Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær og hvers vegna breyttist „ek em“ í „ég er“?

Haraldur Bernharðsson

Í þessu felast eiginlega tvær spurningar, annars vegar breytingin frá ek í ég og hins vegar breytingin úr em í er.

Breytingin frá ek í ég

Eintölubeyging 1. persónu fornafnsins í forníslensku og nútímaíslensku er sýnd í Töflu 1.

eintala físl. nísl.
nefnifall ek ég
þolfall mik mig
þágufall mér mér
eignarfall mín mín

Tafla 1: Eintölubeyging 1. persónu fornafnsins í forníslensku og nútímaíslensku.

Í nefnifallsmyndinni hafa átt sér stað tvær breytingar frá forníslensku.

(1) Annars vegar hefur uppgómmælta lokhljóðið [k] sem í ritmáli er venjulega táknað með „k“ breyst í önghljóðið [ɣ]. Lokhljóðið [k] hafði forníslenska tekið í arf frá eldra málstigi, eins og sjá má á frændtungum á borð við gotnesku þar sem nefnifallsmyndin var ik. Í forníslensku tók lokhljóðið að breytast í önghljóð þegar á síðari hluta þrettándu aldar, líklega fyrst í þeim tilvikum þar sem fornafnið var áherslulétt og var „hengt aftan á“ undanfarandi orðmynd (e. enclitic), eins og í vilda ek > vildag, mynda ek > myndag. Þessi framburðarbreyting birtist skýrt í stafsetningu þar sem ritmyndin „ek“ vék smám saman fyrir „eg“, einkum á síðari hluta fjórtándu aldar og á fimmtándu öld. Sams konar breyting varð í þolfallsmyndinni mik sem varð mig, einnig í þik og sik sem urðu þig og sig, samtengingunni ok sem varð og og atviksorðinu mjök sem varð mjög, eins og sýnt er í Töflu 2.

eg > eg
mig > mig
sik > sig
þik > þig
ok > og
mjök > mjög

Tafla 2: Orð sem urðu fyrir hljóðbreytingunni k > g í áhersluléttri bakstöðu.

Ef marka má rithátt hafa þessar breytingar breiðst út á fjórtándu öld og framburður með önghljóði hefur líklega verið orðinn ríkjandi um land allt á fimmtándu öld. Mögulega hefur breytingin gengið svolítið mishratt eftir orðum og má finna vísbendingar um að hún hafi gengið hraðar í atviksorðinu mjök en í hinum orðunum (Björn K. Þórólfsson 1925:xxxii; Stefán Karlsson 1989:14/2000:30; Bandle 1956, 146–57; de Leeuw van Weenen 2000:78–79, 81–82, 195).

Mynd af síðu úr Flateyjarbók sem skrifuð var undir lok 14. aldar.

(2) Hins vegar hefur sérhljóðið breyst. Í forníslensku var sérhljóðið stutt, eins og í ik í gotnesku, líkast til [e] og svo síðar (á þrettándu öld) [ɛ]. Í nútímamáli er orðið aftur á móti borið fram með [jɛ] — ég [jɛːɣ] — en sú breyting hefur að minnsta kosti verið hafin snemma á sextándu öld. Merki um breytinguna úr [ɛ] í [jɛ] má sjá í stafsetningu á fyrri hluta sextándu aldar þegar farið er að rita „jeg“ í stað eldra „eg“ (Björn K. Þórólfsson 1925:96, Pétur Halldórsson 1991:23–25).

Margt er þó á huldu um eðli breytingarinnar úr [ɛ] í [jɛ] í 1. persónu fornafninu. Þrjár mögulegar skýringar má nefna hér (Björn K. Þórólfsson 1925:96–97, Jón Helgason 1927:94; Werner 1988; Aðalsteinn Hákonarson 2016).

