Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ég undirrituð er að vinna grein um fótabúnað fólks frá upphafi frá því að fólk fór að hlífa fótum sínum með einhverjum vafningum eða öðru. Vitað er að líkamsleifar Ötzi voru með einskonar skó fóðraðar með grasi. Er eitthvað til um þróun fótabúnaðar frameftir öldum? Hvernig var fótabúnaður landnámsmanna Íslands? Ég vona að Vísindavefurinn geti frætt mig eitthvað um þetta.
Engir skór hafa fundist frá landnámsöld á Íslandi og verðum við því að gera okkur hugmyndir um skóbúnað landnámsmanna annarsvegar út frá skóleifum og lýsingum á skóbúnaði frá seinni tímum og hinsvegar með því að skoða skó frá sem fundist hafa í nágrannalöndum okkar.
Á víkingaöld og miðöldum voru skór af þremur aðalgerðum í Norður-Evrópu. Í fyrsta lagi voru tréskór algengur skóbúnaður alþýðufólks á miðöldum en ekki er vitað til þess að slíkir skór hafi þekkst á Íslandi þó ekki sé hægt að útiloka það. Í öðru lagi voru skór úr leðri, skinni og jafnvel roði sem sniðnir voru úr einu stykki, og í þriðja lagi samsettir skór með yfirleðri saumuðu á sólann. Báðar síðarnefndu gerðirnar hafa fundist hér og má gera ráð fyrir að einföldu skórnir séu yfirleitt íslensk framleiðsla en þeir samsettu innfluttir.
Íslenskir sauðskinnsskór eru gerðir úr einu stykki og hafa tíðkast hér frá landnámi. Skór sömu gerðar voru útbreiddir um alla Norður-Evrópu aftur á bronsöld.
Elstu skór sem fundist hafa á Íslandi eru frá 13.-15. öld og eru það í miklum meirihluta samsettir skór sem fylgja skótískustraumum Evrópu. Þeir eru erlend framleiðsla og hafa einkum verið spariskór og skór efnameira fólks. Það að ekki hafa fundist eldri skór skýrist helst af því að varðveisluskilyrði fyrir lífrænar leifar eru léleg á flestum víkingaaldarstöðum sem grafnir hafa verið upp hérlendis.
Þó vekur athygli að engir skór fundust í elstu mannvistarlögum í Alþingisreitnum í Reykjavík – þar sem varðveisluskilyrði eru góð – frá því milli 871 og 1226 en allmargir frá því eftir 1226. Það gæti bent til þess að innfluttir, samsettir skór hafi verið óalgengir á Íslandi fyrstu aldirnar. Ekki er samt hægt að útiloka að slíkir skór hafi verið á fótum einstakra landnámsmanna. Samsettir skór hafa fundist í kaupstöðum víkingaaldar, eins og Jórvík á Englandi og Heiðabæ á Jótlandi, og því vel mögulegt að Íslandsfarar hafi getað orðið sér úti um skó af því tagi.
Þó að innfluttu, samsettu skónum fjölgi í gripasöfnum eftir 13. öld og þeir séu algengari fundir en einföldu skórnir þýðir það ekki að íslenskur almenningur hafi gengið í slíkum skóm hversdagslega. Samsettu skórnir voru miklu meiri verðmæti og eftir að þeir fóru að bila geymdi fólk þá frekar í þeirri von að hægt yrði að gera við þá. Þar fyrir utan eru þeir bæði efnismeiri, einkum sólarnir, og úr vel sútuðu leðri sem þýðir að þeir varðveitast frekar í jörðu en til dæmis þunnt sauðskinn. Einföldu skórnir voru meira í ætt við einnota hluti samtímans – þeir voru í raun ekki annnað en hlífar utan um vel þæfða ullarsokka og eyddust fljótt við notkun.
Í Ásubergsskipinu frá fyrri hluta 9. aldar var heygð kona í samsettum skóm. Mögulegt er að vel megandi landnámskonur á Íslandi hafi átt slíka skó.
Ritheimildir frá 13. öld og síðar sýna að alþekkt var að skór slitnuðu hratt og þurfti stöðugt að vera að gera nýja. Víða er getið um að nautshúðir hafi verið skornar til að skóa langferðamenn en í Harðar sögu er sauðamanni sem vildi fá skó vegna starfs síns vísað á hákarlsskráp og er það eina óyggjandi miðaldadæmið um annað efni en leður til skógerðar. Skæðatollar, sem nokkrar kirkjur á Vestfjörðum og Norðurlandi áttu, sýna hvorttveggja, að stór heimili þurftu mikið af skóm og að skógerð var heimilisiðn – fólk bjó sér til sína skó sjálft.
