Sólin Sólin Rís 09:54 • sest 16:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:39 • Sest 07:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:44 • Síðdegis: 17:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:01 • Síðdegis: 23:18 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:54 • sest 16:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:39 • Sest 07:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:44 • Síðdegis: 17:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:01 • Síðdegis: 23:18 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaðan koma Strúta-örnefni á Íslandi?

Hallgrímur J. Ámundason

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Um strútfugla fer litlum sögum á Íslandi. Í fornu norrænu máli var þó til fuglsnafnið strúss (eða strúz) og mun vera tökuorð úr miðlágþýsku, samanber: "er þvílíkast sem fjaðrhamr væri fleginn ... af þeim fugl, er struz heitir" (Þiðriks saga af Bern). Þetta er sama mynd og enn tíðkast í dönsku, struds. Seinna kom orðið strútur inn í íslensku, ef til vill ekki fyrr en á 16. öld og þá úr annarri átt, sennilega úr ensku máli. Orðið sem haft er um fuglinn strút stendur ekki í beinu sambandi við örnefni sem bera sama nafn en þau eiga sér þó að líkindum sama uppruna.

Um strútfugla fer litlum sögum á Íslandi, hins vegar eru nokkrir Strútar í örnefnaflórunni.

Strútur er einnig til sem hundsnafn. Það er einkum haft um þá hunda sem eru með hvítan háls en dökkir að öðru leyti (til dæmis móstrútóttur hundur). Orðið strútur er þó aðallega haft um hettur eða efsta hluta höfuðfata. Dæmi er um að orðið í þeirri merkingu hafi orðið manni að viðurnefni. Þá "ræður fyrir Sjólöndum jarl sá er nefndur er Haraldur ... hann átti hött einn, þann er strútur var á mikill. Hann var af brenndu gulli görr og svo mikill, að hann stóð tíu merkur gulls; og þaðan af fékk hann það nafn, að hann var kallaður Strút-Haraldur" (Jómsvíkinga saga, 16. kap.). Strútur er einnig haft um trefil eða klút sem vafinn er upp fyrir munn og nef (til dæmis til varnar gegn sandroki). "Arabar binda sér strút um vitin" segir í Reykjavíkurpóstinum 1847.

Sameiginleg merking í áðurgreindum tilfellum er að orðin virðast tákna annars vegar eitthvað uppmjótt (samanber höfuðfötin) eða eitthvað sem tengist hálsinum (trefill, hundur og líklega fuglinn). Í íslenskum örnefnum er líklega yfirleitt um það fyrrnefnda að ræða, orðið er haft um uppmjótt fjall, tind, klett eða hól. Líkindin eru augljós þegar haft er í huga að orðið strýta er dregið af orðinu strútur.

Ekki eru mörg dæmi um strút í íslenskum örnefnum og í Noregi er það að vísu þekkt en mjög sjaldgæft. Strútur var til sem heiti á bæ. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns yfir Árnessýslu er getið um hjáleiguna Strút sem áður var til í landi Brúnavalla syðri í Skeiðahreppi (mun hafa farið í eyði fyrir 1680) (Jarðabók II, bls. 195). Örnefnið er enn varðveitt á þessum stað. Í örnefnaskrá Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi er það nefnt en engin frekari lýsing gerð á því. Samkvæmt skrá Jóns Eiríkssonar frá Vorsabæ heyrir það nú undir Brúnavallakot. Um það segir: "Strýtumyndaður, allhár hóll, en þar stóð eyðihjáleigan Strútur áður ... Fjárhús stóð lengi á hólnum en nú er þar hesthús." Dæmi eru einnig um að Strýta sé til sem bæjarnafn, samanber áðurnefndan skyldleika orðanna. Þannig voru til hjáleigur með þessu nafni bæði í Ölfusi í Árnessýslu og í Fljótum í Skagafirði (Jarðabók I, bls. 407, og III, bls. 340). Gera verður ráð fyrir að bæjarheitin séu dregin af einhverju í landslagi, fjalli, klett eða hól. Bærinn Strýta er í Búlandshreppi í Suður-Múlasýslu. Þar er áberandi strýtulaga klettur í túni, talinn álfakirkja.

