Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar franska byltingin hófst var Loðvík sextándi (1754-1793) við völd í Frakklandi. Kona hans var Marie Antoinette (1755-1793) og áttu þau saman fjögur börn, þau Marie-Thérèse-Charlotte (1778-1851), Louis-Joseph-Xavier-François (1781-1789), Louis-Charles (1785 -1795) og Sophie-Hélène-Béatrix (1786-1787). Bæði Sophie-Hélène, sem lést stuttu eftir fæðingu, og Louis-Joseph, sem lést af veikindum sumarið 1789, voru þó látin áður en byltingin hófst.
Marie Antoinette ásamt þremur af börnunum (fv.) Marie-Thérèse, Louis-Charles og Louis-Joseph.
Á frumdögum byltingarinnar voru afleiðingarnar fyrir konungsfjölskylduna fyrst og fremst þær að völd konungs minnkuðu. Segja má að byltingin hefjist formlega eftir að borgarar réðust á Bastilluna í júlí 1789. Ljóst var að almenningur í Frakklandi sætti sig ekki við annað en að fá valdið í auknum mæli í sínar hendur. Konungur neyddist því til að boða frjálslyndari stjórnarhætti og láta eftir völd, þó hann héldi krúnunni enn um sinn.
Í október 1789 réðst múgur inn í Versalahöll þar sem konungsfjölskyldan bjó og reynt var að ráða drottninguna af dögum. Í kjölfarið var konungsfjölskyldan flutt úr höll sinni og færð yfir í Tulieres-höll í París. Versalir eru spölkorn fyrir utan borgina og var markmiðið með flutningum að minnka bilið milli konungsfjölskyldu og almennings og gera hana ábyrgari gagnvart fólki sínu.
Nú var ekki aftur snúið. Breytingar á stjórnarháttum dugðu lítið til að sefa múginn. Þvert á móti varð byltingin róttækari og fjöldinn stjórnlausari með tímanum. Staða konungs var engan veginn trygg enda voru sumir helstu frömuðir byltingarinnar í grundvallaratriðum á móti konungsveldinu. Ekki bætti úr skák að konungsfjölskyldan naut ekki mikilla vinsælda og var drottningin, Marie Antoinette, sérstaklega umdeild. Í augum margra var hún tákngervingur þess hégómlega og eyðslusama lífsstíls kóngafólks og aðals sem byltingarsinnar fyrirlitu. Var hún jafnvel sökuð um að eiga, með eyðslusemi sinni, stóran þátt í fjárhagskreppu Frakka á þessum tíma.
Brösulega gekk að koma á skipulagi sem allir sættu sig við. Konungur var ekki alls kostar sáttur með stöðu sína. Spennan í París jókst í sífellu og Loðvík var farinn að neyðast til að samþykkja hluti sem gengu gegn vilja hans. Hann hóf því að skipuleggja gagnbyltingaraðgerðir bak við tjöldin. Í júní árið 1791 lagði konungsfjölskyldan á ráðin að flýja frá Frakklandi með það í hyggju að safna liði og endurheimta svo völd sín að fullu. Var förinni heitið til virkisins í Varennes á norð-austanverðum landamærum Frakklands. Sú flóttatilraunin fór þó ekki betur en svo að fjölskyldan var gómuð á miðri leið er upp komst um dulargervi þeirra. Voru þau flutt beinustu leið til baka. Hinn misheppnaði flótti jók enn meir á óvinsældir konungsfjölskylunnar. Nú var litið á þau sem föðurlandssvikara og voru þau sett í strangt stofufangelsi í höllinni í Tulieres við endurkomu til Parísar.
Flóttatilraunin fór ekki betur en svo að fjölskyldan var gómuð á miðri leið er upp komst um dulargervi þeirra. Málverk af handtöku konungsfjölskyldunnar á leið til Varennes.
Yfirlýsing sem Austurríkismenn og Prússar sendu frá sér í júlí 1792 og hafði það markmið að styrkja stöðu konungs, leiddi til þess að það litla traust sem eftir var til krúnunnar fór í vaskinn. Þarna var talin endanleg sönnun komin fyrir þátttöku Loðvíks í samsæri með erlendum öflum gegn eigin landi. Svo fór að konungsfjölskyldan var formlega handtekin 13. ágúst og færð í Temple-fangelsið. Í september 1792 var konungurinn síðan settur af og lýðveldi komið á Frakklandi.
Örlög Loðvíks sextánda urðu þau að hann var dæmdur til lífláts fyrir landráð og tekinn af lífi með fallöxinni 21. janúar 1793. Því sem eftir var af konungsfjölskyldunni var haldið áfram í Temple-fangelsinu við bág kjör. Fram kom sú krafa að hinn átta ára krónsprins, Louis-Charles, yrði endurmenntaður og gerður hliðhollur gildum byltingarinnar. Var hann tekinn frá Marie Antoinette við mikil átök og settur í fóstur. Á fáeinum vikum hafði Louis-Charles snúist gegn móður sinni og leit á hana sem svikara.
Eftir réttarhöld- og aftöku konungs varð stór spurning hver örlög drottningarinnar ættu að verða. Lögðu sumir til aftöku, aðrir að henni yrði skipt út fyrir franska stríðsfanga og enn aðrir útlegð til Ameríku. Smám saman fóru þær raddir er vildu réttarhöld yfir drottningunni að verða háværastar. Úr urðu réttarhöld þar sem Marie-Antoinette var sökuð um hin ýmsu afbrot. Var hún fundin sek um niðurbrot þjóðarbúsins, samsæri gegn öryggi ríkisins og landráð. Refsingin var dauðadómur og hún var líflátin 16. október 1793.
Örlög Loðvíks sextánda urðu þau að hann var dæmdur til lífláts fyrir landráð og tekinn af lífi með fallöxinni 21. janúar 1793. Málverk frá árinu 1793 af Loðvík á leið í fallöxina.
Louis-Charles lést úr veikindum 1795, aðeins tíu ára að aldri. Það var því aðeins elsta dóttir konungshjónanna, Marie-Thérèse-Charlotte, sem lifði byltinguna af. Marie-Thérèse hélt stöðu sinni og varð hertogaynjan af Angoulême. Hún reyndi að halda nafni föður síns á lofti og sóttist eftir því að hann yrði gerður að dýrlingi innan kaþólsku kirkjunnar, en varð ekki að ósk sinni.
Heimildir:
Nanna Katrín Hannesdóttir. „Hvaða afleiðingar hafði franska byltingin á konungsfjölskylduna?“ Vísindavefurinn, 24. júlí 2019, sótt 9. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76763.
Nanna Katrín Hannesdóttir. (2019, 24. júlí). Hvaða afleiðingar hafði franska byltingin á konungsfjölskylduna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76763
Nanna Katrín Hannesdóttir. „Hvaða afleiðingar hafði franska byltingin á konungsfjölskylduna?“ Vísindavefurinn. 24. júl. 2019. Vefsíða. 9. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76763>.