Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Dyngjugos á Reykjanesskaga byrja sennilega í flestum tilvikum sem sprungugos. Vísbendingar um slíkt má sjá í Fagradalsfjallskerfinu og víðar. Virknin færist síðan smám saman í einn gíg og þróast í sígos sem stendur lengi, jafnvel nokkur ár í stærstu dyngjunum. Hraunframleiðsla er talin lítil eða kringum fimm rúmmetrar á sekúndu.[1] Líklegt er að lengri tími gefist til að bregðast við ógn af þeirra völdum en sprungugosa.
Horft til suðurs yfir Hrútagjá. Aldur Hrútagjárdyngju er um 7000 ár.
Hegðun og framgangur dyngjugosa eru allvel þekkt. Í aðalgígnum myndast oftast hrauntjörn, full að börmum, sem síðan tæmist út í rásir sem liggja frá honum (hellakerfi) þegar streymi að neðan hættir, eins og til dæmis í Sandfellshæð. Dæmi eru um að hraun stígi aftur upp og fylli gíginn. Ef hraunrásirnar eru þá stíflaðar, flæðir yfir gígbarmana (Þráinsskjöldur), en líka getur kvikan troðist sem innskot undir gígsvæðið og belgt það upp (Hrútagjá). Gee og fleiri[2] töldu mikið hraunmagn og frumstætt berg hafa fylgt röskun á þyngdarjafnvægi sem varð við hraða bráðnun jökla í lok ísaldar. Hraunkvika sem þá leitaði upp úr möttli, gat náð til yfirborðs án þess að hægja á sér í skorpunni og breytast að ráði við kvikublöndun, uppbræðslu eða hlutkristöllun. Einkum gæti þetta átt við pikríthraunin og stærstu dyngjurnar, Sandfellshæð og Þráinsskjöld.
Pikríthraunin eða pikrítdyngjurnar eru eldri en ólivínbasaltdyngjurnar, þar sem afstaðan til þeirra sést. Elstu pikrítdyngjurnar eru samkvæmt því um og yfir 14.000 ára. Þær eru litlar, mega kallast ördyngjur, nema þrjár eða fjórar smádyngjur: Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Dimmadalshæð. Efnismagn í þeim er líklega innan við 0,1 rúmkílómetri. Pikríthraun eru ekki þekkt í Krýsuvíkurkerfinu.
Dyngjur á Reykjanesskaga frá síðustu 14.000 árum
Dyngja
Aldur (ár)
Rúmmál (km3)
Aldursgreiningar/ heimildir
Stórabollahraun
2500-3000
≥ 0,36
Gjóskutímatal
Herdísarvíkurhraun
> 4000
≥ 1,2
Gjóskutímatal
Strompahraun
4500-5000
> 0,11
Gjóskutímatal
Kistufellshraun
> 4500
> 0,6
Gjóskutímatal
Þríhnúkahraun eldra
> 4500
≥ 0,24
Gjóskutímatal
Leitahraun
um 5200
um 3
Hrútagjárdyngja
um 7000
≥ 3,2
Gjóskutímatal, C-14 aldursgreining
Heiðin há
um 7500
um 6
Selvogsheiði
um 9500
um 3
Sandfellshæð
um 13.600
um 6
C-14 aldursgreining (KS, óbirt gögn)
Dyngja við Hraunsel-Vatnsfell
≥ 14.100
≥ 0,03
Líklega eldri en Þráinsskjöldur
Þráinsskjöldur
um 14.100
um 5
C-14 aldursgreining (KS, óbirt gögn)
Rúmmál er áætlað. Þar er einkum stuðst við Jón Jónsson, 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
Næst eftir pikrítgosin fylgdu tvö stór dyngjugos. Þá hlóðust Sandfellshæð og Þráinsskjöldur upp, auk nafnlausrar dyngju norðan við Hraunsels-Vatnsfell. Aðrar níu dyngjur dreifast á allan eftirjökulstímann (sjá töflu). Tvær af þeim eru af óvissum aldri, Selvogsheiði og Heiðin há, en eru þó meira en 7500 ára.[3] Þær eru báðar í flokki stórdyngna, meira en einn rúmkílómetri. Næstu sjö dreifast á nokkur þúsund ára tímabil. Sú elsta þeirra er um 7000 ára, en sú yngsta, Stóribolli, líklega um 2500 ára. Auk þeirra dyngna sem hér hafa verið taldar upp og sýndar eru í töflunni, má nefna að Breiðdalshraun, sem líklega er frá tíundu öld, ber einkenni dyngju, en það er beltótt helluhraun og ólivínríkt, að minnsta kosti sú álman sem liggur frá gígnum norður í Breiðdal. Allar dyngjurnar nema þrjár þær elstu og Hrútagjárdyngjan eru í Brennisteinsfjallakerfi. Ekki verður séð hvort dyngjugosin fylgi gosskeiðum sprunguhraunanna í tíma, til þess vantar fleiri og nákvæmari aldursgreiningar. Flestar yngri dyngjurnar eru tímasettar með hjálp öskulaga.
Tilvísanir:
^ Rowland, S. K. og G. P. L. Walker, 1990. Pahoehoe and aa in Hawaii: volumetric flow rate controls the lava structure. Bulletin of Volcanology, 52, 615-628.
^ M.A.M. Gee, R.N. Taylor, M.F. Thirlwall og B.J. Murton, 1998. Glacioisostacy controls chemical and isotopic characteristics of tholeiites from the Reykjanes Peninsula, SW-Iceland. Earth and Planetary Science Letters, 164, 1-5.
^ Árni Hjartarson, 2007. Ölfus - Selvogur. Jarðfræðikort 1:25.000, jarðlagalýsing, myndun og mótun lands. ÍSOR-2007/063. Íslenskar orkurannsóknir, Reykjavík.
Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Reykjanesskaga í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Myndin er fengin úr sama riti.
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. „Hvað er vitað um dyngjugos á Reykjanesskaga?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2021, sótt 3. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81329.
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. (2021, 11. mars). Hvað er vitað um dyngjugos á Reykjanesskaga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81329
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. „Hvað er vitað um dyngjugos á Reykjanesskaga?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2021. Vefsíða. 3. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81329>.