Í landi Stafafells í Lóni er til klettur sem heitir Strútur. Annar Strútur er hraunhóll á landamerkjum Núpa og Þurár í Ölfusi. Strútstjörn er nefnd í örnefnaskrá Hæls í Gnúpverjahreppi. Strútshylur, neðsti hluti Torfadalsár, er í landi Hafnar í Sléttuhreppi. Strútsgerði er við Kópsvatn í Hrunamannahreppi. Þar er þess getið til að örnefnið sé dregið af mannsnafni eða viðurnefni. Líklegra er að það vísi til einhvers í landslagi. Í örnefnaskrá Dalbæjar í Siglufirði kemur nafnið fyrir: "austar er klettabrík fram undan bökkunum og skúti lítill nefnist þar Strútur". Ef til vill hefur eitthvað í klettunum gefið tilefni til nafngiftarinnar. Á Raufarhöfn finnast bæði Strútsvatn og Strútslækur og af síðarnefnda örnefninu er dregið nafnið Strútslækjarhólar. Ekki er getið um neinn Strút í umhverfinu sem þessi örnefni eru kennd við. Á Sveðjustöðum í Vestur-Húnavatnssýslu koma fyrir nokkur örnefni af þessum toga: "Austur frá Kaphól er hár hóll, Strútur ... Sunnan við Strút er Strútstjörn, en norður frá honum Strútsflói, stórt flatlendi ...".

Fjallið Strútur í Borgarfirði. Eiríksjökull í baksýn.

Þekktastir Strúta á Íslandi eru sennilega fjöllin á Mælifellssandi og í Borgarfirði. Sá fyrrnefndi hefur greinilegan strútmyndaðan topp, kallaður Strútskollur, og hallandi austurendi fjallsins heitir Strútstagl. Strútur á Mælifellssandi hefur svipað sköpulag. Ýmis örnefni eru þar í kring sem eru kennd við Strút, til dæmis Strútsöldur, Strútsver, Strútsgil og Strútslaug. Strútsleið er líka til í máli ferðamanna á þessum slóðum og á við um leiðina frá Hólaskjóli að Hvanngili, á svipuðum slóðum og Fjallabaksvegur syðri. Síðarnefndi Strúturinn hefur einnig gengið undir nafninu Meyjarstrútur. Það nafn kemur þegar fyrir í Ferðabók Eggerts Ólafssonar. Sveinn Pálsson nefnir þetta fjall, segir það "einstakan hnúk, strýtulagaðan, austast á [Mælifellssandi] ... Annars kallar Eggert það Meyjarstrút, en svo nefnist annað fjall eigi ósvipað þessu, sem er suðaustan undir Torfajökli og áfast við hann." (Ferðabók Sveins Pálssonar 1945, bls. 257.) Nafnið Meyjarstrútur gæti vísað til einhvers konar höfuðbúnaðar ungra kvenna. Það flækir hinsvegar málið að Sveinn virðist gera ráð fyrir að annar Meyjarstrútur hafi verið til á þessum slóðum. Það örnefni virðist ekki vera lengur til. Enn má flækja málið með að vitna til Eggerts Ólafssonar. Hann segir: "Strútur heitir mjög hár tindur í jöklinum milli Sólheima- og Mýrdalsjökuls. Um nóttina lágum við beint norður af honum undir fjallsrana sem Brattháls heitir." (Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar 1974, II. bindi, bls. 96). Enginn Strútur er nú þekktur á þessum slóðum og reyndar alveg óvíst hvað Eggert á við því Sólheimajökull er sunnan í Mýrdalsjökli og sést alls ekki frá Bratthálsi. Hugsanlega er um afbökun í textanum að ræða.

Annars er Strútur ekki eina dæmið um að fjöll séu nefnd eftir höfuðfötum eða öðrum fatnaði. Í Súðavík heitir fjall Kofri en það nafn vísar til húfu úr skinni. Höttur er þekkt fjallsnafn, einnig Blámannshattur og Jarlhettur. Tytja og Hekla vísa til klæðnaðar, einnig Vattarfell (samanber örnefni mánaðarins í febrúar 2007) og Hvítserkur. Í tilfelli Heklu og Hvítserks er þó líklega ekki um líkingu við sköpulag að ræða heldur lit, fyrrnefnda fjallið hvítt af snjó en í hinu er ljóst berg (líparít) einkennandi.

