Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig varð Sálumessa Mozarts til?

Árni Heimir Ingólfsson

Sálumessa Mozarts (K. 626) er síðasta verkið sem hann vann að og var ófullgerð þegar hann lést í desember 1791. Af öllum þeim sálumessum sem samdar voru á 18. öld nýtur verk Mozarts mestrar hylli. Hér nær list tónskáldsins að sumu leyti hápunkti sínum, en þó hefur hin óvenjulega tilurðarsaga verksins vafalaust kynt undir dulúðina sem því fylgir.

Sumarið 1791 kom ókunnur sendiboði að máli við Mozart og beiddist þess að hann semdi sálumessu, þó með því skilyrði að hann reyndi ekki að grennslast eftir því hver stæði á bak við pöntunina. Mozart tók beiðninni fegins hendi enda fjárþurfi mjög. Ekki kom í ljós fyrr en síðar hvernig í pottinn var búið. Í kastala einum í námunda við Vínarborg bjó ungur greifi að nafni Franz von Walsegg sem hafði orðið fyrir þeirri ógæfu að missa unga konu sína skömmu áður. Greifinn var einlægur áhugamaður um tónlist en ekki hreinlyndur að sama skapi. Hann hafði þann skrýtna sið að panta verk frá mikils metnum tónskáldum, endurrita þau síðan sjálfur og láta flytja þau sem sín eigin verk.

Einmitt þetta sama ár hafði nýr keisari, Leópold II, aflétt flestum þeim takmörkunum sem bróðir hans hafði áður lagt á umfang messutónlistar. Kannski hefur það einnig kynt undir áhuga Mozarts að hann var nú kominn með vilyrði fyrir stöðu dómorganista og í slíku starfi voru sálumessur nær daglegt brauð. En smíði verksins tafðist vegna anna við óperugerð og Mozart lést frá því óloknu. Hann hafði hugsað sér sálumessuna í fjórtán þáttum en aðeins tveir þeir fyrstu, Introitus og Kyrie, voru fullfrágengnir við lát hans. Þó hafði hann samið kórraddir að sjö þáttum til viðbótar og párað drög að hljómsveitarröddum hér og þar.

Síðustu stundir Mozarts, verk eftir ungverska málarann Mihály Munkácsy (1844-1900).

Frá grunni þurfti að semja fimm heila þætti til þess að hægt væri að standa við samninginn. Ekkjan Constanze var í fjárþröng og nú átti hún á hættu að kaupandinn neitaði greiðslu fyrir ófullgert verk. Því leitaði hún til vina og nemenda Mozarts í von um að einhver þeirra treysti sér til að ljúka við sálumessuna. Tónskáldið Joseph Eybler, einn af vinum Mozarts, bætti við hljómsveitarröddum í nokkrum köflum en gaf verkið síðan frá sér. Því var öðrum samstarfsmanni og nemanda Mozarts, Franz Xaver Süssmayr, falið að fullgera sálumessuna. Hann lauk við Lacrymosa-kaflann, sem Mozart hafði aðeins samið fram að níunda takti, og samdi frá grunni Sanctus/Benedictus og Agnus Dei. Ekkert er vitað um það hvort hann hafði skissur Mozarts sér við hönd en fræðimenn eru flestir þeirrar skoðunar að viðbætur Süssmayrs séu lakari að gæðum en aðrir hlutar verksins.

Líkt og í mörgum af síðustu verkum Mozarts eru barokkáhrif greinileg í Sálumessunni. Í upphafsþættinum vitnar Mozart bæði í gamlan útfararóð eftir Händel (The Ways of Zion Do Mourn) og ævafornt gregorskt sálmtón við texta um lofsöng í Síon, „Te decet hymnus, Deus, in Sion“. Kyrie eleison er tvöföld fúga um stef sem fengið er „að láni“ úr Dettingen-lofsöng Händels. Önnur fúga við orðin Quam olim Abrahae er frumsamin og sýnir afburða færni höfundarins í formi sem annars átti lítt upp á pallborðið hjá tónskáldum klassíska tímans. Þá er aðdáunarvert vald Mozarts á samspili tónlistar og texta. Í Confutatis maledictis sveiflast tónlistin milli andstæðra póla; ýmist er sungið um það þegar illgjörðarmenn eru lýstir bölvaðir (tenór og bassi í moll) eða beðið til Guðs um miskunn (sópran og alt í dúr).

Mozart vann að verkinu á dánarbeði sínum og eru frásagnir af því að hann hafi sungið kafla verksins ásamt vinum sínum skömmu fyrir andlátið. Þar kom Antonio Salieri þó hvergi nærri, en í kvikmyndinni Amadeus er áhrifaríkt atriði þar sem Mozart syngur kafla sálumessunnar og Salieri festir nóturnar á blað.

Mynd:

Höfundur

Árni Heimir Ingólfsson

tónlistarfræðingur

Útgáfudagur

11.11.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvernig varð Sálumessa Mozarts til?“ Vísindavefurinn, 11. nóvember 2014, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67844.

