Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað eru íþróttir og hvað skilgreinir þær?

Viðar Halldórsson

Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvað er það sem Íþróttasamband Íslands tekur tillit til þegar það leyfir / viðurkennir íþróttir?

Skilgreining íþrótta er ekki náttúrulega gefin staðreynd, heldur ræðst hún af sögulegum, félagslegum, menningarlegum og pólitískum forsendum á hverjum stað á hverjum tíma. Það er því ekki til einfalt svar við því hvað eigi að teljast til íþrótta og hvað ekki, svarið veltur á því hvar og hvenær spurningin er borin fram.

Íþróttir voru ekki skilgreindar sérstaklega fyrr en á síðari hluta 19. aldar. Fram að þeim tíma voru stundaðir ýmsir leikir sem fólu í sér einhvers konar keppni, hreyfingu og/eða skemmtun, sem við í dag lítum á sem íþróttir þess tíma. Áður fyrr var þó oftast ekki gerður sérstakur greinarmunur á íþróttum og daglegum leik og störfum.[1] Með tilkomu nútímaíþrótta á síðari hluta 19. aldar var farið að skilgreina hvað ætti að flokkast sem íþróttir og hvað ekki.[2]

Nokkrir alþjóðlegir aðilar, eins og GAISF (e. Global Association of International Sport Federations) og Alþjóðlega Ólympíunefndin (e. International Olympic Committee), leggja almennar línur í skilgreiningu á nútímaíþróttum. Íþróttasambönd þjóða horfa gjarnan til ofangreindra aðila til að skilgreina íþróttir. Hér á landi lítum við einnig sérstaklega til íþróttasambanda annarra Norðurlandaþjóða og fylgjum gjarnan fordæmi þeirra til að ná utan um hugtakið íþróttir. Það er (og hefur) þó ekki verið samhugur um eina allsherjar skilgreiningu á íþróttum á milli mismunandi landa og menningarheima.

Íþróttir fela í sér líkamlega áreynslu, sem byggir á líkamshreysti og/eða líkamsfærni.

Í alþjóðlegu samhengi hefur þó gjarnan verið litið til nokkurra lykilþátta þegar íþróttir eru skigreindar. Hin klassíska skilgreining á íþróttum byggir fyrst og fremst á eftirtöldum þáttum:[3]
  1. Íþróttir fela í sér líkamlega áreynslu, sem byggir á líkamshreysti og/eða líkamsfærni (e. physical exertion and/or physical skills).
  2. Íþróttir fela í sér keppni (e. competitive).
  3. Keppni í íþróttum er háð á stofnanabundnum vettvangi (e. institutional). Íþróttin þarf, með öðrum orðum, að vera undir forsjá ábyrga samtaka, sem til að mynda setja sameiginlegar reglur fyrir íþróttina, koma að uppbyggingu námskrár varðandi þjálfun og menntun, sinna eftirlitshlutverki og standa fyrir mótahaldi.

Það fylgir klassísku skilgreiningunni að íþróttir ná fyrst og fremst yfir mannlegt athæfi (e. human activity), og geta hvort sem er verið stundaðar sem leikur (e. play) eða sem vinna (e. work).[4]

Samkvæmt klassískri skilgreiningu fela íþróttir í sér keppni.

Við þessa almennu og hefðbundnu skilgreiningu á lykilþáttum íþrótta má svo bæta frekari kröfum sem gerðar eru til íþrótta víða um heim. Til dæmis:
  1. að íþróttir séu almennt uppbyggilegar og stuðli að líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði þátttakenda, en leggi ekki einungis áherslu á að auka íþróttalega færni iðkenda (þessi krafa er til dæmis áberandi hér á landi[5]).
  2. að athæfið sé í almannaeigu. Með öðrum orðum þá getur fyrirtæki á markaði ekki átt íþróttina sjálfa, þó svo að fyrirtæki geti átt rétt á að standa fyrir keppnishaldi í íþróttinni.

