Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Með svartíma (e. response time) er átt við þann tíma sem líður frá því að einn díl (pixel) á skjá er óvirkur (svartur) þar til hann verður virkur (hvítur) og síðan aftur óvirkur (svartur). Svartími mælist í millisekúndum, það er þúsundustu hlutum úr sekúndu, og því skemmri sem hann er því skarpari helst myndin þegar hún er á mikilli hreyfingu. Sé horft á mynd með örum hraðabreytingum, ættu ekki að sjást neinar tætingslegar línur eða móðukenndar myndir heldur á að vera hægt að fylgjast með hraðri atburðarrás án þess að gæðin glatist.
Í plasmaskjám er skemmri svartíma en í LCD-skjám. Í góðum plasmaskjám haldast myndirnar skýrar og skarpar þrátt fyrir mjög hraða atburðarás, til dæmis í knattspyrnuleik eða hasarmynd. Eldri LCD-skjáir hafa gjarnan lengri svartíma sem veldur því að myndin getur orðið þokukennd og greinileg sporgönguhrif sjáanleg; það er draugur í myndinni. Í nýjustu LCD-skjánum er þetta hins vegar varla vandamál lengur þegar svartíminn er kominn niður í og jafnvel niður fyrir 8 millisekúndur. Margir LCD-sjónvarpsframleiðendur hafa líka bætt inn hugbúnaði sem reiknar út aukaramma milli þeirra sem sendir eru út í venjulegu sjónvarpsmerki. Þessi tækni er kennd við 100 Hz (100 rið, það er 100 rammar á sekúndu í stað hinna venjulegu 50 ramma á sekúndu). Í sjónvarpstækjum með 100 riða tækni sést nánast ekkert hökt á myndinni og helst hún skörp þótt hreyfingar séu örar. Í flestum vönduðum plasmatækjum er þessi tækni innbyggð.
Birtuskil eða andstæða (e. contrast) segja til um birtuhlutfallið milli hvítasta hvíta litarins og svartasta svarta litarins. Í sjónvarpstækjum er birtuskilum lýst sem hlutfalli eins og 1200:1, 5000:1 eða 20.000:1 svo dæmi séu tekin. Í sjónvarpi með birtuskil 1200:1 er ljósstyrkur svartasta litarins sem hægt er að fá fram 1200 sinnum lægri en ljósstyrkur hins hvítasta. Birtuskilin eru ekki síður mikilvæg en upplausnin því þau segir til um birtudýptina í myndinni.
Birtuskilin segja til um hlutfallið á milli hvítasta hvíta litarins og svartasta svarta litarins. Ef birtuskilin eru ekki mjög góð getur svarti liturinn í raun verið blár eða grár.
Vönduð plasmasjónvarpstæki hafa venjulega mjög góð birtuskil og eru betri en LCD-sjónvörpin að þessu leyti. Í LCD-sjónvörpum er stöðug baklýsing sem þarf að útiloka til að fá fram svarta litinn. Ef þetta er ekki gert nægilega vel er afleiðingin sú að svarti liturinn verður ekki svartur heldur gráleitur eða jafnvel bláleitur, myndin glatar dýpt og verður ekki eins eðlileg. Að auki getur virst eins og móða sé yfir myndinni. LCD-sjónvörp hafa engu að síður batnað verulega að þessu leyti á síðustu misserum.
Þegar birtuskilin eru skoðuð er gott að hafa í huga að tölurnar segja ekki alla söguna. Tvö tæki með birtuskil 15000:1 eru ekki endilega sambærileg þar sem skilatalan er tengd heildarbirtu tækisins. Ef sjónvarp er mjög bjart getur það framkallað mjög bjartan hvítan lit og birtuskilin þannig fengið mjög hátt gildi en samt haft gráan eða bláan svartan lit. Að auki má hafa í huga að ólík tæki geta ef til vill sýnt ólíkan fjölda lita milli þess dekksta og bjartasta. Þannig getur dökkgrár veggur í kvikmynd verið einlitur í einu tæki en verið sýnilega mislitur í öðru.
Besta leiðin til að meta myndgæðin er að horfa með eigin augum og bera saman sjónvarpstæki. Stillimyndir eru meðal annars hannaðar til að hægt sé að bera saman birtuskil og upplausn í mismunandi tækjum. Mynd í sjónvarpi með mikil birtuskil hefur eðlilegri liti og þar skara góð plasmasjónvörp oftar en ekki fram úr.
Á Vísindavefnum eru fleiri svör um LCD- og plasmasjónvörp:
Sævar Helgi Bragason og Kristján Leósson. „Hvað er svartími og birtuskil í sjónvarpstækjum?“ Vísindavefurinn, 5. desember 2007, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6944.
Sævar Helgi Bragason og Kristján Leósson. (2007, 5. desember). Hvað er svartími og birtuskil í sjónvarpstækjum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6944
Sævar Helgi Bragason og Kristján Leósson. „Hvað er svartími og birtuskil í sjónvarpstækjum?“ Vísindavefurinn. 5. des. 2007. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6944>.