Aðeins ein uglutegund verpir reglulega hér á landi en það er branduglan (Asio flammeus). Tvær aðrar uglutegundir hafa þó einnig fundist hér; snæuglan (Bubo scandiacus) er hér tíður en óreglulegur gestur og verpir ekki að staðaldri og hreiður eyruglu (Asio otus) hefur fundist að minnsta kosti einu sinni, í skógrækt á Suðurlandi.
Í Íslenskum fuglavísi eftir Jóhann Óla Hilmarsson segir að branduglan verpi helst í lyngmóum, kjarri og graslendi, oft þar sem blautt er. Þrátt fyrir þessa lýsingu er branduglan þó langt frá því að vera bundin við ofangreind búsvæði því hreiður hennar hafa fundist víða, til dæmis á nýplægðum kornökrum.
Líkt og branduglan gerir snæuglan sér hreiður á jörðinni. Snæuglan er heimskautategund og verpir einkum á túndrusvæðum frá ströndum og allt upp í 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Snæuglan forðast hávaxinn gróður og kýs heldur að verpa á berangurslegum svæðum þar sem útsýni er gott og auðvelt er að koma auga á óvini eða bráð.

Snæuglan kýs að verpa á berangurslegum svæðum þar sem útsýni er gott.
- Getið þið sýnt mér myndir af öllum uglutegundum á Íslandi og þeim sem hafa komið hingað?
- Hvernig líta eyruglur út?
- Hvað geta uglur orðið gamlar? Í hvaða löndum lifa uglur?
- Jóhann Óli Hilmarsson. 2000. Íslenskur fuglavísir. Iðunn, Reykjavík.
- Wikimedia Commons: Asio flammeus
- Wikimedia Commons: Bubo scandiacus