Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
17. júní 1944 er einn merkasti dagur í sögu Íslendinga. Þá var lýðveldið Ísland stofnað á Þingvöllum. Fjölmenni var saman komið þennan gleðiríka dag á Þingvöllum og víðar á landinu að fagna fengnu frelsi við endalok hartnær sjö alda skeiðs erlendra yfirráða.
Þeir sem hafa séð myndir af hátíðinni á Þingvöllum taka væntanlega eftir því að börn eru ekki mjög áberandi. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé hvar börnin voru þennan dag. Myndir sem teknar eru í dag frá sambærilegum hátíðahöldum mundu vafalaust sýna fjölmörg börn í ýmis konar leikjum og jafnvel hoppuköstulum.
En þótt engir hafi verið hoppukastalarnir eða andlistmálningin þá voru vissulega börn og ungmenni í margmenninu á Þingvöllum. Um sjö áratugum eftir þessa miklu hátíð rifjaði um hálfur níundi tugur lýðveldisbarna (en svo eru þau börn stundum kölluð sem upplifðu þennan söguríka dag á Þingvöllum eða annars staðar á landinu) upp hinn merka dag í stuttum frásögnum sem birtust í bókinni Lýðveldisbörnin: Minningar frá lýðveldishátíðinni 1944. Þetta fólk var þá ungt að árum, börn, unglingar eða komið yfir tvítugt með lífið framundan, flest í fylgd foreldra en þau eldri gjarnan samferða vinum eða samstarfsfólki.
Á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1944.
Hér fyrir neðan má sjá örfá stutt minningarbrot sem varpa ljósi á hvernig var að vera ung manneskja á Þingvöllum á þessari sögulegu stundu. Þótt það hafi rignt á Þingvöllum eins og hellt væri úr fötu eru þau þakklát fyrir að hafa fengið að vera með. Fyrsta minningin í bókinni er eftir Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta lýðveldisins, en síðan birtast frásagnirnar í aldursröð höfunda, hinna yngstu fyrst:
Vigdís Finnbogadóttir: ... Mér þykir vænt um að eiga minningar um daginn, sem við innsigluðum frelsið við stofnun lýðveldis og eignuðumst að fullu okkur sjálf ...
Þórir Stephensen: ... Þannig lauk hátíðinni. Ég fór glaður heim að kveldi. Tólf ára drengur hugsar oft margt og mín innri rödd sagði mér ýmislegt. Fáninn var enn uppi og það gladdi okkur öll, að hann var nú orðinn að enn sterkara tákni en fyrr. Samhljómur klukknanna söng enn í sál minni. Hann var þá fyrst og fremst samþykkistákn þjóðarinnar við gjörð Alþingis og lofgjörð fyrir lokaáfanga sjálfstæðisbaráttunnar. Þannig geymdi ég hann lengi.
Guðbjörg Pálsdóttir: ... Um kvöldið var dansað á palli og vorum við vinkonurnar að sniglast þar í kring þegar ég sá strákinn sem átti heima á Laugaveginum. Hann var auðvitað rennblautur í rigningunni og dropar láku niður úr derinu á sixpensarahúfunni hans. Við höfðum verið að gefa hvort öðru auga frá áramótum, ... En þarna kom hann og bauð mér kurteislega upp í dans. Ég átti nú alls ekki von á því, en þáði það strax. Við dönsuðum saman það sem eftir var af kvöldi og sögðu systur mínar að við hefðum verið síðasta parið af danspallinum. .... Eftir þessa helgi var þó ekki aftur snúið, því að 17. júní fimm árum síðar giftum við okkur, ...
Minningar barna og ungmanna frá lýðveldishátíðinni 1944.
Jón Einar Jakobsson: ...Við náðum aftur að pallinum, svo að hvorugur okkar missti af sínu áhugaefni og vorum báðir hæstánægðir. Ég horfði upp í andlit pabba og sá, hvernig regntaumar runnu niður vanga hans. Síðar, – þegar ég kynntist betur skapferli föður míns og skoðunum, þykist ég vita, að ekki hafi þetta allt verið rigning af himni ofan....
Unnur Benediktsdóttir: ... Nú braust út mikill fögnuður. Forseti sameinaðs Alþingis ávarpaði þá fyrsta forseta Íslands, eitthvað á þessa leið: „Forsetinn Sveinn Björnsson mun nú vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni“. Eiðstafurinn er svo hljóðandi: „Ég undirritaður sem kosinn er forseti Íslands heiti því að viðlögðum drengskap mínum og heiðri að halda stjórnarskrá ríkisins. Gert í tveim samhljóða eintökum, Þingvöllum 17. júní 1944." Við stelpurnar vorum fljótar að læra þetta. Þingheimur og fjöldinn allur á Þingvöllum tók undir þetta með þreföldu húrrahrópi sem aldursforseti þingsins Ingvar Pálmason setti af stað. Húrra! ...
Myndir:
Bókin Lýðveldisbörnin. Minningar frá lýðveldishátíðinni 1944 var gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi síðla árs 2016 en ritstjórar og safnarar pistlanna voru þau Þór Jakobsson veðurfræðingur, „lýðveldisbarn“, og Arna Björk Stefánsdóttir sagnfræðingur. Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og forseti Íslands ritaði ávarp.
Samhliða söfnun eftir fyrir bókina unnu Þór Jakobsson og Eggert Gunnarsson kvikmyndatökumaður saman að mynd þar sem 18 lýðveldisbörn rifja upp 17. júní 1944. Myndina er að finna á Youtube undir Lýðveldisbörn 2014.
Þór Jakobsson. „Voru einhverjir krakkar á Þingvöllum 17. júní 1944?“ Vísindavefurinn, 5. júlí 2019, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77643.
Þór Jakobsson. (2019, 5. júlí). Voru einhverjir krakkar á Þingvöllum 17. júní 1944? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77643
Þór Jakobsson. „Voru einhverjir krakkar á Þingvöllum 17. júní 1944?“ Vísindavefurinn. 5. júl. 2019. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77643>.