Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvað vitum við um Gunnbjarnarsker? Hvar eru þau eða voru?

Orri Vésteinsson

Gunnbjarnarskerja er getið í samhljóða frásögnum Landnámabókar, Eiríks sögu rauða og Ólafs sögu Tryggvasonar þar sem lýst er fyrirætlun Eiríks rauða um að rannsaka lönd vestan við Ísland:

„… hann ætlaði að leita lands þess, er Gunnbjörn son Úlfs kráku sá, er hann rak vestur um Ísland, þá er hann fann Gunnbjarnarsker.“ En ekki segir berum orðum í sögunni að Eiríkur hafi talið sig koma í Gunnbjarnarsker í Grænlandsleiðangri sínum.

Landnámabók getur þess ekki hvað varð um Gunnbjörn eftir að hann sá skerin en bróður hans og sona er getið meðal landnámsmanna á Íslandi (á Snæfellsnesi og við Ísafjarðardjúp) og hefur af því verið ráðið að sigling hans vestur um Ísland hafi gerst við upphaf landnáms á Íslandi. Ef marka má ættartölurnar gæti Gunnbjörn hafa verið uppi á seinni hluta 9. aldar.

En öld síðar eða svo, um svipað leyti og Eiríkur rauði stóð í manndrápum við Breiðafjörð, var annar ævintýramaður að hugsa í svipuðum brautum. Sá hét Snæbjörn galti og var ættaður frá Vatnsfirði en rataði í vígaferli í Borgarfirði. Um hann hefur líklega verið til sérstök Íslendingasaga sem nú er glötuð en ágrip af henni hefur Sturla Þórðarson sett inn í gerð sína af Landnámabók. Í þeirri endursögn kemur fram að Snæbjörn og félagar hans hafi leitað Gunnbjarnarskerja og fundið, stigið á land og gert sér skála sem þeir höfðust við í veturlangt. Einn skipverja fann „fésjóð í kumli“ og af því hlutust deilur sem enduðu með því að Snæbjörn var veginn og annar maður til.

Af vísu sem fylgir frásögninni má ráða að Gunnbjarnarsker hafi átt að vera „útnorður í haf“ – semsé norðvestur af Íslandi.

Grænlandskort Þormóðar Torfasonar frá 1706 er eitt fjölmargra korta frá 17. og 18. öld sem sýnir Gunnbjarnarsker miðja vegu milli Íslands og Grænlands. Á þessu korti eru örnefni úr Eystribyggð sýnd á austurströnd Grænlands en sú trú loddi við fram á 19. öld að helsta byggð norrænna manna hefði verið þeim megin Hvarfs en ekki vestanmegin eins og raunin er.

Engar aðrar íslenskar miðaldaheimildir geta Gunnbjarnarskerja en þau koma fyrir í norskri Grænlandslýsingu eftir prestinn Ívar Bárðarson frá seinni hluta 14. aldar. Ívar segir að Gunnbjarnarsker séu „miðs vegar í milli Grænlands og Íslands.“ Lýsing hans var þýdd á hollensku á 16. öld og þannig rataði þessi fróðleiksmoli á kort. Það elsta mun vera frá 1614 og sýnir eyjaklasa beint vestur af mynni Ísafjarðardjúps sem merktur er „I. Gouberman“. Á sama tíma voru íslenskir fræðimenn að safna ýmsum fróðleik og sögnum um Grænland og þó fæst af því teljist áreiðanlegt eða standa á gömlum merg þá gefur það hugmynd um landaþekkingu þess tíma og tilraunir fólks til að fá botn í miðaldaheimildirnar. Björn á Skarðsá bætir því til dæmis við frásögn Landnámabókar að Gunnbjörn hafi verið næstur í röð landkönnuða á eftir Garðari Svavarssyni og að af skerjunum hafi hann séð til Bláserks – Grænlandsjökuls – í vestri og Snæfellsjökuls í austri. Þá voru líka á sveimi sagnir um menn sem þóttust hafa komið í Gunnbjarnarsker, eða Gunnbjarnareyjar eins og þær eru iðulega kallaðar á þessum tíma. Meðal þeirra var Látra-Klemens, bóndi í Aðalvík, sem var á ensku skipi sem kom við land þar sem hann taldi vera Gunnbjarnareyjar og lýsti hann fjálglega hinum mikla veiðiskap sem þar var að hafa.

