjóðfáni Íslendinga síðar meir en með mynd af fálka í þremur hornum og danska sambandsmerkið í því fjórða.

Í upphafi 20. aldar kom þó annar fáni einnig til greina sem þjóðfáni Íslendinga, en það var fánahugmynd skáldsins Einars Benediktssonar. Árið 1897 skrifaði Einar grein í blaðið Dagskrá þar sem hann lagði til að fáni Íslands yrði hvítur kross í bláum feldi, en krossinn í fánanum er vitanlega algengt tákn í kristinni trú. Þetta segir Einar um fánann:

Þjóðlitir Íslands eru blátt og hvítt, er tákna himininn og snjóinn, og þessa tvo þjóðliti eina eiga engir aðrir en Íslendingar. Nú er krossinn eins og kunnugt er hið algengasta og hentugasta flaggmerki, og er hann auðvitað hið besta, fegursta og greinilegasta merki, ef hann verður settur rjett, yfir allan fánann.[3]

Þessi gerð af fána naut töluverðar hylli meðal landsmanna, sérstaklega eftir að danskt varðskip gerði slíkan fána upptækan af kappróðrarbáti á Reykjavíkurhöfn árið 1913.

Sviðsett mynd á póstkorti sem sýnir Einar Pétursson á báti sínum í Reykjavíkurhöfn 12. júní 1913. Þann dag var fáni Einars gerður upptækur af varðskipinu Islands Falk.

Á endanum var það hins vegar tillaga Matthíasar Þórðarsonar sem varð þjóðfáni Íslendinga og tjúgufána af þeirri gerð var flaggað við Stjórnarráðshúsið 1918. Ein ástæðan fyrir því að tillaga Einars Benediktssonar varð ekki fyrir valinu er sú að hún þótti minna um of á gríska fánann.

Margir lesendur Vísindavefsins hafa velt því fyrir sér hvort blái liturinn tákni fjallabláma, hafið eða himininn - eða kannski allt þetta. Eins og sést af textanum hér fyrir ofan er litnum ekki gefið sama tákngildi í fánahugmyndunum tveimur. Einar Benediktsson segir að blái liturinn tákni himininn en í tillögu Matthíasar er sagt að hann standi fyrir fjallablámann. Í svari Gísla Gunnarssonar við spurningunni Hvað táknar rauði liturinn í íslenska fánanum? segir ennfremur að blái liturinn eigi að tákna hafið og himininn.

Í raun er ekkert eitt rétt svar við spurningunni hvað blái liturinn í íslenska fánanum eigi að tákna. Tákn eru mannanna verk og blái liturinn táknar í raun það sem við komum okkur saman um að hann eigi að tákna. Blái liturinn í þjóðfána Íslendinga getur því táknað fjallabláma, bláan himinn og blátt hafið.

Fáni Jörundar hundadagakonungs hefur ekki varðveist. Óðinn Melsteð sagnfræðingur setti fram þessa tilgátu af útliti fánans.

Þess má að lokum geta að fyrsta hugmyndin um þjóðfána Íslendinga kom fram þegar Jörundur hundadagakonungur ríkti hér í átta vikur árið 1809. Þá var bláum fána með þremur hvítum þorskum á flaggað í Reykjavík. Blái liturinn á sér því langa sögu í fána Íslendinga. Þar með er reyndar enn eitt táknið komið fyrir bláa litinn í íslenska þjóðfánanum - hann vísar til byltingarfána Jörundar hundadagakonungs.

Tilvísanir:
  1. ^ Líklegt þykir að orðið hafi upphaflega verið haft um einhvers konar togtól með tveimur krókum eða álmum.
  2. ^ Valurinn, 1. árgangur 1906-1907, 8. tölublað - Timarit.is. (Sótt 9.05.2018).
  3. ^ Dagskrá, 13.03.1897 - Timarit.is. (Sótt 17.05.2018).

Heimildir:

Myndir:

Allar spurningarnar hljóðuðu svona:

Georg Orlov Guðmundsson spurði: Hvernig var íslenski fáninn fyrir 1915?

