Sólin Sólin Rís 02:57 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:51 • Sest 07:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:40 • Síðdegis: 21:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:39 • Síðdegis: 14:42 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hvernig var Háskóli Íslands árið 1918?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Á árinu 1918 varð Háskóli Íslands sjö ára gamall og hafði breyst sáralítið frá því að hann var stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní 1911. Þá hafði Háskólinn verið búinn til með því að steypa saman og breyta í háskóladeildir þremur embættismannaskólum í Reykjavík, prestaskóla, læknaskóla og lagaskóla, og bæta við heimspekideild þar sem hægt var að fá kennslu í íslenskum fræðum.

Ekkert háskólahús var þá til, og var stofnuninni fenginn staður á neðstu hæð Alþingishússins við Austurvöll í Reykjavík. Sú skipun var enn nokkurn veginn óbreytt þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Auðveldara var en ella að koma Alþingi og Háskólanum fyrir í sama húsinu af því að þingið starfaði oftast aðeins á sumrin en skólinn á veturna. En skólinn virðist þó hafa haft hæðina nokkurn veginn fyrir sig. Háskóladeildirnar höfðu hver sína kennslustofu auk þess sem Læknadeildin hafði þar ein þrjú lítil geymsluherbergi af því að hún þurfti að varðveita lyfjabirgðir, líffærasafn og fleira. Kennarastofa var notuð sem fundarherbergi háskólaráðs. Auk þess hafði háskólaritari, eini stjórnsýslustarfsmaður Háskólans, lítið vinnuherbergi á hæðinni. Þessi samnýting húsnæðisins breyttist strax til hins verra árið 1920 þegar tekið var að halda Alþingi síðari hluta vetrar, og hófst þá þriggja áratuga löng barátta Háskólans fyrir framtíðarhúsnæði.

Húsnæði Háskólans í Alþingishúsinu 1911-40. 1. Kennslustofa Guðfræðideildar. 2. Kennslustofa Læknadeildar. 3. Geymsla fyrir líffæra- og lyfjasafn Læknadeildar. 6. Geymsluherbergi fyrir Læknadeild. 9. Anddyri, samkomustaður stúdenta á akademísku korteri á milli fyrirlestra. 12. Vinnuherbergi háskólaritara. 15. Kennarastofa og fundarstofa háskólaráðs og deilda. 16. Kennslustofa Lagadeildar. 17. Kennslustofa Heimspekideildar.

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hve margir nemendur Háskólans voru árið 1918, en á fimm ára tímabilinu 1916–20 innrituðust 24 í Guðfræðideild, 35 í Læknadeild, 39 í Lagadeild og 17 í Heimspekideild, samtals 115 manns eða 23 á ári að meðaltali. Á sömu árum útskrifuðust 50 með lokapróf, 22 úr Guðfræðideild, 18 úr Læknadeild, 10 úr Lagadeild en enginn úr Heimspekideild.

Þegar þetta var höfðu konur nýlega öðlast jafnan rétt á við karla til aðgangs að öllum menntastofnunum, en stúlkur voru þá enn sárafámennar í hópi háskólanema. Fyrsti kvenkyns kandidatinn sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands, Kristín Ólafsdóttir, innritaðist í læknisfræði strax haustið 1911 og útskrifaðist í febrúar 1917. Fyrsti lögfræðingurinn, Auður Auðuns, útskrifaðist ekki fyrr en árið 1935, og fyrsti guðfræðingurinn, Geirþrúður Hildur Bernhöft, árið 1945.

Stúdentahópur Háskóla Íslands eftir próf í heimspekilegum forspjallsvísindum vorið 1912.

