Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:12 • Sest 01:42 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:44 • Síðdegis: 15:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:04 • Síðdegis: 21:42 í Reykjavík
Vísindafélag Íslendinga - 100 ára

Hvaða rannsóknir hefur Berglind Rós Magnúsdóttir stundað?

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands

Berglind er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður námsbrautarinnar Menntunarfræði og margbreytileiki. Fyrstu rannsóknir Berglindar vörðuðu kynjafræði menntunar, svo sem kynjafræðilegar greiningar á námsefni, athugun á kynjuðum valdatengslum í unglingahópum og afbyggingu á meintri kvenlægni skólakerfisins og yfirburðastöðu stúlkna í skólakerfinu á kostnað drengja. Nú varða meginviðfangsefni Berglindar félagslegt réttlæti í menntun með áherslu á samverkandi áhrif stéttar, uppruna, kynferðis og sértækra menntunarþarfa á gæði og jafnrétti í uppeldi og menntun. Hún er aðili að fjölþjóðlegum rannsóknarhópum á sviði menntastefnu- og samanburðarmenntunarfræði þar sem meðal annars er rýnt í áhrif markaðs- og einkavæðingar á menntakerfi.

Lítið sem ekkert hefur verið fjallað um aðgreiningu í íslensku grunn- og framhaldsskólakerfi út frá stétt (efnahags-, félags- og menningarauði) og uppruna, það er hvort menntakerfið virki sem félagsleg skilvinda og jafnvel ýki þá félagslegu flokkun sem er til staðar í samfélaginu. Vitað er að víða erlendis hefur efnahagsleg misskipting og frekari innleiðing á markaðs- og einkavæðingu í skólakerfinu ýtt enn frekar undir félagslega og menningarlega aðgreiningu í menntakerfum. Skort hefur rannsóknir á hvort og þá hvernig þessi samfélagsþróun hefur haft áhrif á íslenska menntakerfið á síðustu 20 árum, út frá sjónarhóli foreldra, nemenda, kennara og stjórnenda í menntakerfinu. Berglind hlaut nýlega styrki frá NordForsk, Jafnréttissjóði Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til að varpa ljósi á þessar spurningar.

Rannsóknir Berglindar snúast nú aðallega um félagslegt réttlæti í menntun með áherslu á samverkandi áhrif stéttar, uppruna, kynferðis og sértækra menntunarþarfa á gæði og jafnrétti í uppeldi og menntun.

Í þeim rannsóknum felst meðal annars greining á stóru gagnasafni frá Hagstofu Íslands þar sem nemendasamsetning í skólahverfum er kortlögð út frá stétt, uppruna og öðrum mikilvægum lýðfræðiupplýsingum. Samhliða eru unnar rannsóknir á virkni, vali og skyldum foreldra í grunnskólakerfinu, svo sem kynjaðri verkaskiptingu, aðstöðumun eftir bakgrunni mæðra og feðra að skólagöngu barna sinna og samskiptum við skólakerfið og skoðað sérstaklega hvernig þessi vinna foreldra og faglegt sjálfstæði kennara mótast af félagslegri samsetningu skólasamfélagsins og markaðsstöðu (vinsældum) skólans. Doktorsritgerð Berglindar var byggð á gögnum úr bandarísku skólaumhverfi þar sem markaðsvæðing og stétta- og menningarleg aðgreining hefur markað skólastarf með afdrifaríkari hætti en á Norðurlöndum. Sú reynsla var mikilvægur undirbúningur að því að móta þetta rannsóknarsvið hér á Íslandi. Í stéttagreiningum nýtir Berglind sér kenningar franska félagsvísindamannsins Pierre Bourdieu (1930-2002) en framlag hans hefur reynst notadrjúgt til að víkka út skilgreiningar á stétt til menningarlegra og félagslegra þátta.

Haustið 2016 stofnaði Berglind Hið íslenzka ástarrannsóknafélag ásamt femínískum fræðikonum af ólíkum fræðasviðum Háskóla Íslands. Rannsóknir er varða tilfinningavinnu (e. emotional labour), hrifkenningar (e. affect theory), tilfinningaauðu (e. emotional capital) og stigveldi ástarinnar eru „heit“ rannsóknarefni í hug- og félagsvísindum. Ástarstigveldið felst meðal annars í því hvernig samspil kynferðis, stéttar, aldurs og annarra þátta hafa áhrif á þau valdatengsl sem fylgja ástinni. Ætla má að í landi kvenfrelsis og kynjabyltinga sé frjór jarðvegur fyrir slíkar rannsóknir.

Berglind er fædd 1973 á Siglufirði og ólst upp að Hraunum í Fljótum, Skagafirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1992. Að loknu stúdentsprófi tók hún að sér kennslu sem leiðbeinandi í grunnskóla en sú reynsla markaði næstu skref. Hún lauk B.Ed-prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1998 með áherslu á íslensku og stærðfræði. Árið 2003 lauk hún MA-prófi með láði innan uppeldis- og menntunarfræðideildar Háskóla Íslands í kynjafræði menntunar sem að hluta til var tekið við Háskólann í London (UCL). Hún lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Cambridge-háskóla í Bretlandi árið 2014 með viðkomu í Cornell-háskóla í Bandaríkjunum.

Mynd:
  • © Kristinn Ingvarsson.

Útgáfudagur

24.1.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Berglind Rós Magnúsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn, 24. janúar 2018. Sótt 17. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75159.