Sigurður Örn Gíslason spurði: Hvenær dökknaði blái liturinn í íslenska fánanum? Mér finnst hann nefnilega hafa verið töluvert ljósari fyrr.

Elín spurði: Fyrir hvað stendur blái liturinn í fánanum okkar. Ég hélt að það væri hafið og himininn en þegar ég var að læra í HA sagði kennarinn að þetta væri blámi fjallanna. Fólk virðist ekki alveg vera sammála um þetta. En allir eru sammála að rauði og hvíti eru eldur og ís.

Marinó Örn Ólafsson spurði: Hvað táknar krossinn í íslenska fánanum?

Úlfur Einarsson spurði: Hvort stendur blái liturinn í íslenska fánanum fyrir fjallablámann eða vatn?

Elín Finnbogadóttir sendi okkur bréf: Sælir. Ég er að leita að réttu heimildinni fyrir því hvað blái fánaliturinn táknar og það reynist erfiðara en ég upphaflega hélt. Mér skilst að í fánalögunum sé það skýrt að blái liturinn táknar íslenska fjallablámann en það virðist útbreiddur misskilningur að blái liturinn tákni annað hvort hafið sem umkringir landið eða vötnin sem eru á landinu sjálfu. Bragi Guðmundsson prófessor hjá Háskólanum á Akureyri berst hatrammlega fyrir því að þessum misskilningi verði eytt og fjallabláminn verði almennt viðurkenndur. Ég er búin að hringja í forsætisráðuneytið og biðja um að þessar upplýsingar verði settar sem fyrst á netið.

Hjalti Halldórsson spurði: Í svari Gísla Gunnarsonar við spurningu um rauða litinn í íslenska fánanum hér á vefnum kemur fram að blái liturinn tákni hafið. Á heimasíðu forsætisráðuneytisins þar sem farið er yfir sögu íslenska fánans kemur hins vegar fram að hann tákni fjallblámann: "Á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur 27. september 1906 sýndi Matthías Þórðarson, síðar þjóðminjavörður, fánahugmynd sína: hvítan kross í bláum feldi með rauðum krossi innan í hvíta krossinum. Áttu litirnir að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn." Hvort er rétt(ara)?

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

22.5.2018

Spyrjandi

Georg Orlov Guðmundsson, Sigurður Örn Gíslason, Elín, Elín Finnbogadóttir, Úlfur Einarsson, Hjalti Halldórsson

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvernig var íslenski fáninn um 1918?“ Vísindavefurinn, 22. maí 2018. Sótt 22. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75780.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2018, 22. maí). Hvernig var íslenski fáninn um 1918? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75780

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvernig var íslenski fáninn um 1918?“ Vísindavefurinn. 22. maí. 2018. Vefsíða. 22. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75780>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig var íslenski fáninn um 1918?
Fjölmargir hafa spurt Vísindavefinn um sögu íslenska fánans og margir hafa einnig áhuga á að vita hvað blái liturinn í fánanum eigi að tákna. Hér er öllum þessum spurningum svarað. Hægt er að skoða spurningarnar í heild sinni neðst í þessu svari.

Hin svonefndu sambandslög tóku gildi 1. desember 1918 en með þeim viðurkenndu Danir fullveldi Íslands. Þann dag á hádegi var klofinn fáni dreginn að húni á fánastöng Stjórnarráðshússins. Slíkur fáni nefnist einnig tjúgufáni en tjúga er annað orð yfir gaffal eða heykvísl.[1]

Fáninn sem dreginn var að húni 1. desember 1918 var sá sami og við notum í dag, það er heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í þeim hvíta. Blái liturinn var reyndar ljósari en við erum vön og varð ekki dekkri fyrr en árið 1944.

Á þessari mynd sést íslenski þjóðfáninn og fánanefndin.