Forníslenska langa sérhljóðið é [eː] þróaðist almennt í [jɛ] í nútímaíslensku, í fjölmörgum orðum eins og til dæmis mér, sér, þér sem öll voru borin fram með [eː] í fornu máli en hafa nú [jɛː]. Sú breyting er að minnsta kosti komin vel af stað á fjórtándu öld en upphaf hennar er þó líkast til nokkru eldra. Fornafnið eg hefur ekki getað orðið hluti af þeirri þróun nema það hafi fyrst orðið fyrir sérhljóðslengingu vegna þess að það var aðeins hið langa sérhljóð é [eː] sem þróaðist yfir í [jɛ]. Erfitt hefur þó reynst að finna sannfærandi heimildir um að sérhljóðslenging hafi átt sér stað í eg og eins er torvelt að skýra hvers vegna lenging hefði yfirhöfuð átt að eiga sér stað í þessari orðmynd. Það er því nokkrum erfiðleikum bundið að gera ráð fyrir að sérhljóðið í eg hafi þróast á sama hátt og sérhljóðið í mér, sér, þér.

Í annan stað má benda á að fornafnið eg kemur oft næst á eftir sagnmyndum sem enda á -i, eins og til dæmis heyri eg, færi eg og (í eldra máli) hefi eg og hefur þeirri hugmynd verið varpað fram að uppruna [j] í [jɛːɣ] sé að leita í slíkum sagnmyndum með áhengdu (e. enclitic) fornafni. Þannig hefði eg [ɛːɣ] breyst í [jɛːɣ] við endurtúlkun slíkra orðastrengja: heyri eg > heyrieg → heyri jeg. Þessi þróun ætti sér þá hliðstæðu í fornöfnum 2. persónu tvítölu (it) og fleirtölu (ér) í forníslensku sem fengu tannhljóð úr endingu 2. persónu fleirtölu sagna, þannig að it breyttist í þit (síðar þið) og ér varð að þér: farið it > fariðit → farið þit og farið ér > fariðér → farið þér.

Í þriðja lagi hefur þeirri hugmynd verið fleygt að hér sé hreinlega um dönsk áhrif að ræða.

Breytingin frá em í er

Í forníslensku hafði sögnin vera myndina em í 1. persónu eintölu í nútíð framsöguháttar: ek em. Þessi mynd er gömul og sambærileg við am í ensku: I am. Í eintölubeygingu nútíðar framsöguháttar í forníslensku (og reyndar enn í nútímaíslensku) voru tvö mynstur algjörlega ríkjandi. Annars vegar var mynstur þar sem 2. og 3. persóna höfðu sömu mynd sem var ólík mynd 1. persónu (1 ≠ 2 = 3); þetta má sjá til dæmis í beygingu sagnarinnar taka sem sýnd er í Töflu 3. Hins vegar var mynstur þar sem 1. og 3. persóna voru samhljóða andspænis 2. persónu (1 = 3 ≠ 2), eins og til dæmis í sögninni þurfa í Töflu 3. Nærfellt allar sagnir í tungumálinu fylgdu þessum tveimur mynstrum og einkum var fyrrnefnda mynstrið algengt. Vegna þess hve þessi mynstur voru algeng áttu börn á máltökuskeiði auðvelt með að tileinka sér þau; þau heyrðust í fjölda sagna í daglegu máli.

Eintölubeyging sagnarinnar vera fylgdi þó hvorugu þessara mynstra: 1. persóna var em, 2. persóna ert og 3. persóna er. Hér hafði sem sagt hver persóna sína mynd. Engin önnur sögn í tungumálinu hafði slíkt mynstur (lengi vel; sögnin vilja bættist þó í hópinn eins og frá er sagt neðar). Sögnin að vera var því, í þessu tilliti, einangruð í beygingarkerfinu. Sögnin vera hefur þó alltaf verið algeng í málinu og það hefur líklega gert þessu sjaldheyrða mynstri mögulegt að lifa frá einni kynslóð til annarrar um margra alda skeið. Í krafti hárrar tíðni gátu börn á máltökuskeiði tileinkað sér þetta sérkennilega mynstur sem vart átti sér hliðstæðu.

