Sólin Sólin Rís 08:22 • sest 18:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:46 • Sest 06:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:12 • Síðdegis: 17:29 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:46 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:22 • sest 18:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:46 • Sest 06:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:12 • Síðdegis: 17:29 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:46 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er tónlist?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Flest eigum við ekki í vandræðum með að þekkja tónlist þegar við heyrum hana. Vissulega kemur það fyrir að einhver hljóð sem sumir kunna að meta séu lítils metin af einhverjum öðrum sem segja þá að þetta kalli þeir nú ekki tónlist og að þetta séu jafnvel bara einhver óhljóð. En oftast er það nokkurn veginn á hreinu hvað það er sem við köllum tónlist. Hins vegar getur verið snúnara að útskýra hvernig við förum að því að komast að þeirri niðurstöðu að eitthvað sé tónlist og að eitthvað annað sé það ekki.

Flest fólk kallar hljóðsköpun Madonnu eflaust tónlist en hvort og hvaða tilfinningar blossa upp er svo annað mál.

Tónlist felst í hljóðum sem við, eða að minnsta kosti einhver, hlustum á okkur til ánægju og sem einhver framkallar sér til ánægju. Við köllum samt ekki hvaða ánægjulegu hljóð sem er tónlist. Við hlustum stundum á öldunið, vindgnauð, flugnasuð og fuglasöng og höfum ánægju af en köllum það ekki tónlist. Það virðist vera nauðsynleg forsenda tónlistar að hún sé sköpuð af manneskju eða í það minnsta af vitsmunaveru sem líkist okkur á einhvern tiltekinn hátt. Það má vel hugsa sér ferðalag okkar til fjarlægrar plánetu þar sem við hittum fyrir geimverur sem framleiddu hljóð sem við vildum kalla tónlist. Lykilatriðið er að viðkomandi verur séu færar um það sem við köllum sköpun, eða listsköpun, og að þær líkist okkur nægilega mikið til að við höfum þær forsendur sem þarf til að geta numið þessa sköpun þeirra sem tónlist.

Náttúrulegir hlutir og smíðisgripir

Tónlist fellur undir sem við köllum smíðisgripi, sem eru hlutir sem manneskjan smíðar, gagnstætt því sem við myndum kalla náttúrulega hluti. Kannski er þessi munur ekki alltaf svo skýr, enda er maðurinn hluti af náttúrunni, en hann er nokkurn veginn svona: Smíðisgripir eru stundum framleiddir í vélum og þá ekki í bókstaflegum skilningi smíðaðir af mannverum en mannshugurinn þarf að koma við sögu einhvers staðar í ferlinu. Að sama skapi getum við látið vél spila tónlist en nauðsynlegt er að mannvera (eða vitsmunavera ef við viljum halda mögulegum geimverum inni í myndinni) hafi samið tónlistina.

Þó að tónskáld semji lag eða tónverk þá felst tónsmíðin ekki í að búa til hljóðin eða finna þau upp heldur virðist hlutverk tónskáldsins vera að raða hljóðunum saman og setja í ákveðið samhengi. Það mætti til dæmis alveg hugsa sér tónverk sem líkti eftir fuglasöng en sem væri samt sem áður tónlist. En það er ekki hægt að kalla hvaða eftirlíkingu sem er af náttúruhljóðum tónlist. Ef einhver smíðaði vélfugl og setti inn í hann tæki sem líkti eftir fuglasöng þá væri það sennilega ekki tónlist. Þannig virðist samhengið skipta talsverðu máli þegar kemur að því að kalla eitthvað tónlist. Eftirlíkingar af náttúruhljóðum geta verið tónlist en þær eru það ekki alltaf og alls konar hljóð sem við framköllum sem eru ekki eftirlíkingar af náttúruhljóðum eru ekki heldur tónlist, til dæmis hljóð í bílvélum.

