Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var fyrsta konan sem varð faraó í Egyptalandi til forna?

Daníel Freyr Birkisson, Guðjón Bjartur Benediktsson og Jóhann Bjarki Arnarsson Hall

Hatshepsut var egypsk drottning sem var uppi á árunum 1507-1458 f.Kr. Hún tók við embætti faraós þegar eiginmaður hennar Tútmósis II. dó. Hún var ekki fyrsta konan til að stýra Egyptalandi en hún var fyrsta drottningin sem bar titilinn faraó. Konur sem ríktu yfir Egyptalandi á undan henni höfðu einungis gert það sem drottningar og þá í umboði karlkyns erfingja.

Hatshepsut var dóttir Tútmósis I. og aðalkonu hans sem hét Ahmose. Tútmósis I. átti einnig soninn Tútmósis II. með Mutnofret sem var lægra sett eiginkona. Í Egyptalandi, líkt og við átti um mörg önnur lönd á þessum tíma, voru karllæg gildi ríkjandi og faraóar voru allir karlkyns. Við andlát Tútmósis I. tók Tútmósis II. við hlutverki faraós. Systkinahjónabönd voru algeng hjá faraóum og trúr hefðinni giftist Tútmósis II. Hatshepsut hálfsystur sinni. Hún var aðaleiginkona hans og þau áttu saman eina dóttur. Tútmósis II. átti aðrar konur og með Iset eignaðist hann soninn Tútmósis III. Þar með var fæddur réttmætur erfingi Tútmósis II.

Hatshepsut (1507-1458 f.Kr.) drottning og síðar fyrsta konan sem bar titilinn faraó í Egyptalandi.

Tútmósis II. lést þegar sonurinn og erfinginn var einungis barn að aldri. Þá kom upp flókin staða. Í fyrstu fékk hinn kornungi Tútmósis III. titilinn faraó og Hatshepsut, sem var þá ekkja og drottning, stjórnaði í hans umboði. Þetta gekk í nokkur ár þangað til Hatshepsut gerði tilkall til opinbers titils faraós. Ekki var hefð fyrir því að kona yrði faraó heldur stýrði hún frekar sem drottning. Með ýmsum rökum varð Hatshepsut hins vegar fyrsta konan til að bera þennan titil. Stjúpsonur hennar deildi tæknilega séð enn þá titlinum með henni en hún sá um að stjórna landinu og sinna hlutverki faraós.

Hlutverk faraóa var tvíþætt. Þeir voru pólitískir leiðtogar þjóðarinnar og um leið eitt helsta trúartákn Egypta. Hatshepsut stóð frammi fyrir miklum áskorunum í upphafi valdasetu sinnar og mátti lítt við því að vera umdeild sökum kyns síns. Erfitt var fyrir hana að ná árangri í starfi með því að fara gegn því karllæga samfélagi sem hún stjórnaði. Það hefur vakið athygli fræðimanna að hún tók þá ákvörðun að klæðast hefðbundnum klæðnaði faraóa þrátt fyrir að klæðnaðurinn væri hannaður fyrir karla. Ástæðan getur vel verið sú að hún og hennar ráðgjafar hafi talið að of miklar breytingar á embætti faraós og útliti hans myndu skapa ringulreið.

Því hefur verið haldið fram að í valdatíð Hatshepsut hafi litlar breytingar orðið og er það vissulega rétt í ákveðnum málum. En umbætur hennar voru þó töluverðar á ákveðnum sviðum. Hatshepsut ríkti í 22 ár og á þeim tíma var mikill friður í landinu og viðskipti blómstruðu. Hennar helsta verk var að gera aftur viðskiptasamninga við erlendar þjóðir, til að mynda fornþjóðina Punt, en það höfðu Egyptar ekki gert í nærri því 200 ár. Að því loknu lét hún skrásetja og gera myndir í hofinu í Deir el-Bahari sem túlkuðu frægðarförina sem farin var til Punt til þess að taka upp þráðinn að nýju í viðskiptum þjóðanna. Byggingarlist blómstraði undir stjórn hennar, almennar byggingaráætlanir jukust og margar merkar byggingar voru reistar á meðan hún var faraó. Arkitektar nútímans telja margir að byggingarstíll þessa tíma hafi verið afar frumstæður en jafnframt flókinn. Tala þeir einkum um grafhýsi og hof Hatshepsut í þeim efnum.

Hofið í Deir el-Bahari.