Á íslenskum kortum frá 17. og 18. öld eru Gunnbjarnarsker því samviskusamlega sýnd miðja vegu milli Íslands og Grænlands. Þessi hugmynd var ekki afsönnuð fyrr en með leiðangri franska sjóliðsforingjans de Kerguelen-Témarec á árunum 1767-68. Loddi þó lengi við að menn vildu finna þessar eyjar meðfram austurströnd Grænlands enda er þar fjöldi eyja og skerja uppi við landsteina. Hefur ýmsum getum verið leitt að því hver þeirra gætu hafa verið Gunnbjarnarsker en líka hafa verið settar fram tilgátur um að skerin hafi í raun verið fjallstindar á austurströnd Grænlands sem hafi litið út eins og sker úr fjarlægð, eða að sjóferðamenn hafi glapist á skerjum og ísjökum sem þeir sáu úr fjarska.

Loftmynd af austurströnd Grænlands. Settar hafa verið fram tilgátur um að skerin hafi í raun verið fjallstindar á austurströnd Grænlands sem hafi litið út eins og sker úr fjarlægð, eða að sjóferðamenn hafi glapist á skerjum og ísjökum sem þeir sáu úr fjarska.

Það er alls ekki ólíklegt að sæfarar hafi þegar á landnámsöld orðið þess áskynja að það væri land vestan við Ísland og má hafa sögnina um Gunnbjarnarsker til marks um það. Að kalla það sker gæti bent til að þeir hafi ekki áttað sig á hversu stórt landið var, en líka má vera að það endurspegli þá niðurstöðu landkönnuða að austurströnd Grænlands er eintóm öræfi og fátt þangað að sækja fyrir landnema í leit að jarðnæði. Eftir að byggð hófst á Grænlandi var siglt beint vestur frá Íslandi og austurströndinni síðan fylgt suður fyrir Hvarf. Á þeirri leið hafa menn séð fjölda skerja og eyja og má vera að einhver þeirra hafi verið þekkt sem Gunnbjarnarsker fram eftir öldum. Á þeirri leið eru fleiri örnefni sem getið er í heimildum frá 12. til 14. aldar, Finnsbúðir og Krosseyjar, og gæti það bent til að greint hafi verið á milli þessara staða. Árið 1285 fannst síðan Nýjaland, sem líka var kallað Duneyjar, og er talið hafa verið mun norðar en hin venjulega siglingaleið. Hún var hinsvegar að leggjast af um það leyti – kólnandi loftslagi fylgdu meiri hafísar meðfram austurströndinni og um miðja 14. öld var hún ekki notuð lengur heldur siglt mun sunnar. Þá hefur endanlega fennt yfir þekkingu sæfarenda á nöfnum við austurströnd Grænlands.

Hér má bæta því við að sagan um Snæbjörn galta og hörmuleg endalok hans í Gunnbjarnarskerjum á tilkall til að vera elsta dæmið um bókmenntaminni sem er býsna fyrirferðarmikið í íslenskri hryllingssagnahefð. Það mætti kalla „hrylling í óbyggðum“ en slíkar sögur ganga út á að menn brjóta skip sín eða verða innlyksa um vetur í óbyggðum, líða fyrir hungur og kulda og upp kemur misklíð sem leiðir til morða og manndrápa. Sigurjón Jónsson gerði sér mat úr þessu í sögulegu skáldsögunni Snæbjörn galti sem kom út í Reykjavík 1958 en á miðöldum voru margar slíkar sögur sagðar frá austurströnd Grænlands og fengu stundum innspýtingu af raunverulegum atburðum eins og þegar Ingimundur Þorgeirsson, föðurbróðir Guðmundar góða biskups, fraus í hel í hellisskúta í Grænlandsóbyggðum ásamt sex félögum sínum árið 1189. Mörgum árum síðar fundust líkin „og rúnar þær er sögðu atburð um líflát þeirra.“