Að því kom þó — að því er virðist snemma á fjórtándu öld — að börnin sem voru að læra málið tóku að fella sögnina vera inn í næstalgengasta mynstrið, nefnilega mynstrið þar sem 1. og 3. persóna hafa sömu mynd sem er ólík mynd 2. persónu. Börnin drógu einfaldlega þá ályktun að úr því að hægt var að segja til dæmis hún þarf – þú þarft – ek þarf (og ýmsar fleiri algengar sagnir fylgdu sama mynstri) þá lá beint við að segja líka hún er – þú ert – ek er, í stað ek em sem pabbi og mamma og afi og amma sögðu. Þannig hvarf sögnin vera frá þessu óvenjulega og einangraða beygingarmynstri og fékk annað og algengara mynstur. Elstu merki um þessa breytingu eru frá fyrri hluta fjórtándu aldar en breytingin virðist hafa verið fremur hægfara því að er verður ekki ríkjandi fyrr en á sextándu öld; myndinni em bregður þó fyrir áfram (Björn K. Þórólfsson 1925:58, de Leeuw van Weenen 2000:246–47, 251–52, Bandle 1956:425–26, Atli Steinn Guðmundsson 2000; Haraldur Bernharðsson 2005, 2007).

eintala taka þurfa vera vilja
1. pers. tek þarf em → er vil → vill
2. pers. tek-r þarf-t ert vilt
3. pers. tek-r þarf er vill

Tafla 3: Beyging nokkurra sagna í nútíð eintölu í framsöguhætti.

Þess má geta að algjörlega sambærileg breyting á sér stað í sögninni vilja nú um stundir. Í elstu íslensku var mynd 2. persónu vill en myndin vilt kom fram þegar á þrettándu öld vegna áhrifa frá eftirfarandi 2. persónu fornafni: vill þú > viltu → vilt þú. Sú breyting er í sjálfu sér ekki óeðlileg, en hafði þær afleiðingar að eintölubeyging sagnarinnar vilja í nútíð hafnaði í því sjaldgæfa mynstri sem sögnin vera var að brjótast út úr; nefnilega mynstri þar sem hver persóna hafði sína sérstöku mynd (1 ≠ 2 ≠ 3): 1 vil : 2 vilt : 3 vill. Þessu óvenjulega mynstri var vitanlega hætt við breytingum, rétt eins og hjá sögninni vera, og að því kom að börn á máltökuskeiði leituðust við að fella sögnina vilja inn í algengara mynstur. Það gerðu þau á nákvæmlega sama hátt og þegar sögnin vera breyttist: með því að nota mynd 3. persónu í 1. persónu og segja ég vill í stað ég vil, eins og sýnt er í Töflu 3. Sú breyting er enn í fullum gangi. Jafnframt gætir tilhneigingar til að segja hann vil en það að nota 1. persónu myndina vil einnig í 3. persónu er önnur leið til að fella beyginguna inn í algengara mynstrið 1 ≠ 3 = 2; sú leið er sjaldfarnari en hin fyrrnefnda (Haraldur Bernharðsson 2005, 2007).

