Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaMið-AusturlöndHverjir voru helstu leiðtogar íslams strax eftir dauða Múhameðs?
Rashidun er nafn sem fyrsta kalífadæminu eftir dauða Múhameðs var gefið. Fjórir kalífar stjórnuðu því frá 632-661. Orðið Rashidun mætti þýða sem hinir réttlátu eða hinir réttmætu; enska þýðingin er yfirleitt the rightly guided. Samkvæmt íslam var Múhameð síðasti spámaður guðs á jörðu. Múhameð lést árið 632 og þá var uppi ágreiningur um hver tæki við af honum sem leiðtogi múslima. Enginn af sonum Múhameðs hafði lifað til fullorðinsára og því var erfðaveldi ekki möguleiki. Rashidun-kalífadæmið er merkilegt að því leytinu að sjítar viðurkenna ekki fyrstu þrjá kalífa Rashidun-kalífadæmisins, auk þess að þeir réðu yfir gífurlega miklu landsvæði. Rétt er að fræðast frekar um hvern kalífa fyrir sig.
Umfang Rashidun-kalífadæmisins undir stjórn Abu Bakr.
Abu Bakr
Abu Bakr var fyrsti kalífi Rashidun-kalífadæmisins. Hann fæddist í borginni Mekka árið 573. Átti hann eftir að vera förunautur Múhameðs spámanns í að breiða út íslamska trú. Eftir dauða Múhameð spámanns árið 632 upphófst mikil óvissa hver skyldi taka við sem leiðtogi múslima. Svo fór að Abu Bakr tók við sem kalífi og var hann það í tvö ár eða til ársins 634 þegar hann lést. Sannfæringarkraftur arftaka Abu Bakr, Umar ibn al-Khattab, átti stóran þátt í útnefningu Abu Bakr sem kalífa.
Abu Bakr var mjög merkilegur fyrir þær sakir að súnnítar telja hann vera merkasta förunaut Múhameðs. Þótt hann hafi einungis verið kalífi í tvö ár þá státar Abu Bakr af miklum hernaðarlegum sigrum gegn tveimur af öflugustu heimsveldum þess tíma, annars vegar gegn Sassanídum og hins vegar gegn Hinu heilaga rómverska ríki. Sigrar þessir stækkuðu umráðasvæði múslima mikið.
Auk þess er Abu Bakr þekktur fyrir að hafa, einn kalífa í sögu íslams, endurgreitt alla þá fjármuni sem hann þénaði á valdatíð sinni. Abu Bakr var síðan fyrsti kalífinn til þess að tilnefna eftirmann sinn og kom það fáum á óvart að hann skyldi endurgjalda Umar greiðann.
Nafn Umars ritað með íslamskri skrautritun.
Umar ibn al-Khattab
Umar ibn al-Khattab var eftirmaður Abu Bakr og því annar kalífi Rashidun-kalífadæmisins. Umar var kalífi frá árinu 634 til dauðadags árið 644. Hann kallaði sjálfan sig Amír al-Mu'minín sem mætti þýða sem leiðtogi hinna trúuðu. Það sem einkenndi stjórnartíð hans voru áframhaldandi landvinningar gegn Sassanídum og Austrómverska ríkinu (einnig nefnt Býsansríkið). Hann lagði í raun grunn að íslamska heimsveldinu. Undir hans stjórn náði Rashidun-kalífadæmið að leggja undir sig Sýrland, Palestínu, Egyptaland og Írak.
Upphaf embættismannakerfisins diwan má rekja aftur til stjórnartíð Umars. Þá voru íbúar þeirra svæða sem kalífadæmið lagði undir sig ekki neyddir til að snúast til íslams. Þess í stað kom hann á skatti sem hinir ótrúuðu þurftu að borga en svokallaðir amírar voru settir sem landstjórar á þeim svæðum. Umari var annt um jafnrétti og kom á fót velferðarkerfi. Hann trúði því að enginn ætti að lifa hærra eða lægra en annar en sjálfur lifði hann mjög einföldu lífi. Hans er minnst fyrir að vera strangur en heiðarlegur leiðtogi.
Stjórnartíð Umars lauk árið 644 þegar persneskur þræll að nafni Piruz Nahavandi, einnig þekktur undir nafninu Abu Lulu, réðst á hann og særði lífshættulega. Tilefni árásarinnar voru skattamál. Umar lést af sárum sínum þremur dögum síðar. Það reyndist erfitt fyrir Umar að velja arftaka sinn áður en hann lést þar sem flestir nánustu samstarfsmenn hans voru látnir. Þess í stað lét hann kjósa nýjan kalífa og svo fór að Uthman ibn Affan varð eftirmaður Umars.
Umfang kalífadæmisins náði hámarki árið 653 undir stjórn Uthmans.
