Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Er hægt að deyja úr svefnleysi?

Þórdís Kristinsdóttir

Svefn er okkur lífsnauðsynlegur og algjör skortur á svefni leiðir á endanum til dauða. Rétt er þó að taka fram að algjör svefnskortur hjá mönnum er næstum ómögulegur nema hjá einstaklingum sem þjást af sjúkdómi sem nefnist banvænt arfgengt svefnleysi.

Svefn gegnir hlutverki við endurnýjun, vöxt og viðhald heilafrumna, orkusparnað, hjálpar við aðlögun að lífsháttum og fleira. Mörg mikilvæg hormón, svo sem vaxtarhormón, myndast í svefni og því er svefn sérstaklega mikilvægur börnum og unglingum sem eru að vaxa.

Svefnþörf er misjöfn milli einstaklinga og getur þar munað 1-2 klukkustundum til eða frá, en meðalsvefnþörf fullorðinna er talin vera um 7 og hálf klukkustund, auk þess sem gæði svefns skipta máli. Börn og ungmenni þurfa lengri svefn en fullorðnir, ungbörn þurfa allt að 16 tíma svefn og unglingar um 9 klukkustundir á sólarhring. Svefntíminn styttist með aldri en um 30 ára aldur er jafnvægi að nokkru náð.

Ef við fáum of lítinn svefn förum við í það sem kallast svefnskuld sem við þurfum að borga upp með meiri svefni síðar. Líkaminn getur ekki aðlagast skertum svefni en skortur til lengri tíma fer að hafa áhrif, sé ekki bætt upp fyrir hann. Svefnskortur hefur ekki áhrif á líkamlega getu en hefur mikil áhrif á andlega getu, til dæmis skerðist einbeiting og árvekni, viðbragðstími lengist, eirðarleysi og skapsveiflur aukast og fólk fer jafnvel að fá ofskynjanir. Rannsóknir sýna að lítill svefn hefur svipuð áhrif og áfengisneysla á andlega getu.

Svefn er okkur lífsnauðsynlegur og algjör skortur á svefni leiðir á endanum til dauða.

Svefntími lífvera er mjög misjafn en dýratilraunir hafa sýnt að mikil svefnskerðing getur leitt til dauða. Algjör svefnskortur er næstum ómögulegur hjá mönnum og fólk sem þjáist af svefnleysi sofnar örstutt af og til og fær því smá hvíld, jafnvel þótt það taki ekki eftir því. Undantekning á þessu er fólk sem þjáist af sjúkdómi sem kallast á ensku fatal familial insomnia eða banvænt arfgengt svefnleysi.

Fatal familial insomnia er erfðasjúkdómur sem veldur skemmdum í undirstúku (e. thalamus) en hún gegnir mikilvægu hlutverki við stjórn svefns og vöku. Sjúkdómurinn dregur fólk til dauða á 7-24 mánuðum en meðallíftími eftir að sjúkdómurinn tekur sig upp er 18 mánuðir. Sjúkdómurinn erfist ríkjandi á líkamslitningi (e. autosomal), sem þýðir að ef foreldri ber stökkbreytinguna eru 50% líkur á að afkvæmið fái hana líka. Sjúkdómurinn er af völdum príóns sem er afbrigðilegt form prótíns í heila sem er í sínu rétta formi skaðlaust. Príón eru ábyrg fyrir mörgum banvænum taugahrörnunarsjúkdómum í mönnum og dýrum, svo sem Creutzfeld-Jakob-sjúkdómi og kúrú í mönnum og riðuveiki í dýrum. Príonsjúkdómar eru nánast alltaf tengdir erfðum en aðeins 5% eru vegna nýrra stökkbreytinga. Aðeins örfá tilfelli af banvænu arfgengu svefnleysi vegna nýrra stökkbreytinga eru þekkt.

Banvænt arfgengt svefnleysi er oftast af völdum stökkbreytingar í prótíninu PrPc. Sjúkdómurinn kemur fram á aldrinum 18-60 ára en oftast í kringum fimmtugt. Það er misjafnt milli fjölskylda og milli einstaklinga innan sömu fjölskyldu hvernig sjúkdómurinn lýsir sér.

Sífellt meiri svefnskortur veldur ofsahræðslu og móðursýkiköstum og síðar ofskynjunum. Algjör svefnskortur leiðir svo til mikils þyngdartaps, andleg hrörnun eykst og dauði fylgir í kjölfarið. Engin þekkt lækning er til við sjúkdómnum en með ýmsum aðferðum má bæta lífsgæði sjúklinga meðan þeir lifa.

Heimildir:

Mynd:

Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:
Er hægt að deyja úr svefnleysi? Þá meina ég ekki að maður verði geðveikur út af svefnleysi og fremur sjálfsmorð, heldur hvort hægt sé að deyja út af svefnleysi einu og sér?

Höfundur

nemi í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

21.5.2012

Spyrjandi

Kristinn Bergsson

Tilvísun

Þórdís Kristinsdóttir. „Er hægt að deyja úr svefnleysi?“ Vísindavefurinn, 21. maí 2012. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60826.