Ritaskrá
  • Aðalsteinn Hákonarson. 2016. Aldur tvíhljóðunar í forníslensku. Íslenskt mál og almenn málfræði 38:83–123.
  • Atli Steinn Guðmundsson. 2000. Að vera eða vera ekki. Um breytinguna á orð­mynd­inni ,em‘ úr fornmálinu. Óprentuð ritgerð til B.A.-prófs í íslensku við Háskóla Íslands.
  • Bandle, Oskar. 1956. Die Sprache der Guðbrandsbiblía. Bibliotheca Arna­magnæ­ana 17. Einar Munksgaard, Kopenhagen.
  • Björn K. Þórólfsson. 1925. Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu. Fjelagsprentsmiðjan, Reykjavík. [Endurprentuð hjá Málvísindastofnun Háskóla Íslands 1987.]
  • de Leeuw van Weenen, Andrea. 2000. A Grammar of Möðruvallabók. CNWS Publications 85. Research School CNWS, Universiteit Leiden, Leiden.
  • Haraldur Bernharðsson. 2005. Ég er, ég vill og ég fær. Þáttur úr beygingarsögu eintölu framsöguháttar nútíðar. Íslenskt mál og almenn málfræði 27:63–101.
  • Haraldur Bernharðsson. 2007. Old Icelandic and Modern Icelandic: The Morphological Continuity. Bruno-Kress-Vorlesung 2006. Greifswalder Universitätsreden (Neue Folge) 126. Ernst Moritz Arndt Universität, Greifswald.
  • Jón Helgason. 1927. Anmälan: Björn K. Þórólfsson: Um íslenskar orð­mynd­ir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu. Arkiv för nor­disk filologi 43:88–95.
  • Pétur Halldórsson. 1991. Fornafnið ég. Málsöguleg athugun. Óprent­uð ritgerð til B.A.-prófs í íslensku við Háskóla Íslands.
  • Stefán Karlsson. 1989. Tungan. Frosti F. Jóhannesson (ritstj.): Íslensk þjóðmenning 6:1–54. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík. [Endurprentun: Stefán Karlsson 2000:19–75.]
  • Stefán Karlsson. 2000. Stafkrókar. Ritgerðir eftir Stefán Karlsson gefnar út í tilefni af sjötugsafmæli hans 2. desember 1998. Ritstjóri Guðvarður Már Gunnlaugsson. Rit 49. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Reykjavík.
  • Werner, Otmar. 1988. Irregulärer Lautwandel im lexikalischen Rah­men? An. e — nisl. je. Nordeuropa, Studien 23:116–25.

Mynd

Höfundur

Haraldur Bernharðsson

dósent í miðaldafræði við HÍ

Útgáfudagur

16.1.2018

Spyrjandi

Ægir Einarov Sverrisson

Tilvísun

Haraldur Bernharðsson. „Hvenær og hvers vegna breyttist „ek em“ í „ég er“?“ Vísindavefurinn, 16. janúar 2018, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74983.

Haraldur Bernharðsson. (2018, 16. janúar). Hvenær og hvers vegna breyttist „ek em“ í „ég er“? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74983

Haraldur Bernharðsson. „Hvenær og hvers vegna breyttist „ek em“ í „ég er“?“ Vísindavefurinn. 16. jan. 2018. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74983>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær og hvers vegna breyttist „ek em“ í „ég er“?
Í þessu felast eiginlega tvær spurningar, annars vegar breytingin frá ek í ég og hins vegar breytingin úr em í er.

Breytingin frá ek í ég

Eintölubeyging 1. persónu fornafnsins í forníslensku og nútímaíslensku er sýnd í Töflu 1.

eintala físl. nísl.
nefnifall ek ég
þolfall mik mig
þágufall mér mér
eignarfall mín mín

Tafla 1: Eintölubeyging 1. persónu fornafnsins í forníslensku og nútímaíslensku.

Í nefnifallsmyndinni hafa átt sér stað tvær breytingar frá forníslensku.

(1) Annars vegar hefur uppgómmælta lokhljóðið [k] sem í ritmáli er venjulega táknað með „k“ breyst í önghljóðið [ɣ]. Lokhljóðið [k] hafði forníslenska tekið í arf frá eldra málstigi, eins og sjá má á frændtungum á borð við gotnesku þar sem nefnifallsmyndin var ik. Í forníslensku tók lokhljóðið að breytast í önghljóð þegar á síðari hluta þrettándu aldar, líklega fyrst í þeim tilvikum þar sem fornafnið var áherslulétt og var „hengt aftan á“ undanfarandi orðmynd (e. enclitic), eins og í vilda ek > vildag, mynda ek > myndag. Þessi framburðarbreyting birtist skýrt í stafsetningu þar sem ritmyndin „ek“ vék smám saman fyrir „eg“, einkum á síðari hluta fjórtándu aldar og á fimmtándu öld. Sams konar breyting varð í þolfallsmyndinni mik sem varð mig, einnig í þik og sik sem urðu þig og sig, samtengingunni ok sem varð og og atviksorðinu mjök sem varð mjög, eins og sýnt er í Töflu 2.

eg > eg
mig > mig
sik > sig
þik > þig
ok > og
mjök > mjög

Tafla 2: Orð sem urðu fyrir hljóðbreytingunni k > g í áhersluléttri bakstöðu.

