Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hvað borðuðu Íslendingar árið 1918?

Laufey Steingrímsdóttir

Þrátt fyrir allar þær þrengingar sem dundu yfir þjóðina þetta örlagaríka ár 1918, voru helstu undirstöður í fæði Íslendinga enn að mestu óbreyttar, það er súrmatur, fiskur, mjólkurmatur, rúgbrauð og smjör. Grautur og súr blóðmör eða lifrarpylsa hefur því líklega verið fyrsta máltíð dagsins hjá mörgum, rétt eins og Ketill Indriðason frá Fjalli í Aðaldal lýsir í nákvæmri dagbók sinni sjö árum áður. Hádegisverður nefndist gjarnan dögurður á þessum tíma, og á heimili Ketils voru þá mjólkurgrautur, rúgbrauð, flatbrauð og smjör algengustu matvælin, en af og til voru á borðum saltfiskur, harðfiskur eða súpa, kartöflur og kjöt. Að kvöldi var svo aftur súrmatur, skyrhræringur, rúgbrauð og smjör. Fiskur var hins vegar mun stærri þáttur í fæði fólks í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum við sjávarsíðuna heldur en í sveitum og samkvæmt lýsingum Þórbergs Þórðarsonar var jafnvel hertur fiskur og fiskhausar algengur morgunmatur í Reykjavík í byrjun aldarinnar.

Helstu undirstöður í fæði Íslendinga árið 1918 voru súrmatur, fiskur, mjólkurmatur, rúgbrauð og smjör. Á myndinni sést vikuskammtur fjögurra manna fjölskyldu árið 1900.

En hörmungar ársins 1918 höfðu þó sannarlega árif á viðurværi fólks, og þá ekki síst þeirra sem minna máttu sín í samfélaginu. Dýrtíð var gríðarleg, ekki síst vegna stopulla flutninga í stríðinu og það var skortur á mörgum nauðsynjum, bæði kolum, olíu og matvörum. Í Reykjavík var því gripið til skömmtunar á vörum svo sem brauði, rúgmjöli, hveiti, sykri, smjörlíki, hrísgrjónum og kolum. Ekki dugði skömmtunin fyrir alla og í dagblöðum haustið 1918 var meðal annars kvartað undan því að ekki fengist nægilegt rúgmjöl til að gera slátur. Til að bæta gráu ofan á svart voru frosthörkur svo miklar í byrjun árs að bátar komust ekki til róðra vegna ísa. Skortur og jafnvel sultur knúði dyra hjá þeim sem höfðu minnst milli handanna og um miðjan janúar voru til dæmis um 300 fjölskyldur á Ísafirði algjörlega matarlausar. Menn reyndu að bjarga sér eftir föngum og sem dæmi auglýsti verslunin Ásbyrgi í júlí 1918 góðan harðfisk sem nú í eldiviðarskortinum þarf ekki að sjóða, og kæfu sem í smjöreklunni má sem best nota til viðbits.

En það voru ekki allir jafn illa settir. Í dagblöðum þessa árs gefur einnig að líta auglýsingar fyrir appelsínur og epli, niðursoðna ávexti, innflutta osta, gosdrykki og „sjokolaðe“, eins og súkkulaðið var nefnt í þá daga. Það lítur út fyrir að þeir efnameiri hafi ekki þurft að breyta sínum neysluvenjum að ráði þetta mikla hörmungarár. Margir þeirra höfðu þegar vanist innfluttum munaðarvörum frá því velmegun og verslunarfrelsi ríkti á Íslandi í byrjun 20. aldar og þótt innflutningur væri stopull í stríðinu komu einhver skip til landsins þetta ár með varning frá Bandaríkjunum, korn, epli, appelsínur, banana, kaffi - og jafnvel niðursoðinn humar.

Myndarlegur kálgarður frá fyrri hluta 20. aldar.

Eins má gera ráð fyrir að fólk í sveitum landsins hafi ekki liðið sömu þrengingar og fátækt þéttbýlisfólk. Ár og vötn iðuðu af laxi og silungi sem fyrr, rjúpur voru á heiði og fugl og egg í bjargi. Mjólkin, sem þéttbýlisbúa skorti svo tilfinnanlega á þessum árum var líka næg á flestum sveitaheimilum og margir ræktuðu kartöflur, en innfluttar kartöflur voru dýrar og oft illfáanlegar.

Í blöðum þessa tíma birtust ábendingar og hvatningarorð frá ýmsum mektarmönnum og konum í því skyni að bæta hag og viðurværi fólks. Til dæmis var oft bent á nauðsyn þess að fleiri ræktuðu kartöflur og var Garðyrkjufélag Reykjavíkur endurreist þetta ár eftir áratuga dvala. Aðrir fundu sig knúna til að benda efnaminna fólki á að nær væri að eyða fjármunum sínum í holl matvæli en í kaffisumbl og annan óþarfa á veitingahúsum.

