Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvaðan er orðið skötuhjú komið?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Elsta dæmi um orðið skötuhjú í Ritmálsskrá Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er frá árinu 1898. Dæmið er úr tímaritinu Fjallkonunni og þar segir: "karl og kerling, einhver ljótustu skötuhjú, sem ég hefi séð á ævi minni."

Önnur dæmi í Ritmálsskránni benda til þess að skötuhjú hafi í fyrstu aðeins verið notað í neikvæðri merkingu. Skötuhjú komu saman til að spila og drekka, voru úrskurðuð sek af kviðdómi og í sögu eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson rithöfund (1918-1988) má til dæmis finna þetta: "Þessi skötuhjú! Þessi heimska kerlingarhlussa!"

Í dag hefur orðið skötuhjú ekki eins neikvæðan blæ. Að einhverju leyti stafar það af því að nú þykir ekki tiltökumál þótt karl og kona séu saman án þess að vera í hjúskap. Upprunalega var orðið skötuhjú yfirleitt haft um karl og konu sem voru ógift. Í dag getum við notað orðið skötuhjú um hvers kyns sambönd fólks. Í Ritmálsskránni er orðið til að mynda notað um samband tveggja leikara í bíómynd: "Danny DeVito leikstýrir skötuhjúunum Michael Douglas og Kathleen Turner".


Skatan er af undirflokki þvermunna. Hún heldur sig mjög við sjávarbotninn og er oft eins og hún liggi á honum.

Nokkur önnur orð eru mynduð eftir fisktegundinni skötu:
  • Skötufaldur er haft um ósaumaðan, trosnaðan eða skítugan fald, til dæmis á pilsi.
  • Skötulöpp er notað um druslulega konu sem er í trosnuðum fötum, það er að segja með skötufald.
  • Skötulíki er notað þegar slæmt ástand er á hlutunum og allt í ólestri. Þá er til dæmis sagt: "Allt er þetta í skötulíki."

Skatan kemur fyrir í nokkrum orðasamböndum. Þegar 'eitthvað skriplar á skötunni' þá mistekst það. 'Að vera eins og rifin og hundétin skata' er haft um þá sem eru rifnir og garmalegir og þegar menn 'liggja eins og skata' þá liggja þeir kylliflatir og letilega. Samkvæmt þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar er ein merking orðsins skata 'löt kona'.

Ástæðan fyrir orðmyndun eftir fisktegundinni skötu ættu að vera nokkuð augljósar. Orðin fá merkingu sína eftir þeim eiginleikum sem við eignum skötunni. Okkur finnst skatan vera hægfara, letilegur botnfiskur og ekkert sérstaklega fríð, auk þess sem hún er erfið til matar. Það er því auðvelt að tengja orð sem lýsa leti, dugleysi og einhverju ljótu og ókræsilegu við skötuheitið. Soðin skata minnir suma væntanlega á trosnaðan pilsfald.

En það er allt eins hægt að nota orðið skötuhjú á jákvæðan hátt og í hálfgerðu spaugi. Þegar við ávörpum par sem við þekkjum og segjum: "Jæja, höfðuð þið skötuhjúin það ekki notalegt um helgina?" þá er merkingin tilkomin vegna þess að okkur finnst skatan hægfara og róleg. Hún kann að njóta lífsins.

Mörg önnur orð sem flestir kannast við eru mynduð eftir dýrum og dýrategundum, eins og haukfránn, nautheimskur, bjarnargreiði, kattarþvotttur, hundslappadrífa, lúsiðinn og sauðmeinlaus, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

  • Íslensk orðabók, 3. útg., ritstj. Mörður Árnason. Reykjavík: Edda, 2002.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans, 1989.
  • Ritmálsskrá
  • Wikipedia.org

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

20.11.2007

Spyrjandi

Helgi Örn Gylfason

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvaðan er orðið skötuhjú komið?“ Vísindavefurinn, 20. nóvember 2007. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6916.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2007, 20. nóvember). Hvaðan er orðið skötuhjú komið? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6916

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvaðan er orðið skötuhjú komið?“ Vísindavefurinn. 20. nóv. 2007. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6916>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaðan er orðið skötuhjú komið?
Elsta dæmi um orðið skötuhjú í Ritmálsskrá Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er frá árinu 1898. Dæmið er úr tímaritinu Fjallkonunni og þar segir: "karl og kerling, einhver ljótustu skötuhjú, sem ég hefi séð á ævi minni."

