Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hugmyndir fornra heimspekinga um hlátur og það hvað er hlægilegt eru okkur að sumu leyti býsna framandi. Hlátur var gjarnan talinn til marks um taumleysi og skort á sjálfstjórn. Glaðværð og góð skemmtun þóttu í góðu lagi en hlátrasköll þóttu síður viðeigandi. Hér þarf að rata meðalveginn en um það segir Aristóteles: „Nú teljast þeir vera auvirðilegir trúðar sem eru yfirgengilegir í fyndni sinni, sem þyljast um í fyndni sinni, vilja frekar vekja hlátur en tala eins og sæmir og forðast sárindi.“ (Siðfræði Níkomakkosar [= SN] 4.8, 1128a4-7. Þýð. Svavars Hrafns Svavarssonar [=SHS]) Fyndninni má því bersýnilega ofgera en á hinn bóginn „[teljast] hinir sem hvorki segja neitt fyndið né unna öðrum fyndninnar ruddalegir afglapar.“ (SN 4.8, 1128a7-9. Þýð. SHS) En „[þ]eir þykja hins vegar hnyttnir sem eru smekklega fyndnir“. (SN 4.8, 1128a9-10. Þýð. SHS)
Myndskreyting úr grískum skopleik.
Aftur á móti skiptir einnig máli að hverju er hlegið. Aristóteles segir að eldri höfundum skopleikja hafi þótt „skammarlegar ærumeiðingar fyndnar, en yngri höfundar töluðu undir rós. Það er mikill munur á velsæmi þessa tvenns.“ (SN 4.8, 1128a23-25. Þýð. SHS) Aristóteles nefnir skammarlegar ærumeiðingar sem dæmi um það sem er ekki fyndið og ætti ekki að hlæja að. Það er eitt að hlæja að fólki og annað að hlæja að einhverju ópersónulegu til dæmis hugmynd eða kenningu. Slíkt er ekki eins særandi. Að sjálfsögðu ætti samt að gæta hófs því það væri ekki við hæfi að veltast um af hlátri þótt hlegið sé að hugmynd frekar en manneskju. Aristóteles segir að trúðurinn sé hins vegar „þræll eigin fyndni og hlífir hvorki sjálfum sér né öðrum sjái hann færi á brandara, og segir hluti sem enginn kurteis maður segði nokkru sinni né hlustaði á ef sagt væri við hann.“ (SN 4.8, 1128a33-1128b1. Þýð. SHS) Trúðurinn kann ekki að rata meðalhófið í fyndninni og er auk þess svo smekklaus að hann gerir grín að öðru fólki ef hann sér færi á því.
Aðalatriðið er því að njóta fyndninnar en þó ekki meira en góðu hófi gegnir og glata ekki sjálfstjórninni til dæmis með óhóflegum hlátrarsköllum. Auk þess þarf að gæta þess að vera smekklega fyndinn og henda gaman að því sem er við hæfi.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað sögðu heimspekingar til forna um hlátur?“ Vísindavefurinn, 28. janúar 2008, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7031.
Geir Þ. Þórarinsson. (2008, 28. janúar). Hvað sögðu heimspekingar til forna um hlátur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7031
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað sögðu heimspekingar til forna um hlátur?“ Vísindavefurinn. 28. jan. 2008. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7031>.