
Á þessu grafi má lesa vindstyrk í metrum á sekúndu af lóðrétta ásnum út frá vindstigum á þeim lárétta, og öfugt.
Vindstigakerfið var ekki aðeins notað á Íslandi enda er ekki um íslenska uppfinningu að ræða. Á erlendum málum er kerfið kennt við frumkvöðul þess, breska flotaforingjann og haffræðinginn Francis Beaufort (1774 - 1857), og kallað Beaufort-kvarði. Árið 1806 setti Beaufort þennan kvarða fram og byggði hann þá á því hvaða segl væri hægt að hafa uppi við mismunandi vindstyrk. Þessum aðstæðum var lýst með tölum frá 0-12 sem kölluðust vindstig. Um 1860 var kvarðinn aðlagaður að landi og fékk þá nytjagildi fyrir landkrabba auk þess sem gildi á skalanum miðuðust við ákveðinn fjölda snúninga á vindmæli. Til er ákveðin formúla til að breyta vindstigum í metra á sekúndu og öfugt. Hún er þó ekki eins einföld og virðast kann við fyrstu sýn. Hins vegar má styðjast við það að upp að 6 vindstigum er jafnsterkur vindur í metrum á sekúndu aðeins minna en tvöfalt það vindstig sem á að breyta. Þannig eru 6 vindstig því sem næst 12 m/s og eftir það er styrkur í metrum á sekúndu aðeins meira en tvöföld tala vindstiganna. Þetta er þó ekki línulegt því að 12 vindstig eru um 34 m/s. Ef B er fjöldi vindstiga á kvarða Beauforts og V er vindhraðinn í metrum á sekúndu fást almenn vensl þessara talna með jöfnunni:
V2 = 0,699 B3Í stað þess að nota tölur til að lýsa vindstigum eru einnig notuð ákveðin orð fyrir ákveðinn vindstyrk. Þú hefur eflaust einhvern tímann heyrt í veðurfréttum talað um "stinningsgolu" eða "stinningskalda". Þessi orð þýða ákveðinn vindstyrk og má sjá stöðluð heiti vindstiga í töflunni hér á eftir ásamt vindhraða í metrum á sekúndu, kílómetrum á klukkustund og hnútum sem notaðir eru í siglingum (1 m/s = 3,6 km/klst = 1,944 hnútar):
heiti | vindstig | m/s | km/klst | hnútar |
---|---|---|---|---|
logn | 0 | 0 | 0 | 0 |
andvari | 1 | 0,8 | 3,0 | 1,6 |
kul | 2 | 2,4 | 8,5 | 4,6 |
gola | 3 | 4,3 | 15,6 | 8,4 |
stinningsgola | 4 | 6,7 | 24,1 | 13,0 |
kaldi | 5 | 9,3 | 33,6 | 18,2 |
stinningskaldi | 6 | 12,3 | 44,2 | 23,9 |
allhvass vindur | 7 | 15,5 | 55,7 | 30,1 |
hvassviðri | 8 | 18,9 | 68,1 | 36,8 |
stormur | 9 | 22,6 | 81,3 | 43,9 |
rok | 10 | 26,4 | 95,2 | 51,4 |
ofsaveður | 11 | 30,5 | 109,8 | 59,3 |
fárviðri | 12 | 34,8 | 125,1 | 67,6 |
- Af hverju er vindur? eftir Harald Ólafsson
- Af hverju blæs vindur í lægðum alltaf rangsælis á norðurhveli jarðar? eftir Harald Ólafsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Finnur maður fyrir hraða eða vindi úti í geimnum? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Beaufort-kvarðinn á Wikipedia, frjálsa alfræðiritinu.
- Vindhraði eftir Baldur Ragnarsson
- Graf: Vignir Már Lýðsson