Í þessari sagnaætt er tiltekið hryllingsminni sem tengir saman Gunnbjörn og ekki ófrægari menn en Björn Jórsalafara (d. 1415) og Axlar-Björn (d. 1596). Björn Jórsalafari kom til Grænlands 1385 og tveimur öldum síðar höfðu spunnist um ferðir hans krassandi sögur. Ein var sú að hann hafi gengið á land í Gunnbjarnareyjum og komið þar á bæ, verið boðið inn af Gunnbirni bónda en að á meðan hann þáði beina hafi stúlka ein, sem þar sat og vaggaði barni, raulað vísu:

Gisti enginn hjá Gunnbirni,
sem klæðin hefur góð;
ekur hann þeim í Iglutjörn
rennur blóð eftir slóð,
og dilla eg þér jóð.

Björn áttaði sig þá á því að hann væri í heimsókn hjá morðvörgum og hafði sig á braut. Sama saga er sögð um systkini sem komu í heimsókn til Axlar-Bjarnar og þar er það gömul kona sem fer með vísuna til að vara þau við og kemst annað þeirra undan. Það fylgir að Iglutjörn eigi að vera í nágrenni Axlar á Snæfellsnesi. Sama sagan er svo líka tengd við eina Gunnbjarnarskerið sem finnst við Íslandsstrendur en það er við Vík á Flateyjardal. Þar er líka Iglutjörn, og bæði Gunnbjarnardys og Gunnbjarnargöng sem morðinginn flúði um til sjávar áður en hann náðist og var drepinn í skerinu. Nafnið Gunnnbjörn er annars fátítt í íslenskum örnefnum en til er eyðibýli í Króksfirði sem heitir Gunnbjarnarstaðir og þar fylgir sama sagan – sá Gunnbjörn var líka raðmorðingi sem færði fórnarlömb sín í Illutjörn sem þar er.

Frá Gunnbirni Úlfssyni liggja því víða þræðir um Íslandssöguna þó skerin sem hann léði nafn sitt verði nú ekki skilgreind á landakorti.

Heimildir:
 • Björn Þorsteinsson 1965-1967, ‘Íslands- og Grænlandssiglingar Englendinga á 15. öld og fundur Norður-Ameríku.’ Saga 5, bls. 3-72.
 • Einar Arnórsson 1940-43, ‘Arfsagnir og munnmæli.’ Blanda 7, bls. 97-180.
 • Halldór Hermannson 1920, ‘Landafundir og sjóferðir í Norðurhöfum.‘ Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 2(1), bls. 3-16.
 • Haraldur Sigurðsson 1971-78, Kortasaga Íslands I-II, Reykjavík: Menningarsjóður.
 • Helgi Þorláksson 2001, ‘Enterprizing explorers in the North Atlantic.’ Voyages and Exploration in the North Atlantic from the Middle Ages to the XVIIth Century , Anna Agnarsdóttir ritstj., Reykjavík: University of Iceland, bls. 13-28.
 • Ólafur Davíðsson 1945, Íslenzkar þjóðsögur I, Akureyri, bls. 234-36.
 • Ólafur Halldórsson 1978, Grænland í miðaldaritum, Reykjavík: Sögufélag.
 • Theódór Friðriksson 1944, Ofan jarðar og neðan, Reykjavík: Víkingsútgáfan, bls. 56-58.
 • Þorvaldur Thoroddsen 2003-2009, Landfræðisaga Íslands. Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun og rannsóknir, fyrr og síðar I-V, Reykjavík: Ormstunga.

Myndir:

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

22.2.2018

Spyrjandi

Ármann Höskuldsson

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Hvað vitum við um Gunnbjarnarsker? Hvar eru þau eða voru? “ Vísindavefurinn, 22. febrúar 2018. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75173.