Hatshepsut lést í embætti 1458 f.Kr., 51 árs gömul. Ítarlegar rannsóknir á því sem talið er vera múmía hennar hafa leitt í ljós að líkleg dánarorsök hennar hafi verið beinkrabbamein. Eftir fráfall Hatshepsut var reynt að gera sem minnst úr valdatíð hennar og afmá hennar hlut af spjöldum sögunnar. Minjar voru skemmdar, myndir af henni eyðilagðar og andlit hennar var jafnvel skrapað af veggmyndum. Einnig var reynt að eyða öllum skjölum um hana. Engar heimildir hafa varðveist um af hverju þetta var gert en sumar kenningar hafa þó hlotið meiri hljómgrunn en aðrar. Ljóst er að skemmdarverkin voru framin á síðustu árum valdatíðar Tútmósis III. og því hafa margir velt því fyrir sér hvort þetta hafi verið gert í pólitískum tilgangi til að efla kröfu Amenhóteps II., sonar Tútmósis III., um að hann væri lögmætur arftaki faraós. Aðrir telja að Tútmósis III. hafi sjálfur gert þetta til að hefna sín á stjúpmóður sinni sem tók af honum embættið; hann hafi viljað að sagan mundi einungis muna eftir henni sem drottningu en ekki sem kvenkyns faraó. Sú kenning hefur þó verið gagnrýnd og bent á að ef honum hefði verið illa við hana hefði honum ekki orðið skotaskuld úr því að hefja uppreisn gegn henni og skapa ólgu í egypsku samfélagi með því að benda á kyn hennar.

Tilraun þeirra sem reyndu að afmá nafn Hatshepsut úr sögunni mistókst þó bersýnilega. Þessi öfluga kona sem fór með völd faraós í hinu karllæga samfélagi Egypta fyrir um það bil 3500 árum er enn vel þekkt.

Heimildir og myndir:


Þetta svar var unnið í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2016. Þórir Jónsson Hraundal hafði umsjón með námskeiðinu.

Spurning Áslaugar var almenns eðlis (Hvað getið þið sagt mér um tímabil faraóanna í Egyptalandi?) og er hér svarað að hluta.

Höfundar

Daníel Freyr Birkisson

BA-nemi í stjórnmálafræði

Guðjón Bjartur Benediktsson

BA-nemi í stjórnmálafræði

BA-nemi í stjórnmálafræði og áður nemandi í Engjaskóla

Útgáfudagur

3.3.2017

Síðast uppfært

13.3.2017

Spyrjandi

Áslaug Ingileif Halldórsdóttir

Tilvísun

Daníel Freyr Birkisson, Guðjón Bjartur Benediktsson og Jóhann Bjarki Arnarsson Hall. „Hver var fyrsta konan sem varð faraó í Egyptalandi til forna?“ Vísindavefurinn, 3. mars 2017, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73171.

Daníel Freyr Birkisson, Guðjón Bjartur Benediktsson og Jóhann Bjarki Arnarsson Hall. (2017, 3. mars). Hver var fyrsta konan sem varð faraó í Egyptalandi til forna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73171

Daníel Freyr Birkisson, Guðjón Bjartur Benediktsson og Jóhann Bjarki Arnarsson Hall. „Hver var fyrsta konan sem varð faraó í Egyptalandi til forna?“ Vísindavefurinn. 3. mar. 2017. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73171>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var fyrsta konan sem varð faraó í Egyptalandi til forna?
Hatshepsut var egypsk drottning sem var uppi á árunum 1507-1458 f.Kr. Hún tók við embætti faraós þegar eiginmaður hennar Tútmósis II. dó. Hún var ekki fyrsta konan til að stýra Egyptalandi en hún var fyrsta drottningin sem bar titilinn faraó. Konur sem ríktu yfir Egyptalandi á undan henni höfðu einungis gert það sem drottningar og þá í umboði karlkyns erfingja.

Hatshepsut var dóttir Tútmósis I. og aðalkonu hans sem hét Ahmose. Tútmósis I. átti einnig soninn Tútmósis II. með Mutnofret sem var lægra sett eiginkona. Í Egyptalandi, líkt og við átti um mörg önnur lönd á þessum tíma, voru karllæg gildi ríkjandi og faraóar voru allir karlkyns. Við andlát Tútmósis I. tók Tútmósis II. við hlutverki faraós. Systkinahjónabönd voru algeng hjá faraóum og trúr hefðinni giftist Tútmósis II. Hatshepsut hálfsystur sinni. Hún var aðaleiginkona hans og þau áttu saman eina dóttur. Tútmósis II. átti aðrar konur og með Iset eignaðist hann soninn Tútmósis III. Þar með var fæddur réttmætur erfingi Tútmósis II.

Hatshepsut (1507-1458 f.Kr.) drottning og síðar fyrsta konan sem bar titilinn faraó í Egyptalandi.

