Sólin Sólin Rís 09:01 • sest 18:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:51 • Sest 10:05 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:59 • Síðdegis: 24:01 í Reykjavík

Hver fékk Nóbelsverðlaunin í læknavísindum 2016 og fyrir hvað?

Margrét Helga Ögmundsdóttir

Japanski líffræðingurinn Yoshinori Ohsumi hlaut Nóbelsverðlaunin í læknavísindum árið 2016 fyrir rannsóknir á frumuferli sem nefnist sjálfsát (e. macroautophagy) [1][2]. Fjölfrumungar eins og maðurinn eru samsettir úr milljörðum fruma, sem saman mynda vefi líkamans. Frumur líkamans framleiða sífellt ný prótín, og frumulíffæri eins og hvatberar myndast eftir þörfum. Samhliða eru eldri prótín og frumulíffæri brotin niður. Sjálfsát er lykilferli í slíku niðurbroti og er nauðsynlegt fyrir endurvinnslu og endurnýjun innan frumunnar. Frumur nýta sér sjálfsát líka til þess að bregðast við streituástandi eins og svelti. Þannig eykst sjálfsát þegar næringaraðstæður eru bágar og frumur nýta niðurbrotsefni til þess að viðhalda grunnorkumyndun og uppbyggingu innan frumunnar [3]. Mynd 1 lýsir í meginatriðum hvernig sjálfsátsferlið á sér stað innan frumu.

Mynd 1. Myndin sýnir frumu þar sem tvöföld himna myndast í umfrymi og umlykur niðurbrotsefni í sjálfsátsbólu (e. autophagosome). Sjálfsátsbólan rennur síðan saman við leysikornið (e. lysosome) þar sem innri himna sjálfsátsbólunnar og innihald er brotið niður. Niðurbrotsefni fara síðan aftur í umfrymi eða er seytt út úr frumunni. Til eru fleiri gerðir sjálfsáts en hér er um að ræða macroautophagy sem yfirleitt er nefnt autophagy.

Upphaflega var talið að sjálfsátsferlið væri leið frumu til þess að eyða sér. Smásjárgreiningar sýndu að frumur bregðast við streitu með niðurbrotsferli og hægt var að fylgjast með sjálfsátsbólum myndast og renna saman við leysikornið. Um miðja tuttugustu öldina setti belgíski vísindamaðurinn Christian de Duve (1917–2013) fyrstur fram orðið lysosome (leysikorn) yfir frumulíffæri þar sem niðurbrot fer fram. Nokkru síðar kom hann einnig með orðið autophagy eða sjálfsát. Christian de Duve fékk Nóbelsverðlaun í læknavísindum árið 1974 ásamt Albert Claude (1899–1983) og George E. Palade (1912–2008) fyrir rannsóknir á uppbyggingu og starfsemi fruma. Lengi vel voru rannsóknir á sjálfsáti byggðar á smásjárgreiningum en ekki var vitað hvaða gen komu við sögu og hvernig ferlið virkar.

Mynd 2. Japanski líffræðingurinn Yoshinori Ohsumi fæddist í Fukuoka í Japan 9. febrúar 1945.

Rannsóknir Yoshinori Ohsumi gjörbreyttu rannsóknum á sjálfsátsferlinu. Hann nýtti gersveppi til þess að skilgreina gen sem eru nauðsynleg fyrir myndun sjálfsátsbólu og samruna hennar við leysikornið. Ohsumi bjó til gersveppastofna sem höfðu stökkbreytingar í mikilvægum ensímum sem eru nauðsynleg fyrir niðurbrot innan leysikorna (vacuole í gersveppum). Þegar þessir sveppir voru sveltir af næringarefnum hófst sjálfsátsferlið og samruni varð við leysikornið en ekkert niðurbrot átti sér stað[4]. Þannig var greinilegt að það varð uppsöfnun á sjálfsátsbólum innan leysikornsins (mynd 3) og Ohsumi hafði þannig hannað tilraunamódel sem nýta mátti til þess að finna gen sem eru nauðsynleg fyrir myndun sjálfsátsbóla. Ohsumi nýtti slíkan stökkbreyttan gersveppastofn til þess að kanna hvaða áhrif stökkbreytingar í öðrum genum hefðu. Hann fór í gegnum stökkbreytingar í erfðamengi gersveppsins og skilgreindi sem sjálfsátsgen þau gen sem ekki leiddu til þessarar uppsöfnunarsvipgerðar þegar þau voru slegin út. Hann ályktaði að þau væru nauðsynleg fyrir myndun sjálfsátsbólunnar sjálfrar[5].