Ef marka má rithátt hafa þessar breytingar breiðst út á fjórtándu öld og framburður með önghljóði hefur líklega verið orðinn ríkjandi um land allt á fimmtándu öld. Mögulega hefur breytingin gengið svolítið mishratt eftir orðum og má finna vísbendingar um að hún hafi gengið hraðar í atviksorðinu mjök en í hinum orðunum (Björn K. Þórólfsson 1925:xxxii; Stefán Karlsson 1989:14/2000:30; Bandle 1956, 146–57; de Leeuw van Weenen 2000:78–79, 81–82, 195).

Mynd af síðu úr Flateyjarbók sem skrifuð var undir lok 14. aldar.

(2) Hins vegar hefur sérhljóðið breyst. Í forníslensku var sérhljóðið stutt, eins og í ik í gotnesku, líkast til [e] og svo síðar (á þrettándu öld) [ɛ]. Í nútímamáli er orðið aftur á móti borið fram með [jɛ] — ég [jɛːɣ] — en sú breyting hefur að minnsta kosti verið hafin snemma á sextándu öld. Merki um breytinguna úr [ɛ] í [jɛ] má sjá í stafsetningu á fyrri hluta sextándu aldar þegar farið er að rita „jeg“ í stað eldra „eg“ (Björn K. Þórólfsson 1925:96, Pétur Halldórsson 1991:23–25).

Margt er þó á huldu um eðli breytingarinnar úr [ɛ] í [jɛ] í 1. persónu fornafninu. Þrjár mögulegar skýringar má nefna hér (Björn K. Þórólfsson 1925:96–97, Jón Helgason 1927:94; Werner 1988; Aðalsteinn Hákonarson 2016).

Forníslenska langa sérhljóðið é [eː] þróaðist almennt í [jɛ] í nútímaíslensku, í fjölmörgum orðum eins og til dæmis mér, sér, þér sem öll voru borin fram með [eː] í fornu máli en hafa nú [jɛː]. Sú breyting er að minnsta kosti komin vel af stað á fjórtándu öld en upphaf hennar er þó líkast til nokkru eldra. Fornafnið eg hefur ekki getað orðið hluti af þeirri þróun nema það hafi fyrst orðið fyrir sérhljóðslengingu vegna þess að það var aðeins hið langa sérhljóð é [eː] sem þróaðist yfir í [jɛ]. Erfitt hefur þó reynst að finna sannfærandi heimildir um að sérhljóðslenging hafi átt sér stað í eg og eins er torvelt að skýra hvers vegna lenging hefði yfirhöfuð átt að eiga sér stað í þessari orðmynd. Það er því nokkrum erfiðleikum bundið að gera ráð fyrir að sérhljóðið í eg hafi þróast á sama hátt og sérhljóðið í mér, sér, þér.

Í annan stað má benda á að fornafnið eg kemur oft næst á eftir sagnmyndum sem enda á -i, eins og til dæmis heyri eg, færi eg og (í eldra máli) hefi eg og hefur þeirri hugmynd verið varpað fram að uppruna [j] í [jɛːɣ] sé að leita í slíkum sagnmyndum með áhengdu (e. enclitic) fornafni. Þannig hefði eg [ɛːɣ] breyst í [jɛːɣ] við endurtúlkun slíkra orðastrengja: heyri eg > heyrieg → heyri jeg. Þessi þróun ætti sér þá hliðstæðu í fornöfnum 2. persónu tvítölu (it) og fleirtölu (ér) í forníslensku sem fengu tannhljóð úr endingu 2. persónu fleirtölu sagna, þannig að it breyttist í þit (síðar þið) og ér varð að þér: farið it > fariðit → farið þit og farið ér > fariðér → farið þér.

