Sólin Sólin Rís 03:48 • sest 23:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:45 • Síðdegis: 15:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:55 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:48 • sest 23:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:45 • Síðdegis: 15:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:55 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er saga þungarokksins?

Arnar Eggert Thoroddsen

Þungarokk (e. heavy metal) er ein allra vinsælasta og gróskumesta undirstefna dægurtónlistarinnar. Ýmsar kenningar eru uppi um hvenær það varð til. Sumir nefna lagið „Born to be Wild“ með hljómsveitinni Steppenwolf, þar sem setningunni „heavy metal thunder“ er fleygt fram og tónlistin svo sannarlega rokk í þyngri kantinum. Aðrir nefna lagið „Communication Breakdown“ sem heyrðist á fyrstu plötu Led Zeppelin og enn aðrir vilja fara aftar og miða við einfalt en þó kraftmikið „gítarriff“ Dave Davies í lagi Kinks, „You Really Got Me“ (1964).

Vissulega var upptaktinn að finna á sjöunda áratugnum en það voru Led Zeppelin, Deep Purple og ekki síst Black Sabbath sem unnu forminu brautargengi í upphafi þess áttunda. Fyrsta plata Black Sabbath (1970, en tekin upp í lok árs 1969) inniheldur rokk með slíkum þyngslum að óhætt var að tala um nýja og fullburða undirstefnu - þungarokk.

Þessi geiri tónlistarinnar hefur þróast sem gríðarlega yfirgripsmikil og fjölskrúðug tónlistarstefna með, að því er virðist, endalausum undirstefnum (þrass, svartþungarokk, dómsdagsrokk (e. doom metal), „grind-core“, víkingarokk, þjóðlagaþungarokk, öfgarokk, glysrokk, sjóræningjarokk og svo framvegis). Þungarokkið er um leið risavaxinn menningarheimur með mjög svo ákveðnum siðareglum, lögmálum og lífsviðhorfum en leitun er að stefnu sem hefur jafn mikla „trúarbragða“- og lífsstílsáru yfir sér, þó að slíkt sé á misháu stigi innan hvers blæbrigðis.

Breska sveitin Black Sabbath er iðulega nefnd fyrsta eiginlega þungarokkssveitin og áhrif hennar á stefnuna eru því næst ómælanleg.

Þungarokkið þróaðist hratt á áttunda áratugnum beggja vegna Atlantshafsins en breskar hljómsveitir tóku forystuna undir lok áratugarins. Þá komu fram Judas Priest og Motörhead auk þess sem breskt þungarokk fór á mikið flug og talað var um ákveðna nýbylgju eða „The New Wave of British Heavy Metal“, skammstafað NWOBHM. Frægasta sveit þeirrar gerðar, Iron Maiden, réð lögum og lofum í þungarokksheimum á níunda áratugnum.

NWOBHM-stefnan átti eftir að hafa mikil áhrif á unga sveit sem gerði út frá Kaliforníu, nefnilega Metallica. Hún leiddi „thrash metal“ bylgjuna, eða þrass, en einkenni hennar eru mun meiri hraði en áður hafði þekkst, auk ofsa í allri framsetningu og oft leik að grimmúðlegu, ógurlegu myndmáli, hvort heldur í umslagshönnun, textum eða fatnaði. Eftir því sem Metallica þróaðist varð tónlist hennar til muna aðgengilegri og segja má að samnefnd plata hennar frá 1991, oft kölluð Svarta platan, hafi verið fyrsta platan sem færði þungarokkið yfir í meginstraum tónlistarneyslu. Almenningur samþykkti lög eins og „The Unforgiven“ og „Nothing Else Matters“, þar sem sveitin lagði áherslu á ballöðuinnsæi sitt sem þó hafði fylgt henni alla tíð. Vinsældir Metallicu (heitið er oftast beygt á íslensku) urðu gríðarlegar í kjölfar plötunnar og hafa haldist allar götur síðan.