Þegar Háskóli Íslands var stofnaður voru skipaðir til starfa við hann 17 kennarar, þrír við guðfræðideild, þrír við lagadeild, átta við læknadeild (ekki allir í fullum eða föstum störfum) og þrír við heimspekideild. Litlar breytingar urðu á þeim tölum fram yfir þann tíma sem hér er einkum miðað við. Háskólinn var enn staður þar sem eitthvað milli tíu og tuttugu kennarar í nokkrum ólíkum sérgreinum héldu fyrirlestra yfir örfáum tugum ungra manna, næstum eingöngu karlmanna, í því skyni að búa þá út með kunnáttu til að þeir gætu orðið embættismenn.

Úr kennslustofu Heimspekideildar í Alþingsihúsinu veturinn 1939-40. Sjá má að deildin átti talsvert af bókum þótt eiginlegt háskólabókasafn væri enn ekkert til.

Þegar þetta var töldust Íslendingar um 90.000 talsins eða nálega fjórðungur þess sem þeir eru nú. Þrátt fyrir þann mun hljótum við að undrast hvernig þjóðin gat komist af með svona örlítinn háskóla. Hluti, en aðeins lítill hluti, af skýringunni er sá að margir íslenskir háskólamenn menntuðust erlendis, flestir þeirra í Kaupmannahöfn. Engin verkfræði og engin raunvísindi voru kennd við Háskóla Íslands, ekki heldur hagfræði, viðskiptafræði, félagsvísindi eða útlend tungumál. Það skýrir þó engan veginn þann reginmun sem er á háskólamenntun þjóðarinnar þá og nú. Þó var það nokkurt áhyggjuefni ráðamanna næstu áratugina að háskólamenn væru að verða of fjölmennir og kæmu til með að ganga um atvinnulausir, hvorki sér né öðrum til gagns. En það átti eftir að breytast.

Heimild og myndir:
  • Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011. Ritstjóri Gunnar Karlsson. Höfundar Guðmundur Hálfdanarson, Sigríður Matthíasdóttir, Magnús Guðmundsson. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2011.

Spurningu Rögnu er hér svarað að hluta.

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

6.3.2018

Spyrjandi

Ragna Magnúsdóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvernig var Háskóli Íslands árið 1918?“ Vísindavefurinn, 6. mars 2018. Sótt 25. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75123.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2018, 6. mars). Hvernig var Háskóli Íslands árið 1918? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75123

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvernig var Háskóli Íslands árið 1918?“ Vísindavefurinn. 6. mar. 2018. Vefsíða. 25. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75123>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig var Háskóli Íslands árið 1918?
Á árinu 1918 varð Háskóli Íslands sjö ára gamall og hafði breyst sáralítið frá því að hann var stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní 1911. Þá hafði Háskólinn verið búinn til með því að steypa saman og breyta í háskóladeildir þremur embættismannaskólum í Reykjavík, prestaskóla, læknaskóla og lagaskóla, og bæta við heimspekideild þar sem hægt var að fá kennslu í íslenskum fræðum.

Ekkert háskólahús var þá til, og var stofnuninni fenginn staður á neðstu hæð Alþingishússins við Austurvöll í Reykjavík. Sú skipun var enn nokkurn veginn óbreytt þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Auðveldara var en ella að koma Alþingi og Háskólanum fyrir í sama húsinu af því að þingið starfaði oftast aðeins á sumrin en skólinn á veturna. En skólinn virðist þó hafa haft hæðina nokkurn veginn fyrir sig. Háskóladeildirnar höfðu hver sína kennslustofu auk þess sem Læknadeildin hafði þar ein þrjú lítil geymsluherbergi af því að hún þurfti að varðveita lyfjabirgðir, líffærasafn og fleira. Kennarastofa var notuð sem fundarherbergi háskólaráðs. Auk þess hafði háskólaritari, eini stjórnsýslustarfsmaður Háskólans, lítið vinnuherbergi á hæðinni. Þessi samnýting húsnæðisins breyttist strax til hins verra árið 1920 þegar tekið var að halda Alþingi síðari hluta vetrar, og hófst þá þriggja áratuga löng barátta Háskólans fyrir framtíðarhúsnæði.

