Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaðan kemur orðið rassía og hvernig tengist það íslamstrú?

Uppurunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvað er rassía? Jihad átti að hafa þróast út frá hugtakinu „Rassía“ sem hefur einhver í tengsl við ættbálkastríðin á Arabíuskaga fyrir komu íslam. Hvað merkir þetta orð og hvernig var það notað?

Orðið rassía í íslensku nútímamáli er yfirleitt notað um einhvers konar skyndiaðgerðir, til dæmis þegar lögregla eða skattayfirvöld eiga í hlut. Þó orðið sé ekki að finna í Íslenskri orðsifjabók kemur það líklega úr dönsku og þaðan úr frönsku 'razzia'. Forsaga orðsins er hins vegar áhugaverð, en uppruna þess má rekja til arabísku.

Eins og önnur semitísk tungumál byggir arabíska á orðarótum sem oftast eru þrír samhljóðar. Sérhljóðum og ýmsum viðskeytum er svo bætt við og inn á milli rótarsamhljóðanna til að mynda hinar ýmsu afleiður rótarinnar. Þannig er orðið rassía upphaflega komið af arabísku rótinni 'gh-z-w', þar sem 'gh' er kokmælt önghljóð (eins og franskt 'r'), 'z' raddað s-hljóð, og stafurinn 'w' sem getur bæði tekið á sig myndina 'w' og langt 'u' (ú).

Grunnmerking rótarinnar er annars vegar 'að ætla sér, einsetja sér eitthvaðð', og hins vegar 'að berjast, ráðast á' og svo framvegis. Af rótinni er svo dregið nafnorðið ghazw og ghazwah, sem merkir árás og svo aftur ghazi sem merkir árásarmaður. Ghazi er til dæmis tökuorð í ensku, og merkir hermaður, sérstaklega sá sem barðist fyrir útbreiðslu íslamstrúar fyrr á öldum.

Af rót orðsins 'rassía' er dregið nafnorðið ghazw og ghazwah, sem merkir árás og svo aftur ghazi sem merkir árásarmaður. Ghazi er tökuorð í ensku, og merkir hermaður, sérstaklega sá sem barðist fyrir útbreiðslu íslamstrúar fyrr á öldum. Tréristumynd af aftöku ghazi-hermanns.

Svo virðist sem arabíska orðið hafi upphaflega verið notað sérstaklega yfir óvæntar árásir á milli ættbálka, til að stela búfénaði eða ræna úlfaldalestir. Í kjölfar útbreiðslu íslam á Arabíuskaga og víðar víkkar merking orðsins út og tekur til þeirra sem berjast fyrir útbreiðslu trúarinnar. Þannig má bera það saman við orðið jihad, dregið af rótinni 'j-h-d' sem þýðir 'að streða, berjast', og einnig að berjast í nafni trúarinnar.

Orðmyndin 'rassía' virðist rata inn í frönsku á nýlendutímum og er þar sérstaklega notað um árásir og þrælaveiðar Tuareg í Vestur og Mið-Afríku. Sú orðmynd er líklega komin úr norður-afrískri arabísku ghaziya, sem er sama orðið og arabíska ghazwa.

Mynd:

Útgáfudagur

30.1.2018

Spyrjandi

Elvar Karel Jóhannesson

Höfundur

Þórir Jónsson Hraundal

Mið-Austurlandafræðingur

Tilvísun

Þórir Jónsson Hraundal. „Hvaðan kemur orðið rassía og hvernig tengist það íslamstrú?“ Vísindavefurinn, 30. janúar 2018. Sótt 21. september 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=74572.

Þórir Jónsson Hraundal. (2018, 30. janúar). Hvaðan kemur orðið rassía og hvernig tengist það íslamstrú? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=74572

Þórir Jónsson Hraundal. „Hvaðan kemur orðið rassía og hvernig tengist það íslamstrú?“ Vísindavefurinn. 30. jan. 2018. Vefsíða. 21. sep. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=74572>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Elsa Eiríksdóttir

1975

Elsa Eiríksdóttir er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar snúa að því hvernig fólk lærir verklega kunnáttu, hvernig yfirfærsla þekkingar og færni á sér stað og hvernig uppbygging náms og framsetning námsefnis getur haft þar áhrif.