Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvers vegna afneita margir loftslagsbreytingum af mannavöldum þegar 97% vísindamanna eru sammála um að þær eigi sér stað?
Það er ekki rétt að margir afneiti loftslagsbreytingum af mannavöldum, að minnsta kosti ekki hér á landi og í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Samkvæmt Umhverfiskönnun Gallup sem gerð var 2018 telja eingöngu 0,9% landsmanna að loftslagsbreytingar séu ekki af mannanna völdum og aðeins 0,1% neita því að loftslag sé að breytast.[1] Niðurstöður úr Evrópsku samfélagskönnuninni benda í sömu átt.[2] Þar kemur fram að árið 2016 trúðu aðeins 0,8% landsmanna því ekki að loftslagsbreytingar væru af mannavöldum og 0,0% – enginn – neitaði því að loftslag á jörðinni væri nú að breytast. Báðar þessar kannanir eru gerðar með tilviljunarúrtökum sem þýðir að alhæfa má um niðurstöðurnar fyrir alla Íslendinga. Í Evrópsku samfélagskönnuninni var fólk frá 23 Evrópulöndum spurt sömu spurningar og þar kom í ljós að 1,9% svarenda að meðaltali trúði því ekki að loftslagsbreytingar væru af mannavöldum. Langhæsta hlutfallið var í Rússlandi, 5,3%.
Aftur á móti er skiljanlegt að spyrjandi telji að afneitunin sé útbreiddari en hún er þar sem þessi fámenni hópur hefur verið hávær og umræðan um afneitun loftslagsvísinda hefur verið áberandi í fjölmiðlum. Slík umfjöllun á það til að kalla fram það sem heitir tiltækisvillan (e. availability bias) sem vísar til þess að fólk telur að fyrirbæri eða atburðir séu algengari en þeir eru í raun, vegna þess hve áberandi eða tiltækir þeir eru. Til dæmis telur fólk að flugslys séu algengari en þau eru, vegna þess hve mikil fréttaumfjöllun er um þau fáu slys sem verða.
Afar fáir hér á landi og í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum. Hins vegar telja margir að afneitunin sé útbreiddari vegna svonefndrar tiltækisvillu.
Réttilega vísar spyrjandi hér þó í þekkta rannsókn Naomi Oreskes frá 2004 sem sýndi í yfirlitsgrein að í 97% birtra fræðigreina í loftslagsvísindum tóku höfundar þá afstöðu að aukna hlýnun í loftslagi jarðar mætti rekja til losunar svokallaðra gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, svo sem vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti. Svipuð niðurstaða hefur fengist í sambærilegum rannsóknum á undanförnum árum og hefur talan nú hækkað upp í 99% vísindamanna sem eru sammála því að hlýnun loftslags sé af mannavöldum. Niðurstaða af sama tagi fæst í könnunum þar sem loftslagsvísindafólk er spurt beint hvort það telji núverandi loftslagsbreytingar vera af mannavöldum eða af náttúrulegum orsökum.
Margar stéttir fræðimanna teljast til loftslagsvísindafólks, til dæmis jarðfræðingar, eðlisfræðingar, stjarneðlisfræðingar, jarðeðlisfræðingar, veðurfræðingar, umhverfis- og auðlindafræðingar, líffræðingar, haffræðingar og stærðfræðingar. Þessar ólíku vísindastéttir hafa rannsakað loftslagsbreytingar frá ólíkum sjónarhornum og komist að sömu niðurstöðu, að mælingar sýni nú ótvírætt að loftslagsbreytingar eigi sér stað og að stærsti orsakaþáttur þeirra séu aðgerðir manna. Slík samstaða um túlkun niðurstaðna er fáheyrð innan vísinda, enda er það í eðli vísinda að leitast við að rengja niðurstöður og túlkun þeirra til þess að hægt sé að setja fram sífellt betri kenningar á viðkomandi sviði. Ef hægt væri að sýna fram á að loftslagsbreytingar væru ekki að miklu leyti af mannavöldum þá hefðu slík rök að öllum líkindum komið fram fyrir löngu síðan.
Sú staðreynd að þeir sem best þekkja til skuli vera sammála um að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum er eitt og sér sterk rök fyrir því að svo sé. Almennt séð treystum við sérfræðingum af ýmsu tagi til að upplýsa okkur um þeirra sérsvið. Þannig treystum við læknum betur en til dæmis bókasafnsfræðingum eða garðyrkjumönnum til að upplýsa okkur um sjúkdóma. Við viljum frekar að verkfræðingar hafi reiknað út burðarþol stórra brúa sem við förum yfir, heldur en til að mynda tannlæknar eða fiskifræðingar. Eins viljum við að veðurfræðingar spái fyrir um veðrið næstu daga en ekki hagfræðingar eða tónskáld. Þetta á sérstaklega við um það þegar mikil samstaða er á meðal viðkomandi sérfræðinga, eins og ljóslega gildir um loftslagsbreytingar af mannavöldum.