Í þriðja lagi hefur þeirri hugmynd verið fleygt að hér sé hreinlega um dönsk áhrif að ræða.

Breytingin frá em í er

Í forníslensku hafði sögnin vera myndina em í 1. persónu eintölu í nútíð framsöguháttar: ek em. Þessi mynd er gömul og sambærileg við am í ensku: I am. Í eintölubeygingu nútíðar framsöguháttar í forníslensku (og reyndar enn í nútímaíslensku) voru tvö mynstur algjörlega ríkjandi. Annars vegar var mynstur þar sem 2. og 3. persóna höfðu sömu mynd sem var ólík mynd 1. persónu (1 ≠ 2 = 3); þetta má sjá til dæmis í beygingu sagnarinnar taka sem sýnd er í Töflu 3. Hins vegar var mynstur þar sem 1. og 3. persóna voru samhljóða andspænis 2. persónu (1 = 3 ≠ 2), eins og til dæmis í sögninni þurfa í Töflu 3. Nærfellt allar sagnir í tungumálinu fylgdu þessum tveimur mynstrum og einkum var fyrrnefnda mynstrið algengt. Vegna þess hve þessi mynstur voru algeng áttu börn á máltökuskeiði auðvelt með að tileinka sér þau; þau heyrðust í fjölda sagna í daglegu máli.

Eintölubeyging sagnarinnar vera fylgdi þó hvorugu þessara mynstra: 1. persóna var em, 2. persóna ert og 3. persóna er. Hér hafði sem sagt hver persóna sína mynd. Engin önnur sögn í tungumálinu hafði slíkt mynstur (lengi vel; sögnin vilja bættist þó í hópinn eins og frá er sagt neðar). Sögnin að vera var því, í þessu tilliti, einangruð í beygingarkerfinu. Sögnin vera hefur þó alltaf verið algeng í málinu og það hefur líklega gert þessu sjaldheyrða mynstri mögulegt að lifa frá einni kynslóð til annarrar um margra alda skeið. Í krafti hárrar tíðni gátu börn á máltökuskeiði tileinkað sér þetta sérkennilega mynstur sem vart átti sér hliðstæðu.

Að því kom þó — að því er virðist snemma á fjórtándu öld — að börnin sem voru að læra málið tóku að fella sögnina vera inn í næstalgengasta mynstrið, nefnilega mynstrið þar sem 1. og 3. persóna hafa sömu mynd sem er ólík mynd 2. persónu. Börnin drógu einfaldlega þá ályktun að úr því að hægt var að segja til dæmis hún þarf – þú þarft – ek þarf (og ýmsar fleiri algengar sagnir fylgdu sama mynstri) þá lá beint við að segja líka hún er – þú ert – ek er, í stað ek em sem pabbi og mamma og afi og amma sögðu. Þannig hvarf sögnin vera frá þessu óvenjulega og einangraða beygingarmynstri og fékk annað og algengara mynstur. Elstu merki um þessa breytingu eru frá fyrri hluta fjórtándu aldar en breytingin virðist hafa verið fremur hægfara því að er verður ekki ríkjandi fyrr en á sextándu öld; myndinni em bregður þó fyrir áfram (Björn K. Þórólfsson 1925:58, de Leeuw van Weenen 2000:246–47, 251–52, Bandle 1956:425–26, Atli Steinn Guðmundsson 2000; Haraldur Bernharðsson 2005, 2007).

eintala taka þurfa vera vilja
1. pers. tek þarf em → er vil → vill
2. pers. tek-r þarf-t ert vilt
3. pers. tek-r þarf er vill

Tafla 3: Beyging nokkurra sagna í nútíð eintölu í framsöguhætti.