Um liti fánans var fjallað í konungsúrskurði sem gefinn var út 30. nóvember 1918. Sömu litir höfðu einnig verið tilgreindir í konungsúrskurði frá 19. júní 1915. Litatillagan var önnur af tveimur sem svokölluð fánanefnd lagði fram 1913. Í þeirri nefnd sátu Guðmundur Björnson landlæknir, Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Ólafur Björnsson ritstjóri, Jón Jónsson (Aðils) dósent og Þórarinn B. Þorláksson listmálari.

Þessa fánahugmynd hafði Matthías Þórðarson fyrst sýnt níu árum fyrr, á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur 27. september 1906. Í grein í tímaritinu Valurinn 12. október 1906 er sagt frá fundinum og þar er fána Matthíasar lýst og útskýrt hvað litirnir eigi að tákna:

Á fundinum sýndi hr. Matthías Þórðarson prýðisfallegan fána, sem hann hafði dregið upp; var það hvítur kross í blám feldi, með rauðum krossi í miðjunni, og átti að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn. Gazt mönnum hið bezta að fána þessum, og þykja oss miklar líkur til, að menn komi sér saman um, að velja hann.[2]

Litirnir þrír áttu sér hins vegar mun lengri sögu því árið 1885 flutti stjórnskipunarnefnd neðri deildar Alþingis frumvarp til laga um þjóðfána Íslands. Hann átti að vera í sömu litum en hafa mynd af fálka í þremur hornum og danska sambandsmerkið í því fjórða. Benedikt Gröndal málaði myndir af fánanum og voru þær sýndar á lestrarsal Alþingis.

Svarthvít mynd af fána sem Benedikt Gröndal málaði eftir tillögu nefndar um þjóðfánann árið 1885. Fáninn var í sömu litum og þjóðfáni Íslendinga síðar meir en með mynd af fálka í þremur hornum og danska sambandsmerkið í því fjórða.

Í upphafi 20. aldar kom þó annar fáni einnig til greina sem þjóðfáni Íslendinga, en það var fánahugmynd skáldsins Einars Benediktssonar. Árið 1897 skrifaði Einar grein í blaðið Dagskrá þar sem hann lagði til að fáni Íslands yrði hvítur kross í bláum feldi, en krossinn í fánanum er vitanlega algengt tákn í kristinni trú. Þetta segir Einar um fánann:

Þjóðlitir Íslands eru blátt og hvítt, er tákna himininn og snjóinn, og þessa tvo þjóðliti eina eiga engir aðrir en Íslendingar. Nú er krossinn eins og kunnugt er hið algengasta og hentugasta flaggmerki, og er hann auðvitað hið besta, fegursta og greinilegasta merki, ef hann verður settur rjett, yfir allan fánann.[3]

Þessi gerð af fána naut töluverðar hylli meðal landsmanna, sérstaklega eftir að danskt varðskip gerði slíkan fána upptækan af kappróðrarbáti á Reykjavíkurhöfn árið 1913.

Sviðsett mynd á póstkorti sem sýnir Einar Pétursson á báti sínum í Reykjavíkurhöfn 12. júní 1913. Þann dag var fáni Einars gerður upptækur af varðskipinu Islands Falk.

Á endanum var það hins vegar tillaga Matthíasar Þórðarsonar sem varð þjóðfáni Íslendinga og tjúgufána af þeirri gerð var flaggað við Stjórnarráðshúsið 1918. Ein ástæðan fyrir því að tillaga Einars Benediktssonar varð ekki fyrir valinu er sú að hún þótti minna um of á gríska fánann.

Margir lesendur Vísindavefsins hafa velt því fyrir sér hvort blái liturinn tákni fjallabláma, hafið eða himininn - eða kannski allt þetta. Eins og sést af textanum hér fyrir ofan er litnum ekki gefið sama tákngildi í fánahugmyndunum tveimur. Einar Benediktsson segir að blái liturinn tákni himininn en í tillögu Matthíasar er sagt að hann standi fyrir fjallablámann. Í svari Gísla Gunnarssonar við spurningunni Hvað táknar rauði liturinn í íslenska fánanum? segir ennfremur að blái liturinn eigi að tákna hafið og himininn.

