Sólin Sólin Rís 02:58 • sest 23:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:00 • Sest 02:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:15 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík

Hver var Ibn Sina, öðru nafni Avicenna?

Áskell Jónsson

Ibn Sina (Abu Ali al-Husayn ibn Abd Allah ibn Sina), betur þekktur sem Avicenna á Vesturlöndum, var persneskur heimspekingur og fjölfræðingur. Hann fæddist um 980 e.Kr. í þorpinu Afshana nálægt borginni Bukhara sem í dag tilheyrir Úsbekistan.[1] Avicenna er talinn vera einn áhrifamesti heimspekingur Mið-Austurlanda og sumir telja hann jafnvel meðal fimm merkustu heimspekinga sögunnar.[2] Á þúsaldaraafmæli hans var opnað safn í Afshana honum til heiðurs.[3]

Margt er vitað um uppvaxtarár Avicenna og til er ævisaga hans sem nær til fyrstu 30 ára Avicenna. Ásamt ævisögunni hafa varðveist heimildir um Avicenna eftir al-Jurjani, sem var ritari hans, vinur og nemandi. Faðir Avicenna var í þjónustu Samanida og lagði mikla áherslu á góða menntun. Sonurinn var yfirburðanemandi, sjálfstæður í hugsun, fluggáfaður og með framúrskarandi minni, sem gerði honum kleift að taka fram úr kennurum sínum strax á unglingsaldri. Meðal þess sem hann lagði stund á voru íslömsk fræði, heimspeki, rökfræði, náttúruvísindi og læknisfræði. Avicenna öðlaðist dýpri skilning á frumspeki Aristótelesar við lestur verka Al-Farabi (um 879–950). Al-Farabi var einn helsti frumkvöðull aristótelískrar heimspeki í Mið-Austurlöndum[4] og var stundum kallaður „hinn meistarinn“, næstur á eftir Aristótelesi.[5][6]

Avicenna (um 980-1037). Mynd á silfurvasa sem varðveittur er á safni í grafhýsi Avicenna í borginni Hamadan í Íran.

Átján ára gamall hafði Avicenna viðað að sér mikilli þekkingu um vísindi og tuttugu og eins árs skrifaði hann sitt fyrsta heimspekiverk. Ári síðar dó faðir hans og þá þurfti Avicenna að taka við störfum við hirðina. Um árið 1000, þegar Avicenna var á milli tvítugs og þrítugs, urðu valdaskipti í Bukhara. Eftir það var hann á nokkru flakki og þjónaði ólíkum herrum það sem eftir var ævinnar, bæði sem læknir og ráðgjafi. Hann lést árið 1037 í borginni Hamadan í Íran og þar er hann grafinn.[7]

Avicenna er best þekktur sem heimspekingur og læknir en honum er líklega best lýst sem fjölfræðingi. Hann skrifaði um flest milli himins og jarðar en hafði helst áhrif á heimspeki, rökfræði, læknisfræði, eðlisfræði, stjörnufræði, stærðfræði, tónlist og kveðskap. Einnig lagði hann ýmslegt til málanna um hagfræðileg málefni og á sviði stjórnmála.[8]

Innblásinn af Aristótelesi og al-Farabi setti Avicenna saman mörg verk en mörg þeirra hafa glatast. Eitt merkasta heimspekirit hans, Heilunarbókin (ar. Kitab al-Shifa’, e. Book of Healing eða The Cure), hefur þó varðveist. Ritið hefst á formála sem inniheldur æviágrip Avicenna. Verkið sjálft skiptist í fjórar bækur (ar. Jomal, en. collections); Eðlisfræði (ar. Tabi'iyat) sem fjallar um náttúruvísindi, Frumspeki (ar. Elahiyat) sem fjallar um þekkingu á Guði, Stærðfræði (ar. Riaziyat) sem fjallar um talnafræði, rúmfræði, stjörnufræði og tónlist, og svo Rökfræði (ar. Manteq).

