Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað voru vökulögin og af hverju voru þau sett?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Skömmu eftir aldamótin 1900 tóku Íslendingar að veiða fisk á togurum. Fyrsti togarinn sem var gerður út frá Íslandi og í eigu Íslendinga hét Coot og fór fyrst til veiða árið 1905. Árið 1911 höfðu landsmenn eignast tíu togara, árið eftir 20; árið 1920 urðu þeir 28. Togararnir voru miklu stærri skip en höfðu verið notuð til fiskveiða áður, þótt ekki þættu þeir stór skip nú. Veiðarfæri þeirra var, og er, botnvarpa, netpoki sem skipið dregur eftir botni hafsins og safnar í hann fiski sem síðan er dreginn upp í skipið.

Málverk af Coot, fyrsta togara Íslendinga. Coot kom til landsins árið 1905 en strandaði þremur árum síðar við Keilisnes á Vatnsleysuströnd.

Togveiðar þóttu mikil uppgrip og voru oft sóttar af óhóflegu kappi. Engar reglur giltu um hvíldartíma við vinnu (nema um hvíld á helgidögum þjóðkirkjunnar), og létu skipstjórar togaranna háseta sína stundum vinna sólarhringum saman án þess að þeir fengju nokkurn svefn ef afli var góður. Voru sögð dæmi þess að menn gæfust upp á togarasjómennsku, sem var þó mjög eftirsótt, af því að þeir þoldu ekki vinnuálagið. Undirmenn á togurum áttu aðild að Hásetafélagi Reykjavíkur eftir að það var stofnað, árið 1915. Það samdi um kjör félagsmanna sinna við útgerðarmenn, en af einhverjum ástæðum setti félagið aldrei á oddinn kröfu um hvíldartíma.

Árið 1919 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um að hásetar á togurum skyldu fá að minnsta kosti átta stunda hvíld á hverjum sólarhring. Flutningsmaður var Jörundur Brynjólfsson sem hafði verið kosinn á þing með stuðningi Alþýðuflokksins. Frumvarpið var fellt í neðri deild þingsins með 17 atkvæðum gegn 8. Á þingi árið eftir gafst ekki tími til að fjalla um málið. En árið 1921 flutti Jón Baldvinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, frumvarp um málið. Þá var lágmark hvíldartímans stytt niður í sex stundir á sólarhring. Meginefni frumvarpsins var í 2. grein sem hljóðaði svona:
Þá er skip er að veiðum með botnvörpu skal jafnan skipta sólarhringnum í 4 vökur. Skulu 3/4 hlutar háseta skyldir að vinna í einu, en 1/4 hluti þeirra eiga hvíld, og skal svo skipta vöktunum að hver háseti hafi að minnsta kosti 6 klst. óslitna hvíld í sólarhring hverjum.

Fyrirfram gerðir samningar um lengri vinnutíma í senn en fyrir er mælt í þessari grein eru ógildir, en ekki skal það talið brot á ákvæðum hennar þó háseti, eftir eigin ósk í einstök skipti, vinni lengur í senn en þar er um mælt.

Þessi lög voru samþykkt, með 10 samhljóða atkvæðum í efri deild en 14 gegn 11 atkvæðum í neðri deild.

Árið 1928 var gerð sú breyting á lögunum að lágmarkshvíldartíminn var lengdur upp í átta klukkustundir á sólarhring. Á árunum 1947–49 var samið um tólf stunda hvíldartíma sjómanna í kjarasamningum, og árið 1955 voru samþykkt samhljóða á Alþingi lög um tólf stunda hvíld.

Heimildir og mynd

  • Alþingistíðindi 1921. 33. löggjafarþing. A. Þingskjöl með málaskrá. B. Umræður um samþykkt frumvörp og afgreidd, með aðalefnisyfirliti. Reykjavík, [Alþingi], 1921.
  • Einar Laxness: Íslandssaga s–ö. Alfræði Vöku-Helgafells. Reykjavík, Vaka-Helgafell, 1995.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Sigfús Jónsson: Sjávarútvegur Íslendinga á tuttugustu öld. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 1984.
  • Stjórnartíðindi fyrir Ísland 1921. A-deild. Önnur prentun. Reykjavík, [Stjórnarráð Íslands], 1931.
  • Mynd: Coot-fyrsti-togari-sem-ísl-eignuðust.jpg. (Sótt 21. 3. 2017).

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvað getið þið sagt mér um vökulögin? Hvaða stéttir voru að berjast þar og hvaða hagsmunir voru í húfi?