Í raun er ekkert eitt rétt svar við spurningunni hvað blái liturinn í íslenska fánanum eigi að tákna. Tákn eru mannanna verk og blái liturinn táknar í raun það sem við komum okkur saman um að hann eigi að tákna. Blái liturinn í þjóðfána Íslendinga getur því táknað fjallabláma, bláan himinn og blátt hafið.

Fáni Jörundar hundadagakonungs hefur ekki varðveist. Óðinn Melsteð sagnfræðingur setti fram þessa tilgátu af útliti fánans.

Þess má að lokum geta að fyrsta hugmyndin um þjóðfána Íslendinga kom fram þegar Jörundur hundadagakonungur ríkti hér í átta vikur árið 1809. Þá var bláum fána með þremur hvítum þorskum á flaggað í Reykjavík. Blái liturinn á sér því langa sögu í fána Íslendinga. Þar með er reyndar enn eitt táknið komið fyrir bláa litinn í íslenska þjóðfánanum - hann vísar til byltingarfána Jörundar hundadagakonungs.

Tilvísanir:
  1. ^ Líklegt þykir að orðið hafi upphaflega verið haft um einhvers konar togtól með tveimur krókum eða álmum.
  2. ^ Valurinn, 1. árgangur 1906-1907, 8. tölublað - Timarit.is. (Sótt 9.05.2018).
  3. ^ Dagskrá, 13.03.1897 - Timarit.is. (Sótt 17.05.2018).

Heimildir:

Myndir:

Allar spurningarnar hljóðuðu svona:

Georg Orlov Guðmundsson spurði: Hvernig var íslenski fáninn fyrir 1915?

Sigurður Örn Gíslason spurði: Hvenær dökknaði blái liturinn í íslenska fánanum? Mér finnst hann nefnilega hafa verið töluvert ljósari fyrr.

Elín spurði: Fyrir hvað stendur blái liturinn í fánanum okkar. Ég hélt að það væri hafið og himininn en þegar ég var að læra í HA sagði kennarinn að þetta væri blámi fjallanna. Fólk virðist ekki alveg vera sammála um þetta. En allir eru sammála að rauði og hvíti eru eldur og ís.

Marinó Örn Ólafsson spurði: Hvað táknar krossinn í íslenska fánanum?

Úlfur Einarsson spurði: Hvort stendur blái liturinn í íslenska fánanum fyrir fjallablámann eða vatn?

Elín Finnbogadóttir sendi okkur bréf: Sælir. Ég er að leita að réttu heimildinni fyrir því hvað blái fánaliturinn táknar og það reynist erfiðara en ég upphaflega hélt. Mér skilst að í fánalögunum sé það skýrt að blái liturinn táknar íslenska fjallablámann en það virðist útbreiddur misskilningur að blái liturinn tákni annað hvort hafið sem umkringir landið eða vötnin sem eru á landinu sjálfu. Bragi Guðmundsson prófessor hjá Háskólanum á Akureyri berst hatrammlega fyrir því að þessum misskilningi verði eytt og fjallabláminn verði almennt viðurkenndur. Ég er búin að hringja í forsætisráðuneytið og biðja um að þessar upplýsingar verði settar sem fyrst á netið.

Hjalti Halldórsson spurði: Í svari Gísla Gunnarsonar við spurningu um rauða litinn í íslenska fánanum hér á vefnum kemur fram að blái liturinn tákni hafið. Á heimasíðu forsætisráðuneytisins þar sem farið er yfir sögu íslenska fánans kemur hins vegar fram að hann tákni fjallblámann: "Á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur 27. september 1906 sýndi Matthías Þórðarson, síðar þjóðminjavörður, fánahugmynd sína: hvítan kross í bláum feldi með rauðum krossi innan í hvíta krossinum. Áttu litirnir að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn." Hvort er rétt(ara)?

...