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 24. janúar). Hvaða rannsóknir hefur Berglind Rós Magnúsdóttir stundað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75159

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Berglind Rós Magnúsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn. 24. jan. 2018. Vefsíða. 17. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75159>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða rannsóknir hefur Berglind Rós Magnúsdóttir stundað?
Berglind er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður námsbrautarinnar Menntunarfræði og margbreytileiki. Fyrstu rannsóknir Berglindar vörðuðu kynjafræði menntunar, svo sem kynjafræðilegar greiningar á námsefni, athugun á kynjuðum valdatengslum í unglingahópum og afbyggingu á meintri kvenlægni skólakerfisins og yfirburðastöðu stúlkna í skólakerfinu á kostnað drengja. Nú varða meginviðfangsefni Berglindar félagslegt réttlæti í menntun með áherslu á samverkandi áhrif stéttar, uppruna, kynferðis og sértækra menntunarþarfa á gæði og jafnrétti í uppeldi og menntun. Hún er aðili að fjölþjóðlegum rannsóknarhópum á sviði menntastefnu- og samanburðarmenntunarfræði þar sem meðal annars er rýnt í áhrif markaðs- og einkavæðingar á menntakerfi.

Lítið sem ekkert hefur verið fjallað um aðgreiningu í íslensku grunn- og framhaldsskólakerfi út frá stétt (efnahags-, félags- og menningarauði) og uppruna, það er hvort menntakerfið virki sem félagsleg skilvinda og jafnvel ýki þá félagslegu flokkun sem er til staðar í samfélaginu. Vitað er að víða erlendis hefur efnahagsleg misskipting og frekari innleiðing á markaðs- og einkavæðingu í skólakerfinu ýtt enn frekar undir félagslega og menningarlega aðgreiningu í menntakerfum. Skort hefur rannsóknir á hvort og þá hvernig þessi samfélagsþróun hefur haft áhrif á íslenska menntakerfið á síðustu 20 árum, út frá sjónarhóli foreldra, nemenda, kennara og stjórnenda í menntakerfinu. Berglind hlaut nýlega styrki frá NordForsk, Jafnréttissjóði Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til að varpa ljósi á þessar spurningar.

Rannsóknir Berglindar snúast nú aðallega um félagslegt réttlæti í menntun með áherslu á samverkandi áhrif stéttar, uppruna, kynferðis og sértækra menntunarþarfa á gæði og jafnrétti í uppeldi og menntun.

Í þeim rannsóknum felst meðal annars greining á stóru gagnasafni frá Hagstofu Íslands þar sem nemendasamsetning í skólahverfum er kortlögð út frá stétt, uppruna og öðrum mikilvægum lýðfræðiupplýsingum. Samhliða eru unnar rannsóknir á virkni, vali og skyldum foreldra í grunnskólakerfinu, svo sem kynjaðri verkaskiptingu, aðstöðumun eftir bakgrunni mæðra og feðra að skólagöngu barna sinna og samskiptum við skólakerfið og skoðað sérstaklega hvernig þessi vinna foreldra og faglegt sjálfstæði kennara mótast af félagslegri samsetningu skólasamfélagsins og markaðsstöðu (vinsældum) skólans. Doktorsritgerð Berglindar var byggð á gögnum úr bandarísku skólaumhverfi þar sem markaðsvæðing og stétta- og menningarleg aðgreining hefur markað skólastarf með afdrifaríkari hætti en á Norðurlöndum. Sú reynsla var mikilvægur undirbúningur að því að móta þetta rannsóknarsvið hér á Íslandi. Í stéttagreiningum nýtir Berglind sér kenningar franska félagsvísindamannsins Pierre Bourdieu (1930-2002) en framlag hans hefur reynst notadrjúgt til að víkka út skilgreiningar á stétt til menningarlegra og félagslegra þátta.

Haustið 2016 stofnaði Berglind Hið íslenzka ástarrannsóknafélag ásamt femínískum fræðikonum af ólíkum fræðasviðum Háskóla Íslands. Rannsóknir er varða tilfinningavinnu (e. emotional labour), hrifkenningar (e. affect theory), tilfinningaauðu (e. emotional capital) og stigveldi ástarinnar eru „heit“ rannsóknarefni í hug- og félagsvísindum. Ástarstigveldið felst meðal annars í því hvernig samspil kynferðis, stéttar, aldurs og annarra þátta hafa áhrif á þau valdatengsl sem fylgja ástinni. Ætla má að í landi kvenfrelsis og kynjabyltinga sé frjór jarðvegur fyrir slíkar rannsóknir.

Berglind er fædd 1973 á Siglufirði og ólst upp að Hraunum í Fljótum, Skagafirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1992. Að loknu stúdentsprófi tók hún að sér kennslu sem leiðbeinandi í grunnskóla en sú reynsla markaði næstu skref. Hún lauk B.Ed-prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1998 með áherslu á íslensku og stærðfræði. Árið 2003 lauk hún MA-prófi með láði innan uppeldis- og menntunarfræðideildar Háskóla Íslands í kynjafræði menntunar sem að hluta til var tekið við Háskólann í London (UCL). Hún lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Cambridge-háskóla í Bretlandi árið 2014 með viðkomu í Cornell-háskóla í Bandaríkjunum.

Mynd:
  • © Kristinn Ingvarsson.

...