Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvernig byrjaði gosið í Geldingadölum og hvenær gýs næst á Reykjanesskaga?

Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson

Gosið sem hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga er gott dæmi um það að vísindamenn geta stundum sagt fyrir um eldgos að sumu leyti en ekki öllu. Fimmtán mánuðum fyrir upphaf gossins byrjaði mikil skjálftavirkni á vestanverðum Reykjanesskaga og einnig sáust merki um kvikuinnskot, meðal annars með gervitunglum. Um þremur vikum fyrir gos tók um 8 kílómetra langur kvikugangur að myndast í jarðskorpunni við Fagradalsfjall. Kvikugangar verða til þegar bráðið berg þrýstist inn í sprungur niðri í jörðinni og stundum nær það að ryðjast upp á yfirborðið í eldgosum. Ómögulegt var að segja til um það hvort eða hvenær kvikugangurinn næði til yfirborðs og gos mundi hefjast. Að lokum opnaðist þó stutt gossprunga 19. mars 2021 í Geldingadölum, gígur myndaðist og síðan nokkrir í viðbót í grenndinni.

Kort sem sýnir eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga. Þau eru oftast talin vera 5 en þar að auki er Fagradalsfjall og svæðið þar í kring stundum talið vera enn eitt kerfið.

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga eru oftast talin vera 5. Þar að auki er Fagradalsfjall og svæðið þar í kring stundum talið vera enn eitt kerfið. Áður en gos hófst í Geldingadölum hafði seinast gosið á því svæði fyrir meira en sex þúsund árum. Um 800 ár voru hins vegar frá seinasta gosi á Reykjanesskaga. Þá voru tvö eldstöðvakerfi vestar á skaganum virk. Þau eru kennd við Reykjanes og Svartsengi og goshrinan í þeim stóð yfir 1210-1240 og kallast Reykjaneseldar. Seinasta gosið varð árið 1240 í Svartsengiskerfinu þegar Arnarseturshraun rann.

Ekki er hægt að segja til um með neinni vissu hvenær næsta gos á Reykjanesskaga verður en gossaga kerfanna allra getur þó gefið ýmsar vísbendingar. Tímabil eldvirkni á Reykjanesskaga virðist standa yfir í 400 til 500 ár og á síðasta gosskeiði er vitað að eldvirknin fluttist á milli eldstöðvakerfanna með 30 til 150 ára millibili. Eldgos eiga því eftir að móta land á Reykjanesskaga um langa hríð enn.

Ferðamaður virðir fyrir sér Fagradalshraun í Nátthaga 19. júní 2021. Fagradalshraun er yngsta hraunið á Reykjanesskaga og fékk nafn sitt í maí 2021.

Eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga eru eins konar grunneiningar í jarðfræði skagans. Flest eru þau 30 til 50 km löng og 5 til 8 km breið. Fullmótuð kerfi með háhitasvæði og sprungusveimum, sem er þyrping af samsíða sprungum, eru kennd við Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengil. Fagradalsfjallskerfið er stundum talið vera hið sjötta. Fyrir um 14 þúsund árum rann eitt af rúmmálsmestu hraunum skagans í nágrenni Fagradalsfjalls. Það myndaði dyngjuna Þráinsskjöld í gosi sem stóð líklega yfir í áratugi. Næstyngsta hraunið á svæðinu kallast Beinavörðuhraun og er meira en 6000 ára. Yngsta hraunið heitir síðan Fagradalshraun og fékk nafn sitt í maí 2021.

Heimild og frekara lesefni:
  • Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (aðalritstjóri Júlíus Sólnes), Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, Reykjavík 2013.

Myndir:

Höfundar þakka Magnúsi Á. Sigurgeirssyni jarðfræðingi fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar.

Spurningu Hermundar er hér svarað að hluta.

Höfundar

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

16.7.2021

Spyrjandi

Hermundur Sigurðsson, ritstjórn

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig byrjaði gosið í Geldingadölum og hvenær gýs næst á Reykjanesskaga?“ Vísindavefurinn, 16. júlí 2021. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=81763.

Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2021, 16. júlí). Hvernig byrjaði gosið í Geldingadölum og hvenær gýs næst á Reykjanesskaga? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=81763

Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig byrjaði gosið í Geldingadölum og hvenær gýs næst á Reykjanesskaga?“ Vísindavefurinn. 16. júl. 2021. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=81763>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig byrjaði gosið í Geldingadölum og hvenær gýs næst á Reykjanesskaga?
Gosið sem hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga er gott dæmi um það að vísindamenn geta stundum sagt fyrir um eldgos að sumu leyti en ekki öllu. Fimmtán mánuðum fyrir upphaf gossins byrjaði mikil skjálftavirkni á vestanverðum Reykjanesskaga og einnig sáust merki um kvikuinnskot, meðal annars með gervitunglum. Um þremur vikum fyrir gos tók um 8 kílómetra langur kvikugangur að myndast í jarðskorpunni við Fagradalsfjall. Kvikugangar verða til þegar bráðið berg þrýstist inn í sprungur niðri í jörðinni og stundum nær það að ryðjast upp á yfirborðið í eldgosum. Ómögulegt var að segja til um það hvort eða hvenær kvikugangurinn næði til yfirborðs og gos mundi hefjast. Að lokum opnaðist þó stutt gossprunga 19. mars 2021 í Geldingadölum, gígur myndaðist og síðan nokkrir í viðbót í grenndinni.

Kort sem sýnir eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga. Þau eru oftast talin vera 5 en þar að auki er Fagradalsfjall og svæðið þar í kring stundum talið vera enn eitt kerfið.

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga eru oftast talin vera 5. Þar að auki er Fagradalsfjall og svæðið þar í kring stundum talið vera enn eitt kerfið. Áður en gos hófst í Geldingadölum hafði seinast gosið á því svæði fyrir meira en sex þúsund árum. Um 800 ár voru hins vegar frá seinasta gosi á Reykjanesskaga. Þá voru tvö eldstöðvakerfi vestar á skaganum virk. Þau eru kennd við Reykjanes og Svartsengi og goshrinan í þeim stóð yfir 1210-1240 og kallast Reykjaneseldar. Seinasta gosið varð árið 1240 í Svartsengiskerfinu þegar Arnarseturshraun rann.

Ekki er hægt að segja til um með neinni vissu hvenær næsta gos á Reykjanesskaga verður en gossaga kerfanna allra getur þó gefið ýmsar vísbendingar. Tímabil eldvirkni á Reykjanesskaga virðist standa yfir í 400 til 500 ár og á síðasta gosskeiði er vitað að eldvirknin fluttist á milli eldstöðvakerfanna með 30 til 150 ára millibili. Eldgos eiga því eftir að móta land á Reykjanesskaga um langa hríð enn.

Ferðamaður virðir fyrir sér Fagradalshraun í Nátthaga 19. júní 2021. Fagradalshraun er yngsta hraunið á Reykjanesskaga og fékk nafn sitt í maí 2021.

Eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga eru eins konar grunneiningar í jarðfræði skagans. Flest eru þau 30 til 50 km löng og 5 til 8 km breið. Fullmótuð kerfi með háhitasvæði og sprungusveimum, sem er þyrping af samsíða sprungum, eru kennd við Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengil. Fagradalsfjallskerfið er stundum talið vera hið sjötta. Fyrir um 14 þúsund árum rann eitt af rúmmálsmestu hraunum skagans í nágrenni Fagradalsfjalls. Það myndaði dyngjuna Þráinsskjöld í gosi sem stóð líklega yfir í áratugi. Næstyngsta hraunið á svæðinu kallast Beinavörðuhraun og er meira en 6000 ára. Yngsta hraunið heitir síðan Fagradalshraun og fékk nafn sitt í maí 2021.

Heimild og frekara lesefni:
  • Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (aðalritstjóri Júlíus Sólnes), Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, Reykjavík 2013.

Myndir:

Höfundar þakka Magnúsi Á. Sigurgeirssyni jarðfræðingi fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar.

Spurningu Hermundar er hér svarað að hluta....