Hluti af útreiknuðum matseðli Steingríms Matthíassonar frá desembermánuði 1917.

Héraðslæknirinn Steingrímur Matthíasson á Akureyri var manna ötulastur við að birta uppbyggilegar ábendingar um heilsusamlegt fæðuval fyrir fólk með takmörkuð fjárráð. Í desember 1917 birti hann í tímaritinu Norðurlandi nákvæmlega útreiknaðan matseðil sem hann taldi að uppfyllti næringarþörf flestra manna og væri þess utan á viðráðanlegu verði fyrir allan þorra fólks. Á matseðli Steingríms var hafragrautur, mjólk og slátur í morgunverð. Í hádegisverð var soðinn þorskur, kartöflur, rúgbrauð og hrísgrjónavellingur. Síðdegishressingin var kaffi og kex, en að kvöldi var rúgbrauð og hveitibrauð með smjöri, rúllupylsu, kjötáleggi og osti. Ekki er ljóst hversu margir fóru að ábendingum Steingríms, en ef til vill var þetta fæði hans ekki fjarri því sem helst var á borðum alþýðufólks á þessum tíma.

Helstu heimildir:
  • Dagbók Ketils Indriðasonar frá Fjalli í Aðaldal 1911.
  • Dagblöð og tímarit frá árinu 1918.
  • Þegar siðmenningin fór fjandans til. Stríðið mikla 1914-1918 eftir Gunnar Þór Bjarnason.

Myndir:
  • Myndina af vikuskammti fjögurra manna fjölskyldu ári 1900 tók Binni. Hún var notuð á sýningunni Reykvíska eldhúsið 2008.
  • Mynd af kálgarði: Úr safni höfundar.
  • Norðurland, 02.03.1918 - Timarit.is. (Sótt 5.02.2018).

Spurningu Hugrúnar er hér svarað að hluta.

Höfundur

Laufey Steingrímsdóttir

prófessor emeritus í næringarfræði við HÍ

Útgáfudagur

13.2.2018

Spyrjandi

Hugrún Fjóla Hafsteinsdóttir

Tilvísun

Laufey Steingrímsdóttir. „Hvað borðuðu Íslendingar árið 1918?“ Vísindavefurinn, 13. febrúar 2018. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75118.

Laufey Steingrímsdóttir. (2018, 13. febrúar). Hvað borðuðu Íslendingar árið 1918? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75118

Laufey Steingrímsdóttir. „Hvað borðuðu Íslendingar árið 1918?“ Vísindavefurinn. 13. feb. 2018. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75118>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað borðuðu Íslendingar árið 1918?
Þrátt fyrir allar þær þrengingar sem dundu yfir þjóðina þetta örlagaríka ár 1918, voru helstu undirstöður í fæði Íslendinga enn að mestu óbreyttar, það er súrmatur, fiskur, mjólkurmatur, rúgbrauð og smjör. Grautur og súr blóðmör eða lifrarpylsa hefur því líklega verið fyrsta máltíð dagsins hjá mörgum, rétt eins og Ketill Indriðason frá Fjalli í Aðaldal lýsir í nákvæmri dagbók sinni sjö árum áður. Hádegisverður nefndist gjarnan dögurður á þessum tíma, og á heimili Ketils voru þá mjólkurgrautur, rúgbrauð, flatbrauð og smjör algengustu matvælin, en af og til voru á borðum saltfiskur, harðfiskur eða súpa, kartöflur og kjöt. Að kvöldi var svo aftur súrmatur, skyrhræringur, rúgbrauð og smjör. Fiskur var hins vegar mun stærri þáttur í fæði fólks í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum við sjávarsíðuna heldur en í sveitum og samkvæmt lýsingum Þórbergs Þórðarsonar var jafnvel hertur fiskur og fiskhausar algengur morgunmatur í Reykjavík í byrjun aldarinnar.

Helstu undirstöður í fæði Íslendinga árið 1918 voru súrmatur, fiskur, mjólkurmatur, rúgbrauð og smjör. Á myndinni sést vikuskammtur fjögurra manna fjölskyldu árið 1900.

