Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Er stéttaskipting á Íslandi?

Guðmundur Ævar Oddsson

Upphaflegu spurningarnar hljóðuðu svona:
  • Eru til upplýsingar eða rannsóknir um stéttaskiptingu á Íslandi?
  • Er ríkjandi stéttaskipting/lagskipting á Íslandi?

Stéttagreining er fræðilegt sjónarhorn sem byggir á rannsóknum á birtingarmyndum stéttaskiptingar. Rannsóknir sýna að stéttaskipting mótar tilveru og afdrif einstaklinga og hópa, félagslegar stofnanir og samfélagsbreytingar. Eins og Erik Olin Wright, einn helsti stéttarannsakandi síðustu áratuga, orðaði það: Stétt er „alltumlykjandi orsakaþáttur og það er vel þess virði að skoða afleiðingar þessa fyrir mörg félagsleg fyrirbæri“ (Wright, 1997:1). Íslenskt nútímasamfélag er hér engin undantekning og hafa margir rannsakað stéttaskiptingu hérlendis með einum eða öðrum hætti.

Stéttaskipting einkennir lagskiptingu nútímasamfélaga fremur en hefðbundinna samfélaga, sem mörkuðust frekar af meðfæddri stöðu og trúarlegum þáttum. Félagsleg lagskipting vísar til kerfisbundins ójafnaðar þar sem hærra skipaðir hópar hafa betri kjör og tækifæri en þeir undirskipuðu. Stéttir eru þekktasta form slíkra lagskiptra stigveldishópa. Stéttir hafa verið til staðar í þúsundir ára en með innreið nútímans varð stéttarhugtakið algert grundvallarhugtak til þess að skilja samfélagið. Sérstaklega mikilvægt í þessum efnum er að samfara iðnbyltingunni og uppgangi kapítalismans ruddu sér til rúms fjölmenn verkamannastétt og samtök sem börðust í nafni stéttarhagsmuna (svo sem stjórnmálaflokkar, stéttarfélög og samtök atvinnurekenda) og knúðu áfram breytingar sem einkenna nútímasamfélög

Fiskverkamenn í aðgerð á Duusplani í Keflavík, 1915. Stéttaandstæður skerptust hérlendis í upphafi 20. aldar þegar stéttarvitund verkafólks efldist.

Stéttarhugtakið lýsir í stuttu máli ójöfnuði og hefur, með nokkurri einföldun, þrenns konar merkingu:
  1. Stéttir sem formgerður efnahagslegur og félagslegur ójöfnuður (sem tengist yfirráðum yfir efnahagslegum gæðum og völdum);
  2. stéttir sem eiginlegt eða mögulegt hreyfiafl í samfélaginu;
  3. stéttir sem tilvísun í virðingarstöðu, stöðuhóp, menningu og lífsstíl.

Fyrsta skilgreiningin er í anda stéttagreiningar Max Webers og lýsir stétt sem hópi einstaklinga sem deilir svipuðum kjörum og tækifærum í markaðssamfélagi og hvernig ójöfnuður endurskapast milli kynslóða. Í kapítalísku samfélagi mótar markaðurinn öðru fremur lífsmöguleika fólks, það er möguleikana til að njóta takmarkaðra gæða. Hér má nefna möguleikana að eignast eigið húsnæði, búa við góða heilsu, geta menntað sig, átt farsælan vinnuferil og svo framvegis. Rannsóknir á íslensku samfélagi sýna að þeir sem eru ofar í stéttakerfinu hafa hærri tekjur, eru líklegri til þess að eiga húsnæði og aðrar eignir, eru ólíklegri til þess að upplifa atvinnuleysi, eru líklegri til þess að ganga menntaveginn, búa almennt við betri heilsu og eru ólíklegri til þess að neita sér um heilbrigðisþjónustu, svo dæmi séu tekin. Ísland var eitt mesta jafnaðarsamfélag heims ef horft er til tekjuskiptingar frá lokum seinni heimsstyrjaldar og fram að miðjum 10. áratugnum. Tekjuójöfnuður jókst hröðum skrefum á uppgangstíma nýfrjálshyggjunnar fram að hruni en minnkaði hratt í kjölfarið. Ójöfnuður atvinnutekna er nú frekar lítill í alþjóðlegum samanburði en eignaójöfnuður er þó nokkur. Eignaskipting er afdrifaríkari fyrir endursköpun stéttaójafnaðar, enda erfast eignir milli kynslóða.