Almennt séð treystum við sérfræðingum af ýmsu tagi til að upplýsa okkur um þeirra sérsvið. Við viljum frekar að veðurfræðingar spái fyrir um veðrið næstu daga en ekki hagfræðingar eða tónskáld. Þeir sem best þekkja til eru sammála um að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum.
Þá er rétt að árétta að lengi hefur verið vitað að koltvíildi (sem einnig er nefnt koldíoxíð eða koltvísýringur) og aðrar gróðurhúsalofttegundir fangi hita með þeim hætti sem myndu leiða til hlýnunar jarðar. Fyrsta rannsóknin sem sýndi fram á þetta var gerð í lok 19. aldar af sænska Nóbelsverðlaunahafanum Svante Arrhenius (1859-1927). Ótal mælingar á loftslagi jarðar og magni þessara gróðurhúsalofttegunda, langt aftur í tímann, staðfesta svo að meðalhitastig jarðar eykst nokkurn veginn í réttu hlutfalli við losun mannsins á þessum lofttegundum. Við þurfum því ekki að reiða okkur á vitnisburð sérfræðinga í þessu tilviki því þeir sem vilja sjálfir geta kynnt sér þau óyggjandi rök sem styðja að loftslagsbreytingar séu að mestu leyti af mannavöldum.
En hvers vegna er samt til hávær hópur fólks sem neitar því að þessi vísindi séu rétt og að núverandi loftslagsbreytingar séu af mannavöldum? Svarið við því er margþætt og tengist hugmyndafræði, hugsunarvillum, dreifingu villandi upplýsinga og skilningi fólks á vísindum.
Hugmyndafræði og heimsmynd
Rannsóknir benda sterklega til þess að afneitun niðurstaðna loftslagsvísinda sé fyrst og fremst af hugmyndafræðilegum ástæðum.[3] Hugmyndafræði þeirra sem ýmist neita því að loftslagsbreytingar eigi sér nú stað eða neita því að þær séu af mannavöldum einkennist yfirleitt af stjórnmálaskoðunum sem eru yst til hægri á hægri-vinstri ás stjórnmálanna. Í Bandaríkjunum er þetta sérstaklega áberandi, en þar eru hugmyndir fólks um loftslagið nátengdar stjórnmálaskoðunum þess. Árið 2019 töldu 89% allra sem kjósa Demókrataflokkinn að núverandi loftslagsbreytingar séu af mannavöldum, en aðeins 35% þeirra sem kjósa Repúblikanaflokkinn og þetta bil í skoðunum fólks hefur aukist hin síðari ár.[4] Þeir sem eru hægrisinnaðir eru síður hlynntir sköttum og ríkisafskiptum eða að hömlur séu settar á hegðun fólks með reglugerðum og lagasetningu. Til þess að takast á við loftslagsbreytingar munu stjórnvöld um allan heim þurfa að taka afdrifaríkar ákvarðanir um brennslu jarðefnaeldsneytis og beita lagasetningum, en það eru einmitt slíkar aðgerðir sem þeir sem afneita niðurstöðum loftslagsvísinda óttast. Einnig hafa rannsóknir bent til þess að þeir sem neita vísindunum að baki loftslagsbreytingum eru líklegir til að aðhyllast svokallaða mannhverfu (e. anthropocentrism), sem þýðir að maðurinn sé talinn náttúrunni æðri og það sé eðlilegt stigveldi hlutanna að maðurinn skuli drottna yfir náttúrunni, en sé ekki eingöngu einn hluti náttúrunnar.[5]
Hugmyndafræði getur eðli málsins samkvæmt hvorki verið rétt né röng, en hún getur haft áhrif á það hvernig við lítum á staðreyndir. Hægt er að skipta mannlegri hugsun í tvo grófa flokka, annars vegar er hugsun sem er hröð og stýrist af innsæi, vana eða leiðsagnarreglum (e. heuristics) og hins vegar er hugsun sem er hægari og stýrist af rökhugsun og mati á fyrirliggjandi gögnum. Slík rökhugsun getur þó verið skekkt (e. biased) og leit að gögnum og vísbendingum til rökstuðnings getur verið háð hagsmunum. Þegar mikið er í húfi og fólk finnur að heimsmynd eða sjálfsmynd þess er ógnað á einhvern hátt, bregst það yfirleitt við með því leita vísbendinga um að ekkert sé að óttast. Okkur líður illa ef hugmyndir okkar um heiminn standast ekki og þess vegna erum við líkleg til að bægja frá okkur öllu því sem stangast á við okkar hugmyndafræði. Þegar við fáum staðfestingu á því að okkar hugmyndir séu réttar, líður okkur betur. Slík hugsun er sögð vera markmiðadrifin (e. motivated reasoning).[6]. Ákvarðanir okkar, ályktanir og hugsanir eru þá háðar þeirri hugmyndafræði, heimsmynd og sjálfsmynd sem við aðhyllumst. Bæði erum við þá líkleg til þess trúa frekar þeim sem eru okkur sammála og að leita upplýsinga sem staðfesta okkar heimsmynd og sjálfsmynd (e. information bias), en einnig að hunsa, endurtúlka eða dæma ógildar þær upplýsingar sem ekki staðfesta okkar hugmyndir um heiminn (e. confirmation bias). Fólk meðtekur upplýsingar og vinnur ómeðvitað úr þeim í takt við eigin markmið.
