Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvernig gengur að þróa lyf við Alzheimers-sjúkdómnum?

Jón Snædal

Í heild hljóðaði spurningin svona:
Óeðlilegar útfellingar prótína í heilanum er talið orsök Alzheimers. Verið er að þróa nýtt lyf, Aducanumab. Spurning mín er; á hvaða stigi eru þróun lyfsins, og/eða væntingar til þess?

Í Alzheimers-sjúkdómi falla út óeðlileg prótín á milli taugafrumna, svokallað amyloid, og eru þau talin trufla samskipti taugafrumna og þannig trufla heilastarfsemi. Það eru þessar útfellingar sem þýski læknirinn Alois Alzheimer (1864-1915) sá í smásjá sinni árið 1906 þegar hann skoðaði sýni úr heila konu að nafni Auguste Dieter, en hún hafði látist úr sjúkdómnum. Hann lýsti fyrstu tveimur tilfellunum í grein sem var birt árið eftir[1]. Á næstu áratugum fékk þessi uppgötvun ekki mikla athygli enda töldu menn að Alzheimers-sjúkdómur væri fremur sjaldgæfur heilahrörnunarsjúkdómur fólks á miðjum aldri. Það var ekki fyrr en seint á sjötta áratug síðustu aldar sem breskir vísindamenn sáu að meginhluti aldraðra, sem urðu kalkaðir eins og það var þá kallað, voru í raun með þennan sama sjúkdóm.

Mynd sem Alzheimer gerði sjálfur af prótínútfellingunum og birti í grein sinni.

Um miðjan níunda áratuginn var tæknin komin á það stig að unnt var að skoða nákvæmlega flókin prótínsambönd og þá kom fram tilgátan um að orsök sjúkdómsins væru þessar útfellingar. Á þessum tíma tókst að skýra efnaferlið; að stórt prótín kallað APP (e. amyloid precursor protein), sem er að finna víða á taugafrumum, brotnaði niður í mismunandi langar keðjur (kallaðar beta-amyloid-keðjur). Nái þessar keðjur vissri lengd, yfir 40 amínósýrur, er talið að heilinn geti ekki hreinsað þær í burtu, þær loða saman og mynda prótínútfellingar sem kallast elliskellur (e. senile plaques).

Á þeim þrjátíu árum sem liðin eru frá því þessi tilgáta kom fram hefur margt orðið skýrara en leiðin hefur þó verið þyrnum stráð[2]. Ýmislegt hefur stutt amyloid-tilgátuna, ekki síst margvíslegar uppgötvanir erfðavísinda en enn hefur þó ekki komið fram gagnlegt lyf sem byggir á tilgátunni. Tilraunir til þess hefur þó ekki skort og hvert lyfið á fætur öðru hefur farið í gegnum mjög umfangsmiklar rannsóknir. Öll hafa þau þó „fallið“, það er ekki sýnt þann árangur að leyft sé að setja þau á markað. Helsti flokkur þessara lyfja kallast stundum „bólusetning“ sem er misvísandi því það er verið að virkja ónæmiskerfið gagnvart efnum sem eru þegar til staðar í líkamanum en ekki gagnvart efnum sem eiga eftir að knýja á svo sem sýklum og veirum líkt og í venjulegri bólusetningu. Hið síðasta af þessum lyfjum kom út úr umfangsmikilli rannsókn í desember 2016 og hlaut það sömu örlög og þau fyrri, að gefa ekki árangur. Þó var ekki talið að tilgátan væri fallin eins og sjá má í heimildinni[3].

Enn sem komið er hefur ekki tekist að þróa gagnlegt lyf sem byggir á amyloid-tilgátunni.