Önnur skilgreiningin á stéttarhugtakinu gengur út frá því að einstaklingar sem búa við sömu kjör og tækifæri (stéttir) hafi sameiginlega hagsmuni af því að rétta sinn hlut eða halda í horfinu. Þessi skilgreining er hornsteinn marxískrar stéttagreiningar, sem kveður á um andstæða hagsmuni fjármagnseigenda og verkafólks. Stéttaandstæður skerptust hérlendis í upphafi 20. aldar þegar stéttarvitund verkafólks efldist og hlutgerðist í vaxandi stéttarfélagsaðild, stofnun verkamannaflokka og harðnandi stéttabaráttu. Íslenska verkalýðshreyfingin hefur ekki haft sama formlega pólitíska styrk og á hinum Norðurlöndunum en hefur með samtakamætti sínum haft umtalsverð áhrif og dregið úr stéttaójöfnuði (samanber launahækkanir, styttingu vinnudagsins, ráðningaröryggi og margvísleg félagsleg réttindi, atvinnuleysis- og heilbrigðistryggingar, líftryggingar og svo framvegi). Rannsóknir sýna að stéttarfélagsaðild hérlendis er sú mesta á heimsvísu (90%), stéttarfélög njóta mikils stuðnings og verkfallstíðni hér á landi er ein sú hæsta meðal OECD-ríkjanna. Á hinum formlega vettvangi stjórnmálanna er fylgni milli stéttarstöðu og kosningahegðunar (þó minni en á árum áður) og Alþingismenn koma frekar úr efri stétt en annars staðar á Norðurlöndum.

Rannsóknir staðfesta að hér á landi sé stéttaskipting, líkt og í öðrum markaðssamfélögum. Stéttaskipting hérlendis er hins vegar minni en víða annars staðar.

Þriðja skilgreiningin útvíkkar stéttarhugtakið og kveður á um að stéttaskipting sé samofin menningu og félagslegum ferlum. Áhrifamesti fræðimaðurinn að þessu leyti er Pierre Bourdieu, sem staðhæfði að stéttarstaða samanstandi af efnahagslegu, menningarlegu og félagslegu auðmagni. Með þetta að leiðarljósi rannsaka fræðimenn hvernig stéttarstaða útsetur einstaklinga og hópa mismunandi með tilliti til neysluhátta, lífsstíls og virðingar. Rannsóknir sýna fram á ýmsan stéttamun hérlendis þegar kemur að menningarlegum þáttum á borð við félagsmótun, uppeldisaðferðir, námsárangur, viðhorf og menningarneyslu. Samkvæmt Bourdieu endurskapar það einnig stéttaójöfnuð hvernig ráðandi stéttir aðgreina sig frá undirskipuðum hópum, svo sem með búsetu og skólavali. Rannsókn sýnir til dæmis hvernig misskipting jókst milli best og verst settu skólahverfanna á höfuðborgarsvæðinu frá 1997 til 2016. Aukin stéttaaðgreining birtist í samþjöppun forréttindahópa í tilteknum skólahverfum og bendir til aukinnar félags- og menningarlegrar stéttaskiptingar, sem gengur hægar til baka en tekjuójöfnuður. Aðrar rannsóknir sýna hvernig framhaldsskólaval er liður í endursköpun stéttarstöðu hjá rótgróinni millistétt og að ólíkur stéttarveruháttur skýri mun á menningarneyslu unglinga.

