Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 01:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:37 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:53 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík
Vísindafélag Íslendinga - 100 ára

Hvaða rannsóknir hefur Sigríður Matthíasdóttir stundað?

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands

Sigríður Matthíasdóttir er sjálfstætt starfandi fræðimaður. Rannsóknir hennar spanna allvítt svið innan sagnfræðinnar en hún hefur meðal annars fengist við sögu íslenskrar þjóðernisstefnu, háskólasögu og sögu íslenskra vesturferða með áherslu á sögu kvenna. Sigríður hefur sérstaklega rannsakað íslenska kvenna- og kynjasögu frá margvíslegu sjónarhorni og hefur hún lagt áherslu á aðferðafræði og að samræma raunhyggju (empiríu) og kenningalega nálgun.

Í doktorsrannsókn sinni, Hinn sanni Íslendingur. Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900-1930, fjallaði Sigríður um þróun íslenskrar þjóðernisstefnu á fyrstu þremur áratugum tuttugustu aldar eða svo og hvernig hún tengdist hugmyndum samtímans um karlmennsku, kvenleika og þróun kvenréttindabaráttunnar. Rannsóknin átti mikilvægan þátt í að ryðja braut fyrir kynjasögulega aðferðafræði á sviði nútímasagnfræði. Í tengslum við rannsóknina tók Sigríður einnig þátt í norræna rannsóknarverkefninu Menn og modernitet. Den nordiske mannen 1790-1940: Variasjoner og endringer.

Rannsóknir Sigríðar spanna allvítt svið innan sagnfræðinnar en hún hefur meðal annars fengist við sögu íslenskrar þjóðernisstefnu, háskólasögu og sögu íslenskra vesturferða með áherslu á sögu kvenna.

Sigríður var einn af þremur höfundum sem rituðu sögu Háskóla Íslands er út kom á aldarafmæli hans 2011. Skrifaði hún um tímabilið frá 1961-1990. Vinnan við háskólasöguna gat einnig af sér alþjóðlegt samstarf um rannsóknir á stúdentauppreisninni og breytingaferli tímabilsins innan háskóla í norrænum velferðarferðarsamfélögum. Birtust þær rannsóknir í grein í ritinu Student Revolt, City and Society – From the Middle Ages until Today (ritstj. Pieter Dhondt) er kom út hjá Routledge-útgáfunni 2017.

Árið 2013 hlaut Sigríður þriggja ára rannsóknarstyrk frá Rannís til að kanna efnið ógiftar íslenskar konur sem fluttust frá Íslandi til Norður-Ameríku. Í rannsókninni er gerð tilraun til að skoða gerendahæfni kvenna út frá nýjum forsendum og byggir hún meðal annars á auðmagnshugtaki franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu. Var sett fram sú tilgáta að ógiftar konur hefðu „gleymst“, bæði í sögu vesturferða og íslenskri kvenna- og kynjasögu. Þetta eru konur sem virðast hafa átt eitthvað undir sér, svo sem menntun, starfsframa eða ættar- og fjölskyldutengsl sem skýrir lífshlaup þeirra og möguleika í samfélaginu. Niðurstöður verkefnisins birtust meðal annars í tímaritinu Scandia árið 2016. Sigríður skoðar nú ævi tveggja austfirskra kvenna er báðar héldu til Vesturheims með rúmlega hálfrar aldar millibili, þær eru Pálínu Guðmundsdóttur Waage (1864-1935) og dótturdóttur hennar Pálínu Þorbjörnsdóttur Waage (1926-2005).

Sigríður hefur stundað rannsóknir sem gestafræðimaður við erlendar rannsóknarstofnanir, meðal annars sem Fulbright-styrkþegi við Kaliforníuháskóla, Santa Barbara (UCSB) árið 2007 og við sagnfræðideild Stokkhólmsháskóla á haustmisseri 2017. Einnig hefur hún nokkrum sinnum dvalist í styttri tíma við sagnfræðideild Åbo Akademi í Finnlandi, síðast árið 2016.

Sigríður fæddist á Egilsstöðum árið 1965. Hún lauk stúdentsprófi úr fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík árið 1985. Hún stundaði nám í íslensku við Háskóla Íslands (HÍ), lauk BA-prófi í sagnfræði frá sama skóla árið 1994, MA-prófi í Austur-Evrópufræðum frá Lundúnaháskóla 1995 og doktorsprófi frá HÍ árið 2004. Hún var einnig rannsóknarstöðustyrkþegi Rannís við Hugvísindastofnun HÍ á árunum 2005-2007 og hún er sjálfstætt starfandi fræðimaður.

Mynd:
  • Úr safni SM.

Útgáfudagur

18.11.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Sigríður Matthíasdóttir stundað?“ Vísindavefurinn, 18. nóvember 2018. Sótt 18. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76570.