En hver er hann þá, þessi sérstaki tónlistarlegi tilgangur sem hefur þann mátt að gera hljóð að tónlist? Ef til vill má segja að tónlist sé hljóð sem eru valin og sett fram sérstaklega í fagurfræðilegum tilgangi. Þetta gildir sjálfsagt oft um tónlist en gengur ekki alveg upp. Stundum er tónlist alls ekkert ómþýð heldur gert í því að hafa hana erfiða á einn eða annan hátt, þannig að hún valdi ekki beinlínis vellíðan. Svo er líka til framsetning á hljóðum sem eru sérstaklega valin til að láta vel í eyrum sem við myndum ekki kalla tónlist. Til dæmis eru til tæki með nið eða suði sem ætlað er að róa ungbörn. Sá fagurfræðilegi tilgangur sem gildir er því flóknari en svo að hann snúist bara um að gleðja eða framkalla vellíðan.

Tónlist sem tjáningarmál

Tónlist felur í sér tjáningu en þá má auðvitað spyrja hvers konar tjáning sé á ferðinni og hvað það sé sem verið er að tjá. Oft er talað um ýmis fyrirbæri í tónlist eins og um tungumál sé að ræða, til dæmis hendingar eða frasa, spurningu, svar, úrvinnslu, ítrekun, íróníu, að mismunandi hljóðfæri kallist á og þar fram eftir götunum. Þetta þarf þó ekki að þýða að þarna sé raunverulega um tungumál að ræða heldur geta þetta verið líkingar. Og þótt ýmislegt sé sameiginlegt með tónlist og tungumálum þá er ýmislegt ólíkt. Við getum þýtt milli tungumála, til dæmis af portúgölsku yfir á íslensku, og merkingin þá haldist að minnsta kosti nokkurn veginn. En við þýðum ekki af íslensku og yfir í tónlist eða úr einu tónverki yfir í annað. Hvernig myndi til dæmis annar kaflinn í Tunglskinssónötunni hljóma á sænsku?

Það sem gildir er að hvað svo sem tónlistin tjáir þá er það ekki merking af þeirri gerð sem hægt er að tjá með orðum. Reyndar er tónlist stundum notuð til að koma á framfæri einhverju sem hefur slíka merkingu, eins og þegar tónverk eru notuð til að segja sögu. Dæmi um slíkt er verkið Pétur og úlfurinn eftir Sergei Prokofieff þar sem hljóðfærin tákna mismunandi persónur og sagan er sögð með því að láta hljóðfærin spila tiltekin stef. En tónlistin er ekki notuð ein og sér til að tjá merkinguna heldur þarf sögumann til að útskýra þetta allt saman. Tónverk eru líka oft látin heita einhverjum lýsandi nöfnum sem eiga að gefa til kynna hvað þau eru „um“ en þá er nafnið líka einmitt nauðsynlegt til að segja okkur það. Ef Árstíðirnar eftir Antonio Vivaldi hétu eitthvað allt annað, til dæmis Systurnar fjórar, og kaflarnir væru ekki nefndir hver eftir sinni árstíðinni — gæti þá ekki allt eins verið að við myndum heyra verkið eins og það fjallaði um eitthvað allt annað en árstíðir?

Skapar köttur tónlist þegar hann ýtir með loppum sínum á nótnaborðið?

Tónlist er þannig ekki sams konar tjáning á merkingu og tungumál og henni er ekki endilega ætlað að höfða til skilningsins á sama hátt og tungumál gerir. Ef til vill getum við frekar litið svo á að tónlist tjái tilfinningar og sé ætlað að höfða til tilfinninga þeirra sem á hana hlusta. Fátt snertir eins mikið við tilfinningum okkar og tónlist, eða það gildir að minnsta kosti um mörg okkar. Ef það er þetta sem málið snýst um þá gengur tónlist sem sagt út á tilfinningalega tjáningu.