Bandaríska þrasssveitin Metallica öðlaðist miklar vinsældir seint á níunda áratugnum og sótti inn á almennan markað á þeim tíunda. Hún telst ein farsælasta þungarokkssveit allra tíma, hvort sem litið er til vinsælda eða listræns gildis.

Segja má að á tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar aldar hafi þungarokkið skotið rótum um víða veröld og í alls konar útfærslum. Dauðarokkið (fyrsta bylgjan, frá um 1987–1993) var til dæmis þyngri útgáfa af þrassi, nokkurs konar endastöð hraða og þyngsla, á meðan svartþungarokkið (e. black metal), sem fór að gerjast af miklum krafti eftir að fyrsta bylgja dauðarokksins leið undir lok, var nokkurs konar andspyrna gegn þeirri fínpússningu sem þungarokkið varð fyrir í upphafi tíunda áratugarins. Þungarokkið er afar upptekið af því að tónlistin eigi að vera „sönn“ eða „authentic“ og reglulega leita menn aftur í ræturnar þegar þeim þykir aðra hafa borið af leið.

Reykvíska sveitin Sororicide leiddi knappa en gjöfula dauðarokkssenu á Íslandi eftir að hafa unnið Músíktilraunir árið 1991 undir nafninu Infusoria.

Mikið af heimildarmyndum, þáttum, bókum og vefsíðum eru helgaðar þungarokki og menningin þrífst vel einmitt vegna hinnar eilífu jaðarstöðu sem hún nýtur. Þungarokki hefur oft verið att gegn samfélagslegum normum og gildum sem skýrasta dæminu um að heimurinn sé endanlega kominn á heljarþröm en á sama tíma verður fólki tíðrætt um hvað þessir þungarokkarar „séu nú ljúfir“. Skýrasta dæmið þar um er hin vinsæla þungarokkshátíð Eistnaflug sem fer fram árlega á Neskaupsstað, en hátíðin er annáluð fyrir góðan og heilnæman anda.[1]

Orðasmiðir hérlendis gerðu vel í því að kokka upp orðið þungarokk, en það fangar anda stefnunnar og upprunalega hugtakið vel. Bárujárnsrokk var talsvert notað á níunda áratugnum en er horfið að mestu þótt því sé stundum teflt fram á tyllidögum. Samkvæmt Timarit.is sást orðið þungarokk fyrst árið 1976, en var þá notað í umfjöllun um Stuðmenn og svo Paradís, hljómsveitir sem eiga lítt skylt við þá merkingu sem við leggjum í orðið í dag. Það festist svo rækilega í sessi á níunda áratugnum og þá í skrifum um sannanlegar „heavy metal“ hljómsveitir.

Húsvíska víkingarokksveitin Skálmöld sló óvænt í gegn með fyrstu plötu sinni Baldur og hefur náð að stýra vel heppnuðum ferli síðan, jafnt innanlands sem utan.

Hér gefst ekki svigrúm til að fara ítarlega í sögu íslensks þungarokks en lítið var að gerast í þeim efnum á áttunda áratugnum. Á þeim níunda komu hins vegar fram nokkrar sveitir sem brugðust við þróun mála erlendis. Start og Þrumuvagninn léku sér með hefðbundið þungarokk, Gypsy og Drýsill spiluðu NWOBHM-skotið rokk og Bootlegs tóku þrassið upp á sína arma. Öflug dauðarokksbylgja skall á landinu upp úr 1990 þar sem fremstar fóru hljómsveitirnar Sororicide, Cranium og Strigaskór nr. 42. Upp úr því var þungarokk komið til að vera á Íslandi, ef svo má segja, og hafa hérlendir þungarokkarar gengið í takt við norræna meðbræður og –systur síðan, en gróska í þungarokki á Norðurlöndum er töluvert meiri miðað við önnur lönd.[2]

