Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær var farið að halda uppboð á Íslandi og hvernig þróuðust þau?

Arnheiður Steinþórsdóttir

Því miður eru rannsóknir á sögu uppboða á Íslandi af skornum skammti og því er ekki hægt að svara spurningunni án þess að gera grein fyrir því að saga þeirra sé að miklu leyti gloppótt eins og staðan er í dag. Svarið tekur því mið af yfirstandandi rannsókn minni þar sem áhersla er lögð á opinber uppboð á persónulegum eigum einstaklinga á 18. og 19. öld, sem einungis er hluti þeirra uppboða sem hér voru haldin.

Í gömlum íslenskum lagatextum á borð við Grágás, Járnsíðu og Jónsbók er ekki fjallað um uppboð með beinum hætti sem bendir til þess að slíkar dómsgjörðir hafi ekki tíðkast á fyrstu öldum Íslandssögunnar. Opinber uppboð má rekja til konunglegrar tilskipunar sem sett var í Danmörku og Noregi 19. desember 1693. Sú tilskipun tók aldrei formlega gildi hér á landi en uppboðshaldarar, sem yfirleitt voru sýslumenn eða hreppstjórar, lögðu hana til grundvallar fram eftir 18. öld. Þar voru meðal annars ákvæði um uppboðsskilmála, hvernig auglýsingu uppboða skildi háttað og að sýslumönnum væri gert að halda sérstakar uppboðsbækur.[1]

Elstu varðveittu uppboðsbækurnar eru frá Húnavatnssýslu (1789), Rangárvallasýslu (1785) og Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu (1797) en þar hafa sýslumennirnir líklega tekið upp á því sjálfir að halda uppboð að norskri og danskri fyrirmynd með löggjöfina frá 1693 til hliðsjónar. Fram að því virðist skráning uppboða að mestu finnast í dómabókum sýslumanna en einnig í skjalasafni Kansellíis og Rentukammers. Uppboðum á persónulegum eigum einstaklinga, það er uppboðum á dánarbúum og þrotabúum, fjölgaði í kjölfar þess að sýslumenn tóku að halda uppboðsbækur (sjá töflu 1). Líklega felst skýringin á þessari breytingu í því að 5. bók Norsku laga Kristjáns V. konungs um erfðareglur tók gildi hér á landi árið 1769. Norsku erfðareglurnar urðu forsenda þess að sýslumenn fóru að skrifa upp og verðmeta dánarbú einstaklinga.[2] Í 5. grein 2. kafla erfðareglnanna (5-2-5) kom eftirfarandi fram:
Koma erfingjar ekki í rétta tíð, þá setur yfirvaldið arfinn í geymslu hjá fullveðja mönnum, svo sem það sjálft vill tilsvara. En það af lausafé, sem með tímanum kann auðveldlega skemmast eður koma búinu til kostnaðar. Það skal yfirvaldið strax láta gera að peningum erfingjunum til besta.[3]

Hér er vísað í þýðingu Magnúsar Ketilssonar (1732-1803), sýslumanns í Dalasýslu, á Norsku lögunum sem kom út árið 1779. Í skýringu við 5. grein sagði Magnús að erlendis fari þessi sala fram við uppboð sem fátíð væru hér á landi.

Ár
Fjöldi
1701-1780 9
1781-180083
1801-1810257
1811-1820300
1821-1830509
1831-18401109
1841-18501593
1851-18601774
1861-18701871
1871-18801501
1881-18901372
1891-19001260

Tafla 1. Fjöldi uppboða á persónulegum eigum einstaklinga á 18. og 19. öld.

