Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Alois Alzheimer og hvert var framlag hans til læknisfræðinnar?

Jón Snædal

Sjúkdómsheitið „Alzheimers-sjúkdómur“ er væntanlega öllum kunnugt og flestir vita sennilega að sjúkdómurinn leggst á heilann og veldur því að minni og önnur vitræn geta skerðist. Sjúkdómurinn fékk nafn sitt af þýska lækninum Alois Alzheimer sem fyrstur lýsti honum í ritgerð árið 1907 en það var þó ekki hann sjálfur sem lagði til að nafn hans yrði tengt sjúkdómnum heldur var það yfirmaður hans, hinn þekkti geðlæknir Emil Kraepelin, sem lagði það til árið 1910.

Alois Alzheimer (1864-1915).

Aloysius (Alois) Alzheimer var fæddur í þorpinu Marktbreit nálægt Würzburg í Þýskalandi hinn 14. júní árið 1864. Hann lærði læknisfræði við þrjá háskóla, í Berlín, Tübingen og Würzburg þar sem hann varði doktorsritgerð sína aðeins 23 ára að aldri. Hún fjallaði um svitakirtla í eyrnahlustinni en í þeim eru frumur sem mynda eyrnamerg. Í þeirri vinnu notaðist hann meðal annars við smásjárrannsóknir en meinafræði var honum síðan alltaf hugleikin og það var notkun hans á aðferðum meinafræðinnar sem gerðu honum kleift að sýna fram á þær breytingar sem síðar hlutu nafn hans.

Ári eftir útskrift hóf hann störf sem aðstoðarlæknir á spítala fyrir geðsjúka og flogaveika í Frankfurt am Main og með tímanum fékk hann þar fasta stöðu sem sérfræðingur. Hann hafði mikinn áhuga á að skoða sjúkdóma heilans sem líffræðileg fyrirbæri og var þannig óralangt frá hugmyndum Sigmundar Freuds (1856-1939) sem á þessu tíma var að skapa sér nafn fyrir sálrænar skýringar á geðsjúkdómum. Segja má að á þessum tíma hafi togast á tveir skólar í geðlæknisfræði, sá sálræni sem Freud var helsti talsmaður fyrir og svo hinn líffræðilegi sem Emil Kraepelin (1856-1926) fór fyrir. Innan geðlæknisfræðinnar má segja að hugmyndi Kraepelins hafi orðið veigameiri enda er hann oft nefndur faðir geðlæknisfræðinnar. Alzheimer var augljóslega miklu nær hinum síðarnefnda í sínum fræðum.

Árið 1889 kom annar læknir, Franz Nissl (1860-1919) til starfa á sjúkrahúsinu en hann vann einkum að meinafræði. Hann fann nýja litunaraðferð fyrir taugafrumur, svokallaða silfurlitun, sem enn ber nafn hans. Hann og Alzheimer urðu samstarfsmenn og vinir og saman ritstýrðu þeir tímaritinu Histologische und histopathologische Arbeiten über die Grosshinrinde um langt árabil. Þegar Alzheimer notaði silfurlitun Nissl við skoðun á heila sjúklings sem hann hafði haft með að gera fann hann fyrirbæri sem ekki hafði verið lýst áður, utanfrymisútfellingar sem við vitum núna að eru með amyloid-prótínum og innanfrymisútfellingar sem höfðu sérkennilegt snúningslaga útlit. Þær útfellingar sýndu sig síðar að innihalda annað efni, svokallað tau-prótín. Þessi tvö fyrirbæri eru enn í dag grundvöllur meinafræðilegrar skilgreiningar á sjúkdómnum og nánast öll lyf sem reynd hafa verið beinast að því að hamla útfellingu eða leysa þær upp. Þær tilraunir hafa þó enn ekki leitt til áhrifaríkrar meðferðar.

Auguste D.

