Flestir eru með hár yfir augunum. Sumir sjá ofsjónum yfir hárunum og plokka þau af til að snyrta sig. Stundum getur farið svo að öll hárin hverfa og þá er hægt að teikna hárlínuna aftur á með augnblýanti.
Orðið sem við notum yfir þessi hár er augabrún í eintölu og einnig þekkist orðmyndin augnabrún.
Í fornu máli var brýn fleirtala af orðinu brún, samanber orðatiltækin hnykla brýnnar og setja í brýnnar. Fleirtalan brýr var líka notuð. Margir halda að augabrýr sé nýleg fleirtölumynd en í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru dæmi um fleirtölumyndirnar augabrýr og augnabrýr frá 16. öld. Fleirtölumyndirnar augabrúnir og augnabrúnir í sama safni eru frá miðri 19. öld.
Augabrúnir og augabrýr er málnotkun sem samræmist íslenskri málvenju því eru báðar myndirnar réttar. Hægt er að lesa meira um málnotkun í svari Ara Páls Kristinssonar við spurningunni Hvað er rétt og hvað er rangt í máli?Í fleirtölu getum við þess vegna kallað hárin yfir augunum á okkur þessum nöfnum:
- augabrúnir
- augabrýr
- augnabrúnir
- augnabrýr
Mynd: Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Erum við ekki með augabrúnir en ekki augabrýr af því brún verður brúnir en brýr er af brú?