Áfram var lagaleg óvissa um þessi mál og gagnrýndi Magnús Stephensen (1762-1833), lögmaður og síðar dómsstjóri í háyfirrétti, það harðlega í grein árið 1798. Greinin snerist um réttmæti þess að selja arfahlut ómyndugra einstaklinga á uppboði og taldi hann sýslumenn fara út fyrir sitt valdsvið með því að gera slíkt. Hann sagði ótækt að tilskipun frá 1693 hefði verið yfirfærð á íslenskt samfélag þar sem ýmislegt sem þar kæmi fram ætti ekki við íslenskar aðstæður. Ísland væri til að mynda mun strjálbýlla en nágrannalöndin og því ekki hægt að tryggja að hlutir gengju upp í verðmæti sitt á uppboði ef kaupendur væru fáir. Því gætu erfingjar átt á hættu að tapa stórlega á því ef dánarbú væru seld á uppboði. Magnúsi þótti mikilvægt að löggjöf um uppboð yrði útfærð fyrir íslenskt samfélag og að tekið væri tillit til þeirra sem mestan hag hefðu af því að uppboð færu skynsamlega fram, það er ómyndugir erfingjar látinna einstaklinga.[4]

Árið 1818 var skerpt á lögum um uppboð og barst konungleg tilskipun þess efnis til Landsyfirréttarins þann 3. ágúst sama ár. Sú tilskipun sneri að uppboðum á dánar- og þrotabúum einstaklinga og í kjölfarið tók slíkum uppboðum að fjölga á ný (sjá töflu 1).[5] Á fyrstu áratugum 19. aldar varð sífellt algengara að sýslumenn héldu uppboðsbækur en það var enn misjafnt á milli sýslna. Árið 1830 var lögð fram „Aukatekju-reglugjörð fyrir réttarins þjóna á Íslandi“ en það var í fyrsta sinn sem almennilegar og heildstæðar reglur voru settar um greiðslur til embættismanna á Íslandi.[6] Í 5. kafla reglugerðarinnar var fjallað um greiðslur vegna uppboðshalds og jafnframt skerpt á gildandi reglum um framkvæmd uppboða. Í framhaldinu fjölgaði uppboðum gífurlega á ný (sjá töflu 1) enda var uppboðshald og skráning uppboða í uppboðsbækur orðið hluti af hefðbundnum störfum sýslumanna. Auk uppboðsbóka eru einnig varðveitt fylgiskjöl uppboða sem ýmist voru uppboðsskilmálar, auglýsingar, uppskriftir búa og fleira.[7]

Mynd 1. Hér má sjá brot úr uppboði á dánarbúi Vilhelmínu Lever (1802-1879) sem haldið var á Akureyri árið 1879.

Uppboðsbækur og fylgiskjöl þeirra eru afar áhugaverðar heimildir sem gefa góða mynd af þróun og fjölbreytni opinberra uppboða hér á landi. Upplýsingarnar sem þar koma fram við hvert uppboð eru meðal annars tilefni uppboðsins, dag- og staðsetning, uppboðsskilmálar, staðsetning auglýsinga og nöfn votta. Því næst eru hlutirnir sem til sölu eru listaðir upp auk virðingar ef við á. Við hlið þeirra eru skráð sú upphæð sem hluturinn seldist á auk nafn kaupanda.[8]

Af uppboðum á persónulegum eigum einstaklinga má auk dánarbúa og þrotabúa nefna uppboð sem haldin voru í kjölfar hjónaskilnaðar, við flutninga eða á eigum dæmdra sakamanna, jafnvel á eigum fátækra einstaklinga sem skulduðu hreppnum. Fleira leynist þó í bókunum en uppboð sem tengjast einstaklingum beint. Skráð eru uppboð á vogreki, hvalrekum, ónýtum lagerum kaupmanna eða þrotabúi þeirra, fasteignum og á strönduðum skipum.[9] Ljóst er að ólíkar uppboðshefðir hafa myndast á milli landsvæða, en þar hefur fólksfjöldi eflaust spilað stórt hlutverk. Fjölmörg uppboð voru til að mynd haldin í Reykjavík á árunum 1860-1900 sem mörg voru afar fjölsótt og eru uppboðsbækurnar frá þessum tíma 16 talsins. Á sama tímabili eru einungis 5 uppboðsbækur varðveittar í skjalasafni sýslumannsins í Suður-Múlasýslu.

Mynd 2. Uppboð á Eyrarbakka árið 1905. Ljósmyndari: Magnús Gíslason (1881-1969).