Rekja má stéttagreiningu á íslensku nútímasamfélagi aftur til miðrar 20. aldar. Stéttagreining náði hins vegar ekki fótfestu hérlendis fyrr en fyrstu félagsfræðingar sneru heim á 8. áratugnum eftir framhaldsnám. Lítil gerjun var í hérlendum stéttarannsóknum næstu áratugina en þó nokkur gróska hefur verið á sviðinu frá hruni. Rannsóknir staðfesta að hér á landi sé stéttaskipting, líkt og í öðrum markaðssamfélögum. Stéttaskipting hérlendis er hins vegar minni en víða annars staðar, ekki síst vegna þess að hið sósíaldemókratíska velferðarskipulag dregur úr stéttaójöfnuði. Íslendingar leggja að sama skapi mikið upp úr jöfnuði en jafnaðarandinn byrgir einnig landsmönnum sýn á stéttaskiptingu samfélagsins. Rannsóknir benda þó til þess að aukinn ójöfnuður á árunum fyrir hrun hafi grafið undan hugmyndum þess efnis að Ísland sé stéttlaust samfélag og aukið vitund um stéttamun. Sérstaklega má rekja aukna vitund um stéttaskiptingu til stóraukins efnahagslegs ójafnaðar á uppgangstíma nýfrjálshyggjunnar fyrir hrun, myndunar áberandi og ofurríkrar stéttar „þverþjóðlegra kapítalista“ og mikillar fjölgunar erlends láglaunafólks. Niðurstöður nýlegrar spurningakönnunar sýna jafnframt að 75% Íslendinga telja að stéttaskipting hafi aukið mikið eða nokkuð mikið síðustu 20 ár.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Guðmundur Ævar Oddsson

dósent við hug- og félagsvísindasvið HA

Útgáfudagur

29.6.2021

Spyrjandi

Davíð Elí Heimisson, Viktor Heiðdal Sigurjónsson

Tilvísun

Guðmundur Ævar Oddsson. „Er stéttaskipting á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 29. júní 2021. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=77352.

Guðmundur Ævar Oddsson. (2021, 29. júní). Er stéttaskipting á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=77352

Guðmundur Ævar Oddsson. „Er stéttaskipting á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 29. jún. 2021. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=77352>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er stéttaskipting á Íslandi?
Upphaflegu spurningarnar hljóðuðu svona:

  • Eru til upplýsingar eða rannsóknir um stéttaskiptingu á Íslandi?
  • Er ríkjandi stéttaskipting/lagskipting á Íslandi?

Stéttagreining er fræðilegt sjónarhorn sem byggir á rannsóknum á birtingarmyndum stéttaskiptingar. Rannsóknir sýna að stéttaskipting mótar tilveru og afdrif einstaklinga og hópa, félagslegar stofnanir og samfélagsbreytingar. Eins og Erik Olin Wright, einn helsti stéttarannsakandi síðustu áratuga, orðaði það: Stétt er „alltumlykjandi orsakaþáttur og það er vel þess virði að skoða afleiðingar þessa fyrir mörg félagsleg fyrirbæri“ (Wright, 1997:1). Íslenskt nútímasamfélag er hér engin undantekning og hafa margir rannsakað stéttaskiptingu hérlendis með einum eða öðrum hætti.

Stéttaskipting einkennir lagskiptingu nútímasamfélaga fremur en hefðbundinna samfélaga, sem mörkuðust frekar af meðfæddri stöðu og trúarlegum þáttum. Félagsleg lagskipting vísar til kerfisbundins ójafnaðar þar sem hærra skipaðir hópar hafa betri kjör og tækifæri en þeir undirskipuðu. Stéttir eru þekktasta form slíkra lagskiptra stigveldishópa. Stéttir hafa verið til staðar í þúsundir ára en með innreið nútímans varð stéttarhugtakið algert grundvallarhugtak til þess að skilja samfélagið. Sérstaklega mikilvægt í þessum efnum er að samfara iðnbyltingunni og uppgangi kapítalismans ruddu sér til rúms fjölmenn verkamannastétt og samtök sem börðust í nafni stéttarhagsmuna (svo sem stjórnmálaflokkar, stéttarfélög og samtök atvinnurekenda) og knúðu áfram breytingar sem einkenna nútímasamfélög

Fiskverkamenn í aðgerð á Duusplani í Keflavík, 1915. Stéttaandstæður skerptust hérlendis í upphafi 20. aldar þegar stéttarvitund verkafólks efldist.

