Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Brynhildur Þórarinsdóttir er dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hennar snúa helst að lestraráhuga og lestrarvenjum, lestraruppeldi og sambandi lestraráhuga og lestraruppeldis eða bakgrunns barna. Hún hefur til að mynda birt greinar um þróun lestrarvenja íslenskra unglinga í evrópskum samanburði, tengsl lestrarvenja unglinga og menntunar foreldra og lestrarvenjur kynjanna í ljósi drengjaorðræðunnar um lestrarvanda.
Brynhildur hefur einnig fylgst með skólasöfnum landsins og gerði úttekt á ástandi þeirra og fjárveitingum í kjölfar efnahagshrunsins, sem sýndi grafalvarlega stöðu. Þá hefur hún sinnt bókmenntarannsóknum og ritstýrði greinasafninu Í Guðrúnarhúsi - um bækur Guðrúnar Helgadóttur, ásamt Dagnýju Kristjánsdóttur. Brynhildur hefur einnig rannsakað íslenskukennslu og situr í stjórn rannsóknarverkefnisins Íslenska sem námsgrein og kennslutunga. Þá á Brynhildur sæti í íslenskri málnefnd og vann að gerð íslenskrar málstefnu Íslenska til alls, sem samþykkt var á Alþingi 2009. Hún stýrði vinnu við málstefnu HA sem samþykkt var 2008.
Rannsóknir Brynhildar snúa helst að lestraráhuga og lestrarvenjum, lestraruppeldi og sambandi lestraráhuga og lestraruppeldis eða bakgrunns barna.
Brynhildur hefur haldið utan um starf Barnabókaseturs Íslands frá stofnun þess 2012. Barnabókasetur er rannsóknarsetur um barnabókmenntir og lestur barna við Háskólann á Akureyri og samstarfsverkefni HA, Amtsbókasafnsins á Akureyri og Minjasafnsins á Akureyri.
Barnabókasetrið tengir saman fræði og framkvæmd: Rannsóknir sýna að tengsl eru milli lestraráhuga og lesskilnings og að börn sem fá virkt lestraruppeldi eru líklegri til að lesa sjálf af áhuga. Barnabókasetur vinnur því að eflingu læsis með jákvæðum, lestrarhvetjandi verkefnum fyrir fjölskyldur og skóla. Má þar nefna Siljuna, myndbandasamkeppni fyrir nemendur í 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Skólasöfn sigurvegaranna í hvorum flokki hafa fengið veglega bókaúttekt enda hafa rannsóknir sýnt að þau skortir fé til að mæta kröfum barna um lesefni.
Lestrarganga er verkefni sem snýst um að fá fjölskyldur og skólahópa út að lesa en Barnabókasetur lét festa járnbækur með textum úr völdum íslenskum barnabókum á um 25 ljósastaura á Akureyri. Lestrargangan er nú einnig kominn upp í Kópavogi í samstarfi við Bókasafn Kópavogs. Barnabókasetur hefur einnig staðið fyrir ýmsum málþingum og útgáfu fræðsluefnis sem miðar að því sama; að efla áhuga barna og unglinga á bóklestri.
Ein af járnbókunum í Lestrargöngu Barnabókaseturs. Ungi lesandinn er dóttir Brynhildar, Þorbjörg Þóroddsdóttir.
Brynhildur fæddist í Reykjavík 27. ágúst 1970. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1990, B.A.-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1995 og M.A.-prófi í íslenskum miðaldabókmenntum 2004. Hún lauk prófi í kennslufræðum til kennsluréttinda frá Háskólanum á Akureyri 2005. Brynhildur hefur starfað við kennaradeild Háskólans á Akureyri síðan 2004. Hún starfar samhliða kennslunni sem rithöfundur og hefur sent frá sér 15 bækur fyrir börn og unglinga. Um helmingur þeirra er endursagnir á Íslendingasögunum, bæði fyrir almennan markað og í útgáfu Námsgagnastofnunar. Hún hefur einnig endursagt Íslendingasögur fyrir enskumælandi skólabörn en bók hennar Warriors of Honour var gefin út af Oxford University Press í Bretlandi 2016. Brynhildur hefur talsvert fjallað um miðlun menningararfs til barna, meðal annars á námskeiðum fyrir kennara, og heldur úti barnvæna fræðsluvefnum www.islendingasogur.is.
Myndir:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Brynhildur Þórarinsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn, 24. maí 2018, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75884.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 24. maí). Hvaða rannsóknir hefur Brynhildur Þórarinsdóttir stundað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75884
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Brynhildur Þórarinsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn. 24. maí. 2018. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75884>.