Tónlist illlýsanleg með orðum

Víkjum aftur að tilrauninni til að segja hvað tónlist er: Samkvæmt þessari nýjustu útgáfu er tónlist framsetning á hljóði í þeim tilgangi að tjá tilfinningar. Þetta getur auðvitað ekki átt við um alla slíka framsetningu. Reiðiöskur er til dæmis hljóð sett fram til að tjá tilfinningar en við köllum það ekki tónlist. Hér mætti þá bæta því við að framsetningin þurfi að hafa fagurfræðilegt gildi, eða í það minnsta að vera í einhvers konar fagurfræðilegu samhengi. Það virðist þó heldur ströng krafa að tónlist sé alltaf tjáning tilfinninga. Það hlýtur að vera hægt að búa til tónlist sem tengist engum sérstökum tilfinningum, að minnsta kosti ekki þessum sem við tölum venjulega um eins og gleði, reiði, sorg, og svo framvegis. Og þegar tónlistin er tjáning þessara tilfinninga þá er það sem gerir hana sérstaka einmitt það að hún er eitthvað annað og meira en bara reiðiöskur, það er eitthvað meira sem skilar sér.

Það sem einkennir tónlist er þá kannski að hún sé sköpun og tjáning á einhverju sem við getum ekki lýst með öðrum hætti en með því að flytja það sem tónlist. Hún er þannig tjáning á tilfinningum sem við eigum ekki önnur orð yfir og höfðar til skilningsins án þess að hafa beinlínis merkingu sem við getum fært í orð. Hún fléttar saman tilfinningar og skilning með því að skapa eitthvað annað með þessu tvennu. Kannski er þá hin óhjákvæmilega niðurstaða að tónlist sé eitthvað ósmættanlegt sem ekki verður lýst nema með sjálfu sér. Ef til vill er ekki hægt að gera tæmandi grein fyrir tónlist öðruvísi en með því að flytja hana og hlusta á hana.

Myndir:

Hér er einnig svarað eftirfarandi spurningum: Hvað gerir tónlist jafngóða og hún er og af hverju hlusta sumir ekki á tónlist? Hvar eru mörkin á tónlist og því sem er ekki tónlist?

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

19.5.2014

Spyrjandi

Dagur Kár Jónsson, Emma Elísa Hjartardóttir, Valgerður Þórisdóttir

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er tónlist?“ Vísindavefurinn, 19. maí 2014, sótt 16. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=57083.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2014, 19. maí). Hvað er tónlist? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=57083

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er tónlist?“ Vísindavefurinn. 19. maí. 2014. Vefsíða. 16. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=57083>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er tónlist?
Flest eigum við ekki í vandræðum með að þekkja tónlist þegar við heyrum hana. Vissulega kemur það fyrir að einhver hljóð sem sumir kunna að meta séu lítils metin af einhverjum öðrum sem segja þá að þetta kalli þeir nú ekki tónlist og að þetta séu jafnvel bara einhver óhljóð. En oftast er það nokkurn veginn á hreinu hvað það er sem við köllum tónlist. Hins vegar getur verið snúnara að útskýra hvernig við förum að því að komast að þeirri niðurstöðu að eitthvað sé tónlist og að eitthvað annað sé það ekki.

Flest fólk kallar hljóðsköpun Madonnu eflaust tónlist en hvort og hvaða tilfinningar blossa upp er svo annað mál.

Tónlist felst í hljóðum sem við, eða að minnsta kosti einhver, hlustum á okkur til ánægju og sem einhver framkallar sér til ánægju. Við köllum samt ekki hvaða ánægjulegu hljóð sem er tónlist. Við hlustum stundum á öldunið, vindgnauð, flugnasuð og fuglasöng og höfum ánægju af en köllum það ekki tónlist. Það virðist vera nauðsynleg forsenda tónlistar að hún sé sköpuð af manneskju eða í það minnsta af vitsmunaveru sem líkist okkur á einhvern tiltekinn hátt. Það má vel hugsa sér ferðalag okkar til fjarlægrar plánetu þar sem við hittum fyrir geimverur sem framleiddu hljóð sem við vildum kalla tónlist. Lykilatriðið er að viðkomandi verur séu færar um það sem við köllum sköpun, eða listsköpun, og að þær líkist okkur nægilega mikið til að við höfum þær forsendur sem þarf til að geta numið þessa sköpun þeirra sem tónlist.