Konan sem Alzheimer hafði haft með að gera og sem hann síðan skoðaði heilann úr hét Auguste Dieter. Konrad Maurer, þýskur vísindamaður sem mikið hefur rannsakað Alzheimers-sjúkdóm lýsti því í grein sem birtist í tímaritinu Lancet árið 1997 að sjúkraskýrsla Auguste D. (eins og hún er venjulega nefnd) hafi týnst árið 1909. Það var gerð mikil leit að henni í tilefni af opnun safns um Alzheimer árið 1995 og fannst hún 4 dögum eftir opnun safnsins sem var á 80. dánardegi Alzheimers. Skýrslan fannst í sjúkraskrársafni spítalans þar sem hún lést og hafði verið þar allan tímann. Þessi skýrsla er mjög nákvæm og er hún að miklu leyti færð af Alzheimer sjálfum og má sjá af skýrslunni að hann hafði mikinn áhuga á því hvernig sjúklingurinn var í hegðun og hver einkennin voru. Hann lagði fyrir hana ýmis verkefni af þeim toga sem enn eru notuð í ýmsum minnisprófum. Hann reyndi þannig ekki aðeins á minni hennar heldur einnig á skilning og mál. Hún var 46 árs gömul þegar hún kom á spítalann árið 1901 og lést hún 5 árum síðar. Það var að sjálfsögðu tilviljun en Alzheimer lést einnig 51 árs gamall árið 1915.

Alzheimer lýsti því sem hann hafði orðið áskynja um sjúkdóm Auguste D. sem og þeim breytingum sem hann fann í heila hennar í fyrirlestri í Tübungen árið 1906. Í þeim fyrirlestri og í grein sem birtist ári síðar lagði hann mikla áherslu á það sem hann hafði séð í smásjánni enda um nýjung að ræða. Lýsing hans á nýjum sjúkdómi öðlaðist strax viðurkenningu og fékk nafn sitt af „höfundi“ sínum fjórum árum síðar. Alzheimers-sjúkdómur var næstu 50 árin talinn vera sjaldgæfur sjúkdómur fólks á miðjum aldri og það var ekki fyrr en með rannsóknum breskra lækna á sjötta áratugnum sem ljóst var að „kölkun“ meðal aldraðra eins og fyrirbærið hét hér á landi orsakaðist oftast af nákvæmlega sömu breytingum í heila og Alzheimer hafði lýst. Enn er víða við líði aðgreining á Alzheimers-sjúkdómi eftir aldri þeirra sem fá hann í annars vegar snemmkominn sjúkdóm sem byrjar fyrir 65 ára aldri og síðkominn sjúkdóm sem byrjar eftir 65 ára aldri. Þessi aldursmörk hafa þá skírskotun að sjúkdómsmyndin er mismunandi eftir því hvort einstaklingar eru á miðjum aldri eða aldraðir þegar hann kemur í ljós en hvort það gerist nákvæmlega við 65 ára aldur er önnur saga.

Alzheimers-sjúkdómur veldur vaxandi heilbrigðisbyrði um allan heim og enn í dag er verið að vinna með þær útfellingar sem Alzheimer lýsti í fyrirlestri sínum árið 1906. Allar stofnanir og félög sem starfa að málefnum sjúklinga með Alzheimers-sjúkdóm nota nafn þessa þýska læknis í nafngiftum sínum og það eru engar fyrirætlanir um að breyta heitinu þótt núna sé verið að ræða að breyta heiti þess fyrirbæris sem sjúkdómurinn veldur, latneska heitinu dementia sem notað er í flestum tungumálum öðrum en íslensku en við notumst við orðið heilabilun um hið sama. Þar sem sjúkdómurinn er svo algengur sem raun ber vitni eða hjá um 5% allra sem eru yfir 65 ára aldur og þar sem hann breytir persónunni sem fær hann í grundvallaratriðum er sjúkdómurinn og maðurinn sem gaf honum nafn sitt kunn flestum. Af því sem hér hefur verið rakið er það engin tilviljun að Alios Alzheimer er enn í dag þekktur út um allan heim.

Tilvísanir og myndir:
  • Konrad Maurer, Stephan Volk og Hector Gerbaldo. Auguste D and Alzheimer´s disease. The Lancet 1997;349:1546-49.
  • Myndir: Alois Alzheimer á Wikipedia. Sóttar 18. 12. 2011.

Höfundur

Jón Snædal

öldrunarlæknir við Landspítalann

Útgáfudagur

19.12.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jón Snædal. „Hver var Alois Alzheimer og hvert var framlag hans til læknisfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 19. desember 2011, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61527.