Af þeim 450 verkum sem vitað er að Avicenna skrifaði hafa um 240 varðveist, þar af 150 sem fjalla um heimspeki og 40 um læknisfræði.

Í Frumspekinni leggur Avicenna fram sönnun á tilvist Guðs. Hún er af sumum talin vera fyrsta verufræðilega rökfærslan um tilvist Guðs.[9] Þetta er sömuleiðis fyrsta tilraunin til að nota svonefnda a priori sönnun eingöngu með innsæi og rökhugsun. Sönnunin er einstök að svo miklu leyti sem hún er bæði verufræðileg og heimsfræðileg rökfærsla. Hún er verufræðileg að svo miklu leyti sem Guð er nauðsynlega til sem vitsmunavera fyrir nauðsynlega tilvist. Sönnunin er einnig heimsfræðileg þar sem rök eru færð fyrir því að orsök og afleiðing geta ekki staðið ein og sér, og þess vegna að lokum háð nauðsynlegri tilvist.[10]

Hlutar úr Heilunarbókinni voru þýddir á latínu í Toledo á Spáni á 12. og 13. öld. Erfitt er að gera sér í hugarlund áhrifin frá skrifum Avicenna, en sem dæmi má nefna að skrif miðaldaheimspekingsins Tómasar frá Akvínó innihalda rúmlega 400 tilvitnanir í verk Avicenna.[11]

Annað af stórvirkjum Avicenna er Lækningabókin (al-Qanun fi’l-tibb, e. Canon of Medicine), mikið alfræðirit um læknavísindi sem notað var sem grunnur í læknisfræði næstu sjö aldirnar. Verkið sótti talsvert til hins helleníska Galenosar (129-200 e.Kr.). Frá 12. öld til þeirrar 16. var kennsla í læknisfræði að miklu leyti byggð á verkum Avicenna og þar gegndi Lækningabókin mikilvægu hlutverki. Gerard frá Cremona (1114-1187) þýddi ritið í heild sinni á tímabilinu 1150 til 1187, en vitað er um fleiri þýðingar frá Spáni, Ítalíu og Suður-Frakklandi. Lækningabókin virðist vera fyrsta ritið sem var notað til kennslu í hinum fræga læknaskóla í Montpellier.[12]

Forsíða Lækningabókar Avicenna. Fyrsta prentaða útgáfan á arabísku sem kom út á Vesturlöndum. Gefin út í Róm árið 1593.

Þekkt eru dæmi um Evrópubúa sem lærðu arabísku til þess að skilja skrif Avicenna betur. Miðaldalæknirinn Arnold frá Villeneuve (um 1240–1311) þýddi verk eftir Avicenna og fleiri höfunda. Nokkrir skurðlæknar fengu sömuleiðis innblástur frá Avicenna og má þar nefna William frá Saliceto á Ítalíu (1210–1277) og nemanda hans Lanfranc (um 1250–1306) sem var frumkvöðull skurðlækninga í Frakklandi. Einnig má nefna Guy frá Chauliac (um 1300–1368) sem kenndi arabísk hugtök og kenningar. Í háskólanum í Bologna voru arabísk hugtök notuð í kennslu í líffærafræði allt fram á 14. öld. Leonardo da Vinci hafnaði hugmyndum Avicenna um líffærafræði en notaði engu að síður arabísk hugtök.[13]

Þótt Avicenna hafi notið minni athygli en margir af merkustu Forn-Grikkjunum, sérstaklega á Vesturlöndum, má telja hann á meðal merkustu hugsuða sögunnar. Í verkum hans sameinast heimspeki og vísindi Forn-Grikkja þekkingu og fræðum Mið-Austurlanda. Hugmyndir Avicenna útskýrðu allt á milli himins og jarðar í trúarbrögðum, guðfræði og dulspeki.