Orri Vésteinsson. (2018, 22. febrúar). Hvað vitum við um Gunnbjarnarsker? Hvar eru þau eða voru? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75173

Orri Vésteinsson. „Hvað vitum við um Gunnbjarnarsker? Hvar eru þau eða voru? “ Vísindavefurinn. 22. feb. 2018. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75173>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað vitum við um Gunnbjarnarsker? Hvar eru þau eða voru?

Gunnbjarnarskerja er getið í samhljóða frásögnum Landnámabókar, Eiríks sögu rauða og Ólafs sögu Tryggvasonar þar sem lýst er fyrirætlun Eiríks rauða um að rannsaka lönd vestan við Ísland:

„… hann ætlaði að leita lands þess, er Gunnbjörn son Úlfs kráku sá, er hann rak vestur um Ísland, þá er hann fann Gunnbjarnarsker.“ En ekki segir berum orðum í sögunni að Eiríkur hafi talið sig koma í Gunnbjarnarsker í Grænlandsleiðangri sínum.

Landnámabók getur þess ekki hvað varð um Gunnbjörn eftir að hann sá skerin en bróður hans og sona er getið meðal landnámsmanna á Íslandi (á Snæfellsnesi og við Ísafjarðardjúp) og hefur af því verið ráðið að sigling hans vestur um Ísland hafi gerst við upphaf landnáms á Íslandi. Ef marka má ættartölurnar gæti Gunnbjörn hafa verið uppi á seinni hluta 9. aldar.

En öld síðar eða svo, um svipað leyti og Eiríkur rauði stóð í manndrápum við Breiðafjörð, var annar ævintýramaður að hugsa í svipuðum brautum. Sá hét Snæbjörn galti og var ættaður frá Vatnsfirði en rataði í vígaferli í Borgarfirði. Um hann hefur líklega verið til sérstök Íslendingasaga sem nú er glötuð en ágrip af henni hefur Sturla Þórðarson sett inn í gerð sína af Landnámabók. Í þeirri endursögn kemur fram að Snæbjörn og félagar hans hafi leitað Gunnbjarnarskerja og fundið, stigið á land og gert sér skála sem þeir höfðust við í veturlangt. Einn skipverja fann „fésjóð í kumli“ og af því hlutust deilur sem enduðu með því að Snæbjörn var veginn og annar maður til.

Af vísu sem fylgir frásögninni má ráða að Gunnbjarnarsker hafi átt að vera „útnorður í haf“ – semsé norðvestur af Íslandi.

Grænlandskort Þormóðar Torfasonar frá 1706 er eitt fjölmargra korta frá 17. og 18. öld sem sýnir Gunnbjarnarsker miðja vegu milli Íslands og Grænlands. Á þessu korti eru örnefni úr Eystribyggð sýnd á austurströnd Grænlands en sú trú loddi við fram á 19. öld að helsta byggð norrænna manna hefði verið þeim megin Hvarfs en ekki vestanmegin eins og raunin er.

Engar aðrar íslenskar miðaldaheimildir geta Gunnbjarnarskerja en þau koma fyrir í norskri Grænlandslýsingu eftir prestinn Ívar Bárðarson frá seinni hluta 14. aldar. Ívar segir að Gunnbjarnarsker séu „miðs vegar í milli Grænlands og Íslands.“ Lýsing hans var þýdd á hollensku á 16. öld og þannig rataði þessi fróðleiksmoli á kort. Það elsta mun vera frá 1614 og sýnir eyjaklasa beint vestur af mynni Ísafjarðardjúps sem merktur er „I. Gouberman“. Á sama tíma voru íslenskir fræðimenn að safna ýmsum fróðleik og sögnum um Grænland og þó fæst af því teljist áreiðanlegt eða standa á gömlum merg þá gefur það hugmynd um landaþekkingu þess tíma og tilraunir fólks til að fá botn í miðaldaheimildirnar. Björn á Skarðsá bætir því til dæmis við frásögn Landnámabókar að Gunnbjörn hafi verið næstur í röð landkönnuða á eftir Garðari Svavarssyni og að af skerjunum hafi hann séð til Bláserks – Grænlandsjökuls – í vestri og Snæfellsjökuls í austri. Þá voru líka á sveimi sagnir um menn sem þóttust hafa komið í Gunnbjarnarsker, eða Gunnbjarnareyjar eins og þær eru iðulega kallaðar á þessum tíma. Meðal þeirra var Látra-Klemens, bóndi í Aðalvík, sem var á ensku skipi sem kom við land þar sem hann taldi vera Gunnbjarnareyjar og lýsti hann fjálglega hinum mikla veiðiskap sem þar var að hafa.

