Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Árið 1602 veitti Danakonungur kaupmönnum í þrem dönskum borgum einkaleyfi til að versla við Íslendinga. Konungur vildi að ágóði af versluninni rynni í vasa Dana en ekki erlendra kaupmanna. Bjóða skyldi landsmönnum nóg af falslausri erlendri vöru á sanngjörnu verði í tilteknum höfnum.
Breytingin vakti ekki hrifningu hér. „Urðu þá mikil og vond umskipti til kauphöndlunar, þó passbréf þeirra væri öllu gott af konginum gefið,“ sagði Björn Jónsson á Skarðsá, sem fæddur var 1574. Íslendingar kvörtuðu undan versluninni og héldu áfram að eiga viðskipti við Englendinga þegar færi gáfust, þó að ströng viðurlög lægju við því. Hvort tveggja bendir til þess að kjör landsmanna hafi versnað við þessa breytingu. Þegar frá leið töldu þó margir, bæði Íslendingar og Danir, að þetta væri eina formið sem til greina kæmi á viðskiptum við landið. Fáir mundu versla hér ef þeim væri ekki tryggður einkaréttur til þess.
Árið 1602 veitti Kristján 4. Danakonungur kaupmönnum í þrem dönskum borgum einkaleyfi til að versla við Íslendinga. Málverkið er af krýningarathöfn Kristjáns 4. árið 1594, eftir danska raunsæismálarann Otto Bache, frá árinu 1887.
En á 18. öld lagðist tíðarandinn á sveif með frjálsari viðskiptum og áhrif þess sjást í skrifum um Ísland. Hans Becker, danskur maður sem vann um tíma fyrir Árna Magnússon handritasafnara, sagði árið 1736 að eitthvað hlyti að vera bogið við það að konungur hefði ekki miklu meiri tekjur af jafnstóru landi og Íslandi en Salthólma á Eyrarsundi. Skýringin hlyti að liggja í óhagstæðum verslunarháttum.[1] Christian Detlev von Eggers, ritari Landsnefndarinnar síðari, kemst að svipaðri niðurstöðu í riti sínu um Ísland árið 1786. Hann segist þar vilja sýna „dapurlegt dæmi um skaðleg áhrif einokunarverslunar“.[2] Eggers rekur kvartanir landsmanna undan háu verði á erlendri vöru og litlum vörugæðum. Hag landsins hafi hrakað um langa hríð.[3] Losna verði við það mein sem hafi valdið hungurdauða í landi sem sé ríkt frá náttúrunnar hendi. Einokunarverslunina verði að afnema og leyfa viðskipti við alla þegna Danakonungs í Evrópu.[4]
Tíu árum áður sagði hagfræðingurinn Adam Smith í Auðlegð þjóðanna að besta leiðin til þess að hefta vöxt nýlendna væri að fela verslun við þær einu fyrirtæki. Það skaðaði bæði nýlendurnar og móðurlöndin. Smith styður ályktanir sínar með dæmum. Meðal annars segir hann að hagvöxtur hafi verið lítill í nýlendum Dana í Vestur-Indíum meðan viðskipti við þær og raunar öll stjórn þeirra voru í höndum verslunarfélags, en hagur nýlendnanna sé í blóma eftir að félagið var leyst upp og hömlum létt af versluninni.[5]
Árið 1787 var verslun við Ísland gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs. Fullu verslunarfrelsi var komið á 1854. Jón Sigurðsson beitti sér manna mest fyrir því. Hann lagði mat á tjón Íslendinga af einokunarversluninni, en Gísli Gunnarsson sagnfræðingur gerði ýmsar athugasemdir við útreikninga hans.[6] Ýmsir annmarkar hljóta að vera á slíkum reikningum. Einokun hefur til dæmis í för með sér allratap: Tap Íslendinga er meira en ágóði Dana. Þá er erfitt að setja hagtölur frá þessum tíma í samhengi. Tölur um fólksfjölda gefa sennilega besta hugmynd um hagvöxt á þessum tíma. Góð gögn eru um fólksfjölda á Íslandi frá 1703 og nokkru síðar frá öðrum norrænum löndum.
