
Vönduð plasmasjónvarpstæki hafa venjulega mjög góð birtuskil og eru betri en LCD-sjónvörpin að þessu leyti. Í LCD-sjónvörpum er stöðug baklýsing sem þarf að útiloka til að fá fram svarta litinn. Ef þetta er ekki gert nægilega vel er afleiðingin sú að svarti liturinn verður ekki svartur heldur gráleitur eða jafnvel bláleitur, myndin glatar dýpt og verður ekki eins eðlileg. Að auki getur virst eins og móða sé yfir myndinni. LCD-sjónvörp hafa engu að síður batnað verulega að þessu leyti á síðustu misserum. Þegar birtuskilin eru skoðuð er gott að hafa í huga að tölurnar segja ekki alla söguna. Tvö tæki með birtuskil 15000:1 eru ekki endilega sambærileg þar sem skilatalan er tengd heildarbirtu tækisins. Ef sjónvarp er mjög bjart getur það framkallað mjög bjartan hvítan lit og birtuskilin þannig fengið mjög hátt gildi en samt haft gráan eða bláan svartan lit. Að auki má hafa í huga að ólík tæki geta ef til vill sýnt ólíkan fjölda lita milli þess dekksta og bjartasta. Þannig getur dökkgrár veggur í kvikmynd verið einlitur í einu tæki en verið sýnilega mislitur í öðru. Besta leiðin til að meta myndgæðin er að horfa með eigin augum og bera saman sjónvarpstæki. Stillimyndir eru meðal annars hannaðar til að hægt sé að bera saman birtuskil og upplausn í mismunandi tækjum. Mynd í sjónvarpi með mikil birtuskil hefur eðlilegri liti og þar skara góð plasmasjónvörp oftar en ekki fram úr. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um LCD- og plasmasjónvörp:
- Hvort eyðir LCD- eða plasmasjónvarp meira rafmagni og hversu miklu rafmagni eyða þau? eftir Sævar Helga Bragason.
- Hvað eru LCD- og plasmasjónvörp? eftir Sævar Helga Bragason og Kristján Leósson.