Náttúrulegir hlutir og smíðisgripir

Tónlist fellur undir sem við köllum smíðisgripi, sem eru hlutir sem manneskjan smíðar, gagnstætt því sem við myndum kalla náttúrulega hluti. Kannski er þessi munur ekki alltaf svo skýr, enda er maðurinn hluti af náttúrunni, en hann er nokkurn veginn svona: Smíðisgripir eru stundum framleiddir í vélum og þá ekki í bókstaflegum skilningi smíðaðir af mannverum en mannshugurinn þarf að koma við sögu einhvers staðar í ferlinu. Að sama skapi getum við látið vél spila tónlist en nauðsynlegt er að mannvera (eða vitsmunavera ef við viljum halda mögulegum geimverum inni í myndinni) hafi samið tónlistina.

Þó að tónskáld semji lag eða tónverk þá felst tónsmíðin ekki í að búa til hljóðin eða finna þau upp heldur virðist hlutverk tónskáldsins vera að raða hljóðunum saman og setja í ákveðið samhengi. Það mætti til dæmis alveg hugsa sér tónverk sem líkti eftir fuglasöng en sem væri samt sem áður tónlist. En það er ekki hægt að kalla hvaða eftirlíkingu sem er af náttúruhljóðum tónlist. Ef einhver smíðaði vélfugl og setti inn í hann tæki sem líkti eftir fuglasöng þá væri það sennilega ekki tónlist. Þannig virðist samhengið skipta talsverðu máli þegar kemur að því að kalla eitthvað tónlist. Eftirlíkingar af náttúruhljóðum geta verið tónlist en þær eru það ekki alltaf og alls konar hljóð sem við framköllum sem eru ekki eftirlíkingar af náttúruhljóðum eru ekki heldur tónlist, til dæmis hljóð í bílvélum.

En hver er hann þá, þessi sérstaki tónlistarlegi tilgangur sem hefur þann mátt að gera hljóð að tónlist? Ef til vill má segja að tónlist sé hljóð sem eru valin og sett fram sérstaklega í fagurfræðilegum tilgangi. Þetta gildir sjálfsagt oft um tónlist en gengur ekki alveg upp. Stundum er tónlist alls ekkert ómþýð heldur gert í því að hafa hana erfiða á einn eða annan hátt, þannig að hún valdi ekki beinlínis vellíðan. Svo er líka til framsetning á hljóðum sem eru sérstaklega valin til að láta vel í eyrum sem við myndum ekki kalla tónlist. Til dæmis eru til tæki með nið eða suði sem ætlað er að róa ungbörn. Sá fagurfræðilegi tilgangur sem gildir er því flóknari en svo að hann snúist bara um að gleðja eða framkalla vellíðan.

Tónlist sem tjáningarmál

Tónlist felur í sér tjáningu en þá má auðvitað spyrja hvers konar tjáning sé á ferðinni og hvað það sé sem verið er að tjá. Oft er talað um ýmis fyrirbæri í tónlist eins og um tungumál sé að ræða, til dæmis hendingar eða frasa, spurningu, svar, úrvinnslu, ítrekun, íróníu, að mismunandi hljóðfæri kallist á og þar fram eftir götunum. Þetta þarf þó ekki að þýða að þarna sé raunverulega um tungumál að ræða heldur geta þetta verið líkingar. Og þótt ýmislegt sé sameiginlegt með tónlist og tungumálum þá er ýmislegt ólíkt. Við getum þýtt milli tungumála, til dæmis af portúgölsku yfir á íslensku, og merkingin þá haldist að minnsta kosti nokkurn veginn. En við þýðum ekki af íslensku og yfir í tónlist eða úr einu tónverki yfir í annað. Hvernig myndi til dæmis annar kaflinn í Tunglskinssónötunni hljóma á sænsku?