Árni Heimir Ingólfsson. (2014, 11. nóvember). Hvernig varð Sálumessa Mozarts til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67844

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvernig varð Sálumessa Mozarts til?“ Vísindavefurinn. 11. nóv. 2014. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67844>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig varð Sálumessa Mozarts til?
Sálumessa Mozarts (K. 626) er síðasta verkið sem hann vann að og var ófullgerð þegar hann lést í desember 1791. Af öllum þeim sálumessum sem samdar voru á 18. öld nýtur verk Mozarts mestrar hylli. Hér nær list tónskáldsins að sumu leyti hápunkti sínum, en þó hefur hin óvenjulega tilurðarsaga verksins vafalaust kynt undir dulúðina sem því fylgir.

Sumarið 1791 kom ókunnur sendiboði að máli við Mozart og beiddist þess að hann semdi sálumessu, þó með því skilyrði að hann reyndi ekki að grennslast eftir því hver stæði á bak við pöntunina. Mozart tók beiðninni fegins hendi enda fjárþurfi mjög. Ekki kom í ljós fyrr en síðar hvernig í pottinn var búið. Í kastala einum í námunda við Vínarborg bjó ungur greifi að nafni Franz von Walsegg sem hafði orðið fyrir þeirri ógæfu að missa unga konu sína skömmu áður. Greifinn var einlægur áhugamaður um tónlist en ekki hreinlyndur að sama skapi. Hann hafði þann skrýtna sið að panta verk frá mikils metnum tónskáldum, endurrita þau síðan sjálfur og láta flytja þau sem sín eigin verk.

Einmitt þetta sama ár hafði nýr keisari, Leópold II, aflétt flestum þeim takmörkunum sem bróðir hans hafði áður lagt á umfang messutónlistar. Kannski hefur það einnig kynt undir áhuga Mozarts að hann var nú kominn með vilyrði fyrir stöðu dómorganista og í slíku starfi voru sálumessur nær daglegt brauð. En smíði verksins tafðist vegna anna við óperugerð og Mozart lést frá því óloknu. Hann hafði hugsað sér sálumessuna í fjórtán þáttum en aðeins tveir þeir fyrstu, Introitus og Kyrie, voru fullfrágengnir við lát hans. Þó hafði hann samið kórraddir að sjö þáttum til viðbótar og párað drög að hljómsveitarröddum hér og þar.

Síðustu stundir Mozarts, verk eftir ungverska málarann Mihály Munkácsy (1844-1900).

Frá grunni þurfti að semja fimm heila þætti til þess að hægt væri að standa við samninginn. Ekkjan Constanze var í fjárþröng og nú átti hún á hættu að kaupandinn neitaði greiðslu fyrir ófullgert verk. Því leitaði hún til vina og nemenda Mozarts í von um að einhver þeirra treysti sér til að ljúka við sálumessuna. Tónskáldið Joseph Eybler, einn af vinum Mozarts, bætti við hljómsveitarröddum í nokkrum köflum en gaf verkið síðan frá sér. Því var öðrum samstarfsmanni og nemanda Mozarts, Franz Xaver Süssmayr, falið að fullgera sálumessuna. Hann lauk við Lacrymosa-kaflann, sem Mozart hafði aðeins samið fram að níunda takti, og samdi frá grunni Sanctus/Benedictus og Agnus Dei. Ekkert er vitað um það hvort hann hafði skissur Mozarts sér við hönd en fræðimenn eru flestir þeirrar skoðunar að viðbætur Süssmayrs séu lakari að gæðum en aðrir hlutar verksins.

Líkt og í mörgum af síðustu verkum Mozarts eru barokkáhrif greinileg í Sálumessunni. Í upphafsþættinum vitnar Mozart bæði í gamlan útfararóð eftir Händel (The Ways of Zion Do Mourn) og ævafornt gregorskt sálmtón við texta um lofsöng í Síon, „Te decet hymnus, Deus, in Sion“. Kyrie eleison er tvöföld fúga um stef sem fengið er „að láni“ úr Dettingen-lofsöng Händels. Önnur fúga við orðin Quam olim Abrahae er frumsamin og sýnir afburða færni höfundarins í formi sem annars átti lítt upp á pallborðið hjá tónskáldum klassíska tímans. Þá er aðdáunarvert vald Mozarts á samspili tónlistar og texta. Í Confutatis maledictis sveiflast tónlistin milli andstæðra póla; ýmist er sungið um það þegar illgjörðarmenn eru lýstir bölvaðir (tenór og bassi í moll) eða beðið til Guðs um miskunn (sópran og alt í dúr).

Mozart vann að verkinu á dánarbeði sínum og eru frásagnir af því að hann hafi sungið kafla verksins ásamt vinum sínum skömmu fyrir andlátið. Þar kom Antonio Salieri þó hvergi nærri, en í kvikmyndinni Amadeus er áhrifaríkt atriði þar sem Mozart syngur kafla sálumessunnar og Salieri festir nóturnar á blað.

Mynd:

...