Jón Snædal. (2011, 19. desember). Hver var Alois Alzheimer og hvert var framlag hans til læknisfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61527

Jón Snædal. „Hver var Alois Alzheimer og hvert var framlag hans til læknisfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 19. des. 2011. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61527>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Alois Alzheimer og hvert var framlag hans til læknisfræðinnar?
Sjúkdómsheitið „Alzheimers-sjúkdómur“ er væntanlega öllum kunnugt og flestir vita sennilega að sjúkdómurinn leggst á heilann og veldur því að minni og önnur vitræn geta skerðist. Sjúkdómurinn fékk nafn sitt af þýska lækninum Alois Alzheimer sem fyrstur lýsti honum í ritgerð árið 1907 en það var þó ekki hann sjálfur sem lagði til að nafn hans yrði tengt sjúkdómnum heldur var það yfirmaður hans, hinn þekkti geðlæknir Emil Kraepelin, sem lagði það til árið 1910.

Alois Alzheimer (1864-1915).

Aloysius (Alois) Alzheimer var fæddur í þorpinu Marktbreit nálægt Würzburg í Þýskalandi hinn 14. júní árið 1864. Hann lærði læknisfræði við þrjá háskóla, í Berlín, Tübingen og Würzburg þar sem hann varði doktorsritgerð sína aðeins 23 ára að aldri. Hún fjallaði um svitakirtla í eyrnahlustinni en í þeim eru frumur sem mynda eyrnamerg. Í þeirri vinnu notaðist hann meðal annars við smásjárrannsóknir en meinafræði var honum síðan alltaf hugleikin og það var notkun hans á aðferðum meinafræðinnar sem gerðu honum kleift að sýna fram á þær breytingar sem síðar hlutu nafn hans.

Ári eftir útskrift hóf hann störf sem aðstoðarlæknir á spítala fyrir geðsjúka og flogaveika í Frankfurt am Main og með tímanum fékk hann þar fasta stöðu sem sérfræðingur. Hann hafði mikinn áhuga á að skoða sjúkdóma heilans sem líffræðileg fyrirbæri og var þannig óralangt frá hugmyndum Sigmundar Freuds (1856-1939) sem á þessu tíma var að skapa sér nafn fyrir sálrænar skýringar á geðsjúkdómum. Segja má að á þessum tíma hafi togast á tveir skólar í geðlæknisfræði, sá sálræni sem Freud var helsti talsmaður fyrir og svo hinn líffræðilegi sem Emil Kraepelin (1856-1926) fór fyrir. Innan geðlæknisfræðinnar má segja að hugmyndi Kraepelins hafi orðið veigameiri enda er hann oft nefndur faðir geðlæknisfræðinnar. Alzheimer var augljóslega miklu nær hinum síðarnefnda í sínum fræðum.

Árið 1889 kom annar læknir, Franz Nissl (1860-1919) til starfa á sjúkrahúsinu en hann vann einkum að meinafræði. Hann fann nýja litunaraðferð fyrir taugafrumur, svokallaða silfurlitun, sem enn ber nafn hans. Hann og Alzheimer urðu samstarfsmenn og vinir og saman ritstýrðu þeir tímaritinu Histologische und histopathologische Arbeiten über die Grosshinrinde um langt árabil. Þegar Alzheimer notaði silfurlitun Nissl við skoðun á heila sjúklings sem hann hafði haft með að gera fann hann fyrirbæri sem ekki hafði verið lýst áður, utanfrymisútfellingar sem við vitum núna að eru með amyloid-prótínum og innanfrymisútfellingar sem höfðu sérkennilegt snúningslaga útlit. Þær útfellingar sýndu sig síðar að innihalda annað efni, svokallað tau-prótín. Þessi tvö fyrirbæri eru enn í dag grundvöllur meinafræðilegrar skilgreiningar á sjúkdómnum og nánast öll lyf sem reynd hafa verið beinast að því að hamla útfellingu eða leysa þær upp. Þær tilraunir hafa þó enn ekki leitt til áhrifaríkrar meðferðar.

Auguste D.