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 18. nóvember). Hvaða rannsóknir hefur Sigríður Matthíasdóttir stundað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76570

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Sigríður Matthíasdóttir stundað?“ Vísindavefurinn. 18. nóv. 2018. Vefsíða. 18. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76570>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða rannsóknir hefur Sigríður Matthíasdóttir stundað?
Sigríður Matthíasdóttir er sjálfstætt starfandi fræðimaður. Rannsóknir hennar spanna allvítt svið innan sagnfræðinnar en hún hefur meðal annars fengist við sögu íslenskrar þjóðernisstefnu, háskólasögu og sögu íslenskra vesturferða með áherslu á sögu kvenna. Sigríður hefur sérstaklega rannsakað íslenska kvenna- og kynjasögu frá margvíslegu sjónarhorni og hefur hún lagt áherslu á aðferðafræði og að samræma raunhyggju (empiríu) og kenningalega nálgun.

Í doktorsrannsókn sinni, Hinn sanni Íslendingur. Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900-1930, fjallaði Sigríður um þróun íslenskrar þjóðernisstefnu á fyrstu þremur áratugum tuttugustu aldar eða svo og hvernig hún tengdist hugmyndum samtímans um karlmennsku, kvenleika og þróun kvenréttindabaráttunnar. Rannsóknin átti mikilvægan þátt í að ryðja braut fyrir kynjasögulega aðferðafræði á sviði nútímasagnfræði. Í tengslum við rannsóknina tók Sigríður einnig þátt í norræna rannsóknarverkefninu Menn og modernitet. Den nordiske mannen 1790-1940: Variasjoner og endringer.

Rannsóknir Sigríðar spanna allvítt svið innan sagnfræðinnar en hún hefur meðal annars fengist við sögu íslenskrar þjóðernisstefnu, háskólasögu og sögu íslenskra vesturferða með áherslu á sögu kvenna.

Sigríður var einn af þremur höfundum sem rituðu sögu Háskóla Íslands er út kom á aldarafmæli hans 2011. Skrifaði hún um tímabilið frá 1961-1990. Vinnan við háskólasöguna gat einnig af sér alþjóðlegt samstarf um rannsóknir á stúdentauppreisninni og breytingaferli tímabilsins innan háskóla í norrænum velferðarferðarsamfélögum. Birtust þær rannsóknir í grein í ritinu Student Revolt, City and Society – From the Middle Ages until Today (ritstj. Pieter Dhondt) er kom út hjá Routledge-útgáfunni 2017.

Árið 2013 hlaut Sigríður þriggja ára rannsóknarstyrk frá Rannís til að kanna efnið ógiftar íslenskar konur sem fluttust frá Íslandi til Norður-Ameríku. Í rannsókninni er gerð tilraun til að skoða gerendahæfni kvenna út frá nýjum forsendum og byggir hún meðal annars á auðmagnshugtaki franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu. Var sett fram sú tilgáta að ógiftar konur hefðu „gleymst“, bæði í sögu vesturferða og íslenskri kvenna- og kynjasögu. Þetta eru konur sem virðast hafa átt eitthvað undir sér, svo sem menntun, starfsframa eða ættar- og fjölskyldutengsl sem skýrir lífshlaup þeirra og möguleika í samfélaginu. Niðurstöður verkefnisins birtust meðal annars í tímaritinu Scandia árið 2016. Sigríður skoðar nú ævi tveggja austfirskra kvenna er báðar héldu til Vesturheims með rúmlega hálfrar aldar millibili, þær eru Pálínu Guðmundsdóttur Waage (1864-1935) og dótturdóttur hennar Pálínu Þorbjörnsdóttur Waage (1926-2005).

Sigríður hefur stundað rannsóknir sem gestafræðimaður við erlendar rannsóknarstofnanir, meðal annars sem Fulbright-styrkþegi við Kaliforníuháskóla, Santa Barbara (UCSB) árið 2007 og við sagnfræðideild Stokkhólmsháskóla á haustmisseri 2017. Einnig hefur hún nokkrum sinnum dvalist í styttri tíma við sagnfræðideild Åbo Akademi í Finnlandi, síðast árið 2016.

Sigríður fæddist á Egilsstöðum árið 1965. Hún lauk stúdentsprófi úr fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík árið 1985. Hún stundaði nám í íslensku við Háskóla Íslands (HÍ), lauk BA-prófi í sagnfræði frá sama skóla árið 1994, MA-prófi í Austur-Evrópufræðum frá Lundúnaháskóla 1995 og doktorsprófi frá HÍ árið 2004. Hún var einnig rannsóknarstöðustyrkþegi Rannís við Hugvísindastofnun HÍ á árunum 2005-2007 og hún er sjálfstætt starfandi fræðimaður.

Mynd:
  • Úr safni SM.

...