Skopmynd sem sýnir að þegar mikið er í húfi og fólk finnur að heimsmynd eða sjálfsmynd þess er ógnað á einhvern hátt, bregst það yfirleitt við með því leita vísbendinga um að ekkert sé að óttast.
Sé þetta haft í huga er ekki hægt að segja að þeir sem kallaðir hafa verið „afneitarar“ séu drifnir áfram af annarlegum hvötum, heldur trúa þeir því í fullri einlægni að þeirra heimsmynd sé á rökum reist, að maðurinn hafi ekki valdið loftslagsbreytingum, hann geti haft stjórn á náttúrunni og látið hana lúta sínum vilja og að aðgerðir til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda séu drifnar áfram af hagsmunum vinstri manna. Einnig eru þeir líklegir til þess að hunsa, endurtúlka eða dæma ógildar þær upplýsingar sem ekki falla að þeirra hugmynd um afnám ríkisafskipta. Ein ástæða þess að markmiðadrifin hugsun er eins áhrifamikil og raun ber vitni, er sú að fólk hvorki áttar sig á því né er það tilbúið til að viðurkenna þegar þeim er bent á það að hugsun þeirra sé skekkt. Né heldur áttar það sig á því þegar athygli þeirra beinist aðeins að því sem þau vilja heyra. Afleiðingar þess að hlusta bara á þá sem eru manni sammála (e. echo chamber) eru þær að fólk telur að þeirra málstaður sé algengari en hann er í raun (e. false consensus effect), sem styrkir það enn frekar í trú sinni.
Sölumenn vafans
Í kringum sjötta áratug síðustu aldar fóru sérfræðingar að gera sér grein fyrir því að reykingar væru skaðlegar heilsu manna. Meðvitaðir um hve alvarlegar afleiðingar það kynni að hafa á reksturinn, brugðust tóbaksframleiðendur við þessum upplýsingum með skipulögðum hætti. Um þetta hafa nú opinberlega verið birt ýmiskonar skjöl. Tóbaksframleiðendur greiddu tilteknum sérfræðingum mútugreiðslur fyrir að dreifa efasemdum um skaðsemi tóbaksreykinga. Þessi hópur hefur verið kallaður sölumenn vafans (e. merchants of doubt). Meðal þeirra sem tóku þátt í þessari efasemdarherferð voru læknar sem sátu fyrir á auglýsingum og mældu með tilteknum sígarettutegundum. Virtur persónuleikasálfræðingur, Hans Eysenck (1916-1997), var einn þeirra sem þáðu mútugreiðslur tóbaksframleiðenda. Hann þáði peninga fyrir að birta greinar og halda erindi um að líklegast mætti rekja krabbamein til tiltekins persónuleika (e. cancer-prone personality) frekar en til tóbaksreykinga. Seinna kom vitaskuld í ljós að þetta átti við engin rök að styðjast og vísindatímarit keppast nú við að afturkalla greinar Eysencks, enda um mikið hneykslismál að ræða.