Íslenskar þungarokkssenur eru alla jafna sterkar; koma í bylgjum og fara bæði upp og niður en virknin er iðulega mikil á meðan þær standa yfir, burt séð frá því hvaða áherslur eru hverju sinni. Um aldamótin myndaðist til að mynda afar sterk harðkjarnasena („hardcore“) sem er heilt yfir ekki þungarokk en innan senunnar voru þungkjarnasveitir („metalcore“) sem uppfylla allar kröfur um slíkt. Senan gat meðal annars af sér Mínus sem fór mikinn á fyrsta áratug aldarinnar. Við lok fyrsta áratugarins reis upp önnur bylgja dauðarokks og í dag er gríðarleg virkni í svartþungarokki. Sveitir eins og Dimma, Skálmöld og Sólstafir njóta mikilla vinsælda, eru leiknar í útvarpi og tvær þær síðastnefndu hafa auk þess gert strandhögg erlendis.

Tilvísanir:
 1. ^ Þess má til gamans geta að alls hafa fjórar B.A.-ritgerðir verið skrifaðar um hátíðina við Háskóla Íslands á undanförnum árum.
 2. ^ Vert er að taka fram að þáttur kvenna í þungarokki hefur alla tíð verið sorglega magur og er það efni í aðra grein.

Heimildir og ítarefni:

 • Sharpe-Young, Garry. 2007. Metal: the definitive guide. London: Jawbone.
 • Straw, Will. 1984. "Characterizing Rock Music Cultures: The Case of Heavy Metal". Canadian University Music Review. (5): 104.
 • Silverberg, Jesse L., Matthew Bierbaum, James P. Sethna, and Itai Cohen. 2013. "Collective Motion of Humans in Mosh and Circle Pits at Heavy Metal Concerts". Physical Review Letters. 110 (22).
 • Á vef höfundar, www.arnareggert.is, má finna fjölmarga ítardóma um íslenskt þungarokk og einnig á ww.ruv.is (leitarorð: Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts).

Myndir:

Höfundur

Arnar Eggert Thoroddsen

aðjúnkt á Félagsvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

23.11.2018

Spyrjandi

Pétur Kristmundsson

Tilvísun

Arnar Eggert Thoroddsen. „Hver er saga þungarokksins?“ Vísindavefurinn, 23. nóvember 2018, sótt 17. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75374.

Arnar Eggert Thoroddsen. (2018, 23. nóvember). Hver er saga þungarokksins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75374

Arnar Eggert Thoroddsen. „Hver er saga þungarokksins?“ Vísindavefurinn. 23. nóv. 2018. Vefsíða. 17. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75374>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er saga þungarokksins?
Þungarokk (e. heavy metal) er ein allra vinsælasta og gróskumesta undirstefna dægurtónlistarinnar. Ýmsar kenningar eru uppi um hvenær það varð til. Sumir nefna lagið „Born to be Wild“ með hljómsveitinni Steppenwolf, þar sem setningunni „heavy metal thunder“ er fleygt fram og tónlistin svo sannarlega rokk í þyngri kantinum. Aðrir nefna lagið „Communication Breakdown“ sem heyrðist á fyrstu plötu Led Zeppelin og enn aðrir vilja fara aftar og miða við einfalt en þó kraftmikið „gítarriff“ Dave Davies í lagi Kinks, „You Really Got Me“ (1964).

Vissulega var upptaktinn að finna á sjöunda áratugnum en það voru Led Zeppelin, Deep Purple og ekki síst Black Sabbath sem unnu forminu brautargengi í upphafi þess áttunda. Fyrsta plata Black Sabbath (1970, en tekin upp í lok árs 1969) inniheldur rokk með slíkum þyngslum að óhætt var að tala um nýja og fullburða undirstefnu - þungarokk.

Þessi geiri tónlistarinnar hefur þróast sem gríðarlega yfirgripsmikil og fjölskrúðug tónlistarstefna með, að því er virðist, endalausum undirstefnum (þrass, svartþungarokk, dómsdagsrokk (e. doom metal), „grind-core“, víkingarokk, þjóðlagaþungarokk, öfgarokk, glysrokk, sjóræningjarokk og svo framvegis). Þungarokkið er um leið risavaxinn menningarheimur með mjög svo ákveðnum siðareglum, lögmálum og lífsviðhorfum en leitun er að stefnu sem hefur jafn mikla „trúarbragða“- og lífsstílsáru yfir sér, þó að slíkt sé á misháu stigi innan hvers blæbrigðis.

