Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sigurður Gylfi Magnússon er prófessor í menningarsögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann kom til starfa við Háskóla Íslands sem fastráðinn starfsmaður árið 2014 eftir að hafa verið sjálfstætt starfandi fræðimaður frá því hann gekk frá prófborði árið 1993 í Bandaríkjunum til ársins 2010. Á því ári fékk hann tímabundna rannsóknarstöðu við Þjóðminjasafn Íslands sem kennd er við dr. Kristján Eldjárn og gegndi henni til ársloka 2013. Árið 2014 var Sigurður Gylfi ráðinn sem dósent við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands og árið eftir sem prófessor við sömu deild.
Rannsóknir Sigurðar Gylfa hafa einkum beinst að alþýðumenningu, hversdagslífi, sjálfsbókmenntum (e. egodocuments) og sögu tilfinninganna (e. history of emotions), oft með hjálp aðferða einsögunnar (e. microhistory). Sigurður leggur mikla rækt við aðferða- og hugmyndafræði sagnfræðinnar, eins og sést til að mynda í verkinu What is Microhistory? Theory and Practice (London: Routledge, 2013, sjá myndband sem nefnist: Do you know what microhistory is all about?). Meðhöfundur þeirrar bókar var ungverski einsögufræðingurinn István M. Szijártó.
Rannsóknir Sigurðar Gylfa hafa einkum beinst að alþýðumenningu, hversdagslífi, sjálfsbókmenntum og sögu tilfinninganna, oft með hjálp aðferða einsögunnar. Hér er Sigurður með heimilishundinum Alvíu.
Í ritinu Minor Knowledge and Microhistory. Manuscript Culture in the Nineteenth Century (London: Routledge, 2017) sem Sigurður Gylfi skrifaði með vini sínum og samstarfsmanni til margra ára, Davíð Ólafssyni sagnfræðingi, er fjallað sérstaklega um aðferða- og hugmyndafræði í hugvísindum (sjá myndband um efni bókarinnar). Áður hafði hann skrifað bókina Wasteland with Words: A Social History of Iceland (London: Reaktion Books, 2010) sem er yfirlitsrit yfir síðustu þrjár aldir Íslandssögunnar. Verkið er nokkurs konar menningarsaga tímabilsins þar sem aðferðum einsögunnar er beitt.
Sigurður Gylfi útskrifaðist með stúdentspróf frá Verslunarskóla Íslands árið 1980 og með BA-próf frá Háskóla Íslands árið 1984 með sagnfræði sem aðalgrein og heimspeki sem aukagrein. Árið 1987 lauk hann MA-prófi í sagnfræði frá Carnegie Mellon háskóla í Pittsburgh í Bandaríkjunum og árið 1993 varði hann doktorsritgerð (Ph.D.) í félags- og menningarsögu frá sama skóla.
Sigurður Gylfi hefur ritstýrt ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar í rúmlega 20 ár ásamt sagnfræðingunum Má Jónssyni og Davíð Ólafssyni en Háskólaútgáfan hefur gefið hana út. Hann er einnig ritstjóri nýrrar ritraðar sem hið þekkta bókaforlag Routledge gefur út og nefnist Microhistories en meðritstjóri hans er István M. Szijártó.
Sigurður Gylfi er nú um stundir þátttakandi í tveimur öndvegisverkefnum frá Rannís; „Fötlun fyrir daga fötlunar“ (2017) sem Hanna Björg Sigurjónsdóttir leiðir og verkefninu „Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking“ (2018) en það verkefni er undir stjórn Sigurðar Gylfa.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Sigurður Gylfi Magnússon stundað?“ Vísindavefurinn, 10. október 2018, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76414.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 10. október). Hvaða rannsóknir hefur Sigurður Gylfi Magnússon stundað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76414
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Sigurður Gylfi Magnússon stundað?“ Vísindavefurinn. 10. okt. 2018. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76414>.