Tafla. Fólki fjölgaði hægar á Íslandi en í öðrum norrænum löndum á einokunartímanum. Taflan sýnir meðalfjölgun á ári.
Tímabil
Svíþjóð
Finnland
Danmörk
Noregur
Ísland
1700-1780, áætlað að hluta
0,44 %
0,33%
0,22%
0,40%
0,03%
1750-1780
0,6%
1,5%
-
0,7%
0,2%
1790-1850
0,8%
1,4%
0,9%
0,9%
0,7%
1850-1900
0,8%
1,0%
1,1%
1,0%
0,5%
1900-2000
0,5%
0,7%
0,8%
0,7%
1,3%
Heimildir: Tacitus, Population of Scandinavia, sótt af: Tacitus.nu, mannfjöldatölur utan Íslands fyrir 1750 eru áætlaðar. Eigin útreikningar.
Á níunda áratug 18. aldar fækkaði Íslendingum vegna Skaftárelda og Móðuharðinda. Því er aðeins horft á mannfjölgun til ársins 1780, þótt einokunin hafi lifað til 1787. Hafa verður fyrirvara á tölum frá árunum 1700-1780 fyrir önnur lönd en Ísland, því að mannfjöldi þar er áætlaður í upphafi.[7] Ekki er alltaf horft á jafnlangt tímabil. En hér sker Ísland sig greinilega úr. Fólki fjölgar nánast ekkert. Í næstefstu línunni er horft á tímabilið 1750-1780. Alls staðar er stuðst við opinberar tölur. Mannfjölgun er langminnst á Íslandi, þótt munurinn sé minni en í efstu línunni.
Eftir 1790 fjölgar Íslendingum hraðar en áður, en að vísu hægar en grannþjóðunum fram til 1900. Tölurnar sanna auðvitað ekkert um áhrif einokunarinnar. Munur á mannfjölgun frá einu landi til annars ræðst til dæmis að nokkru af því hvenær drepsóttir ganga. Kannski fór sóttvörnum meira fram á Íslandi á árunum 1780-1790 en í öðrum löndum. En tölurnar eru í ágætu samræmi við orð Eggers um drunga í íslensku efnahagslífi á einokunartímanum og þau ummæli Adams Smiths að fátt dragi meira úr hagvexti en það að fela verslun við land einu félagi. Nú á dögum greinir hagfræðinga á um margt, en meðal þess sem þeir eru helst sammála um er að hömlur á viðskipti þjóða dragi úr velferð.[8]Tilvísanir:
^ Jón J. Aðils, 1919, Einokunarverzlun Dana á Íslandi, útg. Verzlunarráð Íslands, Reykjavík, bls. 634-636.
^ Christian Ulrich Detlev von Eggers, 1786, Philosophische Schilderung der gegenwärtigen Verfassung von Island, Altona, gedruckt von J.D. A. Eckhardt, Kön. Dan. priv. Buchdr. Leipzig in Commission bei J.S. Heinfius. bls. 4-5.
^ Adam Smith, 1776, An Inquiry in the nature and causes of the Wealth of Nations. An electronic Classics Series Publication, bls. 460 og 464 og áfram, bls. 359 og bls. 512-514. Sótt af: Wealth-Nations (rrojasdatabank.info)
^ Gísli Gunnarsson,1987, Upp er boðið Ísaland, útg. Örn og Örlygur hf., bls. 243-247.
^ Tacitus, Population of Scandinavia, sótt af: Tacitus.nu
Upprunalega spurningin hljóðaði svona: Hversu slæm var danska einokunarverslunin raunverulega fyrir Ísland og hvaða langtímaáhrif hafði hún fyrir Ísland?
Sigurður Jóhannesson. „Hversu slæm var einokunarverslunin raunverulega fyrir Ísland?“ Vísindavefurinn, 30. ágúst 2024, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79868.
Sigurður Jóhannesson. (2024, 30. ágúst). Hversu slæm var einokunarverslunin raunverulega fyrir Ísland? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79868
Sigurður Jóhannesson. „Hversu slæm var einokunarverslunin raunverulega fyrir Ísland?“ Vísindavefurinn. 30. ágú. 2024. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79868>.