Skórinn mikli sem guðinn Víðar safnaði á fót sér var gerður úr bjórum þeim „er menn sníða ór skóm sínum fyrir tám eða hæli“ (Snorra-Edda) og er þar greinilega gert ráð fyrir skóm sem sniðnir eru úr einu stykki. Frá 18. og 19. öld eru til ítarlegri lýsingar á skógerð Íslendinga og er í þeim getið bæði um að sauðskinn, selskinn, hákarlsskrápur, skötu- og steinbítsroð hafi verið notað til að gera skó, en nauts- og hesthúðir voru notaðar í sjóskó og skó ætlaða til langferða. Ætla má að þessu hafi verið líkt farið allt frá landnámi.
Í mannvistarlögum frá 9. og 10. öld í Jórvík á Englandi hafa fundist nokkrar tegundir af einföldum skóm en fleiri þó af samsettum. Allar skógerðirnar eru keimlíkar að því leyti að engin nær upp á ökklann og sumar minna mjög á skinnskó þá sem Íslendingar gengu í fram á 20. öld. Breytileikinn í þessum ensku víkingaaldarskóm felst í því að misjafnt er hversu mikið þeir lokast yfir ristina og hvernig gengið er frá þvengjunum. Skór sem náðu upp á ökklann hafa fundist á öðrum víkingaaldarstöðum, til dæmis í Ásubergshaugnum og í kaupstöðunum Heiðabæ og Dorestad í Hollandi, en í Jórvík koma þeir ekki til til sögunnar fyrr en á 12. öld.
Fjöldi mismunandi skógerða var til á víkingaöld. Þessi skýringarmynd frá Jórvík á Englandi sýnir nokkrar þeirra en fleiri eru þekktar frá öðrum stöðum (Mould ofl. 2003, Fig. 1595).
skótíska var breytileg frá einum stað til annars og frá einum tíma til annars og er í norrænum ritum frá 13. öld og síðar sumsstaðar minnst á þetta. Í einu handriti Heimskringlu eru uppháir skór taldir til forneskjuklæðaburðar og má vera að uppháu svörtu skórnir sem Skarphéðinn Njálsson var í á alþingi hafi átt að minna lesendur Njáls sögu á að sagan gerðist í fjarlægri fortíð. Hinsvegar þótti það grunsamlegt í lok 12. aldar að munkar gengju í lágum skóm og rauðum hosum (Sverris saga). Skóbúnaður sýndi stétt og stöðu fólks og meðal þeirra efnameiri var sífellt kapphlaup um að tolla í tískunni – þá eins og nú.
Landnámsmenn hafa flestir gengið í skóm með sama eða svipuðu sniði og sauðskinnsskórnir sem tíðkuðust á Íslandi fram á 20. öld. Tilhaldsfólk þess tíma getur vel hafa átt samsetta skó en líklegt er einnig að margir hafi gengið berfættir mun meira en okkur myndi nú þykja þægilegt, bæði innanhúss á öllum árstímum og utanhúss á sumrin.
Heimildir:
Groenman-van Waateringe, Willy 1984, Die Lederfunde von Haithabu, (Berichte über die Ausgrabungen in Haithabu 21), Neumünster: Wachholtz.
Hald, Margarethe 1972, Primitive Shoes. An Archaeological-Ethnological Study Based upon Shoe Finds from the Jutland Peninsula, (Archaeological-Historical Series I vol. 13), Copenhagen: National Museum of Denmark.
Mould, Quita; Ian Carlisle & Esther Cameron 2003, Leather and Leatherworking in Anglo-Scandinavia and Medieval York (The Archaeology of York. 17. The Small finds 16), York: York Archaeological Trust.
Toblak, Matthias 2011, Kleidung und Tracht in der altnordischen Sagaliteratur und im archäologischen Fundkontext, Marburg: Tectum.
Mould, Quita; Ian Carlisle & Esther Cameron 2003, Leather and Leatherworking in Anglo-Scandinavia and Medieval York (The Archaeology of York. 17. The Small finds 16), York: York Archaeological Trust.
Orri Vésteinsson. „Í hvers konar skóm voru landnámsmenn?“ Vísindavefurinn, 1. febrúar 2018, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74943.
Orri Vésteinsson. (2018, 1. febrúar). Í hvers konar skóm voru landnámsmenn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74943
Orri Vésteinsson. „Í hvers konar skóm voru landnámsmenn?“ Vísindavefurinn. 1. feb. 2018. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74943>.