Önnur dæmi í Ritmálsskránni benda til þess að skötuhjú hafi í fyrstu aðeins verið notað í neikvæðri merkingu. Skötuhjú komu saman til að spila og drekka, voru úrskurðuð sek af kviðdómi og í sögu eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson rithöfund (1918-1988) má til dæmis finna þetta: "Þessi skötuhjú! Þessi heimska kerlingarhlussa!"

Í dag hefur orðið skötuhjú ekki eins neikvæðan blæ. Að einhverju leyti stafar það af því að nú þykir ekki tiltökumál þótt karl og kona séu saman án þess að vera í hjúskap. Upprunalega var orðið skötuhjú yfirleitt haft um karl og konu sem voru ógift. Í dag getum við notað orðið skötuhjú um hvers kyns sambönd fólks. Í Ritmálsskránni er orðið til að mynda notað um samband tveggja leikara í bíómynd: "Danny DeVito leikstýrir skötuhjúunum Michael Douglas og Kathleen Turner".


Skatan er af undirflokki þvermunna. Hún heldur sig mjög við sjávarbotninn og er oft eins og hún liggi á honum.

Nokkur önnur orð eru mynduð eftir fisktegundinni skötu:
  • Skötufaldur er haft um ósaumaðan, trosnaðan eða skítugan fald, til dæmis á pilsi.
  • Skötulöpp er notað um druslulega konu sem er í trosnuðum fötum, það er að segja með skötufald.
  • Skötulíki er notað þegar slæmt ástand er á hlutunum og allt í ólestri. Þá er til dæmis sagt: "Allt er þetta í skötulíki."

Skatan kemur fyrir í nokkrum orðasamböndum. Þegar 'eitthvað skriplar á skötunni' þá mistekst það. 'Að vera eins og rifin og hundétin skata' er haft um þá sem eru rifnir og garmalegir og þegar menn 'liggja eins og skata' þá liggja þeir kylliflatir og letilega. Samkvæmt þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar er ein merking orðsins skata 'löt kona'.

Ástæðan fyrir orðmyndun eftir fisktegundinni skötu ættu að vera nokkuð augljósar. Orðin fá merkingu sína eftir þeim eiginleikum sem við eignum skötunni. Okkur finnst skatan vera hægfara, letilegur botnfiskur og ekkert sérstaklega fríð, auk þess sem hún er erfið til matar. Það er því auðvelt að tengja orð sem lýsa leti, dugleysi og einhverju ljótu og ókræsilegu við skötuheitið. Soðin skata minnir suma væntanlega á trosnaðan pilsfald.

En það er allt eins hægt að nota orðið skötuhjú á jákvæðan hátt og í hálfgerðu spaugi. Þegar við ávörpum par sem við þekkjum og segjum: "Jæja, höfðuð þið skötuhjúin það ekki notalegt um helgina?" þá er merkingin tilkomin vegna þess að okkur finnst skatan hægfara og róleg. Hún kann að njóta lífsins.

Mörg önnur orð sem flestir kannast við eru mynduð eftir dýrum og dýrategundum, eins og haukfránn, nautheimskur, bjarnargreiði, kattarþvotttur, hundslappadrífa, lúsiðinn og sauðmeinlaus, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

  • Íslensk orðabók, 3. útg., ritstj. Mörður Árnason. Reykjavík: Edda, 2002.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans, 1989.
  • Ritmálsskrá
  • Wikipedia.org...