Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvað er popptónlist?

Arnar Eggert Thoroddsen

Popptónlist eða einfaldlega popp er dregið af enska orðinu „popular“ og á við um þá tónlist sem alla jafna nýtur vinsælda fjöldans. Á íslensku er orðið dægurtónlist gjarnan notað í sömu merkingu og vísar það til dægurfluganna sem lifa bara daginn. Er það bein vísun í meint eðli tónlistarinnar, að hún skilji í raun ekkert markvert eftir sig í huga hlustandans. Hins vegar hefur komið í ljós, sérstaklega á síðustu áratugum, að sum popptónlist hagar sér alls ekki eins og dægurflugan og hefur þvert á móti öðlast það sem hægt er að kalla sígilda stöðu.

Orðin popp og dægurtónlist eru notuð jöfnum höndum en þó er á þeim mikilvægur munur sem ekki er alltaf skýr. Fyrra orðið er til dæmis algengara í hversdagslegu máli á meðan hitt ratar oftar inn í bókmál og fagtexta. Dægurtónlist er þannig yfirheiti eða regnhlífarskilgreining og undir það falla jafn ólíkir hlutir og raftónlist, þungarokk, reggí og rapp. Í huga almennings vísar orðið „popp“ hins vegar oftast í létta og skemmtilega stuðtónlist frekar en argasta þungarokk. Í mörgum öðrum málum er þessu eins farið, „popular music“ er notað sem yfirheiti á meðan „pop“ hefur þrengri merkingu.

Wolfgang Amadeus Mozart er eitt kunnasta tónskáld allra tíma. Hann tilheyrir hámenningunni í dag en með vissum rökum mætti samt segja að hann hafi verið poppari síns tíma.

Poppi er gjarnan stefnt gegn klassískri tónlist sem nokkurs konar mótvægisafli, klassíkin er innihaldsrík á meðan poppið er innihaldsrýrt, poppið er afþreying en klassíkinni er ætlað að upplyfta og svo framvegis. Eins og á við um flest tvenndarpör eru hlutirnir ekki svona svartir og hvítir, gráa svæðið á milli þessara tveggja fyrirbæra er stórt og hin hefðbundna tvíhyggja Vesturlanda nær ekki að skýra þessi fyrirbæri almennilega, eins og hefur reyndar komið í ljós á síðustu árum. Bítlarnir eru skýrasta dæmið um þetta, poppsveit sem á að baki ódauðleg meistaraverk, staðreynd sem setur hefðbundnar skilgreiningar á poppi og klassík í uppnám.

Geirar og/eða stefnur eins og þjóðlagatónlist (e. folk music) og hið loðna heiti „alþýðutónlist“ tengjast dægurtónlistinni/poppinu. Í raun má segja að þetta séu sögulegir undanfarar, tónlist sem fólkið (lægri stéttir) bjó til fyrir sig og sína. Tónlist sem var ætluð til hugþægingar og skemmtunar, framar öðru. Með tilkomu unglingamenningarinnar, um og eftir miðja síðustu öld, fékk síðan popptónlistin eins og við þekkjum hana í dag, byr undir báða vængi.

Sænska hljómsveitin Abba er gott dæmi um popphljómsveit sem naut mikilla vinsælda en þykir einnig búa yfir snilldarlagasmíðum, en höfundar voru þeir Björn Ulvaeus og Benny Andersson.

Markaðshyggjan, sem hefur stýrt þróun hennar um áratuga skeið, klauf hana svo frá eldri alþýðutónlistarformum. Popp lýtur iðnaði sem er umhugað um að dreifa tónlistinni sem víðast og hámarka þar með fjárhagsgróða. Til að ýta undir slíkt teygir poppið sig oft út fyrir sjálfa tónlistina og ímynd og nöfn popparanna rata á nestisbox, hettupeysur, inn í kvikmyndir og svo framvegis. Poppið tilheyrir um leið því sem hefur verið kallað aðdáendamenning (e. fan culture) þar sem stórir hópar – oft dreifðir um víða veröld – eru sameinaðir í aðdáun á einum og sama listamanninum.

Allt þetta, ásamt þeirri staðreynd að popparar geta náð langt í sínu fagi án nokkura krafna um tónlistarskólamenntun, er vatn á myllu þeirra sem halda því fram að formið sé í eðli sínu ómerkilegt. Hver sem er geti hnoðað saman einföldu popplagi og markmiðið sé alltaf að ná til sem flestra, sem geri lagasmíðarnar óhjákvæmilega að bitlausu miðjumoði.

