Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Aðventa eða jólafasta hefst á fjórða sunnudegi fyrir jóladag og stendur því sem næst fjórar vikur. Bæði orðin, aðventa (kvk.) og jólafasta (kvk.), um þennan tíma hafa tíðkast í íslensku frá fornu fari eins og dæmi í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn (ONP) vitna um.
Hakon konvngr for til Biorgyniar fyrir iolaforsto ok efnaði þar til mikillar iolaveizlo. (AM 45 fol.; c1300–1325)
skal ok lysa aa prestamoti huersu fasta ok aduenta kemr a þeim .xij. manadom (AM 350 fol.; c1363)
Þessi orð tengjast kirkjuárinu. Eins og títt er um samheiti eiga þau sér ólíkan uppruna. Orðið jólafasta er samsett orð með íslenskum orðliðum. Síðari liðurinn, -fasta, merkir sem kunnugt er ‘það að neyta ekki (ákveðins) matar eða drykkjar’ og svarar til sagnarinnar að fasta í sömu merkingu enda voru vikurnar fyrir jól föstutími í kaþólskum sið. Samheitið aðventa er aftur á móti gamalt tökuorð og á rætur í latneska orðinu adventus ‘koma (Krists)’. Hliðstæð orð eru notuð í skyldum málum, til dæmis dönsku advent, ensku Advent, þýsku Advent og frönsku l‘Avent.
Aðventukrans eða jólaföstukrans?
Dæmi í safni ONP og Ritmálssafni Orðabókar Háskólans (ROH) gætu bent til þess að lengst af hafi orðið jólafasta verið algengara en aðventa (55 á móti 13 dæmum í ONP, 5 á móti 2 í ROH) þótt óvarlegt sé að taka dæmafjölda í slíkum söfnum sem öruggan vitnisburð um tíðni orðanna og það kemur raunar á óvart hversu fá dæmi um þessi orð eru í ritmálssafninu. Leit í textasöfnum dregur upp skýrari mynd og bendir til þess að hlutfallsleg tíðni orðanna hafi breyst á síðari árum. Í vefsafninu Tímarit.is, sem geymir heildartexta íslenskra blaða og tímarita allt frá því að sú útgáfa hófst á síðari hluta 18. aldar, eru næstum þrefalt fleiri dæmi um orðið aðventa en um jólafasta. Þegar betur er að gáð kemur aftur á móti í ljós að fram til 1980 er jólafasta algengara orðið en þá verður viðsnúningur og eftir það eru langtum fleiri dæmi um aðventa. Svipað mynstur kemur fram við leit í Íslensku textasafni þar sem bæði eru eldri og yngri textar. Myndin sýnir þessa þróun eins og hún birtist í blöðum og tímaritum.
Í tveimur stórum málheildum með textum frá síðustu tveimur áratugum eru margfalt fleiri dæmi um aðventa en um jólafasta sem staðfestir enn frekar þessa þróun.
Bæði orðin hafa getið af sér fjölda samsettra orða og þótt færri dæmi séu um orðið aðventa en um jólafasta í ritmálssafninu þá hefur það vinninginn þegar kemur að fjölda samsettra orða. Áhugavert er að skoða samsetningarnar og merkingu samsettu orðanna sem má skipta í nokkra flokka. Sum orðin fela í sér tímaviðmið: jólaföstubyrjun, aðventuinngangur/jólaföstuinngangur, aðventuleyti/jólaföstuleyti. Önnur vísa til veðurlags: aðventubylur/jólaföstubylur, jólaföstuhríð, jólaföstuhúm. Enn önnur tengjast aðventunni sem hluta af kirkjuárinu: aðventuboðskapur, jólaföstuhugleiðing. Eins og sjá má eru iðulega dæmi um orðapör þar sem bæði samheiti koma fyrir sem fyrri liður með sama seinni lið. Þetta á þó ekki við um orðin aðventukaffi og aðventukaka enda samrýmist merking þeirra illa orðinu (jóla)fasta. Þá hefur einungis eitt dæmi fundist um orðið jólaföstukrans, í Þjóðviljanum 1988, þótt auðvelt sé að finna þúsundir dæma um aðventukrans og í umræddri grein koma reyndar bæði orðin fyrir.
Líklega eru það fleiri sem belgja sig út af mat en fasta síðustu vikur fyrir jól.
En hvernig stendur á því að aðventa hefur tekið við af jólafasta sem algengasta orðið um þennan tíma árs? Um það verður ekkert sagt með vissu en tvennt kemur upp í hugann sem gæti átt þátt í þessum viðsnúningi. Í fyrsta lagi er orðið aðventa hliðstæða við þau orð sem notuð eru í nágrannamálunum og það kann að hafa haft áhrif, enda eru margir siðir og venjur sem tengjast aðventunni aðfengin, þar á meðal að setja upp aðventukransa og aðventuljós eins og gert er á fjölmörgum heimilum í aðdraganda jóla. Í öðru lagi rímar orðið jólafasta illa við veisluhöld og skemmtanir sem nú eru víða fastur liður á aðventu á vinnustöðum og í vinahópum.
Heimildir og myndir:
Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. (Líka birt á vefgáttinni málið.is.)
Íslenskt textasafn. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík.
Ásta Svavarsdóttir. „Eru jólafasta og aðventa það sama?“ Vísindavefurinn, 24. desember 2019, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78412.
Ásta Svavarsdóttir. (2019, 24. desember). Eru jólafasta og aðventa það sama? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78412
Ásta Svavarsdóttir. „Eru jólafasta og aðventa það sama?“ Vísindavefurinn. 24. des. 2019. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78412>.