Þess má geta að algjörlega sambærileg breyting á sér stað í sögninni vilja nú um stundir. Í elstu íslensku var mynd 2. persónu vill en myndin vilt kom fram þegar á þrettándu öld vegna áhrifa frá eftirfarandi 2. persónu fornafni: vill þú > viltu → vilt þú. Sú breyting er í sjálfu sér ekki óeðlileg, en hafði þær afleiðingar að eintölubeyging sagnarinnar vilja í nútíð hafnaði í því sjaldgæfa mynstri sem sögnin vera var að brjótast út úr; nefnilega mynstri þar sem hver persóna hafði sína sérstöku mynd (1 ≠ 2 ≠ 3): 1 vil : 2 vilt : 3 vill. Þessu óvenjulega mynstri var vitanlega hætt við breytingum, rétt eins og hjá sögninni vera, og að því kom að börn á máltökuskeiði leituðust við að fella sögnina vilja inn í algengara mynstur. Það gerðu þau á nákvæmlega sama hátt og þegar sögnin vera breyttist: með því að nota mynd 3. persónu í 1. persónu og segja ég vill í stað ég vil, eins og sýnt er í Töflu 3. Sú breyting er enn í fullum gangi. Jafnframt gætir tilhneigingar til að segja hann vil en það að nota 1. persónu myndina vil einnig í 3. persónu er önnur leið til að fella beyginguna inn í algengara mynstrið 1 ≠ 3 = 2; sú leið er sjaldfarnari en hin fyrrnefnda (Haraldur Bernharðsson 2005, 2007).

Ritaskrá
  • Aðalsteinn Hákonarson. 2016. Aldur tvíhljóðunar í forníslensku. Íslenskt mál og almenn málfræði 38:83–123.
  • Atli Steinn Guðmundsson. 2000. Að vera eða vera ekki. Um breytinguna á orð­mynd­inni ,em‘ úr fornmálinu. Óprentuð ritgerð til B.A.-prófs í íslensku við Háskóla Íslands.
  • Bandle, Oskar. 1956. Die Sprache der Guðbrandsbiblía. Bibliotheca Arna­magnæ­ana 17. Einar Munksgaard, Kopenhagen.
  • Björn K. Þórólfsson. 1925. Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu. Fjelagsprentsmiðjan, Reykjavík. [Endurprentuð hjá Málvísindastofnun Háskóla Íslands 1987.]
  • de Leeuw van Weenen, Andrea. 2000. A Grammar of Möðruvallabók. CNWS Publications 85. Research School CNWS, Universiteit Leiden, Leiden.
  • Haraldur Bernharðsson. 2005. Ég er, ég vill og ég fær. Þáttur úr beygingarsögu eintölu framsöguháttar nútíðar. Íslenskt mál og almenn málfræði 27:63–101.
  • Haraldur Bernharðsson. 2007. Old Icelandic and Modern Icelandic: The Morphological Continuity. Bruno-Kress-Vorlesung 2006. Greifswalder Universitätsreden (Neue Folge) 126. Ernst Moritz Arndt Universität, Greifswald.
  • Jón Helgason. 1927. Anmälan: Björn K. Þórólfsson: Um íslenskar orð­mynd­ir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu. Arkiv för nor­disk filologi 43:88–95.
  • Pétur Halldórsson. 1991. Fornafnið ég. Málsöguleg athugun. Óprent­uð ritgerð til B.A.-prófs í íslensku við Háskóla Íslands.
  • Stefán Karlsson. 1989. Tungan. Frosti F. Jóhannesson (ritstj.): Íslensk þjóðmenning 6:1–54. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík. [Endurprentun: Stefán Karlsson 2000:19–75.]
  • Stefán Karlsson. 2000. Stafkrókar. Ritgerðir eftir Stefán Karlsson gefnar út í tilefni af sjötugsafmæli hans 2. desember 1998. Ritstjóri Guðvarður Már Gunnlaugsson. Rit 49. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Reykjavík.
  • Werner, Otmar. 1988. Irregulärer Lautwandel im lexikalischen Rah­men? An. e — nisl. je. Nordeuropa, Studien 23:116–25.

Mynd

...