Að þessu sögu er við hæfi að setja fram eftirfarandi skilgreiningu á íþróttum, sem birtist í Íþróttasáttmála Evrópuráðsins (e. Council of Europe), sem margir líta til, en skilgreiningin inniheldur marga af þeim þáttum sem minnst er á hér að ofan:
„Íþróttir” eru fjölbreytt form af líkamlegu athæfi, sem í gegnum sjálfsprottna eða skipulagða þátttöku, hafa það að markmiði að bæta og styrkja líkamlegt atgervi og andlega heilsu, byggja upp félagsleg tengsl, eða að ná úrslitum í keppni, á öllum stigum.[6]

Íþróttir á Íslandi

Formlegt íþróttastarf á Íslandi lýtur íþróttalögum ríkisins. Samkvæmt 1. grein íþróttalaganna þá merkja íþróttir „hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti”.[7] Skilgreining ríkisins á íþróttum byggir þannig á þeirri grunnforsendu að heilbrigði iðkenda aukist með þeirri líkamlegu þjálfun sem felst í ástundun athæfisins sjálfs. Það er sérstaklega tekið fram í íþróttalögunum að skilgreiningin taki ekki til íþróttaiðkunar sem fram fer á heilbrigðisstofnunum eða heilsuræktarstöðvum, sem gefur til kynna að lögin horfi fyrst og fremst til keppnisíþrótta fremur en til almenningsíþrótta (almenn líkams- og heilsurækt heyrir þannig undir heilbrigðismál frekar en íþróttamál). Skilgreining ríkisins á íþróttum myndar lagalegan grunn fyrir allt formlegt íþróttastarf á Íslandi.

Íþróttastarfsemin í landinu byggist á frjálsu framtaki landsmanna, en er stýrt af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) sem æðsta aðila slíkrar starfsemi. ÍSÍ skilgreinir íþróttir enn frekar sem „ástundun líkamlegrar þjálfunar til keppni og heilsuræktar”[8] og gengur skilgreining ÍSÍ því lengra en íþróttalögin í þá átt að íþróttir feli í sér keppni. Þær íþróttagreinar sem hafa formlega skilgreiningu sem íþróttir á Íslandi af hálfu ÍSÍ hverju sinni má sjá hér: ÍSÍ.is - Sérsambönd. Samkvæmt íþróttalögunum þá getur ÍSÍ ekki skilgreint athæfi sem íþrótt sem ekki rúmast innan skilgreiningar laganna.

Ágreiningur um hvað telst til íþrótta

Að þessu sögðu þá getur verið álitamál hvað eigi að flokka sem íþróttir og hvað ekki. Til dæmis, hversu mikillar líkamlegrar áreynslu er krafist í íþróttum? Fela ballskák, pílukast, skák og rafleikir/rafíþróttir, til að mynda, í sér einhverja, eða nægjanlega, líkamlega áreynslu til að stuðla að líkamlegu heilbrigði iðkenda og geta þannig talist til íþrótta? Sambærilegrar spurningar má spyrja um kappakstur og hestamennsku, þar sem keppnislegur árangur í þeim greinum byggir að einhverju leyti á gæðum bíls og hests, en ekki einungis á líkamlegu atgervi og færni keppenda. Enn fremur má spyrja hvort bardagagreinar, eins og til dæmis hnefaleikar og blandaðar baradagalistir (MMA/UFC), geti talist til íþrótta, þar sem einn tilgangur þeirra er að valda andstæðingnum líkamlegum skaða með rothöggi? Slíkt gengur augljóslega gegn áherslu á að íþróttir eigi að stuðla að líkamlegu heilbrigði iðkenda. Og svo má að lokum spyrja hvort CrossFit geti talist til íþrótta, þar sem CrossFit Inc. er skráð vörumerki fyrirtækis en ekki íþróttagrein í almannaeigu – sem leiðir af sér að keppni í CrossFit er ávallt bundin leyfi frá fyrirtækinu sem á einkaleyfið.

Rafíþróttir hafa fengið aukna athygli síðustu misseri.

Allt eru þetta spurningar sem tekist er á um víða um heim. Sitt sýnist hverjum og er æði misjafnt eftir löndum hvort ofantaldar greinar eru formlega skilgreindar sem íþróttir eða ekki. Ástæður þess, eins og fram hefur komið, byggja á ólíkum sögulegum, félagslegum, menningarlegum og/eða pólitískum forsendum á hverjum stað á hverjum tíma.

Skiptir máli hvort athæfi sé skilgreint sem íþrótt eða ekki?