Stéttarhugtakið lýsir í stuttu máli ójöfnuði og hefur, með nokkurri einföldun, þrenns konar merkingu:
  1. Stéttir sem formgerður efnahagslegur og félagslegur ójöfnuður (sem tengist yfirráðum yfir efnahagslegum gæðum og völdum);
  2. stéttir sem eiginlegt eða mögulegt hreyfiafl í samfélaginu;
  3. stéttir sem tilvísun í virðingarstöðu, stöðuhóp, menningu og lífsstíl.

Fyrsta skilgreiningin er í anda stéttagreiningar Max Webers og lýsir stétt sem hópi einstaklinga sem deilir svipuðum kjörum og tækifærum í markaðssamfélagi og hvernig ójöfnuður endurskapast milli kynslóða. Í kapítalísku samfélagi mótar markaðurinn öðru fremur lífsmöguleika fólks, það er möguleikana til að njóta takmarkaðra gæða. Hér má nefna möguleikana að eignast eigið húsnæði, búa við góða heilsu, geta menntað sig, átt farsælan vinnuferil og svo framvegis. Rannsóknir á íslensku samfélagi sýna að þeir sem eru ofar í stéttakerfinu hafa hærri tekjur, eru líklegri til þess að eiga húsnæði og aðrar eignir, eru ólíklegri til þess að upplifa atvinnuleysi, eru líklegri til þess að ganga menntaveginn, búa almennt við betri heilsu og eru ólíklegri til þess að neita sér um heilbrigðisþjónustu, svo dæmi séu tekin. Ísland var eitt mesta jafnaðarsamfélag heims ef horft er til tekjuskiptingar frá lokum seinni heimsstyrjaldar og fram að miðjum 10. áratugnum. Tekjuójöfnuður jókst hröðum skrefum á uppgangstíma nýfrjálshyggjunnar fram að hruni en minnkaði hratt í kjölfarið. Ójöfnuður atvinnutekna er nú frekar lítill í alþjóðlegum samanburði en eignaójöfnuður er þó nokkur. Eignaskipting er afdrifaríkari fyrir endursköpun stéttaójafnaðar, enda erfast eignir milli kynslóða.

Önnur skilgreiningin á stéttarhugtakinu gengur út frá því að einstaklingar sem búa við sömu kjör og tækifæri (stéttir) hafi sameiginlega hagsmuni af því að rétta sinn hlut eða halda í horfinu. Þessi skilgreining er hornsteinn marxískrar stéttagreiningar, sem kveður á um andstæða hagsmuni fjármagnseigenda og verkafólks. Stéttaandstæður skerptust hérlendis í upphafi 20. aldar þegar stéttarvitund verkafólks efldist og hlutgerðist í vaxandi stéttarfélagsaðild, stofnun verkamannaflokka og harðnandi stéttabaráttu. Íslenska verkalýðshreyfingin hefur ekki haft sama formlega pólitíska styrk og á hinum Norðurlöndunum en hefur með samtakamætti sínum haft umtalsverð áhrif og dregið úr stéttaójöfnuði (samanber launahækkanir, styttingu vinnudagsins, ráðningaröryggi og margvísleg félagsleg réttindi, atvinnuleysis- og heilbrigðistryggingar, líftryggingar og svo framvegi). Rannsóknir sýna að stéttarfélagsaðild hérlendis er sú mesta á heimsvísu (90%), stéttarfélög njóta mikils stuðnings og verkfallstíðni hér á landi er ein sú hæsta meðal OECD-ríkjanna. Á hinum formlega vettvangi stjórnmálanna er fylgni milli stéttarstöðu og kosningahegðunar (þó minni en á árum áður) og Alþingismenn koma frekar úr efri stétt en annars staðar á Norðurlöndum.