Tilvísanir:
 1. ^ Encyclopædia of Islam, III. bindi. bls. 941.
 2. ^ Philosophy Bites, viðtal við Peter Adamson, sérfræðing í arabískri heimspeki, um Avicenna.
 3. ^ Avicenna - Wikipedia.
 4. ^ Glick, Thomas F., Steven Livesey og Faith Wallis (2014). Medieval Science, Technology, and Medicine: An Encyclopedia. New York: Routledge. bls. 171.
 5. ^ López-Farjeat, Luis Xavier.Al-Farabi's Psychology and Epistemology - Stanford Encyclopedia of Philosophy.
 6. ^ Druart, Therese-Anne. Al-Farabi - Stanford Encyclopedia of Philosophy
 7. ^ Dimitri Gutas. Ibn Sina [Avicenna] - Stanford Encyclopedia of Philosophy.
 8. ^ Encyclopædia of Islam, III. bindi. bls. 941.
 9. ^ Morewedge, P., Ibn Sina (Avicenna) and Malcolm and the Ontological Argument, Monist, 54: 234–49.
 10. ^ Mayer, T. (2001), Ibn Sina's 'Burhan Al-Siddiqin', Journal of Islamic Studies, 12(1): 18-39.
 11. ^ AVICENNA xii. Impact of philosophical works – Encyclopaedia Iranica.
 12. ^ AVICENNA xiii. Medical Studies in the West – Encyclopaedia Iranica.
 13. ^ Encyclopædia of Islam, III. bindi. bls. 944-945.

Myndir:


Þetta svar var unnið í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2016. Þórir Jónsson Hraundal hafði umsjón með námskeiðinu.

Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Gunnari Harðarsyni, prófessor í heimspeki við HÍ, fyrir yfirlestur og gagnlegar athugasemdir við þetta svar.

Höfundur

Áskell Jónsson

BA-nemi í heimspeki

Útgáfudagur

21.6.2017

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Áskell Jónsson. „Hver var Ibn Sina, öðru nafni Avicenna?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2017. Sótt 13. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=73421.

Áskell Jónsson. (2017, 21. júní). Hver var Ibn Sina, öðru nafni Avicenna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=73421

Áskell Jónsson. „Hver var Ibn Sina, öðru nafni Avicenna?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2017. Vefsíða. 13. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=73421>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Ibn Sina, öðru nafni Avicenna?
Ibn Sina (Abu Ali al-Husayn ibn Abd Allah ibn Sina), betur þekktur sem Avicenna á Vesturlöndum, var persneskur heimspekingur og fjölfræðingur. Hann fæddist um 980 e.Kr. í þorpinu Afshana nálægt borginni Bukhara sem í dag tilheyrir Úsbekistan.[1] Avicenna er talinn vera einn áhrifamesti heimspekingur Mið-Austurlanda og sumir telja hann jafnvel meðal fimm merkustu heimspekinga sögunnar.[2] Á þúsaldaraafmæli hans var opnað safn í Afshana honum til heiðurs.[3]

Margt er vitað um uppvaxtarár Avicenna og til er ævisaga hans sem nær til fyrstu 30 ára Avicenna. Ásamt ævisögunni hafa varðveist heimildir um Avicenna eftir al-Jurjani, sem var ritari hans, vinur og nemandi. Faðir Avicenna var í þjónustu Samanida og lagði mikla áherslu á góða menntun. Sonurinn var yfirburðanemandi, sjálfstæður í hugsun, fluggáfaður og með framúrskarandi minni, sem gerði honum kleift að taka fram úr kennurum sínum strax á unglingsaldri. Meðal þess sem hann lagði stund á voru íslömsk fræði, heimspeki, rökfræði, náttúruvísindi og læknisfræði. Avicenna öðlaðist dýpri skilning á frumspeki Aristótelesar við lestur verka Al-Farabi (um 879–950). Al-Farabi var einn helsti frumkvöðull aristótelískrar heimspeki í Mið-Austurlöndum[4] og var stundum kallaður „hinn meistarinn“, næstur á eftir Aristótelesi.[5][6]

Avicenna (um 980-1037). Mynd á silfurvasa sem varðveittur er á safni í grafhýsi Avicenna í borginni Hamadan í Íran.