Að lokum er er rétt að benda á að það getur verið mikill fjárhagslegur og ímyndarlegur ávinningur fyrir ýmis konar iðkanir, sem eru jafnan ekki taldar til íþrótta, að fá slíka skilgreiningu. Með því að hljóta opinbera viðurkenningu sem íþrótt þá kemst athæfið inn í styrkjakerfi íþróttahreyfingarinnar, og fær þá aðgang að opinberum sjóðum og þjónustu ríkis og sveitarfélaga, sem og að það verður líklegra til að öðlast samfélagslega viðurkenningu um að það sé heilbrigt og uppbyggilegt og heppilegur vettvangur fyrir börn og ungmenni – eins og almennt er talið að íþróttir eigi að vera. Hvort tveggja getur styrkt stöðu viðkomandi athæfis í samkeppni við aðra iðkun og aðrar íþróttir, og styrkt vöxt þess og afl. Það er því umtalsverður ávinningur fyrir athæfi sem ekki telst til íþrótta að hljóta viðurkenningu opinberra aðila sem íþrótt og oft sótt fast að slíkt athæfi öðlist þessa formlegu skilgreiningu.

Það er enn fremur háð tíðaranda hvers tíma hvaða athæfi krafa er um að fái opinbera skilgreiningu sem íþrótt hverju sinni. Íþróttaskilgreiningin er því í eðli sínu íhaldssöm, þar sem almennt er talið að hún eigi ekki að stjórnast af tímabundnum tískustraumum sem geti í framhaldinu skapað óæskileg fordæmi og útvatnað grunnskilgreiningu íþrótta. Á hinn bóginn breytast og þróast hugmyndir fólks alltaf með tímanum og nýjar kynslóðir líta stundum öðrum augum á það hvað telst til íþrótta, heldur en fyrri kynslóðir.

Tíðarandinn breytist og íþróttirnar með. Íþróttahugtakið er því í stöðugri þróun og enginn veit með vissu hvað verður skilgreint sem íþrótt eftir 10, 30 eða 50 ár, ekki frekar en fólk vissi fyrir 50 árum hvað mundi flokkast undir íþróttir í dag. Þetta verður tíminn að leiða í ljós. Sagan segir okkur þó að það verður ekki endilega samhugur um hvað verður skilgreint sem íþróttir í framtíðinni, ekki frekar en í dag.

Tilvísanir:
  1. ^ Coakley, J. & Pike, E. (2009). Sport in Society: Issues and controversies. London: McGraw-Hill; Thorlindsson, T. & Halldorsson, V. (2019). The roots of Icelandic physical culture and sport in the Saga Age. Í R. Giulianotti, F. Telseth & M.B. Tin (ritstj.) The Nordic Model and Physical Culture, bls. 101-116. London: Routledge.
  2. ^ Guttmann, A. (2004). From Ritual to Record: The nature of modern sports. New York: Columbia University Press.
  3. ^ Coakley, J. & Pike, E. (2009). Sport in Society: Issues and controversies. London: McGraw-Hill.
  4. ^ Barthes, R. ([1957]/2007). What is Sport? New Haven: Yale University Press; Elias, N. & Dunning, E. (1986). The Quest for Excitement: Sport and leisure n the civilising process. Oxford: Blackwell. Huizinga, J. ([1938]/1971). Homo Ludens: A study of the play-element in culture. London: Paladin; McKibbin, R. (2011). Sports history: Status, defintion and meanings. Sports in History, (31(2): 167-174; Parry, J. (2019). E-sports are not sports. Sport, Ethics and Philosophy, 13(1): 3-18; Woods, R.B. (2011). Social Issues in Sport. Champaign Il: Human Kinetics.
  5. ^ Viðar Halldórsson (2014). Íþróttaþátttaka íslenskra ungmenna: Þróun íþróttaþátttöku og greining á félagslegum áhrifaþáttum. Netla: Veftímarit um Uppeldi og Menntun.
  6. ^ Council of Europe ([1992]/2001). Recommendation No. R (92) 13 REV of the Committee of Ministers to Member States on the revised European Sports Charter.
  7. ^ Stjórnarráð Íslands (1998). Íþróttalög. Nr. 64, 12. júní.
  8. ^ Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (2019). Lög Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Myndir:

  • Viðar Halldórsson.

Höfundur

Viðar Halldórsson

prófessor í félagsfræði við HÍ

Útgáfudagur

23.8.2021

Spyrjandi

Rakel Ósk Sigurðardóttir, Ellert Blær, Jóel Fjalarsson

Tilvísun

Viðar Halldórsson. „Hvað eru íþróttir og hvað skilgreinir þær?“ Vísindavefurinn, 23. ágúst 2021. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69273.