Það sem gildir er að hvað svo sem tónlistin tjáir þá er það ekki merking af þeirri gerð sem hægt er að tjá með orðum. Reyndar er tónlist stundum notuð til að koma á framfæri einhverju sem hefur slíka merkingu, eins og þegar tónverk eru notuð til að segja sögu. Dæmi um slíkt er verkið Pétur og úlfurinn eftir Sergei Prokofieff þar sem hljóðfærin tákna mismunandi persónur og sagan er sögð með því að láta hljóðfærin spila tiltekin stef. En tónlistin er ekki notuð ein og sér til að tjá merkinguna heldur þarf sögumann til að útskýra þetta allt saman. Tónverk eru líka oft látin heita einhverjum lýsandi nöfnum sem eiga að gefa til kynna hvað þau eru „um“ en þá er nafnið líka einmitt nauðsynlegt til að segja okkur það. Ef Árstíðirnar eftir Antonio Vivaldi hétu eitthvað allt annað, til dæmis Systurnar fjórar, og kaflarnir væru ekki nefndir hver eftir sinni árstíðinni — gæti þá ekki allt eins verið að við myndum heyra verkið eins og það fjallaði um eitthvað allt annað en árstíðir?

Skapar köttur tónlist þegar hann ýtir með loppum sínum á nótnaborðið?

Tónlist er þannig ekki sams konar tjáning á merkingu og tungumál og henni er ekki endilega ætlað að höfða til skilningsins á sama hátt og tungumál gerir. Ef til vill getum við frekar litið svo á að tónlist tjái tilfinningar og sé ætlað að höfða til tilfinninga þeirra sem á hana hlusta. Fátt snertir eins mikið við tilfinningum okkar og tónlist, eða það gildir að minnsta kosti um mörg okkar. Ef það er þetta sem málið snýst um þá gengur tónlist sem sagt út á tilfinningalega tjáningu.

Tónlist illlýsanleg með orðum

Víkjum aftur að tilrauninni til að segja hvað tónlist er: Samkvæmt þessari nýjustu útgáfu er tónlist framsetning á hljóði í þeim tilgangi að tjá tilfinningar. Þetta getur auðvitað ekki átt við um alla slíka framsetningu. Reiðiöskur er til dæmis hljóð sett fram til að tjá tilfinningar en við köllum það ekki tónlist. Hér mætti þá bæta því við að framsetningin þurfi að hafa fagurfræðilegt gildi, eða í það minnsta að vera í einhvers konar fagurfræðilegu samhengi. Það virðist þó heldur ströng krafa að tónlist sé alltaf tjáning tilfinninga. Það hlýtur að vera hægt að búa til tónlist sem tengist engum sérstökum tilfinningum, að minnsta kosti ekki þessum sem við tölum venjulega um eins og gleði, reiði, sorg, og svo framvegis. Og þegar tónlistin er tjáning þessara tilfinninga þá er það sem gerir hana sérstaka einmitt það að hún er eitthvað annað og meira en bara reiðiöskur, það er eitthvað meira sem skilar sér.

Það sem einkennir tónlist er þá kannski að hún sé sköpun og tjáning á einhverju sem við getum ekki lýst með öðrum hætti en með því að flytja það sem tónlist. Hún er þannig tjáning á tilfinningum sem við eigum ekki önnur orð yfir og höfðar til skilningsins án þess að hafa beinlínis merkingu sem við getum fært í orð. Hún fléttar saman tilfinningar og skilning með því að skapa eitthvað annað með þessu tvennu. Kannski er þá hin óhjákvæmilega niðurstaða að tónlist sé eitthvað ósmættanlegt sem ekki verður lýst nema með sjálfu sér. Ef til vill er ekki hægt að gera tæmandi grein fyrir tónlist öðruvísi en með því að flytja hana og hlusta á hana.

Myndir:

Hér er einnig svarað eftirfarandi spurningum: Hvað gerir tónlist jafngóða og hún er og af hverju hlusta sumir ekki á tónlist? Hvar eru mörkin á tónlist og því sem er ekki tónlist?

...