Sama ferli er nú að endurtaka sig, nema að nú eru það olíuframleiðendur sem vinna skipulega að því að dreifa efasemdum um þá niðurstöðu vísindamanna að losun manna á gróðurhúsalofttegundum sé meginorsök núverandi loftslagsbreytinga.[7]. Gögn sem hafa verið gerð opinber[8] benda til þess að olíuiðnaðurinn hafi vitað af afleiðingum áframhaldandi jarðefnabrennslu í að minnsta kosti fjóra áratugi. Eins og tóbaksframleiðendur á sínum tíma hafa olíuframleiðendur þeirra hagsmuna að gæta að starfsemi þeirra haldi áfram óhindruð. Olíuframleiðendur greiða nú tilteknu vísinda- og fjölmiðlafólki fyrir að dreifa efasemdum um skaðsemi jarðefnabrennslu á netinu og víðar, auk þess sem þeir fjármagna rannsóknir sem eiga að styðja þeirra málstað. Slíkar upplýsingar falla vel að hugmyndum þess fólks sem telur manninn drottna yfir náttúrunni og eru á móti ríkisafskiptum. Þar með fá „afneitarar“ í hendurnar gögn sem styðja þeirra málstað, staðfesta þeirra heimsmynd, og það styrkir þau í sinni trú.
Misskilningur á eðli vísinda
Þeir sem efast um eða afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum halda því stundum fram að þær séu „bara kenning“. Þessi rök byggjast á misskilningi á eðli vísinda og vísindakenninga. Allar kerfisbundnar tilraunir vísindafólks til að lýsa eða skýra fyrirbæri í heiminum eru settar fram í formi vísindakenninga. Sumar vísindakenningar eru illa rökstuddar eða hafa jafnvel verið hraktar; aðrar eru svo vel rökstuddar að vísindafólk telur nær öruggt að þær séu sannar. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru dæmi um hið síðara – um óhemju vel rökstudda kenningu sem glapræði væri að efast um. Þeir sem afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum á grundvelli þess að þær séu „bara kenning“ ættu því væntanlega einnig að afneita öðrum viðteknum vísindakenningum, svo sem loftaflfræðinni sem gerir þeim kleift að fljúga milli landa og skammtaljósfræðinni sem hjálpar okkur að smíða leysigeisla.
Þeir sem afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum á grundvelli þess að þær séu „bara kenning“ ættu væntanlega einnig að afneita öðrum viðteknum vísindakenningum, svo sem loftaflfræðinni sem gerir okkur kleift að fljúga milli landa.
Samkvæmt nýlegri rannsókn sem gerð var á Írlandi og í Bandaríkjunum virðist nokkur hluti almennings telja að meiri ágreiningur sé meðal loftslagsvísinda en loftslagsvísindafólk sjálft hefur orðið vart við, þar á meðal þegar kemur að þætti manna í loftslagsbreytingum.[9] Þessir þátttakendur voru einnig líklegri en vísindafólk sjálft til að líta svo á að ágreiningurinn sem þó er til staðar innan loftslagsvísinda, eins og í öllum öðrum vísindum, snúist um sjálfar rannsóknarniðurstöðurnar fremur en hvernig bregðast skuli við þeim á vettvangi stjórnmálanna. Aftur á móti töldu þessir þátttakendur að vísindafólk úr öðrum greinum en loftslagsvísindum, svo sem stjarneðlisfræði, sé sjaldnar ósammála um kenningar sínar en vísindafólkið telur sjálft. Þessir þátttakendur rannsóknarinnar höfðu því nokkuð brenglaða mynd af því hvaða afstöðu loftslagsvísindafólk tekur til loftslagsbreytinga af mannavöldum og hvers vegna það hefur tekið þessa afstöðu. Það má draga þá ályktun af þessum niðurstöðum að þótt almenningur neiti því almennt ekki að núverandi loftslagsbreytingar séu af mannavöldum, hafi umfjöllun fjölmiðla um efasemdafólk náð til eyrna almennings sem veldur þessari brengluðu mynd af afstöðu loftslagsvísindamanna. Þessa rannsókn þyrfti að endurtaka á Íslandi til þess að fá svör um hvort þetta eigi við hérlendis.
Margir fræðimenn telja að besta leiðin til að breyta viðhorfi almennings til loftslagsbreytinga af mannavöldum sé að leggja enn meiri áherslu á þá samstöðu sem gildir um efnið á meðal loftslagsvísindafólks.[10] Aðrir hafa bent á að besta leiðin til þess að breyta viðhorfi almennings sé að breyta stefnumótun stjórnvalda í þá átt að auðvelda fólki að lifa loftslagsvænna lífi, svo sem með ívilnunum, og viðhorf muni breytast í kjölfarið. Viðhorf eru nefnilega ekki góð forspá um hegðun, en þau breytast oft í kjölfar nýrrar hegðunar. Í rannsókn sem náði meðal annars til Íslendinga kom í ljós að fólk er almennt tilbúnara til þess að samþykkja stjórnvaldsaðgerðir gegn loftslagsbreytingum og breyta sinni eigin hegðun ef því er bent á jákvæðar hliðarverkanir slíkra aðgerða, svo sem hreinna loft, það átti við um þátttakendur rannsóknarinnar hvort sem það afneitaði loftslagsvísindum eða ekki.[11] Höfundar þeirrar rannsóknar ráðleggja því stjórnvöldum að einblína á mögulegan hliðar-ávinning (e. co-benefits) loftslagsaðgerða, þegar þau mæla fyrir sínum tillögum.