Í dag eru lyf af flokknum Bace-hamlar til skoðunar. Hið fyrsta sem kom út úr rannsóknum sýndi því miður ekki árangur í forrannsókn og skýrði fyrirtækið Merck frá því í febrúar 2017 að það myndi ekki halda áfram þeim rannsóknum[4]. Það eru þó að minnsta kosti þrjú önnur afbrigði til skoðunar hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum en það mun taka nokkur ár að sjá fyrir endann á þeirri þróun. Núna eru menn á því að lyf af þessum toga verði að nota mjög snemma, helst um það bil eða áður en fyrstu einkenni koma fram. Því er mikið lagt upp úr snemmgreiningu sjúkdómsins en eins og staðan er í dag myndi það þó ekki leiða til nýrrar meðferðar.

Af þessu má ráða að það verður enn skortur á lyfjum sem hægt er að nota þegar sjúkdómurinn er kominn á skrið. Þar er verið að skoða lyf af öðrum toga en rannsóknir á þeim eru skemmra á veg komnar en á Bace-hömlum.

Tilvísanir:
  1. ^ Alzheimer, A. (1907). Über eine eigenartige Erkrankung der Hirnrinde. Allgemeine Zeitschrift für Psychiatrie und Psychiatrisch-gerichtliche Medizin 64, 146–148.
  2. ^ Selkoe D.J. og Hardy J. (2016). The amyloid hypothesis of Alzheimer's disease at 25 years. EMBO Molecular Medicine. Jun 1;8(6):595-608. doi: 10.15252/emmm.201606210.
  3. ^ Kegel, M. (2016). Failure of Lilly’s Solanezumab Not Seen as Conclusive Proof That Amyloid Theory Is Flawed. Alzheimer's News Today, 29. nóvember.
  4. ^ Carroll, J. (2017). Merck’s leading PhIII BACE drug implodes in latest Alzheimer’s disaster. Endpoints News, 14. febrúar.

Myndir:

Höfundur

Jón Snædal

öldrunarlæknir við Landspítalann

Útgáfudagur

4.4.2017

Spyrjandi

Guðmundur Magnús Agnarsson

Tilvísun

Jón Snædal. „Hvernig gengur að þróa lyf við Alzheimers-sjúkdómnum?“ Vísindavefurinn, 4. apríl 2017. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=73343.

Jón Snædal. (2017, 4. apríl). Hvernig gengur að þróa lyf við Alzheimers-sjúkdómnum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=73343

Jón Snædal. „Hvernig gengur að þróa lyf við Alzheimers-sjúkdómnum?“ Vísindavefurinn. 4. apr. 2017. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=73343>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig gengur að þróa lyf við Alzheimers-sjúkdómnum?
Í heild hljóðaði spurningin svona:

Óeðlilegar útfellingar prótína í heilanum er talið orsök Alzheimers. Verið er að þróa nýtt lyf, Aducanumab. Spurning mín er; á hvaða stigi eru þróun lyfsins, og/eða væntingar til þess?

Í Alzheimers-sjúkdómi falla út óeðlileg prótín á milli taugafrumna, svokallað amyloid, og eru þau talin trufla samskipti taugafrumna og þannig trufla heilastarfsemi. Það eru þessar útfellingar sem þýski læknirinn Alois Alzheimer (1864-1915) sá í smásjá sinni árið 1906 þegar hann skoðaði sýni úr heila konu að nafni Auguste Dieter, en hún hafði látist úr sjúkdómnum. Hann lýsti fyrstu tveimur tilfellunum í grein sem var birt árið eftir[1]. Á næstu áratugum fékk þessi uppgötvun ekki mikla athygli enda töldu menn að Alzheimers-sjúkdómur væri fremur sjaldgæfur heilahrörnunarsjúkdómur fólks á miðjum aldri. Það var ekki fyrr en seint á sjötta áratug síðustu aldar sem breskir vísindamenn sáu að meginhluti aldraðra, sem urðu kalkaðir eins og það var þá kallað, voru í raun með þennan sama sjúkdóm.

Mynd sem Alzheimer gerði sjálfur af prótínútfellingunum og birti í grein sinni.

