Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eyja Margrét Brynjarsdóttir er prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar á síðustu árum hafa verið innan félagslegrar heimspeki, einkum félagslegrar frumspeki og félagslegrar þekkingarfræði, auk femínískrar heimspeki. Meðal annars hefur hún fengist við heimspeki peninga, bæði frá frumspekilegu og félagslegu sjónarhorni, stýrði verkefninu Veruleiki peninga sem styrkt var af Rannsóknasjóði 2015 til 2017 og sendi í framhaldi af því haustið 2018 frá sér bókina The Reality of Money: The Metaphysics of Financial Value sem gefin er út af Rowman and Littlefield International. Í framhaldi af því sem hún fjallaði um í bókinni er hún um þessar mundir að skoða ýmislegt sem varðar efnahagslegan ójöfnuð, verðleikahugtakið og eignarhald á peningum.
Rannsóknir Eyju Margrétar Brynjarsdóttur á síðustu árum hafa verið innan félagslegrar heimspeki, einkum félagslegrar frumspeki og félagslegrar þekkingarfræði, auk femínískrar heimspeki.
Eyja stundar jafnframt rannsóknir á valdatengslum samfélagshópa, bæði frá frumspekilegu og þekkingarfræðilegu sjónarhorni, og skoðar meðal annars þekkingarlegt ranglæti og þekkingarlegar og tilfinningalegar afvegaleiðingar, sérstaklega með tilliti til valdamisræmis í samfélaginu, og er til dæmis að skoða sérstaklega svokallaða gaslýsingu og hvernig hún er notuð með kerfislægum hætti gegn valdalitlum hópum til að viðhalda valdamisræmi. Eyja hefur birt greinar bæði innanlands og utan- um stöðu kvenna og annarra jaðarsettra hópa innan heimspekihefðarinnar, auk þess að fjalla um túlkun og útfærslu heimspekihefða, svo sem pólitíska túlkun rökgreiningarheimspeki. Hún hefur einnig fjallað um efni á borð við gagnrýna hugsun og vísindatúlkun, með áherslu á jaðarsetta hópa sem handhafa þekkingar.
Eyja hefur verið ritstjóri Hugar, tímarits um heimspeki, Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar HÍ, og Lærdómsrita Bókmenntafélagsins. Hún hefur haldið fjölda erinda um rannsóknir sínar á ráðstefnum og sem gestafyrirlesari hjá háskólum víða um heim og leggur mikið upp úr rannsóknarsamstarfi við fræðimenn erlendis. Hún dvaldi sem gestafræðimaður við Centre for the Study of Mind in Nature hjá Oslóarháskóla vorið 2011 og við málvísinda- og heimspekideild Massachusetts Institute of Technology haustið 2016.
Eyja er fædd í Reykjavík árið 1969. Hún lauk stúdentsprófi af eðlisfræðibraut Menntaskólans við Hamrahlíð 1988 og lagði fyrst stund á nám í stærðfræði og píanókennslu áður en hún rataði í heimspekinám. Hún lauk BA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands 1993, MA-prófi í heimspeki frá Cornell University 1997 og Ph.D-prófi í heimspeki frá sama skóla 2007 með ritgerðinni „Instances of Instantiation: Distinguishing Between Subjective and Objective Properties,“ sem fellur undir frumspeki, hugspeki og þekkingarfræði.
Eyja hefur tekið virkan þátt í ýmsum samfélagsstörfum tengdum vísindum og fræðum og skrifað pistla sem birst hafa á almennum vettvangi. Hún er í stjórn Vísindafélags Íslendinga, sem hefur verið öflugt í vísindamiðlun á síðustu árum, var einn af aðstandendum #MeToo-átaks kvenna í vísindum og hefur að undanförnu haldið erindi og lagt stund á greinaskrif um #MeToo-tengd málefni frá heimspekilegu sjónarhorni.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Eyja Margrét Brynjarsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn, 16. október 2019, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78146.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2019, 16. október). Hvað hefur vísindamaðurinn Eyja Margrét Brynjarsdóttir rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78146
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Eyja Margrét Brynjarsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn. 16. okt. 2019. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78146>.