Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvort er réttara að segja augabrúnir eða augabrýr í fleirtölu?

Guðrún Kvaran

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Nafnorðið brún beygðist í fornu máli eins og einsatkvæðis sterkt kvenkynsorð. Nefnifall fleirtölu var brýnn vegna þess að í orðinu varð annars vegar samlögun, *brýnr > brýnn og hljóðvarp kom fram í rótaratkvæði, ú > ý. Samhljóðarnir -nn- voru bornir fram raddaðir eins og í fornafninu hennar en ekki -dn- eins og í húnn. Sú breyting varð síðar. Þótt fleirtalan brýnn sé algengust í fornu máli kemur myndin brúnir þó þegar fyrir og í Ordbog over det norröne prosasprog (ONP) (2:855-856) eru báðar myndirnar brýnn og brúnir gefnar í fleirtölu. Sem dæmi mætti nefna að í Egils sögu (55. kafla) stendur: "En er Egill settist niður, dró hann hringinn á hönd sér og þá fóru brýnn hans í lag," en í Alfræði, handriti frá um 1500 (AM 624 4) stendur "Hans brúnir ganga saman í millum augnanna, þar sem þær skyldu skiljast" (ONP 2:855). (Stafsetningu breytt í báðum dæmum).

Í Islandsk grammatik eftir Valtý Guðmundsson (1922:69) er gefin upp bæði fleirtalan brýr og brýn af nafnorðinu brún í merkingunni 'augabrún'. Tekið er fram að brýn sé sjaldgæft og lifi aðeins í orðasambandinu að bera einhverjum eitthvað á brýn 'ásaka e-n um e-ð'. Valtýr bætir við að orðið geti einnig haft fleirtöluna brúnir og beygist þá eftir 2. flokki kvenkynsorða en ekki þriðja flokki. Þá hefur tveimur orðum slegið saman, brún 'kantur, rönd' og brún 'augabrún'.

Ekki eru allir sáttir við fleirtöluna augabrýr. Hins vegar er leyfilegt að nota hana.

Ef litið er í ritmálssafn Orðabókar Háskólans og leitað að fleirtölu orðanna augabrún og augnabrún eru elstu myndirnar bæði augabrýr og augnabrýr og eru dæmi um þær til allt frá 16. öld. Dæmi um augabrúnir og augnabrúnir í söfnunum eru mun yngri eða frá miðri 19. öld. Eintölumyndirnar augabrún og augnabrún koma báðar til greina og þróun málsins hefur orðið sú að í fleirtölu er hægt að nota augabrúnir og augabrýr, augnabrúnir og augnabrýr eins og sjá má í málfarsbanka Íslenskrar málstöðvar. Þar er fremur mælt með fyrri liðnum auga-. Ef flett er upp orðinu brún í Málfarsbankanum er gefin fleirtalan brúnir, brýn og brýnn og nefndar eru myndirnar augabrúnir og augabrýn, augnabrúnir og augnabrýn, með greini augnabrúnirnar eða augnabrýnnar. Ekki er minnst á auga- eða augnabrýr undir þessari flettu.

Ekki eru allir sáttir við fleirtöluna augabrýr. Í Stafsetningarorðabók Halldór Halldórssonar (1994:15) er mælt með augabrúnir og augabrýn(n) og bætt er við: "Röng er talin flt. augabrýr." Aðeins tvö dæmi fundust í ritmálssafninu um fleirtölumyndina augabrýn. Annað var frá síðari hluta 16. aldar en hitt var úr Brekkukotsannál Halldórs Laxness (bls. 193).

Gamla fleirtalan brýn kemur fram í orðasamböndunum hnykla brýnnar og setja í brýnnar. Í ritmálssafni Orðabókarinnar er reyndar aðeins eitt dæmi um að hnykla í þessu sambandi og er það að "hnykla brúnirnar" en einnig fannst "með hnyklaðar, hrukkaðar brýr" og "hnykla í brýrnar". Með sögninni að hefja er þetta dæmi: "hún var hýr í bragði og hóf brýrnar" og með sögninni að síga er þetta dæmi: "Konungur sá brosið og sigu honum brýr". Bæði eru dæmi í safninu um að hleypa í brýrnar og hleypa í brýnnar. Með sögninni setja er þetta dæmi í ritmálssafninu: "Agnes setti í brýrnar." Af þessu má sjá að fleirtalan brýr virðist mönnum mjög töm.

Mælt er með stafsetningunni brýnnar í samböndunum hnykla brýnnar og setja í brýnnar en af dæmasafni Orðabókarinnar má sjá að rithátturinn hefur verið á reiki. Af málfræði Valtýs Guðmundssonar má ráða að hann hafi líklega þekkt myndirnar hnykla og setja í brýrnar.

Í beygingarlýsingu Orðabókar Háskólans eru gefnar fleirtölumyndirnar augabrúnir, augabrýr, með greini augabrúnirnar, augabrýrnar og augnabrúnir, augnabrýr, með greini augnabrúnirnar, augnabrýrnar.

Þetta svar birtist áður 3.3.2006 en hefur núna verið endurskrifað.

Mynd:

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

16.3.2006

Síðast uppfært

3.2.2021

Spyrjandi

Elín Ólafsdóttir
Þórdís Helgadóttir
Heiðdís Ragnarsdóttir
Hrafnhildur Björnsdóttir

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hvort er réttara að segja augabrúnir eða augabrýr í fleirtölu?“ Vísindavefurinn, 16. mars 2006, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5711.