Mynd 3. Myndin sýnir stökkbreyttan gersvepp sem annars vegar var ræktaður í næringarríku æti (t.v.) og hins vegar í næringarsnauðu æti (t.h.). Gersveppurinn hefur ekki virk niðurbrotsensím í leysikornum (e. vacuoles) sínum. Þegar sveppurinn er sveltur verður samruni sjálfsátsbóla við leysikornið en ekkert niðurbrot á sér stað. Því verður uppsöfnun sjálfsátsbóla innan leysikornsins. Ohsumi nýtti slíka stökkbreytta gersveppastofna til þess að skanna í gegnum erfðamengi gersveppsins í leit að genum sem eru nauðsynleg fyrir myndun sjálfsátsbóla.

Í kjölfarið sýndu Ohsumi og fleiri fram á að þessi gen eru varðveitt í öðrum tegundum, þar með talið manninum[6]. Þetta varð til þess að mikil aukning hefur orðið á rannsóknum á sjálfsátsferlinu þar sem nú er mögulegt að slá út nauðsynleg sjálfsátsgen og skoða hvaða áhrif það hefur á tilraunalífverur[7]. Í ljós hefur komið að sjálfsát er mikilvægt fyrir heilbrigða starfsemi lífvera, bæði vegna hreinsunarhlutverks innan fruma og vegna mikilvægis í viðbragði innan frumu við streituástandi.

Sjálfsátsferlið hefur verið tengt almennri lífslengd í tilraunalífverum og hafa rannsóknir í ávaxtaflugum, ormum og músum sýnt að skerðing á æti upp að ákveðnu marki lengir líf þessara lífvera. Þessi lífslengdaraukning í kjölfar sveltis verður meðal annars vegna aukningar á sjálfsáti og þar með almennri hreinsun innan fruma. Því er talið að jafnvægi á milli næringar og hreinsunar í frumum sé mikilvægt fyrir almenna heilbrigða starfsemi þessara lífvera. Sjálfsátsferlið hefur undanfarin ár einnig verið tengt við ýmsa sjúkdóma, eins og taugahrörnunarsjúkdóma og krabbamein. Það er ekki síst hreinsunarstarfsemin sem er talin fyrirbyggjandi í myndun þessara sjúkdóma. Á síðari stigum æxlismyndunar er hins vegar talið að sjálfsát hvetji æxlisvöxt vegna þess að það eykur hæfni æxlisfruma til þess að lifa af og skipta sér við erfiðar aðstæður. Rannsóknir um allan heim miða nú að því að skilja betur hvernig sjálfsát virkar í frumum til þess að geta tengt ferlið betur við almenna líkamsstarfsemi og sjúkdóma. Slíkar rannsóknir byggja á þeim tímamótarannsóknum sem Ohsumi og félagar gerðu í gersveppnum.

Tilvísanir:
 1. ^ Nobel Prize in Physiology or Medicine 2016.
 2. ^ Margrét Helga Ögmundsdóttir. (2016). Nóbelsverðlaunin í læknavísindum í ár endurspegla mikilvægi sorphirðu og endurvinnslu. Læknablaðið, 102(11): bls. 481.
 3. ^ Ohsumi, Y. (2014). Historical landmarks of autophagy research. Cell Res, 24(1): bls. 9-23.
 4. ^ Takeshige, K., o.fl. (1992). Autophagy in yeast demonstrated with proteinase-deficient mutants and conditions for its induction. Journal of cell biology, 119(2): bls. 301-11.
 5. ^ Tsukada, M., & Ohsumi, Y. (1993). Isolation and characterization of autophagy-defective mutants of saccharomyces cerevisiae. FEBS Letters, 333(1-2), bls. 169-174.
 6. ^ Mizushima, N., et al. (1998). A protein conjugation system essential for autophagy. Nature, 395(6700): bls. 395-8.
 7. ^ Ichimura, Y., o.fl. (2000) A ubiquitin-like system mediates protein lipidation. Nature, 408(6811): bls. 488-92.

Myndir:

Höfundur

Margrét Helga Ögmundsdóttir

prófessor við læknadeild Háskóla Íslands

Útgáfudagur

7.4.2017

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Margrét Helga Ögmundsdóttir. „Hver fékk Nóbelsverðlaunin í læknavísindum 2016 og fyrir hvað?“ Vísindavefurinn, 7. apríl 2017. Sótt 22. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=73820.

