Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið við spurningunni er að jól eins og við þekkjum þau eru yfirleitt ekki haldin þar sem önnur trú en kristni er ríkjandi.
Jólin eru ein helsta hátíð kristinna manna. Inntak jóla er að minnast fæðingar Jesú Krists og því er eðlilegt að þeim sé fyrst og fremst fagnað þar sem kristin trú er ríkjandi. Reyndar voru hátíðahöld af ýmsu tagi víða á norðurhveli jarðar á þessum árstíma löngu áður en kristnin kom til sögunnar og þá verið að fagna því að sól fór að hækka á lofti. Í Róm til forna var til dæmis Saturnalia-hátíðin haldin 17.-23. desember til heiðurs guðinum Satúrnusi. Áður en kristin trú festist í sessi héldu heiðnir norrænir menn líka hátíð á svipuðum árstíma og hét hún, líkt og nú, jól (ásatrúarfólk heldur reyndar enn jólablót). En hvað sem líður öðrum hátíðum í öðrum siðum á þessum dimmasta tíma ársins þá hafa jólin öldum saman fyrst og fremst tengst kristni.
Í meirihluta ríkja heims er þó almennur frídagur um jól, stundum aðeins einn dagur – oftast jóladagur (25. desember eða 7. janúar í rétttrúnaðarkirkjunni) en stundum, eins og hér á landi, allt að þrír frídagar. Með því að hafa almennt frí má segja að yfirvöld hafi gefið það út að í landinu séu „haldin jól“ (hvernig svo sem einstaklingar kjósa að taka þátt í jólahaldi). Í sumum löndum eru ekki haldin opinberlega jól, frí ekki almennt gefið, heldur aðeins á tilteknum svæðum eða innan tiltekinna kristinna hópa. Sem dæmi þá er ekki gefið frí um jólin í Kína, en 25. desember er hins vegar frídagur bæði í Hong Kong og Macau sem voru áður nýlendur en eru nú hluti af Kína. Í enn öðrum löndum eru ekki neinir opinberir frídagar um jól en ýmsar jólahefðir sjást, svo sem skreytingar, jólatré, jólaljós og fleira. Gott dæmi um slíkt er Japan þar sem jólin eru mjög vinsæl. Síðan eru lönd þar sem jólahald er alls ekki haft í heiðri og það jafnvel bannað eins í Brúnei.
Misjafnt er hversu mikið almennt frí er gefið um jól. Tekið skal fram að ekki var lagst í ítarlegar rannsóknir til að sannreyna upplýsingarnar.
Í framhaldi af þessu er kannski alveg jafn áhugavert að velta fyrir sér af hverju jól eru haldin í löndum þar sem kristni er ekki útbreidd. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því, í sumum löndum þar sem kristni er ekki ríkjandi kynntist fólk jólahefðinni á nýlendutímanum og siðurinn festist í sessi í einhverri mynd. Í sumum löndum heldur kristinn minnihluti sín jól þótt „landið“ geri það ekki og aðrir hópar hafa tileinkað sér einhvern hluta af þeim sið. Síðast en ekki síst hafa ýmsir jólasiðir breiðst út sem hafa ekki endilega trúarlega tilvísun, svo sem maturinn, samveran, ýmis jólalög, jólasveinar, snjókarlar, hreindýr og svo mætti lengi telja. Því má segja að þar sé hægt um vik fyrir ýmsa sem hafa annan menningarlegan bakgrunn að hrífast með og taka þátt, ef áhugi er fyrir hendi. Kannski ekki ólíkt því hvernig margir á Íslandi hafa hrifist með og tekið þátt í hrekkjavökunni þrátt fyrir að sá siður eigi sér engar rætur í menningu og hefðum landans.
Þótt inntak jólanna sé fögnuður yfir fæðingu frelsarans hefur þróunin samt orðið sú að þau eru hátíð sem margir geta fagnað af mismunandi ástæðum, óháð trúarbrögðum. Í könnun sem Pew Research Center gerði í Bandaríkjunum 2017 kom í ljós að 90% Bandaríkjamanna (og 95% kristinna Bandaríkjamanna) sögðust halda upp á jól. Um 46% sögðust líta á jólin sem trúarlega hátíð fremur en nokkuð annað en fyrir um þriðjung svarenda eru jólin fyrst og fremst menningartengd hátíð.
Jólamarkaður í Nagoya, Japan. Þrátt fyrir að innan við 2% Japana aðhyllist kristna trú eru jólin mjög vinsæl hátíð þar í landi.
Breska dagblaðið The Guardian bað lesendur sína sem ekki eru kristnir, bæði í Bretlandi og víða um heim, að deila sínum viðhorfum til jóla. Af svörum er ljóst að margir taka á einn eða annan hátt þátt, þótt þeir aðhyllist aðra trú (eða eru trúleysingjar), velja sér þá siði sem þeim falla í geð og blanda við venjur og hefðir úr eigin menningu.
Í lokin má geta þess að þrátt fyrir að jólin hafi öldum saman verið tengd kristinni trú þá halda ekki allir kristnir trúarhópar jól. Til dæmis fagna Vottar Jehóva ekki jólum og ekki heldur kvekarar.
Heimildir og myndir:
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvers vegna eru ekki haldin jól í sumum löndum?“ Vísindavefurinn, 22. desember 2022, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74390.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2022, 22. desember). Hvers vegna eru ekki haldin jól í sumum löndum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74390
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvers vegna eru ekki haldin jól í sumum löndum?“ Vísindavefurinn. 22. des. 2022. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74390>.