Ein tegund uppboða sem lítt eru rannsökuð eru svokölluð niðurboð. Þar var framfærsla ómaga sett á uppboð og forsjá þeirra falin þeim sem óskuðu eftir minnstu meðlagi sveitarsjóðs. Líkt og Gísli Ágúst Gunnlaugsson bendir á þá hefur slík meðferð eflaust haft mikil áhrif á fólk en til eru margar hörmungarsögur af börnum „sem aldrei náðu sér á líkama og sál eftir slíkt uppfóstur og dæmi eru þess að matarskortur og ill meðferð hafi beinlínis leitt til dauða þurfamanna, sem settir voru niður með þessum hætti.“[10] Uppboð af þessu tagi virðast ekki varðveitast í uppboðsbókum sýslumanna og er frekari rannsókna þörf á þessu fyrirkomulagi.

Uppboð héldu áfram að tíðkast á 20. öld og eiga margir minningar af fjörugum viðburðum þar sem eigur fólks í sveit eða þéttbýli voru boðnar upp í fjölmenni. Í dag eru uppboð enn í höndum sýslumanna en algengara er þó að heyra af uppboðum af allt öðrum toga. Þar má helst nefna listaverkauppboð, uppboð á ríkisskuldabréfum, auglýsingaplássi á Google og margt fleira.[11]

Tilvísanir:
  1. ^ Lovsamling for Island. 21 bindi (Kaupmannahöfn 1853-1889): I, bls. 510-515; Sjá einnig Helga Jóna Eiríksdóttir. Embættisfærslur sýslumanna á 19. öld. Skjalfræðileg rannsókn á embættisfærslum sýslumanna Ísafjarðarsýslu, Rangárvallasýslu og Snæfellsnessýslu (2015), bls. 99.
  2. ^ Már Jónsson, Skiptabækur og dánarbú 1740-1900, Saga L:1 (2012), bls. 88.
  3. ^ Kóngs Christians þess fimmta Norsku lög á íslensku útlögð (Hrappsey 1779), bls. 507.
  4. ^ Magnús Stephensen, „Er rétt og þénanlegt að selja öll Sterfbú við Auctionir, hvar myndugir erfingjar ei sjálfir skipta? Margvíslegt gaman og alvara 1 (1798).
  5. ^ Lovsamling for Island VII, bls. 796-797.
  6. ^ Lovsamling for Island IX, bls. 571 og 581-583.
  7. ^ Helga Jóna Eiríksdóttir. Embættisfærslur sýslumanna á 19. öld. Skjalfræðileg rannsókn á embættisfærslum sýslumanna Ísafjarðarsýslu, Rangárvallasýslu og Snæfellsnessýslu (2015), bls. 100.
  8. ^ Nánar um uppboðsbækur sjá: Helga Jóna Eiríksdóttir. Embættisfærslur sýslumanna á 19. öld. Skjalfræðileg rannsókn á embættisfærslum sýslumanna Ísafjarðarsýslu, Rangárvallasýslu og Snæfellsnessýslu (2015), bls. 91-99.
  9. ^ Nýlega var fjallað um skipið Jamestown sem rak á Íslandsstrendur árið 1881 í Ríkisútvarpinu. Sjá: Mörg hús á Íslandi smíðuð úr mannlausu draugaskipi, Ruv.is 9. ágúst 2020. (Sótt 16. nóvember 2020). Í uppboðsbók sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu má sjá skráningu uppboðsins. ÞÍ. Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógetinn í Hafnarfirði EC 1/5-1.
  10. ^ Gísli Ágúst Gunnlaugsson, Ómagar og utangarðsfólk. Safn til sögu Reykjavíkur (Reykjavík 1997), bls. 178.
  11. ^ Þórólfur Matthíasson. Fyrir hvað voru Nóbelsverðlaunin í hagfræði veitt árið 2020? Vísindavefurinn, 28. október 2020. (Sótt 16. nóvember 2020).

Myndir:

Höfundur

Arnheiður Steinþórsdóttir

meistaranemi í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

1.12.2020

Spyrjandi

Teitur

Tilvísun

Arnheiður Steinþórsdóttir. „Hvenær var farið að halda uppboð á Íslandi og hvernig þróuðust þau?“ Vísindavefurinn, 1. desember 2020, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80616.