Tilvísanir:
Anderegg, W.R.L., Prall, J.W., Harold, J., og Schneider, S.H. 2010. “Expert Credibility in Climate Change.” Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America 107:12107-9.
Bain, P.G., Milfont, T.L., Kashima, Y., Bilewicz, M., Doron, G., Garðarsdóttir, R.B. o.fl. 2016. "How the Co-Benefits of Addressing Climate Change can Motivate Action Across the World." Nature: Climate Change6 6:154–157, doi:10.1038/nclimate2814.
Beebe, J.R., Baghramian, M., Drury, L., og Finnur Dellsén. 2019. Divergent Perspectives on Expert Disagreement. Environmental Communication 13: 35-50.
Cook, J., Nuccitelli, D., Green, S.A., Richardson, M., Winkler, B., Painting, R., Way, R., Jacobs, P., og Skuce, A. 2013. “Quantifying the Consensus on Anthropogenic Global Warming in the Scientific Literature.” Environmental Research Letters 8: 024024.
Cook, J., Oreskes, N., Doran, P.T., Anderegg, W.R.L., Verheggen, B., Maibach, Ed.W., Carlton, J.S., Lewandowsky, S., Skuce, A.G., Green, og Sarah A. 2016. “Consensus on Consensus: A Synthesis of Consensus Estimates on Human-Caused Global Warming.” Environmental Research Letters 11: 048002.
Dunlap, R.E., McCright, A.M. 2008. A Widening Gap: Republican and Democratic Views on Climate Change. Environment 50 (5), 26–35.
Hart, P.S. og Nisbet, E.C. 2012. Boomerang Effects in Science Communication: How Motivated Reasoning and Identity Cues Amplify Opinion Polarization about Climate Mitigation Policies. Communication Research, 39(6), 701-723.
Kahneman, D. 2003. Maps of Bounded Rationality: Psychology for Behavioral Economics. The American Economic Review, 93(5), 1449–1475.
Leviston, Z., Walker, I. og Morwinski, S. 2013. Your Opinion on Climate Change Might Not be as Common as You Think. Nature Climate Change, 3(4), 334.
Lewandowsky, S., Gignac, G.E. og Vaughan, S. The Pivotal Role of Perceived Ccientific Consensus in Acceptance of Science. Nature Climate Change 3:399-404.
Lewandowsky, S. Cook, J., og Lloyd, E. 2018. The Alice in Wonderland Mechanics of Rejection of (Climate) Science: Simulating Coherence by Conspiracism. Synthese, 195, 175-196.
McCright, A.M. og Dunlap, R.E. 2011. Cool Dudes: The Denial of Climate Change Among Conservative White Males in the United States. Global environmental change, 21(4), 1163-1172.
Michaels, D. 2008. Doubt is their Product. Oxford: Oxford University Press.
Milfont, T.L., Bain, P. G., Kashima, Y., Corral-Verdugo, V., Pasquali, C., Johansson, L., Guan, Y., Gouveia, V.V., Garðarsdóttir, R.B., Doron, G. o.fl. 2017. On the Relation Between Social Dominance Orientation and Environmentalism: A 25-Nation Study. Social Psychological and Personality Science.
Oreskes, N. 2004. “The Scientific Consensus on Climate Change.” Science 306: 1686.
van der Linden, S.L., A.A. Leiserowitz, G.D. Feinberg og E.W. Maibach. The Scientific Consensus on Climate Change as a Gateway Belief: Experimental Evidence. PLoS One 10: e0118489.
Oreskes, N. og Conway, E.M. 2010. Merchants of Doubt. New York: Bloomsbury Press.
Finnur Dellsén og Ragna B. Garðarsdóttir. „Hvers vegna afneita margir loftslagsbreytingum af mannavöldum?“ Vísindavefurinn, 9. desember 2019, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67714.
Finnur Dellsén og Ragna B. Garðarsdóttir. (2019, 9. desember). Hvers vegna afneita margir loftslagsbreytingum af mannavöldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67714
Finnur Dellsén og Ragna B. Garðarsdóttir. „Hvers vegna afneita margir loftslagsbreytingum af mannavöldum?“ Vísindavefurinn. 9. des. 2019. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67714>.