Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hafliði Pétur Gíslason er prófessor í tilraunaeðlisfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Hann hefur rannsakað veilur í hálfleiðandi og einangrandi þéttefni (e. condensed matter) allt frá doktorsnámi sínu.
Veilur (e. defects) stjórna flestum hagnýtum eiginleikum þéttefnis, til að mynda stýra aðskotafrumeindir rafleiðni hálfleiðara sem er grundvöllur allrar tölvutækni, og ljóseiginleikum sem ljóstvistar (e. light emitting diodes) byggjast á. Í meistaraverkefni sínu við Tækniháskólann í Lundi árið 1977 tókst Hafliða og félögum að mæla blátt ljós frá hálfleiðara. Þetta voru meðal fyrstu mælinga af þessu tagi, en takmark rannsóknanna var að þróa hvíta ljóstvista sem allir þekkja nú. Gallinn var að tvisturinn lýsti aðeins við hitastig nálægt alkuli. Stórstígar framfarir í efnistækni og efnisvísindum hafa hins vegar rutt veginn sem eðlisfræðin varðaði fyrir áratugum og eru hvítir ljóstvistar nú meðal orkunýtnustu ljósgjafa sem völ er á.
Hafliði hefur rannsakað veilur í hálfleiðandi og einangrandi þéttefni allt frá doktorsnámi sínu.
Í námi og starfi sínu hefur Hafliði beitt ýmsum greiningaraðferðum til að nálgast hið smásæja umhverfi veilna í lotubundinni grind kristalla. Hafliði stundaði um árabil rannsóknir á ljós- og rafeiginleikum hálfleiðara við eðlisfræðistofuRaunvísindastofnunar Háskólans, en auk þess starfaði hann löngum erlendis, meðal annars við Lehigh-háskóla í Bandaríkjunum, Jussieu-háskólann í París og Linköping-háskóla, auk háskóla í Tokyo og Beijing.
Fyrstu tvo áratugina eftir að Hafliði hóf störf við Háskóla Íslands batnaði aðstaða til rannsókna í eðlisfræði þéttefnis til mikilla muna og lagði sú uppbygging grunninn að síðari rannsóknum í örtækni (e. nanotechnology) við skólann. Síðastliðinn áratug hefur Hafliði að auki tekið þátt í samstarfi fjölda rannsóknahópa um mælingar við rannsóknastofu í eðlisfræði þéttefnis, ISOLDE, við CERN í Genf.
Hafliði í CERN, evrópsku rannsóknarstofnuninni í háorkueðlisfræði, en þar hefur hann tekið þátt í samstarfi fjölda rannsóknahópa um mælingar við ISOLDE, rannsóknastofu í eðlisfræði þéttefnis.
Hafliði gegndi starfi stofustjóra eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans í ein 17 ár, hann var forseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands árin 2012-2016 og hefur setið sem formaður stjórnar Raunvísindastofnunar Háskólans frá 2016. Hafliði varð formaður Rannsóknarráðs Íslands árið 2000. Þetta ráð var uppnefnt „byltingarráðið“ því það lagði sjálft sig niður og hóf vinnu við stofnun Vísinda- og tækniráðs sem tók til starfa árið 2003 undir forsæti forsætisráðherra. Í því hlutverki samdi Hafliði með öðrum frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð og tengd frumvörp um sjóðina sem undir það heyra. Hann var formaður vísindanefndar ráðsins og formaður stjórnar Rannsóknasjóðs árin 2003-2006. Ljóst má vera að þessi kerfisbreyting stórefldi allan stuðning við vísindarannsóknir og tækniþróun í landinu. Einnig sat Hafliði í stjórn NordForsk og evrópsku vísindastofnunarinnar ESF, auk annars.
Hafliði Pétur Gíslason fæddist árið 1952, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972 og fyrrihlutaprófi í eðlisverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1974. Hann lauk prófi í eðlisverkfræði frá Tækniháskólanum í Lundi árið 1977 og doktorsprófi þaðan árið 1983. Hann fékk nafnbót dósents við háskólann í Linköping árið 1984 og var ráðinn í embætti prófessors í tilraunaeðlisfræði við Háskóla Íslands í ársbyrjun 1987.
Myndir:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Hafliði Pétur Gíslason rannsakað?“ Vísindavefurinn, 6. september 2018, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76286.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 6. september). Hvað hefur vísindamaðurinn Hafliði Pétur Gíslason rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76286
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Hafliði Pétur Gíslason rannsakað?“ Vísindavefurinn. 6. sep. 2018. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76286>.