Arnheiður Steinþórsdóttir. (2020, 1. desember). Hvenær var farið að halda uppboð á Íslandi og hvernig þróuðust þau? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80616

Arnheiður Steinþórsdóttir. „Hvenær var farið að halda uppboð á Íslandi og hvernig þróuðust þau?“ Vísindavefurinn. 1. des. 2020. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80616>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær var farið að halda uppboð á Íslandi og hvernig þróuðust þau?
Því miður eru rannsóknir á sögu uppboða á Íslandi af skornum skammti og því er ekki hægt að svara spurningunni án þess að gera grein fyrir því að saga þeirra sé að miklu leyti gloppótt eins og staðan er í dag. Svarið tekur því mið af yfirstandandi rannsókn minni þar sem áhersla er lögð á opinber uppboð á persónulegum eigum einstaklinga á 18. og 19. öld, sem einungis er hluti þeirra uppboða sem hér voru haldin.

Í gömlum íslenskum lagatextum á borð við Grágás, Járnsíðu og Jónsbók er ekki fjallað um uppboð með beinum hætti sem bendir til þess að slíkar dómsgjörðir hafi ekki tíðkast á fyrstu öldum Íslandssögunnar. Opinber uppboð má rekja til konunglegrar tilskipunar sem sett var í Danmörku og Noregi 19. desember 1693. Sú tilskipun tók aldrei formlega gildi hér á landi en uppboðshaldarar, sem yfirleitt voru sýslumenn eða hreppstjórar, lögðu hana til grundvallar fram eftir 18. öld. Þar voru meðal annars ákvæði um uppboðsskilmála, hvernig auglýsingu uppboða skildi háttað og að sýslumönnum væri gert að halda sérstakar uppboðsbækur.[1]

Elstu varðveittu uppboðsbækurnar eru frá Húnavatnssýslu (1789), Rangárvallasýslu (1785) og Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu (1797) en þar hafa sýslumennirnir líklega tekið upp á því sjálfir að halda uppboð að norskri og danskri fyrirmynd með löggjöfina frá 1693 til hliðsjónar. Fram að því virðist skráning uppboða að mestu finnast í dómabókum sýslumanna en einnig í skjalasafni Kansellíis og Rentukammers. Uppboðum á persónulegum eigum einstaklinga, það er uppboðum á dánarbúum og þrotabúum, fjölgaði í kjölfar þess að sýslumenn tóku að halda uppboðsbækur (sjá töflu 1). Líklega felst skýringin á þessari breytingu í því að 5. bók Norsku laga Kristjáns V. konungs um erfðareglur tók gildi hér á landi árið 1769. Norsku erfðareglurnar urðu forsenda þess að sýslumenn fóru að skrifa upp og verðmeta dánarbú einstaklinga.[2] Í 5. grein 2. kafla erfðareglnanna (5-2-5) kom eftirfarandi fram:
Koma erfingjar ekki í rétta tíð, þá setur yfirvaldið arfinn í geymslu hjá fullveðja mönnum, svo sem það sjálft vill tilsvara. En það af lausafé, sem með tímanum kann auðveldlega skemmast eður koma búinu til kostnaðar. Það skal yfirvaldið strax láta gera að peningum erfingjunum til besta.[3]

Hér er vísað í þýðingu Magnúsar Ketilssonar (1732-1803), sýslumanns í Dalasýslu, á Norsku lögunum sem kom út árið 1779. Í skýringu við 5. grein sagði Magnús að erlendis fari þessi sala fram við uppboð sem fátíð væru hér á landi.

Ár
Fjöldi
1701-1780 9
1781-180083
1801-1810257
1811-1820300
1821-1830509
1831-18401109
1841-18501593
1851-18601774
1861-18701871
1871-18801501
1881-18901372
1891-19001260

Tafla 1. Fjöldi uppboða á persónulegum eigum einstaklinga á 18. og 19. öld.