Konan sem Alzheimer hafði haft með að gera og sem hann síðan skoðaði heilann úr hét Auguste Dieter. Konrad Maurer, þýskur vísindamaður sem mikið hefur rannsakað Alzheimers-sjúkdóm lýsti því í grein sem birtist í tímaritinu Lancet árið 1997 að sjúkraskýrsla Auguste D. (eins og hún er venjulega nefnd) hafi týnst árið 1909. Það var gerð mikil leit að henni í tilefni af opnun safns um Alzheimer árið 1995 og fannst hún 4 dögum eftir opnun safnsins sem var á 80. dánardegi Alzheimers. Skýrslan fannst í sjúkraskrársafni spítalans þar sem hún lést og hafði verið þar allan tímann. Þessi skýrsla er mjög nákvæm og er hún að miklu leyti færð af Alzheimer sjálfum og má sjá af skýrslunni að hann hafði mikinn áhuga á því hvernig sjúklingurinn var í hegðun og hver einkennin voru. Hann lagði fyrir hana ýmis verkefni af þeim toga sem enn eru notuð í ýmsum minnisprófum. Hann reyndi þannig ekki aðeins á minni hennar heldur einnig á skilning og mál. Hún var 46 árs gömul þegar hún kom á spítalann árið 1901 og lést hún 5 árum síðar. Það var að sjálfsögðu tilviljun en Alzheimer lést einnig 51 árs gamall árið 1915.

Alzheimer lýsti því sem hann hafði orðið áskynja um sjúkdóm Auguste D. sem og þeim breytingum sem hann fann í heila hennar í fyrirlestri í Tübungen árið 1906. Í þeim fyrirlestri og í grein sem birtist ári síðar lagði hann mikla áherslu á það sem hann hafði séð í smásjánni enda um nýjung að ræða. Lýsing hans á nýjum sjúkdómi öðlaðist strax viðurkenningu og fékk nafn sitt af „höfundi“ sínum fjórum árum síðar. Alzheimers-sjúkdómur var næstu 50 árin talinn vera sjaldgæfur sjúkdómur fólks á miðjum aldri og það var ekki fyrr en með rannsóknum breskra lækna á sjötta áratugnum sem ljóst var að „kölkun“ meðal aldraðra eins og fyrirbærið hét hér á landi orsakaðist oftast af nákvæmlega sömu breytingum í heila og Alzheimer hafði lýst. Enn er víða við líði aðgreining á Alzheimers-sjúkdómi eftir aldri þeirra sem fá hann í annars vegar snemmkominn sjúkdóm sem byrjar fyrir 65 ára aldri og síðkominn sjúkdóm sem byrjar eftir 65 ára aldri. Þessi aldursmörk hafa þá skírskotun að sjúkdómsmyndin er mismunandi eftir því hvort einstaklingar eru á miðjum aldri eða aldraðir þegar hann kemur í ljós en hvort það gerist nákvæmlega við 65 ára aldur er önnur saga.

Alzheimers-sjúkdómur veldur vaxandi heilbrigðisbyrði um allan heim og enn í dag er verið að vinna með þær útfellingar sem Alzheimer lýsti í fyrirlestri sínum árið 1906. Allar stofnanir og félög sem starfa að málefnum sjúklinga með Alzheimers-sjúkdóm nota nafn þessa þýska læknis í nafngiftum sínum og það eru engar fyrirætlanir um að breyta heitinu þótt núna sé verið að ræða að breyta heiti þess fyrirbæris sem sjúkdómurinn veldur, latneska heitinu dementia sem notað er í flestum tungumálum öðrum en íslensku en við notumst við orðið heilabilun um hið sama. Þar sem sjúkdómurinn er svo algengur sem raun ber vitni eða hjá um 5% allra sem eru yfir 65 ára aldur og þar sem hann breytir persónunni sem fær hann í grundvallaratriðum er sjúkdómurinn og maðurinn sem gaf honum nafn sitt kunn flestum. Af því sem hér hefur verið rakið er það engin tilviljun að Alios Alzheimer er enn í dag þekktur út um allan heim.

Tilvísanir og myndir:
  • Konrad Maurer, Stephan Volk og Hector Gerbaldo. Auguste D and Alzheimer´s disease. The Lancet 1997;349:1546-49.
  • Myndir: Alois Alzheimer á Wikipedia. Sóttar 18. 12. 2011.
...