Á íslenskum kortum frá 17. og 18. öld eru Gunnbjarnarsker því samviskusamlega sýnd miðja vegu milli Íslands og Grænlands. Þessi hugmynd var ekki afsönnuð fyrr en með leiðangri franska sjóliðsforingjans de Kerguelen-Témarec á árunum 1767-68. Loddi þó lengi við að menn vildu finna þessar eyjar meðfram austurströnd Grænlands enda er þar fjöldi eyja og skerja uppi við landsteina. Hefur ýmsum getum verið leitt að því hver þeirra gætu hafa verið Gunnbjarnarsker en líka hafa verið settar fram tilgátur um að skerin hafi í raun verið fjallstindar á austurströnd Grænlands sem hafi litið út eins og sker úr fjarlægð, eða að sjóferðamenn hafi glapist á skerjum og ísjökum sem þeir sáu úr fjarska.

Loftmynd af austurströnd Grænlands. Settar hafa verið fram tilgátur um að skerin hafi í raun verið fjallstindar á austurströnd Grænlands sem hafi litið út eins og sker úr fjarlægð, eða að sjóferðamenn hafi glapist á skerjum og ísjökum sem þeir sáu úr fjarska.

Það er alls ekki ólíklegt að sæfarar hafi þegar á landnámsöld orðið þess áskynja að það væri land vestan við Ísland og má hafa sögnina um Gunnbjarnarsker til marks um það. Að kalla það sker gæti bent til að þeir hafi ekki áttað sig á hversu stórt landið var, en líka má vera að það endurspegli þá niðurstöðu landkönnuða að austurströnd Grænlands er eintóm öræfi og fátt þangað að sækja fyrir landnema í leit að jarðnæði. Eftir að byggð hófst á Grænlandi var siglt beint vestur frá Íslandi og austurströndinni síðan fylgt suður fyrir Hvarf. Á þeirri leið hafa menn séð fjölda skerja og eyja og má vera að einhver þeirra hafi verið þekkt sem Gunnbjarnarsker fram eftir öldum. Á þeirri leið eru fleiri örnefni sem getið er í heimildum frá 12. til 14. aldar, Finnsbúðir og Krosseyjar, og gæti það bent til að greint hafi verið á milli þessara staða. Árið 1285 fannst síðan Nýjaland, sem líka var kallað Duneyjar, og er talið hafa verið mun norðar en hin venjulega siglingaleið. Hún var hinsvegar að leggjast af um það leyti – kólnandi loftslagi fylgdu meiri hafísar meðfram austurströndinni og um miðja 14. öld var hún ekki notuð lengur heldur siglt mun sunnar. Þá hefur endanlega fennt yfir þekkingu sæfarenda á nöfnum við austurströnd Grænlands.

Hér má bæta því við að sagan um Snæbjörn galta og hörmuleg endalok hans í Gunnbjarnarskerjum á tilkall til að vera elsta dæmið um bókmenntaminni sem er býsna fyrirferðarmikið í íslenskri hryllingssagnahefð. Það mætti kalla „hrylling í óbyggðum“ en slíkar sögur ganga út á að menn brjóta skip sín eða verða innlyksa um vetur í óbyggðum, líða fyrir hungur og kulda og upp kemur misklíð sem leiðir til morða og manndrápa. Sigurjón Jónsson gerði sér mat úr þessu í sögulegu skáldsögunni Snæbjörn galti sem kom út í Reykjavík 1958 en á miðöldum voru margar slíkar sögur sagðar frá austurströnd Grænlands og fengu stundum innspýtingu af raunverulegum atburðum eins og þegar Ingimundur Þorgeirsson, föðurbróðir Guðmundar góða biskups, fraus í hel í hellisskúta í Grænlandsóbyggðum ásamt sex félögum sínum árið 1189. Mörgum árum síðar fundust líkin „og rúnar þær er sögðu atburð um líflát þeirra.“

