Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Íris Ellenberger er sagnfræðingur sem starfar á sviði sögu fólksflutninga, þvermenningarlegrar sögu og sögu kynverundar með áherslu á hinsegin sagnfræði. Doktorsritgerð Írisar frá 2013 fjallar um samfélagslega stöðu danskra innflytjenda á Íslandi á árunum 1900–1970 og hvernig hún breyttist með auknu sjálfsforræði Íslendinga, sterkari þjóðernishyggju og meðfylgjandi tilhneigingu til að draga skarpari línur milli Íslendinga og annarra.
Á árunum 2016–2018 starfaði hún sem nýdoktor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands við rannsóknir á átökum og núningi ólíkrar menningar í Reykjavík á árunum 1890–1920. Þar skoðaði hún hvernig sá mikli hreyfanleiki sem einkenndi löndin í kringum Norður-Atlantshafið hafði áhrif á staðbundið samfélag Reykjavíkur með sérstakri áherslu á hvernig það mótaði menningu og stéttaskiptingu þess.
Íris Ellenberger er sagnfræðingur sem starfar á sviði sögu fólksflutninga, þvermenningarlegrar sögu og sögu kynverundar með áherslu á hinsegin sagnfræði.
Íris hefur einnig gefið sig að rannsóknum á hinsegin sögu á Íslandi. Haustið 2016 rannsakaði hún sögu félagsins Íslensk-lesbíska og samtvinnun kyns og kyngervis í réttindabaráttuhreyfingum níunda áratugar 20. aldar. Hún ritstýrði einnig greinasafninu Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin saga og hinsegin sagnfræði á Íslandi (2017), ásamt Ástu Kristínu Benediktsdóttur og Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur. Ritið er fyrsta bókin sem gefin var út á sviði hinsegin sögu á Íslandi. Þar birtast einnig niðurstöður rannsóknar Írisar á samtvinnun sögulegra orðræðna um Ísland sem fyrirmyndarland og þverþjóðlegar orðræður samkynhneigðar þjóðernishyggju í sköpun ímyndarinnar af Íslandi sem hinsegin fyrirmyndarlandi.
Íris stýrir nú verkefninu Hinsegin huldukonur. Hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum 1700–1940, ásamt Ástu Kristínu Benediktsdóttur og Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur. Verkefnið er unnið í samvinnu við Samtökin '78 og Kvennasögusafn Íslands og styrkt af Jafnréttissjóði Íslands. Það miðar að því að leita uppi heimildir sem fjalla um hinsegin kynverund kvenna fyrir tíma sjálfsmyndarpólitíkur 7. og 8. áratugar 20. aldar og gera þær aðgengilegar fræðimönnum og almenningi.
Íris er einnig aktívisti sem berst fyrir félagslegu réttlæti kvenna, hinsegin fólks og annarra jaðarsettra einstaklinga. Hún hefur því lagt sig fram við að flétta saman fræðum og aktívisma með því að skrifa pistla og greinar fyrir almenning í blöð og á vefmiðla. Hún hefur einnig tekið þátt í að skipuleggja ráðstefnur um samtvinnun og samtvinnunarfemínisma, vinnustofur um hinsegin baráttu og forréttindi auk sýninga sem hafa það að markmiði að koma á samtali milli fræðafólks og almennings. Nýjasta slíka verkefni Írisar er hinsegin leiðavísir í gegnum Þjóðminjasafn Íslands sem hún gerði í samvinnu við Ástu Kristínu Benediktsdóttur, Yndu Gestsson og fleiri. Markmið hans er að skoða Íslandssöguna út frá hinsegin vinkli og miðla sjónarhorni hinsegin fræða og hinsegin sögu til almennings.
Íris lauk BA-prófi í sagnfræði árið 2003, MA-gráðu 2006 og doktorsgráðu í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 2013. Að doktorsprófi loknu hefur hún starfað sem sjálfstætt starfandi fræðimaður við ReykjavíkurAkademíuna, nýdoktor við Hugvísindastofnun Háskóla Íslands og er nú gestafræðimaður við Rannsóknamiðstöð í kynjafræðum við Uppsala-háskóla í Svíþjóð.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Íris Ellenberger stundað?“ Vísindavefurinn, 25. október 2018, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76503.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 25. október). Hvaða rannsóknir hefur Íris Ellenberger stundað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76503
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Íris Ellenberger stundað?“ Vísindavefurinn. 25. okt. 2018. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76503>.