Rannsóknir staðfesta að hér á landi sé stéttaskipting, líkt og í öðrum markaðssamfélögum. Stéttaskipting hérlendis er hins vegar minni en víða annars staðar.

Þriðja skilgreiningin útvíkkar stéttarhugtakið og kveður á um að stéttaskipting sé samofin menningu og félagslegum ferlum. Áhrifamesti fræðimaðurinn að þessu leyti er Pierre Bourdieu, sem staðhæfði að stéttarstaða samanstandi af efnahagslegu, menningarlegu og félagslegu auðmagni. Með þetta að leiðarljósi rannsaka fræðimenn hvernig stéttarstaða útsetur einstaklinga og hópa mismunandi með tilliti til neysluhátta, lífsstíls og virðingar. Rannsóknir sýna fram á ýmsan stéttamun hérlendis þegar kemur að menningarlegum þáttum á borð við félagsmótun, uppeldisaðferðir, námsárangur, viðhorf og menningarneyslu. Samkvæmt Bourdieu endurskapar það einnig stéttaójöfnuð hvernig ráðandi stéttir aðgreina sig frá undirskipuðum hópum, svo sem með búsetu og skólavali. Rannsókn sýnir til dæmis hvernig misskipting jókst milli best og verst settu skólahverfanna á höfuðborgarsvæðinu frá 1997 til 2016. Aukin stéttaaðgreining birtist í samþjöppun forréttindahópa í tilteknum skólahverfum og bendir til aukinnar félags- og menningarlegrar stéttaskiptingar, sem gengur hægar til baka en tekjuójöfnuður. Aðrar rannsóknir sýna hvernig framhaldsskólaval er liður í endursköpun stéttarstöðu hjá rótgróinni millistétt og að ólíkur stéttarveruháttur skýri mun á menningarneyslu unglinga.

Rekja má stéttagreiningu á íslensku nútímasamfélagi aftur til miðrar 20. aldar. Stéttagreining náði hins vegar ekki fótfestu hérlendis fyrr en fyrstu félagsfræðingar sneru heim á 8. áratugnum eftir framhaldsnám. Lítil gerjun var í hérlendum stéttarannsóknum næstu áratugina en þó nokkur gróska hefur verið á sviðinu frá hruni. Rannsóknir staðfesta að hér á landi sé stéttaskipting, líkt og í öðrum markaðssamfélögum. Stéttaskipting hérlendis er hins vegar minni en víða annars staðar, ekki síst vegna þess að hið sósíaldemókratíska velferðarskipulag dregur úr stéttaójöfnuði. Íslendingar leggja að sama skapi mikið upp úr jöfnuði en jafnaðarandinn byrgir einnig landsmönnum sýn á stéttaskiptingu samfélagsins. Rannsóknir benda þó til þess að aukinn ójöfnuður á árunum fyrir hrun hafi grafið undan hugmyndum þess efnis að Ísland sé stéttlaust samfélag og aukið vitund um stéttamun. Sérstaklega má rekja aukna vitund um stéttaskiptingu til stóraukins efnahagslegs ójafnaðar á uppgangstíma nýfrjálshyggjunnar fyrir hrun, myndunar áberandi og ofurríkrar stéttar „þverþjóðlegra kapítalista“ og mikillar fjölgunar erlends láglaunafólks. Niðurstöður nýlegrar spurningakönnunar sýna jafnframt að 75% Íslendinga telja að stéttaskipting hafi aukið mikið eða nokkuð mikið síðustu 20 ár.

Heimildir:

Myndir:...