Spice Girls bar með sér mörg kunnugleg einkenni samtímapoppsveita. Gríðarlegar vinsældir í tiltölulega skamman tíma og áhrif á ungmenni – sérstaklega stúlkur – talsverð á meðan yfirreið þeirra stóð. Arfleifð þeirra í dag er engu að síður glettilega rík.

Það er efni í annað svar og ítarlegra, og heldur snúnara, að ætla að rýna í hvort hægt sé að dæma um fagurfræðilegt gildi poppsins. Er þetta lag gott og þetta lag vont – í eðli sínu? Er poppinu fyrst og síðast ætlað að sefa þreytta huga eða er það fært um eitthvað meira?

Blaðamaðurinn Tad Friend, sem starfar fyrir New Yorker, skrifaði einu sinni um sjónvarpsþættina The Simpsons: „Góð list sem nær til þrjátíu milljón manns og tengir þá saman hefur mögulega meira að bjóða en stórfengleg list sem nær til 3000 manns en lætur þeim líða eins og þeir séu meira og minna einangraðir. Skilgreiningar á því hvað sé list og hvað ekki eru að breytast. Framtíðin tilheyrir Bart Simpson.“ Þessi orð hans er vel hægt að heimfæra upp á popptónlist.

Heimildir og ítarefni:
  • Frith, Simon. Sound Effects: Youth, Leisure and the Politics of Rock 'n' Roll (Pantheon, 1981). New York: Pantheon, 1981.
  • Frith, Simon. „Towards an Aesthetic of Popular Music“. Í Taking Popular Music Seriously. Abingdon: Routledge, 2007.
  • Middleton, Richard. Studying Popular Music. Milton Keynes: Open University Press, 1990.
  • Ross, Alex. The Rest is Noise: Listening to the Twentieth Century. New York: Farrar, Straus and Giroux, 2007.

Myndir:

Upprunalega spurningin var:
Hver er uppruni popps? Hvenær varð popptónlist til og hvað er eiginlega átt við með heitinu?

Höfundur

Arnar Eggert Thoroddsen

aðjúnkt á Félagsvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

2.2.2018

Spyrjandi

Auður Ýr Harðardóttir

Tilvísun

Arnar Eggert Thoroddsen. „Hvað er popptónlist?“ Vísindavefurinn, 2. febrúar 2018. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=26194.

Arnar Eggert Thoroddsen. (2018, 2. febrúar). Hvað er popptónlist? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=26194

Arnar Eggert Thoroddsen. „Hvað er popptónlist?“ Vísindavefurinn. 2. feb. 2018. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=26194>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er popptónlist?
Popptónlist eða einfaldlega popp er dregið af enska orðinu „popular“ og á við um þá tónlist sem alla jafna nýtur vinsælda fjöldans. Á íslensku er orðið dægurtónlist gjarnan notað í sömu merkingu og vísar það til dægurfluganna sem lifa bara daginn. Er það bein vísun í meint eðli tónlistarinnar, að hún skilji í raun ekkert markvert eftir sig í huga hlustandans. Hins vegar hefur komið í ljós, sérstaklega á síðustu áratugum, að sum popptónlist hagar sér alls ekki eins og dægurflugan og hefur þvert á móti öðlast það sem hægt er að kalla sígilda stöðu.

Orðin popp og dægurtónlist eru notuð jöfnum höndum en þó er á þeim mikilvægur munur sem ekki er alltaf skýr. Fyrra orðið er til dæmis algengara í hversdagslegu máli á meðan hitt ratar oftar inn í bókmál og fagtexta. Dægurtónlist er þannig yfirheiti eða regnhlífarskilgreining og undir það falla jafn ólíkir hlutir og raftónlist, þungarokk, reggí og rapp. Í huga almennings vísar orðið „popp“ hins vegar oftast í létta og skemmtilega stuðtónlist frekar en argasta þungarokk. Í mörgum öðrum málum er þessu eins farið, „popular music“ er notað sem yfirheiti á meðan „pop“ hefur þrengri merkingu.

Wolfgang Amadeus Mozart er eitt kunnasta tónskáld allra tíma. Hann tilheyrir hámenningunni í dag en með vissum rökum mætti samt segja að hann hafi verið poppari síns tíma.