Húsnæði Háskólans í Alþingishúsinu 1911-40. 1. Kennslustofa Guðfræðideildar. 2. Kennslustofa Læknadeildar. 3. Geymsla fyrir líffæra- og lyfjasafn Læknadeildar. 6. Geymsluherbergi fyrir Læknadeild. 9. Anddyri, samkomustaður stúdenta á akademísku korteri á milli fyrirlestra. 12. Vinnuherbergi háskólaritara. 15. Kennarastofa og fundarstofa háskólaráðs og deilda. 16. Kennslustofa Lagadeildar. 17. Kennslustofa Heimspekideildar.

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hve margir nemendur Háskólans voru árið 1918, en á fimm ára tímabilinu 1916–20 innrituðust 24 í Guðfræðideild, 35 í Læknadeild, 39 í Lagadeild og 17 í Heimspekideild, samtals 115 manns eða 23 á ári að meðaltali. Á sömu árum útskrifuðust 50 með lokapróf, 22 úr Guðfræðideild, 18 úr Læknadeild, 10 úr Lagadeild en enginn úr Heimspekideild.

Þegar þetta var höfðu konur nýlega öðlast jafnan rétt á við karla til aðgangs að öllum menntastofnunum, en stúlkur voru þá enn sárafámennar í hópi háskólanema. Fyrsti kvenkyns kandidatinn sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands, Kristín Ólafsdóttir, innritaðist í læknisfræði strax haustið 1911 og útskrifaðist í febrúar 1917. Fyrsti lögfræðingurinn, Auður Auðuns, útskrifaðist ekki fyrr en árið 1935, og fyrsti guðfræðingurinn, Geirþrúður Hildur Bernhöft, árið 1945.

Stúdentahópur Háskóla Íslands eftir próf í heimspekilegum forspjallsvísindum vorið 1912.

Þegar Háskóli Íslands var stofnaður voru skipaðir til starfa við hann 17 kennarar, þrír við guðfræðideild, þrír við lagadeild, átta við læknadeild (ekki allir í fullum eða föstum störfum) og þrír við heimspekideild. Litlar breytingar urðu á þeim tölum fram yfir þann tíma sem hér er einkum miðað við. Háskólinn var enn staður þar sem eitthvað milli tíu og tuttugu kennarar í nokkrum ólíkum sérgreinum héldu fyrirlestra yfir örfáum tugum ungra manna, næstum eingöngu karlmanna, í því skyni að búa þá út með kunnáttu til að þeir gætu orðið embættismenn.

Úr kennslustofu Heimspekideildar í Alþingsihúsinu veturinn 1939-40. Sjá má að deildin átti talsvert af bókum þótt eiginlegt háskólabókasafn væri enn ekkert til.

Þegar þetta var töldust Íslendingar um 90.000 talsins eða nálega fjórðungur þess sem þeir eru nú. Þrátt fyrir þann mun hljótum við að undrast hvernig þjóðin gat komist af með svona örlítinn háskóla. Hluti, en aðeins lítill hluti, af skýringunni er sá að margir íslenskir háskólamenn menntuðust erlendis, flestir þeirra í Kaupmannahöfn. Engin verkfræði og engin raunvísindi voru kennd við Háskóla Íslands, ekki heldur hagfræði, viðskiptafræði, félagsvísindi eða útlend tungumál. Það skýrir þó engan veginn þann reginmun sem er á háskólamenntun þjóðarinnar þá og nú. Þó var það nokkurt áhyggjuefni ráðamanna næstu áratugina að háskólamenn væru að verða of fjölmennir og kæmu til með að ganga um atvinnulausir, hvorki sér né öðrum til gagns. En það átti eftir að breytast.

Heimild og myndir:
  • Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011. Ritstjóri Gunnar Karlsson. Höfundar Guðmundur Hálfdanarson, Sigríður Matthíasdóttir, Magnús Guðmundsson. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2011.

Spurningu Rögnu er hér svarað að hluta.

...