Margrét Helga Ögmundsdóttir. (2017, 7. apríl). Hver fékk Nóbelsverðlaunin í læknavísindum 2016 og fyrir hvað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=73820

Margrét Helga Ögmundsdóttir. „Hver fékk Nóbelsverðlaunin í læknavísindum 2016 og fyrir hvað?“ Vísindavefurinn. 7. apr. 2017. Vefsíða. 22. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=73820>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver fékk Nóbelsverðlaunin í læknavísindum 2016 og fyrir hvað?
Japanski líffræðingurinn Yoshinori Ohsumi hlaut Nóbelsverðlaunin í læknavísindum árið 2016 fyrir rannsóknir á frumuferli sem nefnist sjálfsát (e. macroautophagy) [1][2]. Fjölfrumungar eins og maðurinn eru samsettir úr milljörðum fruma, sem saman mynda vefi líkamans. Frumur líkamans framleiða sífellt ný prótín, og frumulíffæri eins og hvatberar myndast eftir þörfum. Samhliða eru eldri prótín og frumulíffæri brotin niður. Sjálfsát er lykilferli í slíku niðurbroti og er nauðsynlegt fyrir endurvinnslu og endurnýjun innan frumunnar. Frumur nýta sér sjálfsát líka til þess að bregðast við streituástandi eins og svelti. Þannig eykst sjálfsát þegar næringaraðstæður eru bágar og frumur nýta niðurbrotsefni til þess að viðhalda grunnorkumyndun og uppbyggingu innan frumunnar [3]. Mynd 1 lýsir í meginatriðum hvernig sjálfsátsferlið á sér stað innan frumu.

Mynd 1. Myndin sýnir frumu þar sem tvöföld himna myndast í umfrymi og umlykur niðurbrotsefni í sjálfsátsbólu (e. autophagosome). Sjálfsátsbólan rennur síðan saman við leysikornið (e. lysosome) þar sem innri himna sjálfsátsbólunnar og innihald er brotið niður. Niðurbrotsefni fara síðan aftur í umfrymi eða er seytt út úr frumunni. Til eru fleiri gerðir sjálfsáts en hér er um að ræða macroautophagy sem yfirleitt er nefnt autophagy.

Upphaflega var talið að sjálfsátsferlið væri leið frumu til þess að eyða sér. Smásjárgreiningar sýndu að frumur bregðast við streitu með niðurbrotsferli og hægt var að fylgjast með sjálfsátsbólum myndast og renna saman við leysikornið. Um miðja tuttugustu öldina setti belgíski vísindamaðurinn Christian de Duve (1917–2013) fyrstur fram orðið lysosome (leysikorn) yfir frumulíffæri þar sem niðurbrot fer fram. Nokkru síðar kom hann einnig með orðið autophagy eða sjálfsát. Christian de Duve fékk Nóbelsverðlaun í læknavísindum árið 1974 ásamt Albert Claude (1899–1983) og George E. Palade (1912–2008) fyrir rannsóknir á uppbyggingu og starfsemi fruma. Lengi vel voru rannsóknir á sjálfsáti byggðar á smásjárgreiningum en ekki var vitað hvaða gen komu við sögu og hvernig ferlið virkar.

Mynd 2. Japanski líffræðingurinn Yoshinori Ohsumi fæddist í Fukuoka í Japan 9. febrúar 1945.

Rannsóknir Yoshinori Ohsumi gjörbreyttu rannsóknum á sjálfsátsferlinu. Hann nýtti gersveppi til þess að skilgreina gen sem eru nauðsynleg fyrir myndun sjálfsátsbólu og samruna hennar við leysikornið. Ohsumi bjó til gersveppastofna sem höfðu stökkbreytingar í mikilvægum ensímum sem eru nauðsynleg fyrir niðurbrot innan leysikorna (vacuole í gersveppum). Þegar þessir sveppir voru sveltir af næringarefnum hófst sjálfsátsferlið og samruni varð við leysikornið en ekkert niðurbrot átti sér stað[4]. Þannig var greinilegt að það varð uppsöfnun á sjálfsátsbólum innan leysikornsins (mynd 3) og Ohsumi hafði þannig hannað tilraunamódel sem nýta mátti til þess að finna gen sem eru nauðsynleg fyrir myndun sjálfsátsbóla. Ohsumi nýtti slíkan stökkbreyttan gersveppastofn til þess að kanna hvaða áhrif stökkbreytingar í öðrum genum hefðu. Hann fór í gegnum stökkbreytingar í erfðamengi gersveppsins og skilgreindi sem sjálfsátsgen þau gen sem ekki leiddu til þessarar uppsöfnunarsvipgerðar þegar þau voru slegin út. Hann ályktaði að þau væru nauðsynleg fyrir myndun sjálfsátsbólunnar sjálfrar[5].