Þórdís Kristinsdóttir. (2012, 21. maí). Er hægt að deyja úr svefnleysi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60826

Þórdís Kristinsdóttir. „Er hægt að deyja úr svefnleysi?“ Vísindavefurinn. 21. maí. 2012. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60826>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er hægt að deyja úr svefnleysi?
Svefn er okkur lífsnauðsynlegur og algjör skortur á svefni leiðir á endanum til dauða. Rétt er þó að taka fram að algjör svefnskortur hjá mönnum er næstum ómögulegur nema hjá einstaklingum sem þjást af sjúkdómi sem nefnist banvænt arfgengt svefnleysi.

Svefn gegnir hlutverki við endurnýjun, vöxt og viðhald heilafrumna, orkusparnað, hjálpar við aðlögun að lífsháttum og fleira. Mörg mikilvæg hormón, svo sem vaxtarhormón, myndast í svefni og því er svefn sérstaklega mikilvægur börnum og unglingum sem eru að vaxa.

Svefnþörf er misjöfn milli einstaklinga og getur þar munað 1-2 klukkustundum til eða frá, en meðalsvefnþörf fullorðinna er talin vera um 7 og hálf klukkustund, auk þess sem gæði svefns skipta máli. Börn og ungmenni þurfa lengri svefn en fullorðnir, ungbörn þurfa allt að 16 tíma svefn og unglingar um 9 klukkustundir á sólarhring. Svefntíminn styttist með aldri en um 30 ára aldur er jafnvægi að nokkru náð.

Ef við fáum of lítinn svefn förum við í það sem kallast svefnskuld sem við þurfum að borga upp með meiri svefni síðar. Líkaminn getur ekki aðlagast skertum svefni en skortur til lengri tíma fer að hafa áhrif, sé ekki bætt upp fyrir hann. Svefnskortur hefur ekki áhrif á líkamlega getu en hefur mikil áhrif á andlega getu, til dæmis skerðist einbeiting og árvekni, viðbragðstími lengist, eirðarleysi og skapsveiflur aukast og fólk fer jafnvel að fá ofskynjanir. Rannsóknir sýna að lítill svefn hefur svipuð áhrif og áfengisneysla á andlega getu.

Svefn er okkur lífsnauðsynlegur og algjör skortur á svefni leiðir á endanum til dauða.

Svefntími lífvera er mjög misjafn en dýratilraunir hafa sýnt að mikil svefnskerðing getur leitt til dauða. Algjör svefnskortur er næstum ómögulegur hjá mönnum og fólk sem þjáist af svefnleysi sofnar örstutt af og til og fær því smá hvíld, jafnvel þótt það taki ekki eftir því. Undantekning á þessu er fólk sem þjáist af sjúkdómi sem kallast á ensku fatal familial insomnia eða banvænt arfgengt svefnleysi.

Fatal familial insomnia er erfðasjúkdómur sem veldur skemmdum í undirstúku (e. thalamus) en hún gegnir mikilvægu hlutverki við stjórn svefns og vöku. Sjúkdómurinn dregur fólk til dauða á 7-24 mánuðum en meðallíftími eftir að sjúkdómurinn tekur sig upp er 18 mánuðir. Sjúkdómurinn erfist ríkjandi á líkamslitningi (e. autosomal), sem þýðir að ef foreldri ber stökkbreytinguna eru 50% líkur á að afkvæmið fái hana líka. Sjúkdómurinn er af völdum príóns sem er afbrigðilegt form prótíns í heila sem er í sínu rétta formi skaðlaust. Príón eru ábyrg fyrir mörgum banvænum taugahrörnunarsjúkdómum í mönnum og dýrum, svo sem Creutzfeld-Jakob-sjúkdómi og kúrú í mönnum og riðuveiki í dýrum. Príonsjúkdómar eru nánast alltaf tengdir erfðum en aðeins 5% eru vegna nýrra stökkbreytinga. Aðeins örfá tilfelli af banvænu arfgengu svefnleysi vegna nýrra stökkbreytinga eru þekkt.

Banvænt arfgengt svefnleysi er oftast af völdum stökkbreytingar í prótíninu PrPc. Sjúkdómurinn kemur fram á aldrinum 18-60 ára en oftast í kringum fimmtugt. Það er misjafnt milli fjölskylda og milli einstaklinga innan sömu fjölskyldu hvernig sjúkdómurinn lýsir sér.

Sífellt meiri svefnskortur veldur ofsahræðslu og móðursýkiköstum og síðar ofskynjunum. Algjör svefnskortur leiðir svo til mikils þyngdartaps, andleg hrörnun eykst og dauði fylgir í kjölfarið. Engin þekkt lækning er til við sjúkdómnum en með ýmsum aðferðum má bæta lífsgæði sjúklinga meðan þeir lifa.

Heimildir:

Mynd:

Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:
Er hægt að deyja úr svefnleysi? Þá meina ég ekki að maður verði geðveikur út af svefnleysi og fremur sjálfsmorð, heldur hvort hægt sé að deyja út af svefnleysi einu og sér?

...