En hörmungar ársins 1918 höfðu þó sannarlega árif á viðurværi fólks, og þá ekki síst þeirra sem minna máttu sín í samfélaginu. Dýrtíð var gríðarleg, ekki síst vegna stopulla flutninga í stríðinu og það var skortur á mörgum nauðsynjum, bæði kolum, olíu og matvörum. Í Reykjavík var því gripið til skömmtunar á vörum svo sem brauði, rúgmjöli, hveiti, sykri, smjörlíki, hrísgrjónum og kolum. Ekki dugði skömmtunin fyrir alla og í dagblöðum haustið 1918 var meðal annars kvartað undan því að ekki fengist nægilegt rúgmjöl til að gera slátur. Til að bæta gráu ofan á svart voru frosthörkur svo miklar í byrjun árs að bátar komust ekki til róðra vegna ísa. Skortur og jafnvel sultur knúði dyra hjá þeim sem höfðu minnst milli handanna og um miðjan janúar voru til dæmis um 300 fjölskyldur á Ísafirði algjörlega matarlausar. Menn reyndu að bjarga sér eftir föngum og sem dæmi auglýsti verslunin Ásbyrgi í júlí 1918 góðan harðfisk sem nú í eldiviðarskortinum þarf ekki að sjóða, og kæfu sem í smjöreklunni má sem best nota til viðbits.

En það voru ekki allir jafn illa settir. Í dagblöðum þessa árs gefur einnig að líta auglýsingar fyrir appelsínur og epli, niðursoðna ávexti, innflutta osta, gosdrykki og „sjokolaðe“, eins og súkkulaðið var nefnt í þá daga. Það lítur út fyrir að þeir efnameiri hafi ekki þurft að breyta sínum neysluvenjum að ráði þetta mikla hörmungarár. Margir þeirra höfðu þegar vanist innfluttum munaðarvörum frá því velmegun og verslunarfrelsi ríkti á Íslandi í byrjun 20. aldar og þótt innflutningur væri stopull í stríðinu komu einhver skip til landsins þetta ár með varning frá Bandaríkjunum, korn, epli, appelsínur, banana, kaffi - og jafnvel niðursoðinn humar.

Myndarlegur kálgarður frá fyrri hluta 20. aldar.

Eins má gera ráð fyrir að fólk í sveitum landsins hafi ekki liðið sömu þrengingar og fátækt þéttbýlisfólk. Ár og vötn iðuðu af laxi og silungi sem fyrr, rjúpur voru á heiði og fugl og egg í bjargi. Mjólkin, sem þéttbýlisbúa skorti svo tilfinnanlega á þessum árum var líka næg á flestum sveitaheimilum og margir ræktuðu kartöflur, en innfluttar kartöflur voru dýrar og oft illfáanlegar.

Í blöðum þessa tíma birtust ábendingar og hvatningarorð frá ýmsum mektarmönnum og konum í því skyni að bæta hag og viðurværi fólks. Til dæmis var oft bent á nauðsyn þess að fleiri ræktuðu kartöflur og var Garðyrkjufélag Reykjavíkur endurreist þetta ár eftir áratuga dvala. Aðrir fundu sig knúna til að benda efnaminna fólki á að nær væri að eyða fjármunum sínum í holl matvæli en í kaffisumbl og annan óþarfa á veitingahúsum.

Hluti af útreiknuðum matseðli Steingríms Matthíassonar frá desembermánuði 1917.

Héraðslæknirinn Steingrímur Matthíasson á Akureyri var manna ötulastur við að birta uppbyggilegar ábendingar um heilsusamlegt fæðuval fyrir fólk með takmörkuð fjárráð. Í desember 1917 birti hann í tímaritinu Norðurlandi nákvæmlega útreiknaðan matseðil sem hann taldi að uppfyllti næringarþörf flestra manna og væri þess utan á viðráðanlegu verði fyrir allan þorra fólks. Á matseðli Steingríms var hafragrautur, mjólk og slátur í morgunverð. Í hádegisverð var soðinn þorskur, kartöflur, rúgbrauð og hrísgrjónavellingur. Síðdegishressingin var kaffi og kex, en að kvöldi var rúgbrauð og hveitibrauð með smjöri, rúllupylsu, kjötáleggi og osti. Ekki er ljóst hversu margir fóru að ábendingum Steingríms, en ef til vill var þetta fæði hans ekki fjarri því sem helst var á borðum alþýðufólks á þessum tíma.

Helstu heimildir:
  • Dagbók Ketils Indriðasonar frá Fjalli í Aðaldal 1911.
  • Dagblöð og tímarit frá árinu 1918.
  • Þegar siðmenningin fór fjandans til. Stríðið mikla 1914-1918 eftir Gunnar Þór Bjarnason.

Myndir:
  • Myndina af vikuskammti fjögurra manna fjölskyldu ári 1900 tók Binni. Hún var notuð á sýningunni Reykvíska eldhúsið 2008.
  • Mynd af kálgarði: Úr safni höfundar.
  • Norðurland, 02.03.1918 - Timarit.is. (Sótt 5.02.2018).

Spurningu Hugrúnar er hér svarað að hluta.

...