Átján ára gamall hafði Avicenna viðað að sér mikilli þekkingu um vísindi og tuttugu og eins árs skrifaði hann sitt fyrsta heimspekiverk. Ári síðar dó faðir hans og þá þurfti Avicenna að taka við störfum við hirðina. Um árið 1000, þegar Avicenna var á milli tvítugs og þrítugs, urðu valdaskipti í Bukhara. Eftir það var hann á nokkru flakki og þjónaði ólíkum herrum það sem eftir var ævinnar, bæði sem læknir og ráðgjafi. Hann lést árið 1037 í borginni Hamadan í Íran og þar er hann grafinn.[7]

Avicenna er best þekktur sem heimspekingur og læknir en honum er líklega best lýst sem fjölfræðingi. Hann skrifaði um flest milli himins og jarðar en hafði helst áhrif á heimspeki, rökfræði, læknisfræði, eðlisfræði, stjörnufræði, stærðfræði, tónlist og kveðskap. Einnig lagði hann ýmslegt til málanna um hagfræðileg málefni og á sviði stjórnmála.[8]

Innblásinn af Aristótelesi og al-Farabi setti Avicenna saman mörg verk en mörg þeirra hafa glatast. Eitt merkasta heimspekirit hans, Heilunarbókin (ar. Kitab al-Shifa’, e. Book of Healing eða The Cure), hefur þó varðveist. Ritið hefst á formála sem inniheldur æviágrip Avicenna. Verkið sjálft skiptist í fjórar bækur (ar. Jomal, en. collections); Eðlisfræði (ar. Tabi'iyat) sem fjallar um náttúruvísindi, Frumspeki (ar. Elahiyat) sem fjallar um þekkingu á Guði, Stærðfræði (ar. Riaziyat) sem fjallar um talnafræði, rúmfræði, stjörnufræði og tónlist, og svo Rökfræði (ar. Manteq).

Af þeim 450 verkum sem vitað er að Avicenna skrifaði hafa um 240 varðveist, þar af 150 sem fjalla um heimspeki og 40 um læknisfræði.

Í Frumspekinni leggur Avicenna fram sönnun á tilvist Guðs. Hún er af sumum talin vera fyrsta verufræðilega rökfærslan um tilvist Guðs.[9] Þetta er sömuleiðis fyrsta tilraunin til að nota svonefnda a priori sönnun eingöngu með innsæi og rökhugsun. Sönnunin er einstök að svo miklu leyti sem hún er bæði verufræðileg og heimsfræðileg rökfærsla. Hún er verufræðileg að svo miklu leyti sem Guð er nauðsynlega til sem vitsmunavera fyrir nauðsynlega tilvist. Sönnunin er einnig heimsfræðileg þar sem rök eru færð fyrir því að orsök og afleiðing geta ekki staðið ein og sér, og þess vegna að lokum háð nauðsynlegri tilvist.[10]

Hlutar úr Heilunarbókinni voru þýddir á latínu í Toledo á Spáni á 12. og 13. öld. Erfitt er að gera sér í hugarlund áhrifin frá skrifum Avicenna, en sem dæmi má nefna að skrif miðaldaheimspekingsins Tómasar frá Akvínó innihalda rúmlega 400 tilvitnanir í verk Avicenna.[11]

