Grænland er 2.166.086 km2 að flatarmáli. Þar af hylur ís 1.755.637 km2 eða rúmlega 80% af landinu. Til samanburðar má geta þess að jöklar á Íslandi eru um 10% af flatarmáli landsins.
Grænlandsjökull er önnur stærsta jökulbreiða heims á eftir Suðurskautsjöklinum. Jökullinn er um 2.400 km langur frá norðri til suðurs og mesta breidd hans er næstum 1.100 km. Þar sem jökullinn er þykkastur er hann um 3 km en meðalþykktin er um 1,5 km. Vegna þess hve íshellan er þung pressar hún landið niður þannig að undir miðjum jöklinum er landið um 300 m undir sjávarmáli.
Vegna hlýnunar jarðar er Grænlandsjökull að bráðna eins og aðrir jöklar. Vísindamenn eru ekki á einu máli um hversu hratt jökullinn bráðnar eða hvenær hann gæti hugsanlega verið horfinn, en ljóst er að áhrifin af bráðnun hans verða mikil. Ef allur jökullinn bráðnar er talið að sjávarborð geti hækkað um allt að 7 metra. Það er meira en nóg til þess að færa margar fjölmennar borgir sem standa við sjóinn í kaf.
Auk þess mundi landið undir jöklinum og í kringum hann rísa ef hann hyrfi. Slíkar hreyfingar hafa meðal annars verið mældar kringum íslenska jökla eins og Vatnajökul. Þær stafa af því að landið flýtur á kvikunni sem er undir og flotjafnvægið breytist þegar jökullinn fer, rétt eins og þegar skip hækkar í vatni eða sjó þegar farmurinn minnkar.
Á Vísindavefnum er hægt að lesa meira bæði um Grænland og um jökla, til dæmis í svörum við spurningunum:
- Ef allir jöklar og bæði heimskautin mundu bráðna, hve mikið mundi sjávarborð þá hækka?
- Er alltaf jafnmikið vatn í höfunum, þó svo að jöklar bráðni, það rigni eða vatn gufi upp?
- Hve stór hluti landsins er hulinn jöklum?
- Hvað gerist þegar jöklar hopa?
- Hvað er Grænland stór hluti af jörðinni?
- Af hverju er Ástralía meginland en Grænland eyja?
- Norden
- Wikipedia: Grænland
- Wikipedia: Greenland ice sheet
- CIA - The World Factbook
- Nat Norðurferðir
- Mynd: NASA
Þetta svar er eftir nemanda á námskeiði sem haldið var í júnímánuði 2007 á vegum Háskólaseturs Vestfjarða fyrir ungmenni á aldrinum 12-16 ára.