Myndir:


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Hallgrímur J.  Ámundason

fyrrverandi verkefnisstjóri nafnfræðisviðs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

23.3.2017

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Hallgrímur J. Ámundason. „Hvaðan koma Strúta-örnefni á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2017, sótt 14. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72636.

Hallgrímur J. Ámundason. (2017, 23. mars). Hvaðan koma Strúta-örnefni á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72636

Hallgrímur J. Ámundason. „Hvaðan koma Strúta-örnefni á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2017. Vefsíða. 14. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72636>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaðan koma Strúta-örnefni á Íslandi?
Um strútfugla fer litlum sögum á Íslandi. Í fornu norrænu máli var þó til fuglsnafnið strúss (eða strúz) og mun vera tökuorð úr miðlágþýsku, samanber: "er þvílíkast sem fjaðrhamr væri fleginn ... af þeim fugl, er struz heitir" (Þiðriks saga af Bern). Þetta er sama mynd og enn tíðkast í dönsku, struds. Seinna kom orðið strútur inn í íslensku, ef til vill ekki fyrr en á 16. öld og þá úr annarri átt, sennilega úr ensku máli. Orðið sem haft er um fuglinn strút stendur ekki í beinu sambandi við örnefni sem bera sama nafn en þau eiga sér þó að líkindum sama uppruna.

Um strútfugla fer litlum sögum á Íslandi, hins vegar eru nokkrir Strútar í örnefnaflórunni.

Strútur er einnig til sem hundsnafn. Það er einkum haft um þá hunda sem eru með hvítan háls en dökkir að öðru leyti (til dæmis móstrútóttur hundur). Orðið strútur er þó aðallega haft um hettur eða efsta hluta höfuðfata. Dæmi er um að orðið í þeirri merkingu hafi orðið manni að viðurnefni. Þá "ræður fyrir Sjólöndum jarl sá er nefndur er Haraldur ... hann átti hött einn, þann er strútur var á mikill. Hann var af brenndu gulli görr og svo mikill, að hann stóð tíu merkur gulls; og þaðan af fékk hann það nafn, að hann var kallaður Strút-Haraldur" (Jómsvíkinga saga, 16. kap.). Strútur er einnig haft um trefil eða klút sem vafinn er upp fyrir munn og nef (til dæmis til varnar gegn sandroki). "Arabar binda sér strút um vitin" segir í Reykjavíkurpóstinum 1847.

Sameiginleg merking í áðurgreindum tilfellum er að orðin virðast tákna annars vegar eitthvað uppmjótt (samanber höfuðfötin) eða eitthvað sem tengist hálsinum (trefill, hundur og líklega fuglinn). Í íslenskum örnefnum er líklega yfirleitt um það fyrrnefnda að ræða, orðið er haft um uppmjótt fjall, tind, klett eða hól. Líkindin eru augljós þegar haft er í huga að orðið strýta er dregið af orðinu strútur.

Ekki eru mörg dæmi um strút í íslenskum örnefnum og í Noregi er það að vísu þekkt en mjög sjaldgæft. Strútur var til sem heiti á bæ. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns yfir Árnessýslu er getið um hjáleiguna Strút sem áður var til í landi Brúnavalla syðri í Skeiðahreppi (mun hafa farið í eyði fyrir 1680) (Jarðabók II, bls. 195). Örnefnið er enn varðveitt á þessum stað. Í örnefnaskrá Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi er það nefnt en engin frekari lýsing gerð á því. Samkvæmt skrá Jóns Eiríkssonar frá Vorsabæ heyrir það nú undir Brúnavallakot. Um það segir: "Strýtumyndaður, allhár hóll, en þar stóð eyðihjáleigan Strútur áður ... Fjárhús stóð lengi á hólnum en nú er þar hesthús." Dæmi eru einnig um að Strýta sé til sem bæjarnafn, samanber áðurnefndan skyldleika orðanna. Þannig voru til hjáleigur með þessu nafni bæði í Ölfusi í Árnessýslu og í Fljótum í Skagafirði (Jarðabók I, bls. 407, og III, bls. 340). Gera verður ráð fyrir að bæjarheitin séu dregin af einhverju í landslagi, fjalli, klett eða hól. Bærinn Strýta er í Búlandshreppi í Suður-Múlasýslu. Þar er áberandi strýtulaga klettur í túni, talinn álfakirkja.