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

11.4.2017

Síðast uppfært

13.4.2017

Spyrjandi

Rebekka Rós Björgvinsdóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað voru vökulögin og af hverju voru þau sett?“ Vísindavefurinn, 11. apríl 2017, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73219.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2017, 11. apríl). Hvað voru vökulögin og af hverju voru þau sett? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73219

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað voru vökulögin og af hverju voru þau sett?“ Vísindavefurinn. 11. apr. 2017. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73219>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað voru vökulögin og af hverju voru þau sett?
Skömmu eftir aldamótin 1900 tóku Íslendingar að veiða fisk á togurum. Fyrsti togarinn sem var gerður út frá Íslandi og í eigu Íslendinga hét Coot og fór fyrst til veiða árið 1905. Árið 1911 höfðu landsmenn eignast tíu togara, árið eftir 20; árið 1920 urðu þeir 28. Togararnir voru miklu stærri skip en höfðu verið notuð til fiskveiða áður, þótt ekki þættu þeir stór skip nú. Veiðarfæri þeirra var, og er, botnvarpa, netpoki sem skipið dregur eftir botni hafsins og safnar í hann fiski sem síðan er dreginn upp í skipið.

Málverk af Coot, fyrsta togara Íslendinga. Coot kom til landsins árið 1905 en strandaði þremur árum síðar við Keilisnes á Vatnsleysuströnd.

Togveiðar þóttu mikil uppgrip og voru oft sóttar af óhóflegu kappi. Engar reglur giltu um hvíldartíma við vinnu (nema um hvíld á helgidögum þjóðkirkjunnar), og létu skipstjórar togaranna háseta sína stundum vinna sólarhringum saman án þess að þeir fengju nokkurn svefn ef afli var góður. Voru sögð dæmi þess að menn gæfust upp á togarasjómennsku, sem var þó mjög eftirsótt, af því að þeir þoldu ekki vinnuálagið. Undirmenn á togurum áttu aðild að Hásetafélagi Reykjavíkur eftir að það var stofnað, árið 1915. Það samdi um kjör félagsmanna sinna við útgerðarmenn, en af einhverjum ástæðum setti félagið aldrei á oddinn kröfu um hvíldartíma.

Árið 1919 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um að hásetar á togurum skyldu fá að minnsta kosti átta stunda hvíld á hverjum sólarhring. Flutningsmaður var Jörundur Brynjólfsson sem hafði verið kosinn á þing með stuðningi Alþýðuflokksins. Frumvarpið var fellt í neðri deild þingsins með 17 atkvæðum gegn 8. Á þingi árið eftir gafst ekki tími til að fjalla um málið. En árið 1921 flutti Jón Baldvinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, frumvarp um málið. Þá var lágmark hvíldartímans stytt niður í sex stundir á sólarhring. Meginefni frumvarpsins var í 2. grein sem hljóðaði svona:
Þá er skip er að veiðum með botnvörpu skal jafnan skipta sólarhringnum í 4 vökur. Skulu 3/4 hlutar háseta skyldir að vinna í einu, en 1/4 hluti þeirra eiga hvíld, og skal svo skipta vöktunum að hver háseti hafi að minnsta kosti 6 klst. óslitna hvíld í sólarhring hverjum.

Fyrirfram gerðir samningar um lengri vinnutíma í senn en fyrir er mælt í þessari grein eru ógildir, en ekki skal það talið brot á ákvæðum hennar þó háseti, eftir eigin ósk í einstök skipti, vinni lengur í senn en þar er um mælt.

Þessi lög voru samþykkt, með 10 samhljóða atkvæðum í efri deild en 14 gegn 11 atkvæðum í neðri deild.

Árið 1928 var gerð sú breyting á lögunum að lágmarkshvíldartíminn var lengdur upp í átta klukkustundir á sólarhring. Á árunum 1947–49 var samið um tólf stunda hvíldartíma sjómanna í kjarasamningum, og árið 1955 voru samþykkt samhljóða á Alþingi lög um tólf stunda hvíld.

Heimildir og mynd

  • Alþingistíðindi 1921. 33. löggjafarþing. A. Þingskjöl með málaskrá. B. Umræður um samþykkt frumvörp og afgreidd, með aðalefnisyfirliti. Reykjavík, [Alþingi], 1921.
  • Einar Laxness: Íslandssaga s–ö. Alfræði Vöku-Helgafells. Reykjavík, Vaka-Helgafell, 1995.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Sigfús Jónsson: Sjávarútvegur Íslendinga á tuttugustu öld. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 1984.
  • Stjórnartíðindi fyrir Ísland 1921. A-deild. Önnur prentun. Reykjavík, [Stjórnarráð Íslands], 1931.
  • Mynd: Coot-fyrsti-togari-sem-ísl-eignuðust.jpg. (Sótt 21. 3. 2017).

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvað getið þið sagt mér um vökulögin? Hvaða stéttir voru að berjast þar og hvaða hagsmunir voru í húfi?

...