Viðar Halldórsson. (2021, 23. ágúst). Hvað eru íþróttir og hvað skilgreinir þær? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69273

Viðar Halldórsson. „Hvað eru íþróttir og hvað skilgreinir þær?“ Vísindavefurinn. 23. ágú. 2021. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69273>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru íþróttir og hvað skilgreinir þær?
Hér er einnig svarað spurningunni:

Hvað er það sem Íþróttasamband Íslands tekur tillit til þegar það leyfir / viðurkennir íþróttir?

Skilgreining íþrótta er ekki náttúrulega gefin staðreynd, heldur ræðst hún af sögulegum, félagslegum, menningarlegum og pólitískum forsendum á hverjum stað á hverjum tíma. Það er því ekki til einfalt svar við því hvað eigi að teljast til íþrótta og hvað ekki, svarið veltur á því hvar og hvenær spurningin er borin fram.

Íþróttir voru ekki skilgreindar sérstaklega fyrr en á síðari hluta 19. aldar. Fram að þeim tíma voru stundaðir ýmsir leikir sem fólu í sér einhvers konar keppni, hreyfingu og/eða skemmtun, sem við í dag lítum á sem íþróttir þess tíma. Áður fyrr var þó oftast ekki gerður sérstakur greinarmunur á íþróttum og daglegum leik og störfum.[1] Með tilkomu nútímaíþrótta á síðari hluta 19. aldar var farið að skilgreina hvað ætti að flokkast sem íþróttir og hvað ekki.[2]

Nokkrir alþjóðlegir aðilar, eins og GAISF (e. Global Association of International Sport Federations) og Alþjóðlega Ólympíunefndin (e. International Olympic Committee), leggja almennar línur í skilgreiningu á nútímaíþróttum. Íþróttasambönd þjóða horfa gjarnan til ofangreindra aðila til að skilgreina íþróttir. Hér á landi lítum við einnig sérstaklega til íþróttasambanda annarra Norðurlandaþjóða og fylgjum gjarnan fordæmi þeirra til að ná utan um hugtakið íþróttir. Það er (og hefur) þó ekki verið samhugur um eina allsherjar skilgreiningu á íþróttum á milli mismunandi landa og menningarheima.

Íþróttir fela í sér líkamlega áreynslu, sem byggir á líkamshreysti og/eða líkamsfærni.

Í alþjóðlegu samhengi hefur þó gjarnan verið litið til nokkurra lykilþátta þegar íþróttir eru skigreindar. Hin klassíska skilgreining á íþróttum byggir fyrst og fremst á eftirtöldum þáttum:[3]
  1. Íþróttir fela í sér líkamlega áreynslu, sem byggir á líkamshreysti og/eða líkamsfærni (e. physical exertion and/or physical skills).
  2. Íþróttir fela í sér keppni (e. competitive).
  3. Keppni í íþróttum er háð á stofnanabundnum vettvangi (e. institutional). Íþróttin þarf, með öðrum orðum, að vera undir forsjá ábyrga samtaka, sem til að mynda setja sameiginlegar reglur fyrir íþróttina, koma að uppbyggingu námskrár varðandi þjálfun og menntun, sinna eftirlitshlutverki og standa fyrir mótahaldi.

Það fylgir klassísku skilgreiningunni að íþróttir ná fyrst og fremst yfir mannlegt athæfi (e. human activity), og geta hvort sem er verið stundaðar sem leikur (e. play) eða sem vinna (e. work).[4]

Samkvæmt klassískri skilgreiningu fela íþróttir í sér keppni.

Við þessa almennu og hefðbundnu skilgreiningu á lykilþáttum íþrótta má svo bæta frekari kröfum sem gerðar eru til íþrótta víða um heim. Til dæmis:
  1. að íþróttir séu almennt uppbyggilegar og stuðli að líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði þátttakenda, en leggi ekki einungis áherslu á að auka íþróttalega færni iðkenda (þessi krafa er til dæmis áberandi hér á landi[5]).
  2. að athæfið sé í almannaeigu. Með öðrum orðum þá getur fyrirtæki á markaði ekki átt íþróttina sjálfa, þó svo að fyrirtæki geti átt rétt á að standa fyrir keppnishaldi í íþróttinni.