Breska sveitin Black Sabbath er iðulega nefnd fyrsta eiginlega þungarokkssveitin og áhrif hennar á stefnuna eru því næst ómælanleg.

Þungarokkið þróaðist hratt á áttunda áratugnum beggja vegna Atlantshafsins en breskar hljómsveitir tóku forystuna undir lok áratugarins. Þá komu fram Judas Priest og Motörhead auk þess sem breskt þungarokk fór á mikið flug og talað var um ákveðna nýbylgju eða „The New Wave of British Heavy Metal“, skammstafað NWOBHM. Frægasta sveit þeirrar gerðar, Iron Maiden, réð lögum og lofum í þungarokksheimum á níunda áratugnum.

NWOBHM-stefnan átti eftir að hafa mikil áhrif á unga sveit sem gerði út frá Kaliforníu, nefnilega Metallica. Hún leiddi „thrash metal“ bylgjuna, eða þrass, en einkenni hennar eru mun meiri hraði en áður hafði þekkst, auk ofsa í allri framsetningu og oft leik að grimmúðlegu, ógurlegu myndmáli, hvort heldur í umslagshönnun, textum eða fatnaði. Eftir því sem Metallica þróaðist varð tónlist hennar til muna aðgengilegri og segja má að samnefnd plata hennar frá 1991, oft kölluð Svarta platan, hafi verið fyrsta platan sem færði þungarokkið yfir í meginstraum tónlistarneyslu. Almenningur samþykkti lög eins og „The Unforgiven“ og „Nothing Else Matters“, þar sem sveitin lagði áherslu á ballöðuinnsæi sitt sem þó hafði fylgt henni alla tíð. Vinsældir Metallicu (heitið er oftast beygt á íslensku) urðu gríðarlegar í kjölfar plötunnar og hafa haldist allar götur síðan.

Bandaríska þrasssveitin Metallica öðlaðist miklar vinsældir seint á níunda áratugnum og sótti inn á almennan markað á þeim tíunda. Hún telst ein farsælasta þungarokkssveit allra tíma, hvort sem litið er til vinsælda eða listræns gildis.

Segja má að á tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar aldar hafi þungarokkið skotið rótum um víða veröld og í alls konar útfærslum. Dauðarokkið (fyrsta bylgjan, frá um 1987–1993) var til dæmis þyngri útgáfa af þrassi, nokkurs konar endastöð hraða og þyngsla, á meðan svartþungarokkið (e. black metal), sem fór að gerjast af miklum krafti eftir að fyrsta bylgja dauðarokksins leið undir lok, var nokkurs konar andspyrna gegn þeirri fínpússningu sem þungarokkið varð fyrir í upphafi tíunda áratugarins. Þungarokkið er afar upptekið af því að tónlistin eigi að vera „sönn“ eða „authentic“ og reglulega leita menn aftur í ræturnar þegar þeim þykir aðra hafa borið af leið.

Reykvíska sveitin Sororicide leiddi knappa en gjöfula dauðarokkssenu á Íslandi eftir að hafa unnið Músíktilraunir árið 1991 undir nafninu Infusoria.