Um miðjan níunda áratuginn var tæknin komin á það stig að unnt var að skoða nákvæmlega flókin prótínsambönd og þá kom fram tilgátan um að orsök sjúkdómsins væru þessar útfellingar. Á þessum tíma tókst að skýra efnaferlið; að stórt prótín kallað APP (e. amyloid precursor protein), sem er að finna víða á taugafrumum, brotnaði niður í mismunandi langar keðjur (kallaðar beta-amyloid-keðjur). Nái þessar keðjur vissri lengd, yfir 40 amínósýrur, er talið að heilinn geti ekki hreinsað þær í burtu, þær loða saman og mynda prótínútfellingar sem kallast elliskellur (e. senile plaques).

Á þeim þrjátíu árum sem liðin eru frá því þessi tilgáta kom fram hefur margt orðið skýrara en leiðin hefur þó verið þyrnum stráð[2]. Ýmislegt hefur stutt amyloid-tilgátuna, ekki síst margvíslegar uppgötvanir erfðavísinda en enn hefur þó ekki komið fram gagnlegt lyf sem byggir á tilgátunni. Tilraunir til þess hefur þó ekki skort og hvert lyfið á fætur öðru hefur farið í gegnum mjög umfangsmiklar rannsóknir. Öll hafa þau þó „fallið“, það er ekki sýnt þann árangur að leyft sé að setja þau á markað. Helsti flokkur þessara lyfja kallast stundum „bólusetning“ sem er misvísandi því það er verið að virkja ónæmiskerfið gagnvart efnum sem eru þegar til staðar í líkamanum en ekki gagnvart efnum sem eiga eftir að knýja á svo sem sýklum og veirum líkt og í venjulegri bólusetningu. Hið síðasta af þessum lyfjum kom út úr umfangsmikilli rannsókn í desember 2016 og hlaut það sömu örlög og þau fyrri, að gefa ekki árangur. Þó var ekki talið að tilgátan væri fallin eins og sjá má í heimildinni[3].

Enn sem komið er hefur ekki tekist að þróa gagnlegt lyf sem byggir á amyloid-tilgátunni.

Í dag eru lyf af flokknum Bace-hamlar til skoðunar. Hið fyrsta sem kom út úr rannsóknum sýndi því miður ekki árangur í forrannsókn og skýrði fyrirtækið Merck frá því í febrúar 2017 að það myndi ekki halda áfram þeim rannsóknum[4]. Það eru þó að minnsta kosti þrjú önnur afbrigði til skoðunar hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum en það mun taka nokkur ár að sjá fyrir endann á þeirri þróun. Núna eru menn á því að lyf af þessum toga verði að nota mjög snemma, helst um það bil eða áður en fyrstu einkenni koma fram. Því er mikið lagt upp úr snemmgreiningu sjúkdómsins en eins og staðan er í dag myndi það þó ekki leiða til nýrrar meðferðar.

Af þessu má ráða að það verður enn skortur á lyfjum sem hægt er að nota þegar sjúkdómurinn er kominn á skrið. Þar er verið að skoða lyf af öðrum toga en rannsóknir á þeim eru skemmra á veg komnar en á Bace-hömlum.

Tilvísanir:
  1. ^ Alzheimer, A. (1907). Über eine eigenartige Erkrankung der Hirnrinde. Allgemeine Zeitschrift für Psychiatrie und Psychiatrisch-gerichtliche Medizin 64, 146–148.
  2. ^ Selkoe D.J. og Hardy J. (2016). The amyloid hypothesis of Alzheimer's disease at 25 years. EMBO Molecular Medicine. Jun 1;8(6):595-608. doi: 10.15252/emmm.201606210.
  3. ^ Kegel, M. (2016). Failure of Lilly’s Solanezumab Not Seen as Conclusive Proof That Amyloid Theory Is Flawed. Alzheimer's News Today, 29. nóvember.
  4. ^ Carroll, J. (2017). Merck’s leading PhIII BACE drug implodes in latest Alzheimer’s disaster. Endpoints News, 14. febrúar.

Myndir:

...