Mynd 3. Myndin sýnir stökkbreyttan gersvepp sem annars vegar var ræktaður í næringarríku æti (t.v.) og hins vegar í næringarsnauðu æti (t.h.). Gersveppurinn hefur ekki virk niðurbrotsensím í leysikornum (e. vacuoles) sínum. Þegar sveppurinn er sveltur verður samruni sjálfsátsbóla við leysikornið en ekkert niðurbrot á sér stað. Því verður uppsöfnun sjálfsátsbóla innan leysikornsins. Ohsumi nýtti slíka stökkbreytta gersveppastofna til þess að skanna í gegnum erfðamengi gersveppsins í leit að genum sem eru nauðsynleg fyrir myndun sjálfsátsbóla.

Í kjölfarið sýndu Ohsumi og fleiri fram á að þessi gen eru varðveitt í öðrum tegundum, þar með talið manninum[6]. Þetta varð til þess að mikil aukning hefur orðið á rannsóknum á sjálfsátsferlinu þar sem nú er mögulegt að slá út nauðsynleg sjálfsátsgen og skoða hvaða áhrif það hefur á tilraunalífverur[7]. Í ljós hefur komið að sjálfsát er mikilvægt fyrir heilbrigða starfsemi lífvera, bæði vegna hreinsunarhlutverks innan fruma og vegna mikilvægis í viðbragði innan frumu við streituástandi.

Sjálfsátsferlið hefur verið tengt almennri lífslengd í tilraunalífverum og hafa rannsóknir í ávaxtaflugum, ormum og músum sýnt að skerðing á æti upp að ákveðnu marki lengir líf þessara lífvera. Þessi lífslengdaraukning í kjölfar sveltis verður meðal annars vegna aukningar á sjálfsáti og þar með almennri hreinsun innan fruma. Því er talið að jafnvægi á milli næringar og hreinsunar í frumum sé mikilvægt fyrir almenna heilbrigða starfsemi þessara lífvera. Sjálfsátsferlið hefur undanfarin ár einnig verið tengt við ýmsa sjúkdóma, eins og taugahrörnunarsjúkdóma og krabbamein. Það er ekki síst hreinsunarstarfsemin sem er talin fyrirbyggjandi í myndun þessara sjúkdóma. Á síðari stigum æxlismyndunar er hins vegar talið að sjálfsát hvetji æxlisvöxt vegna þess að það eykur hæfni æxlisfruma til þess að lifa af og skipta sér við erfiðar aðstæður. Rannsóknir um allan heim miða nú að því að skilja betur hvernig sjálfsát virkar í frumum til þess að geta tengt ferlið betur við almenna líkamsstarfsemi og sjúkdóma. Slíkar rannsóknir byggja á þeim tímamótarannsóknum sem Ohsumi og félagar gerðu í gersveppnum.

Tilvísanir:
 1. ^ Nobel Prize in Physiology or Medicine 2016.
 2. ^ Margrét Helga Ögmundsdóttir. (2016). Nóbelsverðlaunin í læknavísindum í ár endurspegla mikilvægi sorphirðu og endurvinnslu. Læknablaðið, 102(11): bls. 481.
 3. ^ Ohsumi, Y. (2014). Historical landmarks of autophagy research. Cell Res, 24(1): bls. 9-23.
 4. ^ Takeshige, K., o.fl. (1992). Autophagy in yeast demonstrated with proteinase-deficient mutants and conditions for its induction. Journal of cell biology, 119(2): bls. 301-11.
 5. ^ Tsukada, M., & Ohsumi, Y. (1993). Isolation and characterization of autophagy-defective mutants of saccharomyces cerevisiae. FEBS Letters, 333(1-2), bls. 169-174.
 6. ^ Mizushima, N., et al. (1998). A protein conjugation system essential for autophagy. Nature, 395(6700): bls. 395-8.
 7. ^ Ichimura, Y., o.fl. (2000) A ubiquitin-like system mediates protein lipidation. Nature, 408(6811): bls. 488-92.

Myndir:

...