Hvernig og hvar flokkast SWAPO-flokkurinn í Namibíu? Er hann vinstri flokkur eða er hann hægri flokkur eða er hann eitthvað annað?Skammstöfunin SWAPO stendur fyrir 'South West African People‘s Organization' en það er nafn á ráðandi stjórnmálaflokki í Namibíu. Upphaflega var SWAPO hreyfing sem stofnuð var árið 1960 og barðist fyrir sjálfstæði landsins frá Suður-Afríku. Hreyfingin beitti skæruhernaði í baráttunni og hafði meðal annars stuðning frá Angóla og Sovétríkjunum. Hugmyndafræði SWAPO var í fyrstu marxísk-lenínísk en nú segjast talsmenn SWAPO vera fylgjandi lýðræðislegum sósíalisma og flokkurinn er til að mynda fullgildur meðlimur í Alþjóðasambandi jafnaðarflokka. Skipulag SWAPO-flokksins dregur enn dám af skipulagi kommúnistaflokka og innan vébanda hans starfar svonefnt politburo eða stjórnarnefnd, auk miðstjórnar. SWAPO-flokkurinn hefur verið ráðandi í Namibíu allt frá sjálfstæði landsins árið 1990. Hlutverk flokksins í sjálfstæðisbaráttunni gaf honum forskot sem flokksmenn hafa nýtt til að koma sér vel fyrir í stjórnkerfinu og útiloka aðra. Fylgi flokksins hefur aukist við hverjar kosningar og árið 2014 var það rétt tæp 87%. Yfirburðarstaða SWAPO er meðal annars tilkomin vegna þess að stjórnarandstöðuflokkum er gert erfitt að starfa. SWAPO-flokkurinn styður einkaeign í bland við ríkisrekstur, svonefnt blandað hagkerfi. Í stjórnarskrá Namibíu er sérstaklega tekið fram að hagkerfi landsins skuli vera blandað. Rétt er að taka fram að SWAPO er ekki aðeins stjórnarflokkur heldur fjármagnar hann sig einnig í gegnum viðskipti og á meðal annars hlut í ýmsum fyrirtækjum. Stór hluti lands í Namibíu er í einkaeigu og hefur svo verið um langa hríð. Þrátt fyrir meintar tilraunir ríkisstjórnarinnar til að kaupa þetta land og dreifa eignarhaldinu, hefur lítið þokast í þeim efnum. Margir hafa bent á að stefna SWAPO-flokksins hafi færst töluvert í átt að nýfrjálshyggju í seinni tíð. Stjórnarandstöðuflokkar hafa beitt sér fyrir auknum aðgangi að milliliðalausri ríkisrekinni heilbrigðisþjónustu í aðdraganda kosninganna 2019. Hagkerfi Namibíu byggist að miklu leyti á fiskútflutningi og vinnslu jarðefna. Mikill vöxtur innan þessara greina hefur ekki skilað sér til óbreyttra borgara í Namibíu og þar er mikil fátækt. Samkvæmt opinberum tölum búa 17,4% landsmanna við fátækt. Árið 2014 bjuggu rúm 41% landsmanna í kofum. Namibíski stjórnmálafræðingurinn Job Shipululo Amupanda hefur haldið því fram að hagkerfi Namibíu sé ekki blandað heldur sé það eiginlegt nýfrjálshyggjuhagkerfi. Það getur verið erfitt að að skilgreina flokka á ás vinstri og hægri, sérstaklega í landi þar sem einn og sami flokkurinn hefur verið við völd í rúm 30 ár. Við slíkar aðstæður gefst lítið færi á samanburði við stefnur annarra flokka og því þarf að líta til stöðu hagkerfisins og stefnu ríkisins sem slíks. Mörg ríki í Afríku sem hlutu sjálfstæði á sjöunda til níunda áratug síðustu aldar eru í höndum flokka sem telja má sambærilega við SWAPO. Þetta eru stjórnarflokkar sem hafa notið mikils stuðnings allt frá stofnun lýðveldis. Í fyrstu var hugmyndafræði margra þeirra af marxískum toga en samfara hræringum í alþjóðasamfélaginu hafa þeir smám saman færst til hægri á vinstri/hægri-ásnum. SWAPO-flokkurinn ber ýmis merki nýfrjálshyggju en í honum má einnig greina sósíalískar rætur. Flokkurinn hefur forðast að skilgreina stefnu sína á síðustu árum, en fræðimenn hafa haldið því fram að stjórnarfar landsins einkennist af nýfrjálshyggju. Því er réttmætt að skilgreina flokkinn sem miðjuflokk sem hallast til hægri. Heimildir:
- Amupanda J.S. (2017). Constitutionalism and principles of economic order.Examining Namibia’s ‘mixed economy’ and the economic asylum of neoliberalism. Journal of Namibian studies, 21. (Sótt 18.11.19).
- B. Everill, J. Kaplan (2013) The History and Practice of Humanitarian Intervention and Aid in Africa bls. 165. (Sótt 22.11.19).
- Bank of Namibia. (2009). 11th annual symposium 2009: Privatisation, from Public Ownership to Private Ownership. (Sótt 22.11.19).
- The Commonwealth. Namibia: Economy. (Sótt 22.11.19).
- Monyani M. (2018, 25. maí). One Party State: Is It Good or Bad for Governance? E-International Relations. (Sótt 22.11.19).
- Neo-colonialism haunts Namibia (2014, 11. nóvember). The Namibian. (Sótt 18.11.19).
- Ngatjiheue C. (2019, 2. ágúst). Severe poverty still haunts Namibians The Namibian . (Sótt 25.11.19).
- PDM promises to make Namibia great again (2018, 25. maí). NBC Namibia. (Sótt 18.11.19).
- Pohamba: Namibia at the crossroads (2012, 20. október). Al Jazeera. (Sótt 25.11.19).
- Timothy Dauth. (1995) From Liberation Organisations to Ruling Parties: The ANC and SWAPO in Transition, NamNet Digest. (Sótt 13.11.19).
- World Bank: Namibia. (Sótt 25.11.19).
- Harald Süpfle. Titenpalast in Windhoek. (Sótt 25.11.19).
Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Stefaníu Óskarsdóttur, dósent í stjórnmálafræðideild við HÍ, fyrir yfirlestur og gagnlegar athugasemdir við svarið.