Í þessari sagnaætt er tiltekið hryllingsminni sem tengir saman Gunnbjörn og ekki ófrægari menn en Björn Jórsalafara (d. 1415) og Axlar-Björn (d. 1596). Björn Jórsalafari kom til Grænlands 1385 og tveimur öldum síðar höfðu spunnist um ferðir hans krassandi sögur. Ein var sú að hann hafi gengið á land í Gunnbjarnareyjum og komið þar á bæ, verið boðið inn af Gunnbirni bónda en að á meðan hann þáði beina hafi stúlka ein, sem þar sat og vaggaði barni, raulað vísu:

Gisti enginn hjá Gunnbirni,
sem klæðin hefur góð;
ekur hann þeim í Iglutjörn
rennur blóð eftir slóð,
og dilla eg þér jóð.

Björn áttaði sig þá á því að hann væri í heimsókn hjá morðvörgum og hafði sig á braut. Sama saga er sögð um systkini sem komu í heimsókn til Axlar-Bjarnar og þar er það gömul kona sem fer með vísuna til að vara þau við og kemst annað þeirra undan. Það fylgir að Iglutjörn eigi að vera í nágrenni Axlar á Snæfellsnesi. Sama sagan er svo líka tengd við eina Gunnbjarnarskerið sem finnst við Íslandsstrendur en það er við Vík á Flateyjardal. Þar er líka Iglutjörn, og bæði Gunnbjarnardys og Gunnbjarnargöng sem morðinginn flúði um til sjávar áður en hann náðist og var drepinn í skerinu. Nafnið Gunnnbjörn er annars fátítt í íslenskum örnefnum en til er eyðibýli í Króksfirði sem heitir Gunnbjarnarstaðir og þar fylgir sama sagan – sá Gunnbjörn var líka raðmorðingi sem færði fórnarlömb sín í Illutjörn sem þar er.

Frá Gunnbirni Úlfssyni liggja því víða þræðir um Íslandssöguna þó skerin sem hann léði nafn sitt verði nú ekki skilgreind á landakorti.

Heimildir:
 • Björn Þorsteinsson 1965-1967, ‘Íslands- og Grænlandssiglingar Englendinga á 15. öld og fundur Norður-Ameríku.’ Saga 5, bls. 3-72.
 • Einar Arnórsson 1940-43, ‘Arfsagnir og munnmæli.’ Blanda 7, bls. 97-180.
 • Halldór Hermannson 1920, ‘Landafundir og sjóferðir í Norðurhöfum.‘ Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 2(1), bls. 3-16.
 • Haraldur Sigurðsson 1971-78, Kortasaga Íslands I-II, Reykjavík: Menningarsjóður.
 • Helgi Þorláksson 2001, ‘Enterprizing explorers in the North Atlantic.’ Voyages and Exploration in the North Atlantic from the Middle Ages to the XVIIth Century , Anna Agnarsdóttir ritstj., Reykjavík: University of Iceland, bls. 13-28.
 • Ólafur Davíðsson 1945, Íslenzkar þjóðsögur I, Akureyri, bls. 234-36.
 • Ólafur Halldórsson 1978, Grænland í miðaldaritum, Reykjavík: Sögufélag.
 • Theódór Friðriksson 1944, Ofan jarðar og neðan, Reykjavík: Víkingsútgáfan, bls. 56-58.
 • Þorvaldur Thoroddsen 2003-2009, Landfræðisaga Íslands. Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun og rannsóknir, fyrr og síðar I-V, Reykjavík: Ormstunga.

Myndir:

...