Að þessu sögu er við hæfi að setja fram eftirfarandi skilgreiningu á íþróttum, sem birtist í Íþróttasáttmála Evrópuráðsins (e. Council of Europe), sem margir líta til, en skilgreiningin inniheldur marga af þeim þáttum sem minnst er á hér að ofan:
„Íþróttir” eru fjölbreytt form af líkamlegu athæfi, sem í gegnum sjálfsprottna eða skipulagða þátttöku, hafa það að markmiði að bæta og styrkja líkamlegt atgervi og andlega heilsu, byggja upp félagsleg tengsl, eða að ná úrslitum í keppni, á öllum stigum.[6]

Íþróttir á Íslandi

Formlegt íþróttastarf á Íslandi lýtur íþróttalögum ríkisins. Samkvæmt 1. grein íþróttalaganna þá merkja íþróttir „hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti”.[7] Skilgreining ríkisins á íþróttum byggir þannig á þeirri grunnforsendu að heilbrigði iðkenda aukist með þeirri líkamlegu þjálfun sem felst í ástundun athæfisins sjálfs. Það er sérstaklega tekið fram í íþróttalögunum að skilgreiningin taki ekki til íþróttaiðkunar sem fram fer á heilbrigðisstofnunum eða heilsuræktarstöðvum, sem gefur til kynna að lögin horfi fyrst og fremst til keppnisíþrótta fremur en til almenningsíþrótta (almenn líkams- og heilsurækt heyrir þannig undir heilbrigðismál frekar en íþróttamál). Skilgreining ríkisins á íþróttum myndar lagalegan grunn fyrir allt formlegt íþróttastarf á Íslandi.

Íþróttastarfsemin í landinu byggist á frjálsu framtaki landsmanna, en er stýrt af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) sem æðsta aðila slíkrar starfsemi. ÍSÍ skilgreinir íþróttir enn frekar sem „ástundun líkamlegrar þjálfunar til keppni og heilsuræktar”[8] og gengur skilgreining ÍSÍ því lengra en íþróttalögin í þá átt að íþróttir feli í sér keppni. Þær íþróttagreinar sem hafa formlega skilgreiningu sem íþróttir á Íslandi af hálfu ÍSÍ hverju sinni má sjá hér: ÍSÍ.is - Sérsambönd. Samkvæmt íþróttalögunum þá getur ÍSÍ ekki skilgreint athæfi sem íþrótt sem ekki rúmast innan skilgreiningar laganna.

Ágreiningur um hvað telst til íþrótta

Að þessu sögðu þá getur verið álitamál hvað eigi að flokka sem íþróttir og hvað ekki. Til dæmis, hversu mikillar líkamlegrar áreynslu er krafist í íþróttum? Fela ballskák, pílukast, skák og rafleikir/rafíþróttir, til að mynda, í sér einhverja, eða nægjanlega, líkamlega áreynslu til að stuðla að líkamlegu heilbrigði iðkenda og geta þannig talist til íþrótta? Sambærilegrar spurningar má spyrja um kappakstur og hestamennsku, þar sem keppnislegur árangur í þeim greinum byggir að einhverju leyti á gæðum bíls og hests, en ekki einungis á líkamlegu atgervi og færni keppenda. Enn fremur má spyrja hvort bardagagreinar, eins og til dæmis hnefaleikar og blandaðar baradagalistir (MMA/UFC), geti talist til íþrótta, þar sem einn tilgangur þeirra er að valda andstæðingnum líkamlegum skaða með rothöggi? Slíkt gengur augljóslega gegn áherslu á að íþróttir eigi að stuðla að líkamlegu heilbrigði iðkenda. Og svo má að lokum spyrja hvort CrossFit geti talist til íþrótta, þar sem CrossFit Inc. er skráð vörumerki fyrirtækis en ekki íþróttagrein í almannaeigu – sem leiðir af sér að keppni í CrossFit er ávallt bundin leyfi frá fyrirtækinu sem á einkaleyfið.

Rafíþróttir hafa fengið aukna athygli síðustu misseri.

Allt eru þetta spurningar sem tekist er á um víða um heim. Sitt sýnist hverjum og er æði misjafnt eftir löndum hvort ofantaldar greinar eru formlega skilgreindar sem íþróttir eða ekki. Ástæður þess, eins og fram hefur komið, byggja á ólíkum sögulegum, félagslegum, menningarlegum og/eða pólitískum forsendum á hverjum stað á hverjum tíma.