Áfram var lagaleg óvissa um þessi mál og gagnrýndi Magnús Stephensen (1762-1833), lögmaður og síðar dómsstjóri í háyfirrétti, það harðlega í grein árið 1798. Greinin snerist um réttmæti þess að selja arfahlut ómyndugra einstaklinga á uppboði og taldi hann sýslumenn fara út fyrir sitt valdsvið með því að gera slíkt. Hann sagði ótækt að tilskipun frá 1693 hefði verið yfirfærð á íslenskt samfélag þar sem ýmislegt sem þar kæmi fram ætti ekki við íslenskar aðstæður. Ísland væri til að mynda mun strjálbýlla en nágrannalöndin og því ekki hægt að tryggja að hlutir gengju upp í verðmæti sitt á uppboði ef kaupendur væru fáir. Því gætu erfingjar átt á hættu að tapa stórlega á því ef dánarbú væru seld á uppboði. Magnúsi þótti mikilvægt að löggjöf um uppboð yrði útfærð fyrir íslenskt samfélag og að tekið væri tillit til þeirra sem mestan hag hefðu af því að uppboð færu skynsamlega fram, það er ómyndugir erfingjar látinna einstaklinga.[4]

Árið 1818 var skerpt á lögum um uppboð og barst konungleg tilskipun þess efnis til Landsyfirréttarins þann 3. ágúst sama ár. Sú tilskipun sneri að uppboðum á dánar- og þrotabúum einstaklinga og í kjölfarið tók slíkum uppboðum að fjölga á ný (sjá töflu 1).[5] Á fyrstu áratugum 19. aldar varð sífellt algengara að sýslumenn héldu uppboðsbækur en það var enn misjafnt á milli sýslna. Árið 1830 var lögð fram „Aukatekju-reglugjörð fyrir réttarins þjóna á Íslandi“ en það var í fyrsta sinn sem almennilegar og heildstæðar reglur voru settar um greiðslur til embættismanna á Íslandi.[6] Í 5. kafla reglugerðarinnar var fjallað um greiðslur vegna uppboðshalds og jafnframt skerpt á gildandi reglum um framkvæmd uppboða. Í framhaldinu fjölgaði uppboðum gífurlega á ný (sjá töflu 1) enda var uppboðshald og skráning uppboða í uppboðsbækur orðið hluti af hefðbundnum störfum sýslumanna. Auk uppboðsbóka eru einnig varðveitt fylgiskjöl uppboða sem ýmist voru uppboðsskilmálar, auglýsingar, uppskriftir búa og fleira.[7]

Mynd 1. Hér má sjá brot úr uppboði á dánarbúi Vilhelmínu Lever (1802-1879) sem haldið var á Akureyri árið 1879.

Uppboðsbækur og fylgiskjöl þeirra eru afar áhugaverðar heimildir sem gefa góða mynd af þróun og fjölbreytni opinberra uppboða hér á landi. Upplýsingarnar sem þar koma fram við hvert uppboð eru meðal annars tilefni uppboðsins, dag- og staðsetning, uppboðsskilmálar, staðsetning auglýsinga og nöfn votta. Því næst eru hlutirnir sem til sölu eru listaðir upp auk virðingar ef við á. Við hlið þeirra eru skráð sú upphæð sem hluturinn seldist á auk nafn kaupanda.[8]

Af uppboðum á persónulegum eigum einstaklinga má auk dánarbúa og þrotabúa nefna uppboð sem haldin voru í kjölfar hjónaskilnaðar, við flutninga eða á eigum dæmdra sakamanna, jafnvel á eigum fátækra einstaklinga sem skulduðu hreppnum. Fleira leynist þó í bókunum en uppboð sem tengjast einstaklingum beint. Skráð eru uppboð á vogreki, hvalrekum, ónýtum lagerum kaupmanna eða þrotabúi þeirra, fasteignum og á strönduðum skipum.[9] Ljóst er að ólíkar uppboðshefðir hafa myndast á milli landsvæða, en þar hefur fólksfjöldi eflaust spilað stórt hlutverk. Fjölmörg uppboð voru til að mynd haldin í Reykjavík á árunum 1860-1900 sem mörg voru afar fjölsótt og eru uppboðsbækurnar frá þessum tíma 16 talsins. Á sama tímabili eru einungis 5 uppboðsbækur varðveittar í skjalasafni sýslumannsins í Suður-Múlasýslu.

