Hvaða tegundir gæsa heimsækja Ísland frá því snemma á vorin þar til seint á haustin?Á vorin koma nokkrar tegundir gæsa hingað til lands, bæði tegundir sem verpa á Íslandi og tegundir sem koma hingað í æti á ferðalagi til eða frá varpstöðvum sínum. Til varpfugla teljast grágæs (Anser anser) og heiðagæs (Anser brachyrhynchus), auk þess sem kominn er upp lítill varpstofn helsingja (Branta leucopsis). Umferðarfuglar eða fargestir eru helsinginn, blesgæs (Anser albifrons) og margæs (Branta bernicla). Sú síðastnefnda setur meðal annars áberandi svip á fuglalífið á Álftanesi og Seltjarnarnesi. Einstaklingar nokkurra annarra gæsategunda hafa flækst hingað til lands. Meðal annars hefur akurgæs (Anser fabalis), sem á sér varpheimkynni í Skandinavíu og Norður-Rússlandi, fundist hér á landi, rétt eins og snjógæs (Anser caerulescens) en hún verpir á túndrusvæðum í Norður-Ameríku. Þá er kanadagæs (Branta canadensis) flækingsfugl á Íslandi en hún verpir allt norðan frá túndrusvæðum Kanada og suður til Bandaríkjanna en einnig í Evrópu. Myndir:
- Aves.is - Bird Photography. (Sóttar 29. 7. 2015).