Mikið af heimildarmyndum, þáttum, bókum og vefsíðum eru helgaðar þungarokki og menningin þrífst vel einmitt vegna hinnar eilífu jaðarstöðu sem hún nýtur. Þungarokki hefur oft verið att gegn samfélagslegum normum og gildum sem skýrasta dæminu um að heimurinn sé endanlega kominn á heljarþröm en á sama tíma verður fólki tíðrætt um hvað þessir þungarokkarar „séu nú ljúfir“. Skýrasta dæmið þar um er hin vinsæla þungarokkshátíð Eistnaflug sem fer fram árlega á Neskaupsstað, en hátíðin er annáluð fyrir góðan og heilnæman anda.[1]

Orðasmiðir hérlendis gerðu vel í því að kokka upp orðið þungarokk, en það fangar anda stefnunnar og upprunalega hugtakið vel. Bárujárnsrokk var talsvert notað á níunda áratugnum en er horfið að mestu þótt því sé stundum teflt fram á tyllidögum. Samkvæmt Timarit.is sást orðið þungarokk fyrst árið 1976, en var þá notað í umfjöllun um Stuðmenn og svo Paradís, hljómsveitir sem eiga lítt skylt við þá merkingu sem við leggjum í orðið í dag. Það festist svo rækilega í sessi á níunda áratugnum og þá í skrifum um sannanlegar „heavy metal“ hljómsveitir.

Húsvíska víkingarokksveitin Skálmöld sló óvænt í gegn með fyrstu plötu sinni Baldur og hefur náð að stýra vel heppnuðum ferli síðan, jafnt innanlands sem utan.

Hér gefst ekki svigrúm til að fara ítarlega í sögu íslensks þungarokks en lítið var að gerast í þeim efnum á áttunda áratugnum. Á þeim níunda komu hins vegar fram nokkrar sveitir sem brugðust við þróun mála erlendis. Start og Þrumuvagninn léku sér með hefðbundið þungarokk, Gypsy og Drýsill spiluðu NWOBHM-skotið rokk og Bootlegs tóku þrassið upp á sína arma. Öflug dauðarokksbylgja skall á landinu upp úr 1990 þar sem fremstar fóru hljómsveitirnar Sororicide, Cranium og Strigaskór nr. 42. Upp úr því var þungarokk komið til að vera á Íslandi, ef svo má segja, og hafa hérlendir þungarokkarar gengið í takt við norræna meðbræður og –systur síðan, en gróska í þungarokki á Norðurlöndum er töluvert meiri miðað við önnur lönd.[2]

Íslenskar þungarokkssenur eru alla jafna sterkar; koma í bylgjum og fara bæði upp og niður en virknin er iðulega mikil á meðan þær standa yfir, burt séð frá því hvaða áherslur eru hverju sinni. Um aldamótin myndaðist til að mynda afar sterk harðkjarnasena („hardcore“) sem er heilt yfir ekki þungarokk en innan senunnar voru þungkjarnasveitir („metalcore“) sem uppfylla allar kröfur um slíkt. Senan gat meðal annars af sér Mínus sem fór mikinn á fyrsta áratug aldarinnar. Við lok fyrsta áratugarins reis upp önnur bylgja dauðarokks og í dag er gríðarleg virkni í svartþungarokki. Sveitir eins og Dimma, Skálmöld og Sólstafir njóta mikilla vinsælda, eru leiknar í útvarpi og tvær þær síðastnefndu hafa auk þess gert strandhögg erlendis.

Tilvísanir:
 1. ^ Þess má til gamans geta að alls hafa fjórar B.A.-ritgerðir verið skrifaðar um hátíðina við Háskóla Íslands á undanförnum árum.
 2. ^ Vert er að taka fram að þáttur kvenna í þungarokki hefur alla tíð verið sorglega magur og er það efni í aðra grein.

Heimildir og ítarefni:

 • Sharpe-Young, Garry. 2007. Metal: the definitive guide. London: Jawbone.
 • Straw, Will. 1984. "Characterizing Rock Music Cultures: The Case of Heavy Metal". Canadian University Music Review. (5): 104.
 • Silverberg, Jesse L., Matthew Bierbaum, James P. Sethna, and Itai Cohen. 2013. "Collective Motion of Humans in Mosh and Circle Pits at Heavy Metal Concerts". Physical Review Letters. 110 (22).
 • Á vef höfundar, www.arnareggert.is, má finna fjölmarga ítardóma um íslenskt þungarokk og einnig á ww.ruv.is (leitarorð: Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts).

Myndir:

...