Mynd 2. Uppboð á Eyrarbakka árið 1905. Ljósmyndari: Magnús Gíslason (1881-1969).

Ein tegund uppboða sem lítt eru rannsökuð eru svokölluð niðurboð. Þar var framfærsla ómaga sett á uppboð og forsjá þeirra falin þeim sem óskuðu eftir minnstu meðlagi sveitarsjóðs. Líkt og Gísli Ágúst Gunnlaugsson bendir á þá hefur slík meðferð eflaust haft mikil áhrif á fólk en til eru margar hörmungarsögur af börnum „sem aldrei náðu sér á líkama og sál eftir slíkt uppfóstur og dæmi eru þess að matarskortur og ill meðferð hafi beinlínis leitt til dauða þurfamanna, sem settir voru niður með þessum hætti.“[10] Uppboð af þessu tagi virðast ekki varðveitast í uppboðsbókum sýslumanna og er frekari rannsókna þörf á þessu fyrirkomulagi.

Uppboð héldu áfram að tíðkast á 20. öld og eiga margir minningar af fjörugum viðburðum þar sem eigur fólks í sveit eða þéttbýli voru boðnar upp í fjölmenni. Í dag eru uppboð enn í höndum sýslumanna en algengara er þó að heyra af uppboðum af allt öðrum toga. Þar má helst nefna listaverkauppboð, uppboð á ríkisskuldabréfum, auglýsingaplássi á Google og margt fleira.[11]

Tilvísanir:
  1. ^ Lovsamling for Island. 21 bindi (Kaupmannahöfn 1853-1889): I, bls. 510-515; Sjá einnig Helga Jóna Eiríksdóttir. Embættisfærslur sýslumanna á 19. öld. Skjalfræðileg rannsókn á embættisfærslum sýslumanna Ísafjarðarsýslu, Rangárvallasýslu og Snæfellsnessýslu (2015), bls. 99.
  2. ^ Már Jónsson, Skiptabækur og dánarbú 1740-1900, Saga L:1 (2012), bls. 88.
  3. ^ Kóngs Christians þess fimmta Norsku lög á íslensku útlögð (Hrappsey 1779), bls. 507.
  4. ^ Magnús Stephensen, „Er rétt og þénanlegt að selja öll Sterfbú við Auctionir, hvar myndugir erfingjar ei sjálfir skipta? Margvíslegt gaman og alvara 1 (1798).
  5. ^ Lovsamling for Island VII, bls. 796-797.
  6. ^ Lovsamling for Island IX, bls. 571 og 581-583.
  7. ^ Helga Jóna Eiríksdóttir. Embættisfærslur sýslumanna á 19. öld. Skjalfræðileg rannsókn á embættisfærslum sýslumanna Ísafjarðarsýslu, Rangárvallasýslu og Snæfellsnessýslu (2015), bls. 100.
  8. ^ Nánar um uppboðsbækur sjá: Helga Jóna Eiríksdóttir. Embættisfærslur sýslumanna á 19. öld. Skjalfræðileg rannsókn á embættisfærslum sýslumanna Ísafjarðarsýslu, Rangárvallasýslu og Snæfellsnessýslu (2015), bls. 91-99.
  9. ^ Nýlega var fjallað um skipið Jamestown sem rak á Íslandsstrendur árið 1881 í Ríkisútvarpinu. Sjá: Mörg hús á Íslandi smíðuð úr mannlausu draugaskipi, Ruv.is 9. ágúst 2020. (Sótt 16. nóvember 2020). Í uppboðsbók sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu má sjá skráningu uppboðsins. ÞÍ. Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógetinn í Hafnarfirði EC 1/5-1.
  10. ^ Gísli Ágúst Gunnlaugsson, Ómagar og utangarðsfólk. Safn til sögu Reykjavíkur (Reykjavík 1997), bls. 178.
  11. ^ Þórólfur Matthíasson. Fyrir hvað voru Nóbelsverðlaunin í hagfræði veitt árið 2020? Vísindavefurinn, 28. október 2020. (Sótt 16. nóvember 2020).

Myndir:...