Uthman ibn Affan
Uthman var þriðji kalífi Rashidun-kalífadæmisins og eftirmaður Umars. Hann tók við sem kalífi árið 644, þegar hann var um sjötugt. Uthman var af Ummayad-ættinni sem komin var af Quraish-ættkvíslinni. Það var Abu Bakr sem kynnti Uthman fyrir íslamskri trú þegar hann var 34 ára gamall. Uthman var giftur Ruqayya, dóttur Múhameðs spámanns, en eftir að hún dó, giftist hann annarri dóttur Múhameðs, Kulthum.
Eitt af mestu afrekum Uthmans var endurgerð hans á Kóraninum. Kóraninn hafði verið til í mörgum útgáfum, en eftir útgáfu Uthmans skipaði hann að allar eldri útgáfur af Kóraninum skyldu verða eyðilagðar. Í kjölfarið dreifði hann nýja Kóraninum til múslima. Talið er að í þau tólf ár sem Uthman var kalífi hafi fyrstu sex árin einkennst af friðsæld og ró en síðustu sex árin af uppreisn.
Uthman trúði á miðstýringu valds og því ætti hann sjálfur að ákveða hverjir væru við stjórnvölinn, ásamt því að öll ákvarðanataka ætti að fara fram í Medínu en ekki í hverri borg fyrir sig. Mörgum þótti Uthman sýna mikla einræðistilburði, til dæmis lagði hann gjöld á bæi sem fjölskylda hans fékk vænan hluta af í stað þess að gjöldin rynnu til herliðs hans. Auk þess skipaði Uthman náinb ættingja sem ríkisstjóra í Egyptalandi árið 656. Eftir skipunina héldu egypskir uppreisnarmenn á fund Uthmans og kröfðust þess að ríkisstjórinn yrði látinn fara. Það samþykkti kalífinn en þegar uppreisnarmenninir héldu aftur til Egyptalands mætti þeim þræll sem Uthman hafði sent til að taka leiðtoga uppreisnarmannanna af lífi. Sneru þeir því til baka til Medínu og myrtu Uthman á heimili sínu. Þá var Uthman 84 ára gamall.
Meirihluti sjíta telur að Ali sé grafinn í þessari mosku í borginni an-Najaf í Írak.
Ali ibn Abi Talib
Ali ibn Abi Talib, betur þekktur sem Ali, var síðasti kalífi Rashidun-kalífadæmisins. Ali ríkti í sex ár, frá 656-661. Eftir dauða Uthman var Medína í upplausn og stjórnleysi. Margir komu þá að máli við Ali og báðu hann um að taka að sér stjórn kalífadæmisins.
Stjórn Ali var mörkuð af ýmsum breytingum. Hann skipti út ríkisstjórum sem voru hliðhollir Uthman og skipaði fyrir um að höfuðborgin yrði færð til Kufa. Auk þess var borgarastyrjöld háð á þessum árum vegna ósættis múslima um hver ætti réttinn yfir kalífadæminu. Ali var ráðinn af dögum í Kufa í kjölfar borgarastyrjaldarinnar. Ráðist var á hann með sverði sem búið var að bera á eitur. Ali lifði í tvo daga og á þeim tíma skipaði hann sonum sínum að hefna sín ekki á hópi fólks, aðeins morðingjanum.
Súnnítar halda því fram að Ali hafi verið fjórði og sá síðasti af Rashidun-kalífunum eða þeim réttmætu. Sjítar trúa að Ali hafi verið valinn og andlega leiddur af Múhameð. Þessir leiðtogar eru kallaðir ímamar. Þetta var ástæðan fyrir því að múslimar skiptust í súnníta og sjíta en sjíta er stytting á orðinu shi’at ‘Ali sem þýðir einfaldlega fylgjendur Ali.
Heimildir:
Þetta svar var unnið í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2016. Þórir Jónsson Hraundal hafði umsjón með námskeiðinu.
Upprunalega spurningin var almenns eðlis (um uppruna og fyrstu ár íslams) og er hér svarað að hluta og einnig í öðrum svörum á Vísindavefnum.
Andri Már Hermannsson, Arnþór Daði Guðmundsson, Bjarki Kolbeinsson og Ólöf Rún Gunnarsdóttir. „Hverjir voru helstu leiðtogar íslams strax eftir dauða Múhameðs?“ Vísindavefurinn, 17. mars 2017, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73284.
Andri Már Hermannsson, Arnþór Daði Guðmundsson, Bjarki Kolbeinsson og Ólöf Rún Gunnarsdóttir. (2017, 17. mars). Hverjir voru helstu leiðtogar íslams strax eftir dauða Múhameðs? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73284
Andri Már Hermannsson, Arnþór Daði Guðmundsson, Bjarki Kolbeinsson og Ólöf Rún Gunnarsdóttir. „Hverjir voru helstu leiðtogar íslams strax eftir dauða Múhameðs?“ Vísindavefurinn. 17. mar. 2017. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73284>.