Í landi Stafafells í Lóni er til klettur sem heitir Strútur. Annar Strútur er hraunhóll á landamerkjum Núpa og Þurár í Ölfusi. Strútstjörn er nefnd í örnefnaskrá Hæls í Gnúpverjahreppi. Strútshylur, neðsti hluti Torfadalsár, er í landi Hafnar í Sléttuhreppi. Strútsgerði er við Kópsvatn í Hrunamannahreppi. Þar er þess getið til að örnefnið sé dregið af mannsnafni eða viðurnefni. Líklegra er að það vísi til einhvers í landslagi. Í örnefnaskrá Dalbæjar í Siglufirði kemur nafnið fyrir: "austar er klettabrík fram undan bökkunum og skúti lítill nefnist þar Strútur". Ef til vill hefur eitthvað í klettunum gefið tilefni til nafngiftarinnar. Á Raufarhöfn finnast bæði Strútsvatn og Strútslækur og af síðarnefnda örnefninu er dregið nafnið Strútslækjarhólar. Ekki er getið um neinn Strút í umhverfinu sem þessi örnefni eru kennd við. Á Sveðjustöðum í Vestur-Húnavatnssýslu koma fyrir nokkur örnefni af þessum toga: "Austur frá Kaphól er hár hóll, Strútur ... Sunnan við Strút er Strútstjörn, en norður frá honum Strútsflói, stórt flatlendi ...".

Fjallið Strútur í Borgarfirði. Eiríksjökull í baksýn.

Þekktastir Strúta á Íslandi eru sennilega fjöllin á Mælifellssandi og í Borgarfirði. Sá fyrrnefndi hefur greinilegan strútmyndaðan topp, kallaður Strútskollur, og hallandi austurendi fjallsins heitir Strútstagl. Strútur á Mælifellssandi hefur svipað sköpulag. Ýmis örnefni eru þar í kring sem eru kennd við Strút, til dæmis Strútsöldur, Strútsver, Strútsgil og Strútslaug. Strútsleið er líka til í máli ferðamanna á þessum slóðum og á við um leiðina frá Hólaskjóli að Hvanngili, á svipuðum slóðum og Fjallabaksvegur syðri. Síðarnefndi Strúturinn hefur einnig gengið undir nafninu Meyjarstrútur. Það nafn kemur þegar fyrir í Ferðabók Eggerts Ólafssonar. Sveinn Pálsson nefnir þetta fjall, segir það "einstakan hnúk, strýtulagaðan, austast á [Mælifellssandi] ... Annars kallar Eggert það Meyjarstrút, en svo nefnist annað fjall eigi ósvipað þessu, sem er suðaustan undir Torfajökli og áfast við hann." (Ferðabók Sveins Pálssonar 1945, bls. 257.) Nafnið Meyjarstrútur gæti vísað til einhvers konar höfuðbúnaðar ungra kvenna. Það flækir hinsvegar málið að Sveinn virðist gera ráð fyrir að annar Meyjarstrútur hafi verið til á þessum slóðum. Það örnefni virðist ekki vera lengur til. Enn má flækja málið með að vitna til Eggerts Ólafssonar. Hann segir: "Strútur heitir mjög hár tindur í jöklinum milli Sólheima- og Mýrdalsjökuls. Um nóttina lágum við beint norður af honum undir fjallsrana sem Brattháls heitir." (Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar 1974, II. bindi, bls. 96). Enginn Strútur er nú þekktur á þessum slóðum og reyndar alveg óvíst hvað Eggert á við því Sólheimajökull er sunnan í Mýrdalsjökli og sést alls ekki frá Bratthálsi. Hugsanlega er um afbökun í textanum að ræða.

Annars er Strútur ekki eina dæmið um að fjöll séu nefnd eftir höfuðfötum eða öðrum fatnaði. Í Súðavík heitir fjall Kofri en það nafn vísar til húfu úr skinni. Höttur er þekkt fjallsnafn, einnig Blámannshattur og Jarlhettur. Tytja og Hekla vísa til klæðnaðar, einnig Vattarfell (samanber örnefni mánaðarins í febrúar 2007) og Hvítserkur. Í tilfelli Heklu og Hvítserks er þó líklega ekki um líkingu við sköpulag að ræða heldur lit, fyrrnefnda fjallið hvítt af snjó en í hinu er ljóst berg (líparít) einkennandi.

Myndir:


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

...