Skiptir máli hvort athæfi sé skilgreint sem íþrótt eða ekki?

Að lokum er er rétt að benda á að það getur verið mikill fjárhagslegur og ímyndarlegur ávinningur fyrir ýmis konar iðkanir, sem eru jafnan ekki taldar til íþrótta, að fá slíka skilgreiningu. Með því að hljóta opinbera viðurkenningu sem íþrótt þá kemst athæfið inn í styrkjakerfi íþróttahreyfingarinnar, og fær þá aðgang að opinberum sjóðum og þjónustu ríkis og sveitarfélaga, sem og að það verður líklegra til að öðlast samfélagslega viðurkenningu um að það sé heilbrigt og uppbyggilegt og heppilegur vettvangur fyrir börn og ungmenni – eins og almennt er talið að íþróttir eigi að vera. Hvort tveggja getur styrkt stöðu viðkomandi athæfis í samkeppni við aðra iðkun og aðrar íþróttir, og styrkt vöxt þess og afl. Það er því umtalsverður ávinningur fyrir athæfi sem ekki telst til íþrótta að hljóta viðurkenningu opinberra aðila sem íþrótt og oft sótt fast að slíkt athæfi öðlist þessa formlegu skilgreiningu.

Það er enn fremur háð tíðaranda hvers tíma hvaða athæfi krafa er um að fái opinbera skilgreiningu sem íþrótt hverju sinni. Íþróttaskilgreiningin er því í eðli sínu íhaldssöm, þar sem almennt er talið að hún eigi ekki að stjórnast af tímabundnum tískustraumum sem geti í framhaldinu skapað óæskileg fordæmi og útvatnað grunnskilgreiningu íþrótta. Á hinn bóginn breytast og þróast hugmyndir fólks alltaf með tímanum og nýjar kynslóðir líta stundum öðrum augum á það hvað telst til íþrótta, heldur en fyrri kynslóðir.

Tíðarandinn breytist og íþróttirnar með. Íþróttahugtakið er því í stöðugri þróun og enginn veit með vissu hvað verður skilgreint sem íþrótt eftir 10, 30 eða 50 ár, ekki frekar en fólk vissi fyrir 50 árum hvað mundi flokkast undir íþróttir í dag. Þetta verður tíminn að leiða í ljós. Sagan segir okkur þó að það verður ekki endilega samhugur um hvað verður skilgreint sem íþróttir í framtíðinni, ekki frekar en í dag.

Tilvísanir:
  1. ^ Coakley, J. & Pike, E. (2009). Sport in Society: Issues and controversies. London: McGraw-Hill; Thorlindsson, T. & Halldorsson, V. (2019). The roots of Icelandic physical culture and sport in the Saga Age. Í R. Giulianotti, F. Telseth & M.B. Tin (ritstj.) The Nordic Model and Physical Culture, bls. 101-116. London: Routledge.
  2. ^ Guttmann, A. (2004). From Ritual to Record: The nature of modern sports. New York: Columbia University Press.
  3. ^ Coakley, J. & Pike, E. (2009). Sport in Society: Issues and controversies. London: McGraw-Hill.
  4. ^ Barthes, R. ([1957]/2007). What is Sport? New Haven: Yale University Press; Elias, N. & Dunning, E. (1986). The Quest for Excitement: Sport and leisure n the civilising process. Oxford: Blackwell. Huizinga, J. ([1938]/1971). Homo Ludens: A study of the play-element in culture. London: Paladin; McKibbin, R. (2011). Sports history: Status, defintion and meanings. Sports in History, (31(2): 167-174; Parry, J. (2019). E-sports are not sports. Sport, Ethics and Philosophy, 13(1): 3-18; Woods, R.B. (2011). Social Issues in Sport. Champaign Il: Human Kinetics.
  5. ^ Viðar Halldórsson (2014). Íþróttaþátttaka íslenskra ungmenna: Þróun íþróttaþátttöku og greining á félagslegum áhrifaþáttum. Netla: Veftímarit um Uppeldi og Menntun.
  6. ^ Council of Europe ([1992]/2001). Recommendation No. R (92) 13 REV of the Committee of Ministers to Member States on the revised European Sports Charter.
  7. ^ Stjórnarráð Íslands (1998). Íþróttalög. Nr. 64, 12. júní.
  8. ^ Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (2019). Lög Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Myndir:

  • Viðar Halldórsson.

...