Tútmósis II. lést þegar sonurinn og erfinginn var einungis barn að aldri. Þá kom upp flókin staða. Í fyrstu fékk hinn kornungi Tútmósis III. titilinn faraó og Hatshepsut, sem var þá ekkja og drottning, stjórnaði í hans umboði. Þetta gekk í nokkur ár þangað til Hatshepsut gerði tilkall til opinbers titils faraós. Ekki var hefð fyrir því að kona yrði faraó heldur stýrði hún frekar sem drottning. Með ýmsum rökum varð Hatshepsut hins vegar fyrsta konan til að bera þennan titil. Stjúpsonur hennar deildi tæknilega séð enn þá titlinum með henni en hún sá um að stjórna landinu og sinna hlutverki faraós.

Hlutverk faraóa var tvíþætt. Þeir voru pólitískir leiðtogar þjóðarinnar og um leið eitt helsta trúartákn Egypta. Hatshepsut stóð frammi fyrir miklum áskorunum í upphafi valdasetu sinnar og mátti lítt við því að vera umdeild sökum kyns síns. Erfitt var fyrir hana að ná árangri í starfi með því að fara gegn því karllæga samfélagi sem hún stjórnaði. Það hefur vakið athygli fræðimanna að hún tók þá ákvörðun að klæðast hefðbundnum klæðnaði faraóa þrátt fyrir að klæðnaðurinn væri hannaður fyrir karla. Ástæðan getur vel verið sú að hún og hennar ráðgjafar hafi talið að of miklar breytingar á embætti faraós og útliti hans myndu skapa ringulreið.

Því hefur verið haldið fram að í valdatíð Hatshepsut hafi litlar breytingar orðið og er það vissulega rétt í ákveðnum málum. En umbætur hennar voru þó töluverðar á ákveðnum sviðum. Hatshepsut ríkti í 22 ár og á þeim tíma var mikill friður í landinu og viðskipti blómstruðu. Hennar helsta verk var að gera aftur viðskiptasamninga við erlendar þjóðir, til að mynda fornþjóðina Punt, en það höfðu Egyptar ekki gert í nærri því 200 ár. Að því loknu lét hún skrásetja og gera myndir í hofinu í Deir el-Bahari sem túlkuðu frægðarförina sem farin var til Punt til þess að taka upp þráðinn að nýju í viðskiptum þjóðanna. Byggingarlist blómstraði undir stjórn hennar, almennar byggingaráætlanir jukust og margar merkar byggingar voru reistar á meðan hún var faraó. Arkitektar nútímans telja margir að byggingarstíll þessa tíma hafi verið afar frumstæður en jafnframt flókinn. Tala þeir einkum um grafhýsi og hof Hatshepsut í þeim efnum.

Hofið í Deir el-Bahari.

Hatshepsut lést í embætti 1458 f.Kr., 51 árs gömul. Ítarlegar rannsóknir á því sem talið er vera múmía hennar hafa leitt í ljós að líkleg dánarorsök hennar hafi verið beinkrabbamein. Eftir fráfall Hatshepsut var reynt að gera sem minnst úr valdatíð hennar og afmá hennar hlut af spjöldum sögunnar. Minjar voru skemmdar, myndir af henni eyðilagðar og andlit hennar var jafnvel skrapað af veggmyndum. Einnig var reynt að eyða öllum skjölum um hana. Engar heimildir hafa varðveist um af hverju þetta var gert en sumar kenningar hafa þó hlotið meiri hljómgrunn en aðrar. Ljóst er að skemmdarverkin voru framin á síðustu árum valdatíðar Tútmósis III. og því hafa margir velt því fyrir sér hvort þetta hafi verið gert í pólitískum tilgangi til að efla kröfu Amenhóteps II., sonar Tútmósis III., um að hann væri lögmætur arftaki faraós. Aðrir telja að Tútmósis III. hafi sjálfur gert þetta til að hefna sín á stjúpmóður sinni sem tók af honum embættið; hann hafi viljað að sagan mundi einungis muna eftir henni sem drottningu en ekki sem kvenkyns faraó. Sú kenning hefur þó verið gagnrýnd og bent á að ef honum hefði verið illa við hana hefði honum ekki orðið skotaskuld úr því að hefja uppreisn gegn henni og skapa ólgu í egypsku samfélagi með því að benda á kyn hennar.

Tilraun þeirra sem reyndu að afmá nafn Hatshepsut úr sögunni mistókst þó bersýnilega. Þessi öfluga kona sem fór með völd faraós í hinu karllæga samfélagi Egypta fyrir um það bil 3500 árum er enn vel þekkt.

Heimildir og myndir:


Þetta svar var unnið í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2016. Þórir Jónsson Hraundal hafði umsjón með námskeiðinu.

Spurning Áslaugar var almenns eðlis (Hvað getið þið sagt mér um tímabil faraóanna í Egyptalandi?) og er hér svarað að hluta.

...