Osmín eða osmíum (Os) er hliðarmálmur sem hefur sætistöluna 76 í lotukerfinu og mólmassa 190,2 g/mól. Eðlismassi osmíns er um 22,6 g/cm3 við 20°C þannig að einn rúmsentímetri hefur massanna 22,6 grömm. Osmín er yfirleitt talið hafa mestan eðlismassa af efnum lotukerfisins. Erfitt er að framleiða það og ekki bætir úr skák að í duftformi hvarfast það mjög auðveldlega við súrefni og myndar osmíntetraoxíð, OsO4, sem er gífurlega eitruð lofttegund, jafnvel í mjög litlu magni. Af þeim ástæðum er osmín einungis að finna í málmblöndum, sér í lagi þeim sem eiga að þola mikið slit af völdum núnings, til dæmis í nálum grammófóna.
Osmín var uppgötvað af breska efnafræðingnum Smithson Tennant (1761-1815) árið 1803. Á sama tíma fann hann einnig málminn iridín eða iridíum sem hefur álíka mikinn eðlismassa og osmín, eða 22,4 g/cm3. Iridín hefur sætistöluna 77 og er því við hlið osmíns í lotukerfinu.
Hægt er að lesa meira um eðlismassa í svörum Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunum:
Heimildir og mynd:
- Lenntech - Chemical elements listed by density. Sótt 31. 01. 2008.
- Jefferson Lab. Sótt 31. 01. 2008.
- Virtual ChemBook. Sótt 31. 01. 2008.
- Mynd: Chemical Forums. Sótt 31. 01. 2008.
Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hver er eðlisþyngsti málmur sem vitað er um og hvað væri einn rúmsentimetri af þeim málmi þungur?