Annað af stórvirkjum Avicenna er Lækningabókin (al-Qanun fi’l-tibb, e. Canon of Medicine), mikið alfræðirit um læknavísindi sem notað var sem grunnur í læknisfræði næstu sjö aldirnar. Verkið sótti talsvert til hins helleníska Galenosar (129-200 e.Kr.). Frá 12. öld til þeirrar 16. var kennsla í læknisfræði að miklu leyti byggð á verkum Avicenna og þar gegndi Lækningabókin mikilvægu hlutverki. Gerard frá Cremona (1114-1187) þýddi ritið í heild sinni á tímabilinu 1150 til 1187, en vitað er um fleiri þýðingar frá Spáni, Ítalíu og Suður-Frakklandi. Lækningabókin virðist vera fyrsta ritið sem var notað til kennslu í hinum fræga læknaskóla í Montpellier.[12]

Forsíða Lækningabókar Avicenna. Fyrsta prentaða útgáfan á arabísku sem kom út á Vesturlöndum. Gefin út í Róm árið 1593.

Þekkt eru dæmi um Evrópubúa sem lærðu arabísku til þess að skilja skrif Avicenna betur. Miðaldalæknirinn Arnold frá Villeneuve (um 1240–1311) þýddi verk eftir Avicenna og fleiri höfunda. Nokkrir skurðlæknar fengu sömuleiðis innblástur frá Avicenna og má þar nefna William frá Saliceto á Ítalíu (1210–1277) og nemanda hans Lanfranc (um 1250–1306) sem var frumkvöðull skurðlækninga í Frakklandi. Einnig má nefna Guy frá Chauliac (um 1300–1368) sem kenndi arabísk hugtök og kenningar. Í háskólanum í Bologna voru arabísk hugtök notuð í kennslu í líffærafræði allt fram á 14. öld. Leonardo da Vinci hafnaði hugmyndum Avicenna um líffærafræði en notaði engu að síður arabísk hugtök.[13]

Þótt Avicenna hafi notið minni athygli en margir af merkustu Forn-Grikkjunum, sérstaklega á Vesturlöndum, má telja hann á meðal merkustu hugsuða sögunnar. Í verkum hans sameinast heimspeki og vísindi Forn-Grikkja þekkingu og fræðum Mið-Austurlanda. Hugmyndir Avicenna útskýrðu allt á milli himins og jarðar í trúarbrögðum, guðfræði og dulspeki.

Tilvísanir:
 1. ^ Encyclopædia of Islam, III. bindi. bls. 941.
 2. ^ Philosophy Bites, viðtal við Peter Adamson, sérfræðing í arabískri heimspeki, um Avicenna.
 3. ^ Avicenna - Wikipedia.
 4. ^ Glick, Thomas F., Steven Livesey og Faith Wallis (2014). Medieval Science, Technology, and Medicine: An Encyclopedia. New York: Routledge. bls. 171.
 5. ^ López-Farjeat, Luis Xavier.Al-Farabi's Psychology and Epistemology - Stanford Encyclopedia of Philosophy.
 6. ^ Druart, Therese-Anne. Al-Farabi - Stanford Encyclopedia of Philosophy
 7. ^ Dimitri Gutas. Ibn Sina [Avicenna] - Stanford Encyclopedia of Philosophy.
 8. ^ Encyclopædia of Islam, III. bindi. bls. 941.
 9. ^ Morewedge, P., Ibn Sina (Avicenna) and Malcolm and the Ontological Argument, Monist, 54: 234–49.
 10. ^ Mayer, T. (2001), Ibn Sina's 'Burhan Al-Siddiqin', Journal of Islamic Studies, 12(1): 18-39.
 11. ^ AVICENNA xii. Impact of philosophical works – Encyclopaedia Iranica.
 12. ^ AVICENNA xiii. Medical Studies in the West – Encyclopaedia Iranica.
 13. ^ Encyclopædia of Islam, III. bindi. bls. 944-945.

Myndir:


Þetta svar var unnið í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2016. Þórir Jónsson Hraundal hafði umsjón með námskeiðinu.

Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Gunnari Harðarsyni, prófessor í heimspeki við HÍ, fyrir yfirlestur og gagnlegar athugasemdir við þetta svar.

...