Poppi er gjarnan stefnt gegn klassískri tónlist sem nokkurs konar mótvægisafli, klassíkin er innihaldsrík á meðan poppið er innihaldsrýrt, poppið er afþreying en klassíkinni er ætlað að upplyfta og svo framvegis. Eins og á við um flest tvenndarpör eru hlutirnir ekki svona svartir og hvítir, gráa svæðið á milli þessara tveggja fyrirbæra er stórt og hin hefðbundna tvíhyggja Vesturlanda nær ekki að skýra þessi fyrirbæri almennilega, eins og hefur reyndar komið í ljós á síðustu árum. Bítlarnir eru skýrasta dæmið um þetta, poppsveit sem á að baki ódauðleg meistaraverk, staðreynd sem setur hefðbundnar skilgreiningar á poppi og klassík í uppnám.

Geirar og/eða stefnur eins og þjóðlagatónlist (e. folk music) og hið loðna heiti „alþýðutónlist“ tengjast dægurtónlistinni/poppinu. Í raun má segja að þetta séu sögulegir undanfarar, tónlist sem fólkið (lægri stéttir) bjó til fyrir sig og sína. Tónlist sem var ætluð til hugþægingar og skemmtunar, framar öðru. Með tilkomu unglingamenningarinnar, um og eftir miðja síðustu öld, fékk síðan popptónlistin eins og við þekkjum hana í dag, byr undir báða vængi.

Sænska hljómsveitin Abba er gott dæmi um popphljómsveit sem naut mikilla vinsælda en þykir einnig búa yfir snilldarlagasmíðum, en höfundar voru þeir Björn Ulvaeus og Benny Andersson.

Markaðshyggjan, sem hefur stýrt þróun hennar um áratuga skeið, klauf hana svo frá eldri alþýðutónlistarformum. Popp lýtur iðnaði sem er umhugað um að dreifa tónlistinni sem víðast og hámarka þar með fjárhagsgróða. Til að ýta undir slíkt teygir poppið sig oft út fyrir sjálfa tónlistina og ímynd og nöfn popparanna rata á nestisbox, hettupeysur, inn í kvikmyndir og svo framvegis. Poppið tilheyrir um leið því sem hefur verið kallað aðdáendamenning (e. fan culture) þar sem stórir hópar – oft dreifðir um víða veröld – eru sameinaðir í aðdáun á einum og sama listamanninum.

Allt þetta, ásamt þeirri staðreynd að popparar geta náð langt í sínu fagi án nokkura krafna um tónlistarskólamenntun, er vatn á myllu þeirra sem halda því fram að formið sé í eðli sínu ómerkilegt. Hver sem er geti hnoðað saman einföldu popplagi og markmiðið sé alltaf að ná til sem flestra, sem geri lagasmíðarnar óhjákvæmilega að bitlausu miðjumoði.

Spice Girls bar með sér mörg kunnugleg einkenni samtímapoppsveita. Gríðarlegar vinsældir í tiltölulega skamman tíma og áhrif á ungmenni – sérstaklega stúlkur – talsverð á meðan yfirreið þeirra stóð. Arfleifð þeirra í dag er engu að síður glettilega rík.

Það er efni í annað svar og ítarlegra, og heldur snúnara, að ætla að rýna í hvort hægt sé að dæma um fagurfræðilegt gildi poppsins. Er þetta lag gott og þetta lag vont – í eðli sínu? Er poppinu fyrst og síðast ætlað að sefa þreytta huga eða er það fært um eitthvað meira?

Blaðamaðurinn Tad Friend, sem starfar fyrir New Yorker, skrifaði einu sinni um sjónvarpsþættina The Simpsons: „Góð list sem nær til þrjátíu milljón manns og tengir þá saman hefur mögulega meira að bjóða en stórfengleg list sem nær til 3000 manns en lætur þeim líða eins og þeir séu meira og minna einangraðir. Skilgreiningar á því hvað sé list og hvað ekki eru að breytast. Framtíðin tilheyrir Bart Simpson.“ Þessi orð hans er vel hægt að heimfæra upp á popptónlist.

Heimildir og ítarefni:
  • Frith, Simon. Sound Effects: Youth, Leisure and the Politics of Rock 'n' Roll (Pantheon, 1981). New York: Pantheon, 1981.
  • Frith, Simon. „Towards an Aesthetic of Popular Music“. Í Taking Popular Music Seriously. Abingdon: Routledge, 2007.
  • Middleton, Richard. Studying Popular Music. Milton Keynes: Open University Press, 1990.
  • Ross, Alex. The Rest is Noise: Listening to the Twentieth Century. New York: Farrar, Straus and Giroux, 2007.

Myndir:

Upprunalega spurningin var:
Hver er uppruni popps? Hvenær varð popptónlist til og hvað er eiginlega átt við með heitinu?

...