Guðrún Kvaran. (2006, 16. mars). Hvort er réttara að segja augabrúnir eða augabrýr í fleirtölu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5711

Guðrún Kvaran. „Hvort er réttara að segja augabrúnir eða augabrýr í fleirtölu?“ Vísindavefurinn. 16. mar. 2006. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5711>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvort er réttara að segja augabrúnir eða augabrýr í fleirtölu?
Nafnorðið brún beygðist í fornu máli eins og einsatkvæðis sterkt kvenkynsorð. Nefnifall fleirtölu var brýnn vegna þess að í orðinu varð annars vegar samlögun, *brýnr > brýnn og hljóðvarp kom fram í rótaratkvæði, ú > ý. Samhljóðarnir -nn- voru bornir fram raddaðir eins og í fornafninu hennar en ekki -dn- eins og í húnn. Sú breyting varð síðar. Þótt fleirtalan brýnn sé algengust í fornu máli kemur myndin brúnir þó þegar fyrir og í Ordbog over det norröne prosasprog (ONP) (2:855-856) eru báðar myndirnar brýnn og brúnir gefnar í fleirtölu. Sem dæmi mætti nefna að í Egils sögu (55. kafla) stendur: "En er Egill settist niður, dró hann hringinn á hönd sér og þá fóru brýnn hans í lag," en í Alfræði, handriti frá um 1500 (AM 624 4) stendur "Hans brúnir ganga saman í millum augnanna, þar sem þær skyldu skiljast" (ONP 2:855). (Stafsetningu breytt í báðum dæmum).

Í Islandsk grammatik eftir Valtý Guðmundsson (1922:69) er gefin upp bæði fleirtalan brýr og brýn af nafnorðinu brún í merkingunni 'augabrún'. Tekið er fram að brýn sé sjaldgæft og lifi aðeins í orðasambandinu að bera einhverjum eitthvað á brýn 'ásaka e-n um e-ð'. Valtýr bætir við að orðið geti einnig haft fleirtöluna brúnir og beygist þá eftir 2. flokki kvenkynsorða en ekki þriðja flokki. Þá hefur tveimur orðum slegið saman, brún 'kantur, rönd' og brún 'augabrún'.

Ekki eru allir sáttir við fleirtöluna augabrýr. Hins vegar er leyfilegt að nota hana.

Ef litið er í ritmálssafn Orðabókar Háskólans og leitað að fleirtölu orðanna augabrún og augnabrún eru elstu myndirnar bæði augabrýr og augnabrýr og eru dæmi um þær til allt frá 16. öld. Dæmi um augabrúnir og augnabrúnir í söfnunum eru mun yngri eða frá miðri 19. öld. Eintölumyndirnar augabrún og augnabrún koma báðar til greina og þróun málsins hefur orðið sú að í fleirtölu er hægt að nota augabrúnir og augabrýr, augnabrúnir og augnabrýr eins og sjá má í málfarsbanka Íslenskrar málstöðvar. Þar er fremur mælt með fyrri liðnum auga-. Ef flett er upp orðinu brún í Málfarsbankanum er gefin fleirtalan brúnir, brýn og brýnn og nefndar eru myndirnar augabrúnir og augabrýn, augnabrúnir og augnabrýn, með greini augnabrúnirnar eða augnabrýnnar. Ekki er minnst á auga- eða augnabrýr undir þessari flettu.

Ekki eru allir sáttir við fleirtöluna augabrýr. Í Stafsetningarorðabók Halldór Halldórssonar (1994:15) er mælt með augabrúnir og augabrýn(n) og bætt er við: "Röng er talin flt. augabrýr." Aðeins tvö dæmi fundust í ritmálssafninu um fleirtölumyndina augabrýn. Annað var frá síðari hluta 16. aldar en hitt var úr Brekkukotsannál Halldórs Laxness (bls. 193).

Gamla fleirtalan brýn kemur fram í orðasamböndunum hnykla brýnnar og setja í brýnnar. Í ritmálssafni Orðabókarinnar er reyndar aðeins eitt dæmi um að hnykla í þessu sambandi og er það að "hnykla brúnirnar" en einnig fannst "með hnyklaðar, hrukkaðar brýr" og "hnykla í brýrnar". Með sögninni að hefja er þetta dæmi: "hún var hýr í bragði og hóf brýrnar" og með sögninni að síga er þetta dæmi: "Konungur sá brosið og sigu honum brýr". Bæði eru dæmi í safninu um að hleypa í brýrnar og hleypa í brýnnar. Með sögninni setja er þetta dæmi í ritmálssafninu: "Agnes setti í brýrnar." Af þessu má sjá að fleirtalan brýr virðist mönnum mjög töm.

Mælt er með stafsetningunni brýnnar í samböndunum hnykla brýnnar og setja í brýnnar en af dæmasafni Orðabókarinnar má sjá að rithátturinn hefur verið á reiki. Af málfræði Valtýs Guðmundssonar má ráða að hann hafi líklega þekkt myndirnar hnykla og setja í brýrnar.

Í beygingarlýsingu Orðabókar Háskólans eru gefnar fleirtölumyndirnar augabrúnir, augabrýr, með greini augabrúnirnar, augabrýrnar og augnabrúnir, augnabrýr, með greini augnabrúnirnar, augnabrýrnar.

Þetta svar birtist áður 3.3.2006 en hefur núna verið endurskrifað.

Mynd:...